Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 6. desember 2007

By 31. janúar 2008No Comments

Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 6. desember 2007

Miðvikudaginn 6. desember 2007, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar í salnum Hvammi á Grand hóteli. Fundur var boðaður kl. 16.45.

Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:
Anna G. Sigurðardóttir ÖBÍ
Bára Snæfeld ÖBÍ
Jón Þorkelsson Stómasamtökunum
Kristín Ármanns FSFH
Sigurður Þ. Sigurðsson Styrktarfélagi vangefinna
Sigríður Jóhannsdóttir Samtökum sykursjúkra
Ægir Lúðvíksson MND félaginu
Helgi J. Hauksson FAAS
Þröstur Emilsson Voninni
Þorlákur Hermannsson LAUF
Ragnar Gunnar Þórhallsson Sjálfsbjörg lsf
Guðbjörg J. Sigurðardóttir Blindravinafélagi Íslands
Dagný E. Lárusdóttir SÍBS
Hjördís A. Haraldsdóttir Félagi heyrnarlausra
Garðar Sverrisson MS félaginu
Þórey Ólafsdóttir Daufblindrafélagi Íslands
Vilmundur Gíslason Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Emil Thoroddsen Gigtarfélagi Íslands
Ingi H. Ágústsson Alnæmissamtökunum
Guðmundur Magnússon SEM
Þórunn Pálsdóttir Geðverndarfélagi Íslands
Sigursteinn Másson Geðhjálp
Halldór S. Guðbergsson Blindrafélagi Íslands
Hafdís Gísladóttir ÖBÍ
Sigrún Gunnarsdóttir Tourettesamtökunum
Halla B. Þorkelsson Heyrnarhjálp
Guðmundur S Johnsen Félagi lesblindra

Fundur var settur kl. 17.00 að því búnu kynntu fundarmenn sig og formaður flutti skýrslu sína.
 

1. Skýrsla formanns

Ágætu aðalstjórnarfulltrúar,
Ég vil byrja á því að bjóða fulltrúa nýs aðildarfélags ÖBÍ, Vonarinnar, velkominn til starfa. Fulltrúi hins nýja félagsins Hugarfars, þurfti að afboða sig á síðustu stundu. Mikill erill hefur verið í nefndar- og hópastarfi á vegum ÖBÍ í haust. Ber þar einna hæst þátttaka flestra aðildarfélaga ÖBÍ í stefnumótunarstarfi sem hófst í vor sem leið og lauk að mestu síðla í nóvember mánuði. Að störfum hafa verið fjórir hópar undir forystu Emils Thoroddsen, Hafdísar Gísladóttur og þess sem hér talar. Capacent Gallup veitti hópunum handleiðslu og er óhætt að segja að margar frjóar hugmyndir hafi sprottið upp í starfinu. Ákveðið hefur verið að efna til sérstaks kynningarfundar með aðalstjórn og aðildarfélögum ÖBÍ í janúar þar sem farið verði yfir niðurstöðurnar og þær ræddar. Stefnumótunarstarfið hefur fyrst og fremst snúið að innra starfi Öryrkjabandalagsins og þeim markmiðum sem við setjum um skipulag, áherslur og gæði starfsins til næstu ára. Ég vil hér með þakka sérstaklega öllum þeim fjölmörgu aðalstjórnarfulltrúum sem tilnefndir voru af félögum sínum og tóku þátt í stefnumótunarstarfinu.

Meiri átök hafa óneitanlega einkennt þátttöku okkar í nefndarstarfi forsætisráðherra um breytingar á örorkumati og aukna starfsendurhæfingu. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp alla þá umræðu sem verið hefur um svokallaðan áfallatryggingasjóð sem forysta Alþýðusambandsins og Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að ná í gegn í tengslum við yfirstandandi kjarasamninga. Margir nefndarfundir einkenndust af hörðum deilum milli fulltrúa þeirra og formanns ÖBÍ og hart var tekist á um málið á opinberum vettvangi. Forysta Öryrkjabandalagsins lagði áherslu á að skýra málið vel í persónulegum samtölum við ráðamenn og einstaka forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar auk þess að lýsa sjónarmiðum bandalagsins á opinberum vettvangi. Nú virðist sem hugmyndirnar hafi verið settar á salt og ræður þar án efa miklu afstaða félagsmálaráðherra og formanns VR. Vert er að hafa í huga að um er að ræða sömu aðila og stjórna hinum almennu lífeyrissjóðum í landinu, það er að segja stjórnir aðildarfélaga ASÍ og SA, sem töldu sig þess umkomnar að taka stóran hluta almannatryggingakerfisins yfir til sín með stofnun áfallatryggingasjóðs.

