Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 6. apríl 2009

By 7. desember 2009No Comments

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 6. apríl 2009 kl. 17.00-19.30 að Hamrahlíð 17, Reykjavík.

Fundargerð

Miðvikudaginn 6. apríl 2009, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar að Hamrahlíð 17, í húsnæði Blindrafélags Íslands. Fundur var boðaður kl. 17.00. Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson (HSG).

Eftirfarandi aðalstjórnarfulltrúar sátu fundinn

Árni Þ. Birgisson, Málbjörg
Bryndís Snæbjörnsdóttir, aðstoðarmaður
Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu
Friðjón Erlendsson, Daufblindrafélaginu
Fríða Bragadóttir, Parkinsonssamtökunum
Garðar Sverrisson, MS-félaginu
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðjón Sigurðsson, MND-félaginu
Guðmundur Magnússon, SEM-samtökunum
Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp
Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi H. Ágústsson, HIV-Íslandi
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Jórunn Sörensen, Félag nýrnasjúkra
Kristín Michelsen, Hugarfari
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra
Sigurður Þ. Sigurðsson, Ás styrktarfélagi
Tryggvi Þ. Agnarsson, Tourette samtökunum
Þröstur Emilsson, Voninni
Starfsfólk ÖBÍ:
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir, aðstoðarmaður formanns

1. Formaður setur fund

Halldór S. Guðbergsson, formaður ÖBÍ setti fundinn kl. 17.00 og bað fulltrúa um að kynna sig. Halldór bauð síðan sérstaklega velkominn á fundinn nýjan starfsmann ÖBÍ, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur, félagsráðgjafa.

2. Fundargerð frá 21. janúar borin upp til samþykktar

Fundargerð síðasta fundar samþykkt.

3. Yfirfærsla á félagsþjónustu fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi hélt framsögu varðandi flutning á félagsþjónustu fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Halldór lagði til við aðalstjórn að umræðan yrði færð yfir til aðildarfélaganna eftir fundinn og málið tekið aftur upp í aðalstjórn á haustdögum sem síðan myndi álykta um það. Halldór sagði mikilvægt að koma ábendingum til þeirra sem vinna að flutningi málaflokksins.

Björk útskýrði sjónarmið sveitarfélaganna. Nauðsynlegt er við yfirfærsluna að góð samvinna verði á milli notenda og sveitarfélaga. Reynt var að færa þessi mál yfir til sveitarfélaga á árunum 1997 til 2001. Mikil mótstaða var á þeim tíma, t.d. hjá Blindrafélaginu og einnig hjá sveitarfélögunum vegna skorts á fjármagni sem fylgja átti flutningnum. Um er að ræða hagsmunamál fyrir fólk með sérþarfir. Nauðsynlegt er að hafa eitt samfélag fyrir alla en ekki flokka fólk eftir sérþörfum. Björk sagði að ein lög ættu að vera fyrir þá sem þurfa félagslega þjónustu ásamt sértækum reglum. Ástæða þess að þetta hefur tekið svona langan tíma er m.a. að ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er óljós. Einnig er óljóst hver á að veita hvaða þjónustu. Aukin áhersla er á nærþjónustu þar sem litið hefur verið til reynslu Norðurlandanna.

Einn af göllum þess að þjónustan sé hjá ríkinu er fjarlægðin á milli notenda og þeirra sem veita þjónustuna og bera ábyrgð á henni. Óánægja hefur verið með þjónustuna, skort á henni og margir verið á biðlista eftir aukinni þjónustu en ekki fengið þjónustu við hæfi. Metnaður sveitarfélaganna er að byggja upp þjónustu miðað við vilja og þörf þeirra sem nota hana. Sveitarfélögin vilja ekki að þjónustan verði eins og hún er, þ.e. að skortur sé á þjónustu. Tryggja þarf að eitt stjórnsýslusvið beri ábyrgð og að verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði einfölduð.

En munu aðilar græða á því að veita þjónustuna? Kostir og gallar eru á því að færa þjónustuna, í því ástandi sem hún er í núna, en þó er hægt að líta á það sem jákvætt. Meiri hætta er á niðurskurði hjá ríki en sveitarfélögum og því eru þau hugsanlega í góðri samningsstöðu við ríkið. Það er skilyrði að tekjustofnar fylgi með málefninu og verið er að falla frá fyrirkomulagi þjónustusamninga. Eins og árar núna er það kappsmál fyrir ríkið að færa nærþjónustuna til sveitarfélaga.

