Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 4. júní 2008

By 5. september 2008No Comments

Miðvikudaginn 4. júní 2008, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar í sal Blindrafélagsins, Hamrahlíð 17. Fundur var boðaður kl. 16.45. Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson og var Bára Snæfeld honum til aðstoðar. Tillaga kom fram um Önnu G. Sigurðardóttur sem fundarritara. Samþykkt samhljóða.

Eftirtaldir fulltrúar sátu fundinn:
Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands
Garðar Sverrisson, MS félag Íslands
Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir, Blindravinafélagi Íslands
Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður ÖBÍ/Blindrafélagi Íslands
Helgi J. Hauksson, FAAS
Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingibjörg Karlsdóttir, ADHD samtökunum
Ingi Hans Ágústsson, HIV-Ísland, alnæmissamtökunum á Íslandi
Jón Þorkelsson, Stómasamtökum Íslands
Kristín Michelsen, Hugarfari
Kristín Sæunnar og Sigurðardóttir, Félagi nýrnasjúkra
Ólína Sveinsdóttir, Parkinsonssamtökum Íslands
Pétur Ágústsson, MG félagi Íslands
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra
Sigurður Þór Sigurðsson, Ás styrktarfélagi
Stefán Ólafsson, gestur fundarins
Steinunn Þ. Árnadóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ
Tryggvi Þór Agnarsson, Tourette samtökunum
Vilmundur Gíslason, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Þorlákur Hermannsson, LAUF
Þórey Ólafsdóttir, Daufblindrafélagi Íslands
Starfsmenn ÖBÍ:
Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri

1. Fundur settur.

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður ÖBÍ bauð fundarmenn velkomna á fundinn í húsnæði Blindrafélagsins í Hamrahlíð. Formaður sagði frá samstarfi Blindrafélagsins og Reykjavíkurborgar þar sem ungt blint fólk mun starfa við „blint kaffihús” í húsnæði Blindrafélagsins og að um sumarverkefni er að ræða. Þessu næst kynntu fundarmenn sig.

2. Fundargerð frá seinasta fundi borin upp til samþykktar.

Fundargerð aðalstjórnarfundar frá 8. maí sl., hafði verið send til aðalstjórnar fyrir fundinn en athugasemdir bárust. Samþykkt frestað til næsta fundar.

3. Skýrsla formanns.

Formaður fór í stuttu máli yfir starf sitt frá síðasta fundi aðalstjórnar, minntist m.a. á að á framkvæmdastjórnarfundi 2. júní sl. var samþykkt að leggja það til við aðalstjórn að ÖBÍ myndi gerast aðili að Samtökum um almannaheill. Markmið samtakanna er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum ólíkra félaga- og hagsmunasamtaka. Einstök hagsmunafélög og heildarsamtök geta orðið stofnaðilar eins og ÖBÍ og aðildarfélög þess. Í stofnsamningi samtakanna kemur fram, að fyrstu þrjú árin verður áhersla lögð á að ná fram eftirfarandi breytingum:

  • Að skattalögum verði breytt á þann hátt, að hagsmunafélög og sjálfseignarstofnanir verði undanþegin erfðafjárskatti, og að einstaklingum og lögaðilum verði heimilað að draga gjafir til félaga og samtaka sem starfa í almannaþágu frá tekjuskattstofni. Ennfremur verði slíkum félögum og samtökum heimilað að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna starfseminnar.
  • Að sett verði heildarlög um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana, réttindi þeirra og skyldur.
  • Að ímynd félaga sem starfa í almannaþágu verði efld til muna meðal almennings.

Gert er ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður samtakanna verði um 12.000.000 króna á ári og verður hann fjármagnaður af væntanlegum aðildarfélögum. Fyrirhugað er að stofnfundur samtakanna verði þann 26. júní nk. Taldi formaður að um væri að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir ÖBÍ og aðildarfélaga þess.

Nú var opnað fyrir umræðu um málið.

ET, Gigtarfélagi Íslands sagði þetta vera almannaheillasamtök. Sagðist hann líta á þessi samtök sem félag sem ynni í því starfsumhverfi sem aðildarfélög þau sem mynduðu samtökin starfa í.