Sem kunnugt er sendu níu lífeyrissjóðir innan Greiðslustofu lífeyrissjóða bréf til tæplega tvö þúsund félagsmanna sinna, sem eru öryrkjar, og tilkynntu um 1600 þeirra um lækkanir eða skerðingar á lífeyri þeirra. Bréfin voru send um mánaðarmótin ágúst/september og skerðingar tóku gildi þann fyrsta desember. Nú hefur nýr sameinaður lífeyrissjóður Norðurlands og Austurlands, Stapi, bæst í hópinn og um 550 manns verið tilkynnt um skerðingar eða niðurfellingar á örorkulífeyri frá sjóðnum. Stapi miðar útreikninga sína við neysluvísitölu en fram hefur komið að það getur munað umtalsverðu hvort miðað er við neysluvísitölu eða launavísitölu. Mörg dæmi eru um einstaklinga sem engar skerðingar fengju væri miðað við neysluvísitölu. Eftir því sem næst verður komist miða sjö lífeyrissjóðanna við launavísitölu í útreikningum sínum en þrír enn við neysluvísitölu. Þetta er út af fyrir sig gróf mismunun gagnvart sjóðsfélögum sem hafa verið skyldaðir til greiðslna í tiltekna lífeyrissjóði. ÖBÍ hefur harðlega mótmælt þessum aðgerðum lífeyrissjóðanna sem standast ekki lög og stjórnarskrá að okkar mati og hefur því höfðað prófmál á hendur Gildi lífeyrissjóði sem er stærstur sjóðanna. Þá hefur Umboðsmaður Alþingis til skoðunar meint vanhæfi ráðuneytistjóra fjármálaráðuneytisins til staðfestingar á samþykktum sjóðanna en ráðuneytisstjórinn hefur um leið verið stjórnarformaður Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Vænst er álits umboðsmanns Alþingis á allra næstu dögum í því máli. Formaður og framkvæmdastjóri ÖBÍ áttu langan fund með félagsmálaráðherra um málið og beitti hún sér nokkuð í því. Boði hennar og ríkisstjórnar um hundrað milljóna króna greiðslu til lífeyrissjóða í því skyni að fresta skerðingunum var algjörlega hafnað án nokkurra samningaviðræðna á föstudaginn var. Ljóst er að við svo verður ekki búið. ÖBÍ hefur hvatt öryrkja sem leita til skrifstofu bandalagsins til að hafa samband við fjölmiðla. Almennur þrýstingur á þessum tímapunkti skiptir miklu máli. Það skiptir líka miklu máli að aðalstjórnarmenn, forsvarsmenn aðildarfélaga, félagasamtaka láti í sér heyra um þetta og beiti sér með blaðaskrifum og öðrum þeim leiðum sem geta haft einhver áhrif.

Ágætu félagar,
Umræddir lífeyrissjóðir og stjórnendur þeirra hafa misst sjónar á lögbundnu samtryggingarhlutverki sjóðanna. Nú leika þeir þann leik að etja saman öryrkjum og öldruðum. Segja að verði öryrkjar ekki skertir verði minna til ráðstöfunar fyrir aldraða. Þeir horfa fram hjá hinu tvíþætta hlutverki lífeyrissjóðanna sem hefur verið grundvöllur þeirra frá því seint á sjöunda áratug síðustu aldar að núverandi kerfi var sett á fót. Þar með hljótum við nú að fylgja eftir ályktun okkar frá því á aðalfundi okkar þann 6. október sl. og fara fram á tafarlausa heildarendurskoðun á lögum um lífeyrisjóði en einnig á samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga. Það verður að segjast eins og er að nefnd forsætisráðherra um breytingu á örorkumati og aukna starfsendurhæfingu hefur ekki tekið á því máli enn og það er áhyggjuefni.