Gert er ráð fyrir að mynduð verði þjónustusvæði um rekstur þjónustu en hvert svæði verður með að lágmarki 8 þúsund íbúa til að lítil sveitarfélög geti veitt nauðsynlega þjónustu. Tekjustofnar verða hækkaðir og þjónusta skilgreind þannig að samræmi verði milli sveitarfélaga. Kærumöguleikar verða eins og er í félagsþjónustunni í dag, þ.e. úrskurðarnefndir en síðan áfrýjun til ráðuneytis ef ekki er sátt um úrskurð þeirra. Faglegt eftirlit og gæðaeftirlit verður til staðar á hverju þjónustusvæði.

Heimahjúkrun er að flytjast yfir til Reykjavíkurborgar en dagþjónustu þarf að bæta við þá sem þurfa á henni að halda en biðlistar eru að aukast.

Að lokinni framsögu Bjarkar voru umræður og upplýst að Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum, situr í nefnd um yfirfærsluna. Því var því komið á framfæri að ekki væri verið að flytja alla þjónustu yfir til sveitarfélaga þar sem sérfræðiþjónusta verður áfram hjá ríkinu.

Árið 2000 ályktaði ÖBÍ um þetta mál og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri skynsamlegt að færa málafollinn yfir til sveitarfélaga en í skýrslu Landssamtakanna Þroskahjálpar og Landssambands eldri borgara kom fram að þau hlynnt yfirfærslu.

Guðmundur Magnússon, sagðist hafa komið inn í nefndina á lokasprettinum og vera skeptískur á yfirfærsluna. Reynsla norðurlandanna er misjöfn en frekar neikvæð þegar á heildina er litið. Við yfirfærslu hjá dönum versnaði þjónustan en þeir eru með jafn mörg sveitarfélög og við á Íslandi. Þjónustan verður alltaf veitt í nær sveitarfélaginu en spurning er hver eigi að greiða kostnaðinn. Sagði frá því að í lögum um notendastýrða þjónustu í Svíþjóð kæmi fram að ef fjöldi tíma fer yfir ákveðið mark þá greiði ríkið það sem upp á vantar. Bað fólk að íhuga þessi mál mjög vandlega og sagði að það væri áríðandi að ÖBÍ yrði mjög sýnilegt í allri umræðu um flutninginn.

Í umræðunni kom fram að heimahjúkrun verður áfram hjá ríkinu, nema í Reykjavík og að huga þyrfti að notendastýrðri þjónustu í tengslum við yfirfærsluna. Athyglisvert þykir að ÖBÍ hafi ekki verið með í gerð viljayfirlýsingar sem nýlega var undirrituð um þetta málefni. Á sínum tíma, þegar málefni fatlaðra fóru frá sveitarfélögum til ríkisins, var það talið framfaraspor því þá var fólk ekki lengur upp á sveitunga sína komið. Hættulegt getur verið að hafa of mikla nánd. Hvatt var til að nægur tími yrði tekinn í umræðuna og að öll sjónarhorn kæmu fram því erfitt væri að vinda ofan af hlutum þegar í óefni er komið. Einnig er mikilvægt að heyra frá Norðurlöndum hvernig til hefur tekist og hvað hefur ekki gengið vel.

Nefnt var að gera þyrfti könnun á þeirri þjónustu sem er á hverjum stað svo að staða dagsins í dag sé skýr en engin slík könnun hefur farið fram. Meta þarf hvað er jákvætt við flutninginn, hvað er neikvætt og hvað má bæta. Verðum að hafa það að leiðarljósi að þjónustan batni með yfirfærslunni en versni ekki. Verðum að treysta okkar sveitarstjórnarfólki en jafnframt að hafa aðgang að umræðunni og samningum. Fram kom að atvinnumál fatlaðra fluttust yfir til Vinnumálastofnunar síðastliðin áramót þannig að ákveðnir flokkar eru að flytjast yfir.

María Th. Jónsdóttir, FAAS, sagði að alzheimersjúklingar séu á gráu svæði og sé hent á milli ríkis og sveitarfélaga, eða á milli ráðuneyta. Breyting þarf að verða á þessu.