IK, ADHD samtökunum, sagði tilganginn með  samtökunum einnig vera að sýna fram á tilgang frjálsra félaga, hvert starf og framlag þeirra er til samfélagsins.

Formaður óskaði eftir samþykki fundarins um að ÖBÍ yrði stofnaðili að samtökunum. Samþykkt af miklum meirihluta fundarmanna.

Formaður skýrði frá því að Helgi J. Hauksson sæti í framkvæmdanefnd forsætisráðherra um nýtt örorkumat og aukna starfsendurhæfingu en gert er ráð fyrir því að nýtt örorkumat komi til framkvæmda í byrjun árs 2009 sem hann taldi óraunhæft.

Framtíðarskipan örorkumála á Íslandi.

a) Stefán Ólafsson kynnti hugmyndir sínar um samþættingu vinnu- og velferðarmála. (Fylgiskjal 1)

Stefán kom á fundinn kl. 17:20.
SÓ kynnti hugmyndir sínar um nýja skipan á sviði velferðarmála. Hugmynd hans gengur fyrst og fremst út á að samþætta þjónustu á sviði atvinnumála, lífeyristrygginga, félagsmála og starfsendurhæfingar og að stoðkerfi vinnu og velferðar verði unnið í auknum mæli í samvinnu við notendur. Hann mælir með að Ísland horfi til þeirra þjóða sem eru að standa sig vel í þessum málum þegar nýtt kerfi verður innleitt hér á landi. Hann skýrði frá norska kerfinu (NAV), sem var tók gildi árið 2006 og kemur vel út að hans sögn. Því næst lýsti hann núverandi stöðu starfsendurhæfingar og örorkumála hér á landi. Hann telur kerfið ómarkvisst og á eftir öðrum þjóðum hvað varðar virka velferðarstefnu (e. Active Social Policy). Fólk er m.a. metið til örorku of snemma og ættu sumir frekar að fara á atvinnuleysisbætur eða vera lengur á endurhæfingarlífeyri. Hann skýrði frá hugmynd Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um nýtt kerfi sem snertir starfsendurhæfingu og stofnun endurhæfingarsjóðs og ræddi kosti þess og galla. Hann leggur áherslu á eitt öflugt kerfi fyrir alla landsmenn og samþættingu starfsemi stofnana, s.s. Tryggingastofnunar ríkisins og Vinnumálastofnunar. 

b) Hverjar eiga áherslur ÖBÍ að vera í framkvæmdanefnd forsætisráðherra um nýtt örorkumat og aukna starfsendurhæfingu.

Helgi Hauksson, fulltrúi ÖBÍ í nefndinni, hélt framsögu. HJH kvaðst hafa að fengið tækifæri til að hlýða á erindi Stefáns Ólafssonar á sérstökum fundi með formanni og framkvæmdastjóra ÖBÍ til undirbúnings skömmu fyrir fyrsta fund hans í framkvæmdanefnd um nýtt örorkumat og starfsendurhæfingu. Í kjölfarið lagði Helgi fram tillögu á þeim fundi um að fá SÓ á fund nefndarinnar til að kynna sínar hugmyndir en hann leggur til að tekið verði upp norska kerfið hér á landi og það aðlagað íslenskum aðstæðum. Í stað þess að reyna að búa til nýtt séríslenskt kerfi, sem yfirlýst væri að ætti að hafa sömu markmið og norska kerfið, taka einfaldlega upp norska kerfið og njóta við það áralangra rannsókna og undirbúningsvinnu norðmanna  sem og lagfæringa þeirra á kerfinu. Aðilar vinnumarkaðarins tóku ekki vel í  þessa tillögu og sáu á henni ýmsa vankanta.

Úr undirbúningsvinnu ÖBÍ hefði HJH komið því á framfæri við nefndina að nota fremur orðið „þátttökumat“ og „þátttökufærni“ fremur en „starfsmat“ og „starfsfærni“ þar sem það hefði víðari og opnari skýrskotun.
Heildarkerfi byggði á þremur grunnstoðum þ.e.:

1) mælitæki eða matskerfi,

2) á stuðningskerfi til að lifa og bjarga sér og svo

3) uppbyggingakerfi til að endurnýja þátttöku í samfélaginu.