Þann 22. nóvember var haldinn 3 tíma kynningar, umræðu- og hugmyndafundur á Hótel Nordica fyrir forsvarsmenn aðildarfélaga og aðalstjórnarfólk um starfið í örorkumats- og endurhæfingarnefndunum. Á fundinum var aðallega rætt um þá hugmynd að hverfa frá núverandi örorkumati og taka þess í stað upp starfshæfnimat sem muni skiptast annars vegar í Stöðumat og hins vegar Starfshæfnimat. Stöðumat veiti ótekjutengd réttindi til stoðþjónustu og stoðtækja en starfshæfnimat veiti rétt til ótekjutengds lífeyris en í hlutfalli við starfshæfni. Margar ábendingar komu fram og voru þessar helstar:

  1. Skoða þarf breytingar á atvinnuleysistryggingasjóði þannig að ónýttur starfshæfnihluti matsins þýði ekki þrautagöngu viðkomandi í atvinnuleysistryggingasjóð heldur sé um “eitt stopp” að ræða og réttindin séu sjálfvirk.
  2. Gæta þarf þess að viðkomandi kann að þurfa á greiðslum úr atvinnuleysistryggingasjóði að halda í meira en 3 ár.
  3. Huga þarf sérstaklega að sveigjanlegum vinnumarkaði með fleiri hlutastörfum. Um þetta atriði eru miklar áhyggjur meðal fulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ. Að atvinnulífið verði ekki tilbúið að taka við breytingunni. Í Noregi mun hafa verið gerður um þetta sáttmáli helstu hagsmunaaðila. Hvernig tókst til? Hvað gerum við hér?
  4. Ljóst er að án mjög aukins fjármagns til endurhæfingarmála og atvinnuhvetjandi aðgerða fer illa. Brýnt er að fá fram skuldbindingar af hálfu ríkis¬stjórnar og aðila vinnumarkaðarins skjótt.
  5. Nýtt starfshæfnimat verður að byggja á viðurkenndum aðferðum og reglum sem eru gegnsæjar og skýrar en ekki huglægu mati.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur verið falið að reikna fyrir Öryrkjabandalagið útkomuna út frá mismunandi forsendum og þá einnig hvernig nýtt kerfi komi út fyrir örorkulifeyrisþega. Bráðabirgða niðurstöður reyndust byggðar á röngum forsendum varðandi núverandi atvinnutekjur öryrkja og skekkti það mjög útkomuna. Hagfræðistofnun hefur nú fengið réttar upplýsingar og stefnt er að kynningu á niðurstöðunum fyrir aðalstjórn á aukafundi í byrjun janúar. Undir dagskrárlið þrjú verður farið yfir aðgerðir ríkistjórnarinnar varðandi öryrkja og ellilífeyrisþega sem kynntar voru í gær.

Hvatningarverðlaun ÖBÍ voru haldin í fyrsta sinn í Þjóðminjasafninu á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember sl. Frá því í sumar hefur undirbúningsnefnd verið að störfum undir forystu Evu Ebenezersdóttur og Báru Snæfeld og tókst skipulagn¬ingin afar vel. Fjölmargir mættu frá aðildarfélögunum auk annarra gesta og var mál manna að vel hefði til tekist. Verðlaunin og verðlaunaafhendingin hlutu mikla athygli í fjölmiðlum og var með þeim varpað jákvæðu ljósi á ÖBÍ sem heildar¬samtök fatlaðra á Íslandi og markmið okkar um jafna þátttöku fatlaðra í sam¬félaginu. Ég vil f.h. Öryrkjabandalags Íslands færa öllum þeim sem að verðlaununum komu mínar bestu þakkir.

Umræður um skýrslu formanns:

Nokkrir tóku til máls um skýrsluna og þökkuðu formanni góða skýrslu. Garðar Sverrisson taldi það góðs viti að menn væru komnir niður á jörðina varðandi nefnd ríkisins um nýtt örorkumat, sem hann taldi að aldrei hefði fengist rætt til hlítar af aðalstjórn, en hætta væri á að eftir því sem það drægist festist það í huga manna að þetta væri stefna Öryrkjabandalagsins. Sigursteinn taldi að umræða hefði farið fram á aðalstjórnarfundum, en alltaf hafi verið meiningin að halda sérstakan fund til að ræða þessi mál. Hann benti á að undanfarið hafi ekkert markvert gerst í nefndinni vegna umræðu um hugmyndir ASÍ og SA um eins konar einkavæðingu almannatrygginga. Formaður lagði til að fundur yrði um þessi mál 10. janúar á næsta ári

Ægir taldi að næg umræða hafi farið fram og hans félag (MND) hafi fengið Ragnar Gunnar á sinn fund og þar hafi hann farið vel yfir stöðuna. Hann furðaði sig jafnframt á því hve fáir hafi mætt á “Nordicafundinn”.