Björk Vilhjálmsdóttir svaraði umræðunni. Sagði hún marga punkta vera mjög góða og lýsti yfir ánægju með að notendastýrð þjónusta hafi verið nefnd og sagðist líta til þess að slík þjónusta verði meira í umræðunni á næstunni og líklega komið í framkvæmd. Sagði umræðu og endurskoðun mjög mikilvæga og að rætt verði hvað betur megi fara út frá reynslu fólks. Árin 2004 og 2005 var reynt að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu og er fólk mun ánægðara með það fyrirkomulag. Björk sagði að sveitarfélögin munu ekki græða á því að málefni fatlaðra færi yfir til þeirra og var sammála því að gera þurfi þjónustukönnun meðal notenda. Varðandi þá sem eru með alzheimersjúkdóminn þá er það skiljanlegt að þjónustan getur ekki verið á höndum tveggja ráðuneyta. Með yfirfærslu á einn aðila ætti þetta að geta breyst til batnaðar, t.d. að dagþjónusta, sem ekki fellur undir atvinnumál, verði færð yfir til sveitarfélaga. Lögin um málefni fatlaðra eru mjög þröng og útiloka marga með mismunandi fatlanir. Fötlun er hluti af samfélaginu og það verður að vera krafa að allir fái sömu þjónustu sama hvar þeir eru. Þá er mikilvægt að samþætta þjónustuna til samræmis við Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra en Sáttmálinn er grundvallarplagg sem taka þarf tillit til.

Rætt var um að lágmarksstærð þarf að vera á þjónustusvæði, eða að lágmarki 8000 manns og kæruleiðir þurfa að vera mjög skýrar. Tekið er fram í viljayfirlýsingunni að sveitarfélögin þurfi að bera fjárhagslega ábyrgð á yfirfærslunni. Spurt var hvað tryggir það að sveitarfélögin fái það fjármagn sem þarf og hvort það væru sveitarfélögin sem útdeila fénu?

Björk svaraði því til að sveitarfélögin vilji fá til sín ákveðna tekjustofna sem ekki verða eyrnamerktir og það verði að tryggja að sveitarfélögin fái peninga miðað við þær þarfir sem eru fyrir hendi og þá þjónustu sem þau eiga að veita. Ef fjárhæðir eru ekki nægilegar ætti jöfnunarsjóður sveitarfélaga að geta gripið inn í.

Halldór lauk umræðunni, sagði hana hafa dýpkað og hvetur aðalstjórnarfólk eindregið til að taka þetta mál upp hjá sínu félagi. Sagði að leggja þurfi áherslu á réttindakaflann því að staðan í dag er þannig að við flutning á milli sveitarfélaga hefur fólk verið talið ýmist minna eða meira fatlað en áður. Það skiptir ekki máli hvaðan peningarnir koma heldur að þjónustan verði öflugri en hún er í dag.

4. Skýrsla formanns

Halldór flutti skýrslu formanns sem hafði verið send til aðalstjórnar. Mál málanna eru kosningarnar, hvernig getur ÖBÍ og aðildarfelög náð eyrum alþingismanna, flokka og almennings? Undanfarnar vikur hefur ÖBÍ í samvinnu við Landssamtökin Þroskahjálp og Landssambands eldri borgara beðið um fundi með stjórnmálaflokkunum. Einungis hefur verið haldinn fundur með Samfylkingunni. Fundur verður 7. apríl með Vinstri grænum og 7. eða 8. apríl með Sjálfstæðisflokknum. Stefnt er að því að fá fundi með fulltrúum allra flokka. Öllum flokkum var sent opið bréf með spurningum og munu svör þeirra birtast í tímariti ÖBÍ sem mun fylgja Morgunblaðinu þann 18. apríl nk.

Fimm fundir hafa verið haldnir í fundaröðinni „Verjum velferðina“ og mun sjötti og síðasti verða haldinn 15. apríl nk. á Grand hóteli þar sem formenn flokkanna verða í pallborði. HSG hvetur aðalstjórn og aðildarfélög til að auglýsa fundinn mjög vel þannig að fjölmennt verði á fundinum.

Það þrengir að hjá öllum landsmönnum og ÖBÍ finnur fyrir því að fólk er farið, í meira mæli, að leita til bandalagsins vegna fjárhagserfiðleika.

Umræður voru um skýrsluna. Formanni var þökkuð góð og efnisleg skýrsla. Það væri greinilegt að þétt og þörf dagskrá væri hjá bandalaginu. Spurt var um Velferðar-vaktina og hvað væri að gerast þar?

Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi ÖBÍ, er fulltrúi ÖBÍ og Landsamtakanna Þroskahjálpar í Velferðarvaktinni en vaktin hefur haldið fundi vikulega í sjö vikur og verður svo áfram, a.m.k. fram að kosningum. Verið er að skoða áhrif kreppunnar á hagi fólks. Sér í lagi verða skoðaðar þær kannanir sem til eru um líðan fólks sem gekk í gegnum síðustu kreppu. Fylgst er með og tekið saman hvað stjórnvöld eru að gera til að bæta úr fjármálum fólks.

