Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 27. mars 2008

By 21. maí 2008No Comments

Fimmtudaginn 27. mars 2008, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar í salnum Hvammi á Grand hóteli. Fundur var boðaður kl. 16.45.

Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson.

Eftirtaldir sátu fundinn:
Jón Þorkelsson – Stómasamtökunum
Kristín Ármanns – FSFH
Þóra M Þórarinsdóttir – Ás styrktarfélagi
Ómar Geir Bragason – Samtökum sykursjúkra
Ægir Lúðvíksson – MND félaginu
Helgi J. Hauksson – FAAS
Þorlákur Hermannsson – LAUF
Guðbjörg J. Sigurðardóttir – Blindravinafélagi Íslands
Helgi Hróðmarsson – SÍBS
Haukur Vilhjálmsson – Félagi heyrnarlausra
Vilmundur Gíslason – Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Emil Thoroddsen – Gigtarfélagi Íslands
Ingi H. Ágústsson – Alnæmissamtökunum
Guðmundur Magnússon – SEM
Þórunn S. Pálsdóttir – Geðverndarfélagi Íslands
Halldór S. Guðbergsson – Blindrafélagi Íslands
Tryggvi Þór Agnarsson – Tourette-samtökunum
Málfríður D Gunnarsdóttir – Heyrnarhjálp
Guðmundur S Johnsen – Félagi lesblindra
Eydís F Hjaltalín – Umsjónarfélagi einhverfra
Pétur Ágústsson – MG-félagi Íslands
Ólína Sveinsdóttir – Parkinsonssamtökum Íslands
Steinunn Þóra Árnadóttir – Kvennahreyfingu ÖBÍ
Björn Tryggvason – Málbjörgu
Valgerður Auðunsdóttir – SPOEX
Lilja Þorgeirsdóttir – framkvæmdastjóri ÖBÍ
Anna G. Sigurðardóttir – þjónustufulltrúi ÖBÍ
Bára Snæfeld – upplýsingafulltrúi ÖBÍ

1. Fundur settur

Fundur var settur kl. 17.00 og að því búnu kynntu fundarmenn sig. Beðist var afsökunar á að fundargerðir síðustu tveggja funda hefðu ekki skilað sér til aðalstjórnarfulltrúa enn. Þær verða sendar um leið og þær verða tilbúnar.

2. Skýrsla formanns

Formaður fór yfir störf sín og framkvæmdastjórnar síðan á aukaaðalfundi sem haldinn var 14. febrúar sl. Tíminn fyrst eftir kosningu fór í að átta sig á störfum og innviðum ÖBÍ og félögum þess. Í lok febrúar var undirritaður ráðningarsamningur við nýjan framkvæmdastjóra, Lilju Þorgeirsdóttur. Samþykkt var í framkvæmdastjórn að formaður yrði í 100% starfi hjá ÖBÍ en hann lætur af störfum sem formaður Blindrafélagsins 17. maí nk. Vegna stefnumótunar ÖBÍ leggur framkvæmdastjórn mikla áherslu á að ljúka henni sem fyrst.

Þakkaði Halldór starfsfólki á skrifstofu störf þeirra undanfarnar vikur og sagði þeirra aðstoð hafa nýst honum ásamt nýjum framkvæmdastjóra vel síðan þau hófu störf.

Ný almannatryggingalög munu taka gildi 1. apríl næstkomandi. Stærsta skrefið í breytingum á þeim er afnám bóta við tekjur maka. Mikil vinna hefur verið hjá bandalaginu vegna þessa máls. Í lögunum verður hinsvegar ekki tekið á 100.000 kr frítekjumarki vegna atvinnutekna öryrkja sem taka átti gildi 1. júlí nk. en vonast er til að nýtt frumvarp verði lagt til nú fljótlega eftir páska og að þar verði tekið á frítekjumarkinu. Halldór minntist á áhyggjur sínar vegna framkvæmdanefndar forsætisráðherra um breytt örorkumat og aukna starfsendurhæfingu sem ekki hefur haldið fund síðan í lok nóvember síðastliðinn.

Á næstu mánuðum munu formaður og framkvæmdastjóri heimsækja aðildarfélögin. Gert er ráð fyrir að fundarröðinni ljúki í júní.

Formaður og varaformaður fóru á fund með Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, en þar kom fram að 1. apríl nk. muni bætur hækka um 4% og verði afturvirkar frá 1. febrúar síðastliðinn. Ráðherra hefur óskað eftir nánari tillögum frá nefnd um einföldun á almannatryggingalögunum varðandi framfærsluviðmið sem á að skila 1. júlí næstkomandi. Mikil vonbrigði eru að bætur hækki ekki miðað við kjarasamninga og fylgi ekki lágmarkslaunum. Óskað hefur verið eftir samstarfi við landssamband eldri borgara, félag eldri borgara í Reykjavík og ASÍ um ályktun þar sem þessu verði mótmælt.

Á næstunni bíða mörg spennandi verkefni. Miklu máli skiptir að innan ÖBÍ ríki samstaða því mikilvægt sé að vinna að hag öryrkja á næstunni.