Helgi J. Hauksson minnti á að nefndinni hafi verið stofnuð til að “létta öryrkjabyrðinni” af lífeyrissjóðunum. Hann ræddi kosti og galla, einkum lýsti hann velþóknun sinni á því hve Ragnar Gunnar hafi staðið fast á mikilvægi þjónustu og hjálpartækja óháð tekjum. Hann benti auk þess á að það væru þessir sömu aðilar sem væru að vinna gegn okkur í “lífeyrissjóðamálinu”. Hann benti líka á að kynningarfundir, eins og sá í Gullteig hafi fyrst og fremst samanstaðið af lofræðum um skýrsluna en engar eða lítillar gagnrýni gætt.

Emil minnti á að ÖBÍ hafi ákveðið að taka þátt í þessu nefndarstarfi, en skildi jafn vel áhyggjur Garðars að það er einungis til þess sem við höfum tekið afstöðu til. Ef menn væru ekki full meðvitaðir um, að það væri það eina sem við höfum tekið afstöðu til, þá gætum við sogast inn í atburðarrás sem við kærðum okkur ekki um.

Ragnar Gunnar sagði að innan við helming félaganna hafin fengið hann á sinn fund til upplýsinga. Hann taldi að hægt væri að nálgast þetta mál á margs konar hátt og taldi mikilverðast að ÖBÍ setti fram skýr markmið um hvað bandalagið vildi fá út úr þessu starfi. Ef gera eigi breytingar, þá hafi ÖBÍ skýr markmið þar um. Hann minntist á viðhorfskönnunina og taldi að Öryrkjabandalagið ætti að leggja mun meiri áherslu á þau mál.

2. Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2008

Halldór Sævar gjaldkeri ÖBÍ, kynnti fjárhagsáætlunina ÖBÍ 2008 (sjá fylgiskjal).
Gert er ráð fyrir sömu upphæð árið 2008 og 2007. Halldór benti á þann gífurlega mun sem getur verið milli mánaða í Lottóinu og er hann rakinn til þess hvort potturinn er einfaldur, tvöfaldur eða jafn vel enn stærri. Nú eru vaxtartekjur settar inn sem tekjur, sem var samþykkt af framkvæmdastjórn á síðasta fundi hennar þannig að heildar tekjur eru 205 milljónir. Gert er ráð fyrir óbreyttu framlagi til aðildarfélaganna.

Nokkrar umræður urðu um fjárhagsáætlunina. Þórey Ólafsdóttir lýsti áhyggjum sínum, “fyrir hönd litlu félaganna” að ekki væri gert ráð fyrir hækkun styrkja til félaganna þó enn hafi fjölgað í bandalaginu. Vilmundi Gíslasyni fannst vanta samanburðartölur frá fyrra ári og tók gjaldkeri undir þá gagnrýni, sem hann taldi rétt að bæta úr á næst ári og þá jafnvel senda áætlunina út fyrir fund aðalstjórnar. Einnig lýstu fundarmenn yfir að lífeyrissjóðsskuldbindingar væru vaxandi áhyggjuefni. Áætlunin var síðan samþykkt samhljóða.

3. Skipulagsbreytingar ráðuneyta og nefndarstarf á vegum stjórnvalda

Formaður ræddi færslu Tryggingastofnunar um áramótin frá Heilbrigðisráðuneytinu yfir til Félagsmálaráðuneytisins að undanskildum sjúkra- og slysatryggingunum. Fyrstu mánuðina mun þetta ekki þýða neinar breytingar en það verða tvær stjórnir, önnur yfir Tryggingastofnun og hin yfir Innkaupastofnun sjúkraþjónustu. Aðskilnaðurinn verður algerlega stjórnunarlega séð 1. september 2008.

Formaður las upp bréf sem hann hafði sent forsætis-, utanríkis-, félagsmála- og fjármálaráðherra, þar sem hann óskaði eftir fundi með þeim vegna þeirra 1600 sem sætt hafa skerðingu eða niðurfellingar lífeyrissjóð um næstu áramót. Hann taldi að starf ÖBÍ í nefndarstarfi forsætisráðuneytisins um breytingu á örorkumati og aukna endurhæfingu í uppnámi.

Hann lagði til að aðalstjórnin hittist 10. janúar kl. 14:00 á þeim stað sem ákveðin verði síðar og á þeim fundi verði tekin ákvörðun um það hvort samstarfinu verði slitið.

