Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 3. apríl 2013

By 17. desember 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 3. apríl 2013, kl. 17.00–19.00 í Hátúni 10, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar og gestir

Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélagið – Gísli Helgason
CCU samtökin – Hrönn Petersen og Edda Svavarsdóttir
FAAS – Sigríður Eyjólfsdóttir og Ragnheiður Karlsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Bernharð Guðmundsson
Félag nýrnasjúkra – Vilhjálmur Þór Þórisson og Kristín Sæunnar- Sigurðardóttir
Fjóla – Guðný Katrín Einarsdóttir
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen, Einar S. Ingólfsson og Kristín Magnúsdóttir
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Málefli – Kristín Guðlaug Guðfinnsdóttir
MND félagið – Ægir Lúðvíksson og Valur Höskuldsson
Samtök sykursjúkra – Marinó H. Þórisson og Sigríður Jóhannsdóttir
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Tourette samtökin – Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi og gestur Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir og Ásta Dís Guðjónsdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari og starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins bauð fundarmenn velkomna og fulltrúar kynntu sig. Samþykkt var að Erna Arngrímsdóttir yrði fundarstjóri og Klara Geirsdóttir tímavörður.

2.  Kynning frá SÍ á nýju greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja sem tekur gildi 4. maí nk.

3.  Fyrirspurnir og umræður.

Fundarstjóri tók við fundinum og tilkynnti að fundarmenn fengju fyrst 2 mínútur til að koma með athugasemdir eða fyrirspurnir varðandi málefni fundarins og síðan eina mínútu hver.

Fundarstjóri kynnti nú fulltrúa Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), Margréti Rósu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Björgu Elíasdóttur úr lyfjadeild og Heiðar Örn Arnarsson kynningarfulltrúa.

Margrét og Guðrún kynntu nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja sem tekur gildi 4. maí nk. Markmiðið er að auka jöfnuð einstaklinga óháð sjúkdómum. Kerfinu er ætlað að draga úr útgjöldum fyrir þá sem hafa haft há útgjöld vegna lyfja því ekkert þak er á lyfjakostnaði sjúklinga í því kerfi sem til staðar er. Kerfið mun vera þrepaskipt þar sem hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður eykst á 12 mánaða tímabili. Nýtt tímabil hefst þegar lyf er keypt sem er innan greiðsluþátttökukerfisins og að 12 mánuðum liðnum lýkur tímabilinu. Kerfið fylgir því ekki almanaksári.

Mikilvægt er að fólk kynni sér hvaða lyf eru innan kerfisins og hvaða lyf eru það ekki. Lyf hafa verið merkt á ýmsa vegu, E, B, með stjörnu eða 0 merkt. Í nýju kerfi verða 2 merkingar, greiðsluþátttaka eða ekki. E verður merkingin fyrir lyf með greiðsluþátttöku og 0 fyrir lyf utan greiðsluþátttöku. Yfirleitt eru það ódýrari lyfin sem eru í kerfinu og það eru frekar samheitalyf en frumlyf. Sýklalyf sem ekki hafa verið innan greiðsluþátttökukerfis koma inn í þrepakerfið fyrir börn yngri en 18 ára en ekki fyrir fullorðna. Sama er með svefnlyf og fleiri lyf. Heimild verður til að samþykkja fulla greiðsluþátttöku fyrir ákveðnum lyfjum fyrir geðklofasjúklinga, einstaklinga í líknandi meðferð og fleiri. Fólk þarf að vera vakandi yfir því og kanna hvort að lyf séu innan greiðsluþátttökukerfisins eða ekki. Sækja þarf um lyfjaskírteini til að greiðsluþátttaka sé virk.

Í kerfinu eru tvenns konar þrep, það er lægra og hærra gjald. Á lægra gjaldi eru öryrkjar, þeir sem eru 67 ára og eldri og börn yngri en 22 ára. Öll börn undir 18 ára aldri með sama lögheimili falla undir sama greiðsluþrepið og reiknast sem einn einstaklingur innan kerfisins. Ef einstaklingur leysir út sinn fyrsta lyfjaskammt áður en hann verður 22 ára, t.d. mánuði áður þá heldur hann lægra gjaldi út tímabilið, eða 12 mánuði. Það sama á við um fólk sem verður 67 ára.

Heiðar Örn sagði að misskilnings hefði gætt og vildi koma því á framfæri að ef fólk væri byrjað á lyfi en ekki með lyfjaskírteini væri hægt að sækja um það eftir á og fá endurgreitt í ákveðinn tíma. Allir sem eru á sýklalyfjum til langs tíma eiga rétt á skírteini.

Spurt var hvernig tímabil væri reiknað ef einstaklingur er byrjaður að taka lyf og fær svo örorkumat eða endurhæfingarlífeyrismat nokkrum mánuðum seinna? Verður tímabilið endurreiknað miðað við að viðkomandi sé lífeyrisþegi? Svarið var já það verður endurútreiknað.