Enn væri ósvarað spurningunni um hvar væri að finna það matskerfi eða mælitæki sem ætti að notast við til að meta „starfshæfni“ ef leggja ætti af núverandi örorkumatskerfi. Ekki kæmi til greina annað en það yrði gegnsætt, staðlað og fyrirsjáanlegt, að allir sem byggju við sömu aðstæður mældust eins og að úrræði og viðbrögð væru sveigjanleg og breytileg eftir aðstæðum hvers og eins. 

HJH lýsti yfir áhyggjum sínum á hugmyndum sem hafa komið fram í nefndinni um væntanalega þjónustufulltrúa sem hefðu það hlutverk að leiðbeina fólki sem hefði lent í slysum eða veikindum og taka þátt í að meta örorku og starfshæfni þess í samráði við sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og félagsráðgjafa sem kölluðu til lækni ef með þyrfti. Þá hafa jafnframt verið ræddar hugmyndir um að þjónustufulltrúarnir yrðu aðstoðarmenn eða trúnaðarmenn öryrkja/notenda. Ekki er gert ráð fyrir sérhæfðri menntun þeirra fyrir utan að hafa sótt námskeið. Rætt hefur verið um að setja á fót námsbraut fyrir starf þjónustufulltrúa á framhaldsskólastigi sem væri allt að eitt skólaár. Tekið væri fram í gögnum nefndarinnar að það væri hugsað til að kerfið yrði ekki of dýrt.

c) Fyrirspurnir og umræður

GS, MS félaginu, varaði við að breyta örorkumati um of og sérstaklega að vinnutengja matið. Byggja ætti á núvernadi kerfi og efla hvata til atvinnuþátttöku. Fyrsta skrefið væri þó að efla endurhæfingarúrræði. GS spurði hvort Ísland væri ekki efst yfir Norðurlöndin hvað varðar fjölda öryrkja sem eru á atvinnumarkaði.
ÓS, Parkinsonssamtökunum, lagði áherslu á að byrja yrði á byrjununni, það er endurhæfingunni. Sagði hún að Hringsjá væri virt endurhæfingarúrræði, þriggja anna nám sem reynst hefði einstaklingum mjög vel. Tók hún dæmi af að kostnaður ríkisins væri gróft reiknað um 77 milljónir af einstaklingi sem fengi örorkumat 25 ára ef hann kæmist ekki að neinu leiti til sjálfsbjargar að nýju. Hvatti hún til aukinnar áherslu á starfsendurhæfingu. Ef nýtt kerfi tæki yfir er nauðsynlegt að það gamla verði keyrt samhliða í lágmark eitt ár.

ÞÓ, Daufblindrafélaginu lagði áherslu á að sveigjanleiki yrði að vera til staðar í nýju kerfi, s.s. möguleika á nýjum hjálpartækjum og fleira. Varðandi þjónustufulltrúa setti hún vara við ef að engrar fagmenntunar verður krafist af þeim.

GPG, Sjálfsbjörg upplýsti að innan Sjálfsbjargar teldu menn vanta í umræðuna hvort atvinnumarkaðurinn sé nægilega aðgengilegur sjúkum og fötluðum. Nefndi hann sem dæmi einstakling sem væri metinn með ákveðna hæfni til atvinnuþátttöku og leitaði sér að vinnu, færi í atvinnuviðtöl en gæti síðan ekki starfað hjá því fyrirtæki sem vildi ráða hann, þar sem vinnustaðurinn væri óaðgengilegur. Hann taldi ekki heppilegt að reikna út starfsgetu einstaklinga í prósentum.

Formaður áréttaði að vinnuframlag öryrkja á Íslandi er það lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum og það er m.a. að stórum hluta vegna slæms aðgengis. Einnig vantar sveigjanleika á vinnumarkaði.

Kristín Sæunnar Sigurðardóttir, félagi nýrnasjúkra sagði Stefáni og öðrum fundarmönnum frá því að í öllum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á þessu ári, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríkinu væru ákvæði sem skylduðu launagreiðendur til að greiða í þennan sjóð (0,13% af öllum launum).  Um hann væru þó engin lög eða reglur. Hún lýsti  svo áhyggjum sínum yfir því að þarna væri verið að stofna tvöfalt kerfi, þar sem aðeins þeir sem væru á vinnumarkaði eða hefðu verið það nýlega ættu aðgang að þessum sjóði.