Formaður ræddi ráðstafanir ríkistjórnarinnar sem hún kynnti í gær og fagnaði sérstaklega afnámi tengingu við tekjur maka og þær aðgerðir sem í þessu felast til lagfæringa á endurreikninga bóta almannatrygginga, sem að árvisst hafa mætt sérstaklega á starfsfólki ÖBÍ. Hann taldi rétt að ítreka  við ríkisstjórnina að ÖBÍ væri tilbúið að aðstoða ríkisstjórnina hvernig þessum tveim milljörðum yrði ráðstafað best fyrir öryrkja.

Garðar Sverrisson minnti á að annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, hefði lýst því yfir að þrátt fyrir þá niðurstöðu hæstaréttar að okkur hefði ekki tekist að færa nægar sönnur á loforð þáverandi stjórnar, þá mundi Samfylkingin um leið og hún kæmist til valda leggja fram þann hálfa milljarð sem uppá vantaði í samninginn. Þetta sé mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er við núverandi stjórn að þessi orð eru ekki gleymd. Varðandi lífeyrissjóðina er líka mikilvægt að minna á að þeir eru löngu orðnir að hluta af velmegunarkerfinu og því skylda ríkisstjórnarinnar að verja þessi réttindi. Hann lagði til að auglýsingum verði beitt til að minna fólk á hvernig sumir lífeyrissjóðirnir vinni hreinlega gegn sínum eigin félögum.

Formaður tók undir þessa tillögu Garðars, en lagði einnig til að menn reyndu að komast inn í stjórnir sjóðanna. Guðmundur Magnússon minnti á áherslur ÖBÍ sem samþykktar voru á aðalstjórnarfundi 19. september síðastliðinum, einkum að tvöfalda grunnlífeyrinn. Hann minnti einnig á að enn væri verið að tala um “vasapeninga”, þar sem fólki er mismunað eftir búsetuformi. Þess í stað ætti að greiða fullar örorku- eða ellilífeyrisgreiðslur og menn greiddu síðan húsaleigu og tækju eðlilegan þátt í fæðis og rekstrarkostnaði heimilisins, en ríkið umönnunarkostnað.

Halla B. Þorkelsson ræddi hve lífeyrissjóðirnir væru misjafnir og skertu á ólíkan hátt og mismikið. Það væri tilvalið að auglýsa hverjir væru að sinna sínum félögum best og hverjir ekki. Guðmundur S. Johnsen tók undir þörfina að halda lífeyrissjóðunum við efnið og lagði til að menn fjölmenntu þar sem þeir funduðu og létu þá aldrei í friði.

Emil Thoroddsen minnt á að “allir þessir milljarðar” færu í neyslu sem gæfi líka peninga í ríkiskassann og það væri því fróðlegt að vita hvernig þetta væri reiknað.

Nokkrar umræður urðu um ólýðræðislega stjórnarhætti lífeyrissjóðanna og voru menn mjög á því máli að upplýsa fólk um sjóðina. Hafdís Gísladóttir minnti á að það voru 460 kærur sem fóru frá ÖBÍ fyrir rúmu ári síðan og við séum fremur vopnlaus um þessar mundir meðan beðið væri eftir dómsúrskurði og umboðsmanni Alþingis. Hún auglýsti eftir fólki sem væri tilbúið í hugmyndavinnu að skipulögðum aðgerðum eftir áramót. Hún benti á að það væri ekki sama hverjir væru í forsvari og ábyrgð ASÍ og fara fram á breytingu á lögunum, því ef að þetta á ekki að vera samtrygging og bara vera ellilífeyrir þá vilji hún fá að velja hvar hún sparar til elliáranna.

4. Önnur mál

Formaður lagði fram tillögu meirihluta framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalagsins um nýja stjórn Brynju hússjóð Öryrkjabandalagsins. Stjórn var þar síðast skipuð 6. desember 2004, en samkvæmt skipulagsskrá er skipað til þriggja ára. Tillagan er um : Þóru M. Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Styrktarfélags vangefinna; Guðjón Sigurðsson formann MND; Svan Kristjánsson prófessor, formann Geðhjálpar og Sigrúnu Björgu Þorgrímsdóttur framkvæmdastjóra Hansaeigna ehf. Hann las síðan upp kosti þeirra hvers fyrir sig og minnti á að fráfarandi stjórn hafi verið óbreytt í 10 ár og þakkaði þeim þeirra störf undangengi ár. Það hafa verið miklir umbrotatímar hjá Brynju hússjóð og verða áreiðanlega áfram.