Spurt var hvort að öryrki sem hefur of miklar tekjur til að fá örorkulífeyri en heldur barnalífeyri greiði lægra gjald? Svarið var að ef þessi einstaklingur fær lægra gjald í dag þá fær hann það líka í nýja kerfinu.

Spurt var hvort að dýrari lyf séu innan greiðsluþátttökukerfisins ef að samheitalyf hafa ekki virkað? Svarið var að læknir sækir um og staðfestir að lyf sem er innan kerfisins gagnist ekki einstaklingi og að viðkomandi þurfi dýrara lyf, þá fer öll upphæðin inn í það þrep sem viðkomandi tilheyrir.

Spurt var hversu margir eru taldir komast upp í áætlað greiðsluþak og greiða lægra gjald eftir breytingu en áður og hvað margir hærra? Svarið var að talið er að um 300 til 400 einstaklingar á hærra þrepi og um 3 til 4 þúsund á lægri þrepi fari upp í þakið. Ekki er vitað um hversu margir munu greiða meira eða minna.

Spurt var hvort það væri ekki rétt að ef dýrari lyf eru tekin en SÍ miðar við þá er greitt hærra verð í apótekinu? Svarið var að það væri rétt en apótekunum ber skylda til að upplýsa fólk og bjóða þeim að taka ódýrari lyf eða viðmiðunarlyf. Ekki verður munur á upphæðum lyfja milli apóteka. Þegar komið er að svokölluðu þaki getur læknir sótt um þakskírteini og einstaklingur fær fulla greiðsluþátttöku á öllum lyfjum sem samþykktir eru fyrir. Það hefur verið gagnrýnt að læknir þurfi að sækja um slíkt skírteini en ástæðan er að skoða og koma í veg fyrir fjöllyfjanotkun ef hún er til staðar og er óþörf.

Lyfjagreiðslugrunnur SÍ heldur utan um kostnað einstaklinga og flyst fólk sjálfkrafa á milli þrepa 1 til 3. Fólk getur farið inn í réttindagátt SÍ með rafrænum skilríkjum og skoðað hvar það er statt innan kerfisins. Einnig er aðgengileg lyfjareiknivél og getur fólk reiknað út stöðu sína. Gott er að skrá inn tölvupóst og bankareikning því ef einhverjar hreyfingar verða greiðast þær sjálfkrafa inn á viðkomandi einstakling. Hægt er að senda fyrirspurnir á lyfja@sjukra.is ef fólk vill fá upplýsingar um sín mál.

Spurt var hvernig væri með lyf fyrir fólk sem er inniliggjandi á spítala? Svarið var að það verður óbreytt, ekki þarf að greiða fyrir lyf ef fólk er inniliggjandi. Ef fólk er á dagdeild eða göngudeild þá greiðir það hins vegar fyrir lyfin.

Spurt var hvort ekki væri rétt skilið að einstaklingur borgi aldrei meira en 28.000 krónur á ári? Svarið var að einstaklingur borgar aldrei meira en 48.149 krónur á ári eða um 4.000 krónur á 12 mánaða tímabili.

Spurt var hvort sá afsláttur sem apótekin hafa gefið renni til SÍ? Svarið var að ef apótekið gefur 2.000 króna afslátt þá þurfa þau einnig að gefa SÍ 2.000 króna afslátt, þá er upphæðin komin í 4.000 krónur. Líklega gefa apótekin ekki afslátt eins og áður en þau gætu fundið aðrar leiðir til að gera vel við viðskiptavininn.

Spurt var hvort hægt væri að fá lista yfir þau lyf sem greidd verða niður og þau sem ekki eru það? SÍ mun senda tengil á skjal sem er inni á heimasíðu SÍ til Báru Snæfeld, upplýsingafulltrúa ÖBÍ og mun hún koma upplýsingunum áfram til aðildarfélaganna. Glærurnar verða einnig sendar.

Spurt var af hverju 18 til 22 ára teljist sem börn í kerfinu? Svarið var að nokkur sjúklingafélög mættu fyrir velferðarnefnd Alþingis og þá var þetta til umræðu. Fólk á þessum aldri er ekki lengur börn en samt á framfærslu foreldra og er því hægt að kalla þetta aðlögunargjald.

Fram kom að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar kemur fram að þetta nýja kerfi spari ríkissjóði töluverða fjármuni. Hugmyndin er að kerfið eigi að koma út á núlli og því er undarlegt að það leiði til sparnaðar eða hagnaðar fyrir ríkissjóð. Bent var á að bæklingur sem gefa á út til kynningar kerfinu þurfi að vera aðgengilegur öllum, þar með talið blindum. Stefnt er að því að gefa bæklinginn út á fleiri tungumálum en íslensku.

4.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Framkvæmdastjóri sagði að næsti aðalstjórnarfundur sé áætlaður 11. apríl en að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort af fundinum verður. Fulltrúar verða látnir vita ef af fundinum verður.

5.  Fundarslit.

Fundi var slitið kl. 18.35

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.