Umræða um skýrslu formanns.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu beindi því til framkvæmdastjórnar hvað líður stefnumótun Brynju hússjóðs ÖBÍ og síðan varðandi húsakost skrifstofu ÖBÍ.

Halldór svaraði því til vegna húsakosts skrifstofu ÖBÍ að það hafi ekki verið unnið í því máli að undanförnu. Sagðist Halldór vilja ljúka stefnumótunarvinnu bandalagsins áður en tekin verður ákvörðun um nýtt húsnæði.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands, svaraði því til vegna hússjóðsins að greiningafundur hafi verið haldinn og áframhaldandi vinna verði sett í farveg á næsta fundi stjórnar hússjóðsins föstudaginn 4. apríl næstkomandi. Á næsta aðalstjórnarfundi 8. maí, verður sérstaklega rætt um Brynju hússjóð. Emil lýsti yfir ánægju sinni með að bandalagið væri búið að fá framkvæmdastjóra sem fljótlega getur hafið fullt starf. Einnig lýsti hann yfir ánægju sinni með hvað nýr formaður hefur verið fljótur að setja sig inn í mál hjá bandalaginu.

3. Afgreiðsla styrkumsókna 2008

Lagðar fram tillögur framkvæmdastjórnar til aðalstjórnar um styrki til aðildarfélaga ÖBÍ, að þessu sinni eru 44 milljónir í styrktveitingar. Tillögum framkvæmdastjórnar var dreift til fundarmanna. Upphæðir til aðildarfélaga í þúsundum króna:

ADHD samtökin   1.650
Alnæmissamtökin   1.600
Blindrafélagið   1.750
Daufblindrafélag Íslands   1.250
FAAS   1.250
Félag heyrnarlausra   1.850
Félag lesblindra   1.000
Foreldrafélag heyrnardaufra   900
Geðhjálp   2.700
Geðverndarfélag Íslands   850
Gigtarfélag Íslands   2.700
Heyrnarhjálp   1.200
Hugarfar   950
Lauf   1.300
Málbjörg   750
MND-félag Íslands   1.300
MS félag Íslands   1.750
Parkinsonsamtökin   1.650
Samtök sykursjúkra   1.550
SEM – Samtök endurhæfðra mænuskaðaðra   950
SÍBS   2.800
Sjálfsbjörg   2.800
Spoex   1.950
Stómasamtökin   550
SLF   2.000
Styrktarfélag vangefinna   2.300
Tourette samtökin   1.350
Umsjónarfélag einhverfra   1.350

Fjögur félög, Bindravinafélag Íslands, MG-félag Íslands, Félag Nýrnasjúkra og Vonin sóttu ekki um styrki í ár. 

Þórunn, Geðverndarfélagi Íslands spurði hvernig útreikningar væru á bak við styrkveitingarnar. 

Emil Thóroddsen skýrði afgreiðslu styrkveitinga, þ.e. að hver framkvæmdarstjórnarfulltrúi fær í hendur möppu með öllum umsóknum og síðan er hist á framkvæmdastjórnarfundi þar sem þar sem hver fulltrúi leggur fram sínar tillögur að upphæðum og meðaltal er því næst fundið út.

Valgerður Auðunsdóttir sagði að hún hefði líkt og Emil lesið yfir allar umsóknir og legði hún áherslu á að styrkur lækkaði ekki á milli ára til hvers félags.

Guðmundur Magnússon tók undir með Emil og Valgerði en tók fram að mikill munur væri á milli umsókna, t.d. hvað varðar verkefni o.fl. en sagði þau öll mjög mikilvæg. 

Emil bætti því við að það hafi verið rætt í hvað styrkirnir eigi að fara en það sé undir hverju félagi fyrir sig komið í hvað styrkurinn fer.

Ólína hjá Parkinsonssamtökunum lagði áherslu að samstaða yrði að ríkja á milli félaga þótt styrkumsóknir séu mismunandi sem og styrkupphæðir. Hún kom fram með þá hugmynd hvort ekki væri ráð að ÖBÍ kynnti sér hvernig önnur stór samtök útdeildu styrkjum.

Halldór lýsti sig sammála því og lagði til að þessi mál yrðu rædd í haust og að jafnvel yrði komið á starfshópi sem myndi vinna að því að koma fram með tillögur að góðu og sanngjörnu útdeilingarformi. Því næst var tillögu framkvæmdastjórnar til aðalstjórnar um styrktveitingar til aðildarfélaga 2008 borin upp til samþykktar.  Samþykkt samhljóða.

4. Staðfesting á ráðningu framkvæmdastjóra

Halldór kynnti nýjan framkvæmdastjóra, Lilju Þorgeirsdóttur. Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra en ráðningasamninginn verður að leggja fyrir aðalstjórn til samþykktar. Ráðningasamningur við framkvæmdastjóra var lesinn upp.  Emil kynnti að 6. greininni hefði verið breytt en þar stóð áður að ráðningarsamningurinn væri trúnaðarmál. Ráðningarsamningur framkvæmdastjóra samþykktur samhljóða.