Emil Thoroddsen gerði grein fyrir minnihluta framkvæmdastjórnar, sem taldi að kjósa hefði átt um einstaklinga en ekki lista og þá skoðun að þeir sem skipuðu minni hlutann hefðu talið mikilvægt að skipta ekki um alla stjórnina til að halda inni eðlilegri framvindu í þeim málum sem verið væri að vinna í. Þetta væri stórt mál enda verið að véla um heimili fjölda fólks. Hann hafi því lagt til annan lista, það er að segja fráfarandi stjórn. Hann efaðist um að tillagan væri tæk þar sem ekki hafi verið ljóst fyrr að frambjóðendur settu það sem skilyrði að allir hinir væru kosnir líka.

Um þetta urðu nokkrar umræður og voru menn ekki á eitt sáttir. Helst var gagnrýnt að skipta út allri stjórninni og sagði Garðar Sverrisson m.a. að mikilvægt væri fyrir nýja stjórn að hafa einhvern áfram sem hefði tengsl við fortíðina. Hann spurði formann hvort þetta fólk gæfi einungis kost á sér ef hinir þrír væru kosnir líka og játti hann því. Hann sagði síðan að hann hefði lagt þennan list fram fyrir framkvæmdastjórn og meirihluti samþykkt. Vilmundur taldi að þetta hefði átt að koma fram í fundarboði, en ekki bara undir önnur mál. Einnig  gagnrýndi hann að stinga upp á Sigrúnu sem væri framkvæmdastjóri eins stærsta byggingarfélags landsins. Undir þetta tók Þórunn Pálsdóttir og spurði hvort þessi störf væru launuð og benti í farmhaldi á að það hlyti að finnast einhver innan ÖBÍ sem væri jafn fær til að gegna þessum störfum.

Guðmundur Johnsen tók undir gagnrýni fyrri ræðumanna og lagði til að kosningu um þetta yrði frestað til næsta fundar aðalstjórnar, svo menn gætu tekið upplýsta ákvörðun. Ragnar Gunnar sagðist hafa tekið eftir því fyrir löngu hve miklir gallar væru á skipan í nefndir og ráð ÖBÍ og boðaði tillögu um úrbætur síðar á fundinum. Einnig tóku til máls Helgi Hauksson og Garðar Sverrisson og tóku undir þá tillögu að fresta málinu og þá jafnframt að framkvæmdastjórn reyndi að setja saman einhvern þann bræðing að héldist samfella í stjórninni.

Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að fresta málinu til næsta fundar aðalstjórnar.

Formaður óskaði eftir því við Ragnar Gunnar að hans tillögu yrði einnig frestað til næsta fundar og samþykkti hann það.

Formaður lagði fram ályktun aðalstjórnar ÖBÍ,  þar sem hún lýsir eindreginni andstöðu við yfirstandandi aðgerðir lífeyrissjóða gegn öryrkjum. Kom fram ein tillaga um smávægilega breytingu sem var samþykkt.  Var tillagan síðan samþykkt svohljóðandi með öllum greiddum atkvæðum;

 

Ályktun Aðalstjórnar ÖBÍ

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir og lýsir eindreginni andstöðu við yfirstandandi aðgerðir lífeyrissjóða gegn öryrkjum. Með aðgerðum sínum hafa stjórnir lífeyrissjóðanna sett kjör og réttindi öryrkja aftast í forgangsröðina og vegið harkalega að því samtryggingarhlutverki sem lífeyrissjóðunum er ætlað og er grundvöllur skylduaðildar landsmanna að lífeyrissjóðum. Fleiri lífeyrissjóðir hafa tilkynnt um aðgerðir og að óbreyttu munu aðgerðir sjóðanna rústa afkomu þúsunda Íslendinga á næstu 2-3 árum.

ÖBÍ skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja þeim sjúku og fötluðu, sem verða fyrir skerðingum og niðurfellingum af hálfu lífeyrissjóða, þegar í stað fullan lífeyri á móti. ÖBÍ skorar jafnframt á aðildarfélög Alþýðusambands Íslands, sem eiga fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóðanna að beita sér nú af heilindum og réttsýni í þágu þeirra félagsmanna sinna sem mest þurfa á stuðningi heildarsamtaka launafólks að halda nú fyrir jólin.

Reykjavík, 6. desember 2007

Fundi slitið kl 19:20

Fundarritari Guðmundur Magnússon