HSG sagði að eitt væri að gera kannanir, það nauðsynlegt væri að aðgerðir fylgdu í kjölfarið.

5. Húsnæðismál skrifstofu ÖBÍ

Aðalstjórn skipaði starfshóp um húsnæðismál skrifstofu ÖBÍ í desember sl. sem í sitja ásamt Halldóri, þær Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra, Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra og Dagný S. Lárusdóttir frá SÍBS. Hópurinn hefur hist nokkrum sinnum og skoðað ýmsa möguleika en málin hafa líka verið rædd í framkvæmdastjórn. Ástæða flutnings er að starfsfólki hefur fjölgað og skrifstofuhúsnæðið er orðið lúið. Til að breyta ímynd bandalagsins er mikilvægt að starfsemin sé annars staðar en á Hátúnssvæðinu.

Flest aðildarfélögin eiga ekki sitt eigið húsnæði og spurning er um hvort bandalagið eigi að leigja eða kaupa húsnæði þar sem stór og vel tækjum búinn salur yrði sem aðildarfélögin gætu nýtt sér fyrir fundi. Eins og staðan er núna er leigu- og kaupverð frosið á markaðnum. Halldór er persónulega þeirrar skoðunar að það geti styrkt stöðu bandalagsins og aðildarfélaga að vera undir sama þaki. Framkvæmdastjóri fór til Danmerkur ekki alls fyrir löngu til að kynna sér hvernig starfsemi ÖBÍ í Danmörku er, en þar er bandalagið í sama húsnæði og mörg aðildarfélög þess.

Halldór lagði fram bókun sem heimilar húsnæðishóp að vinna áfram að málinu:

„Aðalstjórn ÖBÍ felur framkvæmdastjórn og nefnd um húsnæðismál skrifstofu, sem aðalstjórn skipaði 11. desember síðastliðinn, að vinna að flutningi skrifstofu bandalagsins á næstu mánuðum. Leita skal að húsnæði sem hentar vel starfsemi skrifstofu. Skoða skal sérstaklega hvort grundvöllur sé til að finna húsnæði með sal sem aðildarfélögin geta leigt af bandalaginu gegn sanngjörnu gjaldi til fundarhalda og annarra uppákoma á þeirra vegum.

Einnig felur aðalstjórn ÖBÍ fyrrnefndum aðilum að kanna kosti og galla þess að aðildarfélög bandalagsins leigi skrifstofuaðstöðu af bandalaginu á kostnaðarverði. Til greina kemur, hvort heldur sem þykir hagstæðast, að leigja húsnæði til langs tíma eða kaupa. Framkvæmdastjórn og nefnd um húsnæðismál fær hér með umboð aðalstjórnar ÖBÍ til að taka ákvörðun í þessu máli.“

Halldór sagði að ákveðið tækifæri væri fyrir samstarf á milli aðildarfélaga ef þau væru undir sama þaki. T.d. hefði Félag nýrnasjúkra og Samtök sykursjúkra haldið sameiginlegan fund um sín mál.

Fulltrúar hvöttu fundinn til að samþykkja bókunina. Misjafnar skoðanir voru á því hvort „smáfuglarnir“ ættu að fylgja með eða ekki, sumir töldu að til hagsmunaárekstra gæti komið. Talað var um ekki væri rétt að líknarfélög og fyrirtæki væru með skrifstofur í íbúðarblokkum. Félög sem ekki eru í Þjónustusetrinu gætu líka verið í nýju húsnæði. Menn voru sammála um að það þyrfti að vera góður salur fyrir fundi.

Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp, sagði frá því að félagið hefði selt húsnæði sitt fyrir tveimur árum og keypt annað á Langholtsvegi. Þegar húsnæði var keypt var hugsað til þess að fleiri félög gætu komið inn og hefur félagið eflst við það. Í húsnæðinu er nú Félag eldri borgara og sjálfstætt starfandi Félag þroskaþjálfa.

Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra, kom því á framfæri að húsnæðishópurinn legði fram umrædda bókun til að koma málum í fastari skorður. Mjög jákvætt er að félögin starfi undir sama þaki og eru þau félög sem starfa saman í í Þjónustusetrinu í Hátúni 10 ánægð með þá sameiginlegu aðstöðu. Það þarf að taka skarið af fljótlega hver stærð húsnæðis á að vera og því er verið að ræða þetta við aðildarfélögin. Þjónustusetrið er jákvætt fyrir þessu ef aðstaðan batnar.