5. Nýtt örorkumat, hvert ber að stefna ? (sjá fylgiskjal neðst í fundargerð)

Helgi J. Hauksson, nýr fulltrúi ÖBÍ í framkvæmdanefnd forsætisráðherra um örorkumat og breytta starfsendurhæfingu hélt framsöguerindi.

Halldór tók fram að það væri ekki stefnubreyting hjá ÖBÍ varðandi þessi mál og að bandalagið stæði við bakið á fulltrúa sínum í örorkumatsnefndinni en mikilvægt væri að fá sem flest sjónarhorn frá sem flestum fulltrúum. Halldór skýrði frá því að nú væri útlit fyrir að tillögur m.a. um breytt frítekjumark, öryrkja yrði ekki komið í framkvæmd fyrr en nefndin hefði skilað sínum tillögum. 

Ólína kynnti í fáum orðum starfsemi Hringsjár. Benti hún á að á milli 70-75% nemenda sem útskrifast þaðan fari í áframhaldandi nám eða vinnu. Þar komi berlega í ljós að ef fólk fær tækifæri til að gera það sem það getur og vill þá gerir fólk það. Kerfið eins og það sé í dag bjóði ekki upp á sveigjanleika og því sé erfiðara að fara út af bótum en ella.

Ægir óskaði Helga velfarnaðar í störfum sínum hjá nefndinni og taldi störf nefndarinnar mjög mikilvæg og að Helgi væri réttur maður í þetta starf fyrir hönd ÖBÍ. Ræddi Ægir um ákveðin atriði í skýrslu Stefáns Ólafssonar. Einnig tók hann undir orð Helga um að breyta þyrfti viðhorfi samfélagsins, t.d. fyrirtækja á landinu í garð öryrkja. Ægir taldi stöðumat geta komið fólki til góða, til dæmis þeim sem þurfa að hætta að sinna ákveðnum störfum og fara í önnur störf sökum slyss, fötlunar eða veikinda.

Helgi svaraði því til að hann hefði unnið erindi sitt út frá þeim gögnum sem honum hefðu borist frá nefndinni ásamt upplýsingum frá OECD og úr skýrslum Stefáns Ólafssonar.

Málfríður, Heyrnarhjálp sagði frá því að hún hafi búið með sínum börnum sem eru öryrkjar, í öðrum Norðurlöndum. Þar er öryrkjanum gefin meiri völd til að velja fyrir sjálfan sig heldur en á Íslandi, t.d. hvað varðar rétt heyrnarskertra/lausra til túlkunar.

Þórunni fannst ekki hæft annað en að „þjónustufulltrúinn“ hefði viðeigandi fagmenntun til að geta sinnt sínu starfi, eins og að meta hæfni einstaklinga.

Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra sagði að lesblindir hafi ekki verið metnir af ríkinu sem öryrkjar en að félagið hefði fengið inngöngu í ÖBÍ og hvatti til þess að unnið yrði að því að lesblindir gætu fengið metna örorku því margir lesblindra þurfi töluverða aðstoð meðal annars í námi. 

Emil þakkaði Helga gott erindi og tók undir flest sem kom fram í hans erindi og taldi þarft að ræða þessi mál. Emil er ekki sáttur við störf nefndarinnar sem átti upphaflega að fjalla um starfsendurhæfingu í stað þess er farið að ræða um hvernig hitt og þetta mat á að vera. Á meðan er beðið með að setja meira fjármagn í endurhæfingu og starfsendurhæfingu. Emil sagði að lokum að samfélagið þyrfti endurhæfingu. 
Helgi sagðist vilja vinna enn frekar að starfsendurhæfingunni og öðrum þáttum þeim tengdum.
Halldór ítrekaði að það þyrfti að ræða þessi mál enn frekar, það þyrfti ekki að vera á eiginlegum aðalstjórnarfundi heldur gæti það verið á sérstökum fundi.

6. Önnur mál

Guðmundur, Félagi lesblindra á Íslandi kynnti myndband um lesblindu og bað fólk um að hafa samband ef það vildi fá eintak.

Halldór las upp yfirlýsingu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu varðandi meðaltalslaun frá 1. febrúar sl. miðaða við nýgerða kjarasamninga sé um 7 % hækkun. Gert er ráð fyrir 4 % hækkun á bótum frá og með 1. febrúar sl. auk 3,3% hækkunarinnar sem varð á bótum 1. janúar sl. Miðað við þetta hafa bætur hækkað um 7.4 %.  Halldór sagði það hljóta að vera sanngirnismál að bætur hækki um 18.000 í samræmi við kjarasamninga og hækkun á lægstu laun, en ekki eingöngu um 9.400 krónur.

Halldór þakkaði fundarmönnum góða fundarsetu og sleit fundi kl. 19:05

Fundarritari; Anna Guðrún Sigurðardóttir

 

Nýtt örorkumat, hvert ber að stefna ? – framsöguerindi Helga J. Haukssonar (pdf-skjal1Mb)