IK, ADHD samtökunum þakkaði góð erindi. Spurði hún SÓ hvort hann væri að vinna hugmyndir sínar fyrir einhverja ákveðna aðila, t.d. ráðuneyti. Taldi hún nauðsynlegt að huga að valdi þjónustufulltrúans. Það á að vera val einstaklingsins hvort hann vilji fara í mat reglulega. Hún taldi tillögur SÓ geta leitt margt gott af sér fyrir ADHD greinda en margir ADHD greindir eru komnir á örorku m.a. vegna þess að menntunarúrræði hafa brugðist.

Formaður lagði áherslu á að ekki væri ætlunin að samþykkja eða hafna tillögum SÓ á þessum fundi. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að það ætti að sameina örorkumatsnefndina við nefnd um endurskoðun almannatrygginga.

SÓ taldi mikilvægt að afnema núverandi örorkumatskerfi þar sem flestir eru metnir 75% öryrkjar eða meira. Lægra örorkumat kemur illa út fyrir flesta og því þarf kerfið að vera sveigjanlegra. Við ættum ekki að búa til eigið örorkumatskerfi, hvorki hvað varðar aðferðir eða prósentur. Ættum að vera með svipað kerfi og vitað er að gengur vel í öðrum löndum sem m.a. er atvinnuhvetjandi fyrir öryrkja og eldri borgara. Lág atvinnuþátttaka öryrkja á Íslandi væri vegna skorts á skilningiatvinnurekenda og þörf að breyta viðhorfum þeirra. Einnig taldi hann að úrræði sem væru til staðar væru ekki nýtt nægjanlega, s.s. vinnusamningar öryrkja.

HAH, Félagi heyrnarlausra, spurði hver ætti að meta starfsorku einstaklinga. Hún nefndi sig sem dæmi um manneskju sem gæti unnið flest störf, ef hún hefði aðgang að túlk.
Formaður sagði að umræðan um þessi mál komin inn í stjórnsýsluna og verður lögð áhersla á að koma sjónarmiðum ÖBÍ á framfæri innan hennar.

5. Önnur mál

Yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaga.
Eftir síðustu kosningar var sett á fót nefnd til að fara yfir þennan málaflokk en í henni sat Hafdís Gísladóttir en nú er fulltrúi ÖBÍ Guðmundur Magnússon. Áfangaskýrsla nefndarinnar liggur fyrir. Formaður sagði að ÖBÍ hefði verið á móti yfirfærslunni árið 2000 en nú væru komnar fram nýjar hugmyndir sem þyrfti að ræða. Formaður lagði fram drög að bréfi sem sent verður til Félags- og tryggingamálaráðherra, þar sem hann óskar eftir að ÖBÍ fái frest til loka ágúst til að ræða þessi mál innan bandalagsins. Framkvæmdastjóri las bréfið upp fyrir fundarmenn. Í bréfinu er m.a. óskað eftir að fulltrúi ráðuneytisins komi á aðalstjórnarfund sem áætlaður er að verði haldinn 27. ágúst n.k.

GS, MS félaginu, upplýsti að árið 2000 var samþykkt að hafna yfirfærslunni með meirihluta atkvæða en einungus tveir aðilar voru ekki sammála því. Óskaði hann eftir því að áfanga¬skýrsla nefndarinnar yrði send til aðalstjórnar fyrir næsta aðalstjórnarfund.

IK, ADHD samtökunum, sagði að fresturinn væri of stuttur.

Formaður skýrði að ástæðan væri sú að það væri aðalstjórnarfundur í byrjun september þar sem ræða þarf lagabreytingar og lagði hann því til að þessi mál yrðu rædd á sérstökum fundi.

Bára Snæfeld minnti á tilnefningar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2008. Bréf verður sent til aðildarfélaga í næstu viku, ásamt eyðublaði til útfyllingar, um tilnefningu. Fulltrúar voru hvattir til hugsa um verðuga fulltrúa. Einnig minnti hún á útsend bréf um aðalfundarboð, þar sem meðal annars var kallað eftir efni í ársskýrslu ÖBÍ en efnisskil er 5. ágúst.

Fleira var ekki rætt. Fundi slitið kl. 19:10.

Fundarritari: Anna Guðrún Sigurðardóttir.