Fríða Bragadóttir ítrekaði að Þjónustusetrið borgar fulla leigu í Hátúni 10b. Öllum aðildarfélögum er heimilt að sækja um aðild að Þjónustusetrinu og hafa þau fengið bréf þess efnis en engin viðbrögð voru við því.

15 samþykkir, enginn á móti. Bókunin samþykkt með meirihluta atkvæða.

6. Styrkir til aðildarfélaga ÖBÍ fyrir árið 2009

Lögð var fram tillaga framkvæmdastjórnar til aðalstjórnar um styrki til aðildarfélaga fyrir árið 2009. Af 32 aðildarfélögum ÖBÍ sóttu 28 um styrki til bandalagsins. 46 milljónir voru til úthutunar samkvæmt fjárhagsáætlun 2009. Í sumum tilfellum eru styrkirnir allt að 100% af veltu félaganna en minni póstur hjá öðrum. Hjördís A. Haraldsdóttir,  gjaldkeri ÖBÍ, fór yfir tillögur framkvæmdastjórnar.

Halldór skýrði frá því hvernig ákvörðun um úthlutun færi fram. Allir fulltrúar í framkvæmdastjórn fá möppu með afritum af umsóknum allra aðildarfélaganna og leggur til ákveðna upphæð til handa hverju félagi. Á framkvæmdastjórnarfundi leggja síðan allir fulltrúar fram sínar tölur. Reiknuð er út meðalupphæð af þeim tölum, oft að lokinni mikilli umræðu. Þetta er gert á eins sanngjarnan hátt og hægt er miðað við aðstæður. Sótt var um ca. 30 milljónir meira en var úthlutað.

Spurt var hvort félögin eigi að segja frá því hvernig styrkupphæðin sé notuð og hvort þeim sé frjálst að nota hann á hvaða hátt sem þau kjósa eða hvort hann sé eyrnamerktur ákveðnu verkefni sem sótt var um fyrir?

Halldór sagði að félögin þurfi að gera grein fyrir því í styrkumsókn næsta árs hvernig styrkurinn var notaður en þau megi ráðstafa styrkjunum eins og þeim finnst best.

Spurt var um hvernig tekjur ÖBÍ dreifast og svaraði HSG því til að tekjurnar dreifðust á þrjá staði, til reksturs skrifstofu ÖBÍ, Brynju – hússjóðs Öryrkjabandalagsins og til aðildarfélaga. Hlutur aðildarfélaga hefur hækkað umtalsvert á undanförnum árum. Fyrir ekki svo mörgum árum þá voru til úthlutunar um 12 milljónir.

Tillaga framkvæmdastjórnar var samþykkt.

7. Næsti aðalstjórnarfundur

Samkvæmt fundarplani er gert ráð fyrir að hann verði miðvikudaginn 20. maí.

8. Önnur mál

a) Veikindaleyfi formanns

Halldór skýrði frá því að hann yrði í veikindaleyfi næstu vikur þar sem hann er að fara erlendis í hornhimnuskipti. Verður kominn á fullt aftur um næstu mánaðarmót.

b) Þarfagreiningarfundur um vef

Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi, minnti á fundi sem verða haldnir 6. og 7. maí þar sem innri og ytri vefur verður ræddur. Mjög mikilvægt að öll aðildarfélögin tilnefni fulltrúa fyrir 8. apríl nk.

c) Framkvæmdastjórnarfundir

Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg, situr sem fyrsti varamaður í framkvæmdastjórn. Lagði til að a.m.k. einn varamaður sitji alla fundi og hægt sé að rótera því þannig að hver varamaður sitji að lágmarki þriðja hvern fund. Það hafi gerst að einstaklingur í stjórn hafi ekki mætt á fundi og varamaður ekki boðaður.

Umræður voru um að það væri til bóta ef allir aðalmenn og varamenn sitji alla fundi. Varamenn eru þá vel inni í öllum málum og eins getur verið erfitt að boða varamenn með stuttum fyrirvara ef þeir búa úti á landi.

Halldór bar upp þá tillögu að varamenn sitji alla framkvæmdastjórnarfundi.
Samþykkt samhljóða.

Halldór minnti á fundinn „Verjum velferðina“ miðvikudaginn 15. apríl nk.

Fundi slitið kl. 19.40.

Fundarritari,

Anna Guðrún Sigurðardóttir.