Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 6. júní 2013

By 17. desember 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 6. júní 2013, kl. 17.00 – 19.00 í Hátúni 10, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar og gestir

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Gísli Helgason
CCU samtökin – Hrönn Petersen
FAAS – Sigríður Eyjólfsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Bernharð Guðmundsson
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Vilhjálmur Þór Þórisson
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Ólöf Þráinsdóttir
LAUF, félag flogaveikra – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Nanna G. Yngvadóttir
MG félag Íslands – Bryndís Theodórsdóttir
MND félagið – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Ólína Sveinsdóttir
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
Sjálfsbjörg – Hilmar Guðmundsson
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Tourette-samtökin á Íslandi – Örnólfur Thorlacius
Umsjónarfélag einhverfra/Einhverfusamtökin – Svavar Kjarrval

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins bauð fundarmenn velkomna og kynnti Klöru Geirsdóttur, Félagi CP á Íslandi sem fundarstjóra og Brynhildi Arthúrsdóttur, LAUF, sem tímavörð. Eftirtaldir einstaklingar voru samþykktir sem aukafulltrúar sinna félaga: Hilmar Guðmundsson, Sjálfsbjörg, Jón Gunnar Jónsson, FSFH, Sigríður Eyjólfsdóttir, FAAS og Ólöf Þráinsdóttir, Hugarfari. Fundarmenn kynntu sig. Fundarstjóri bar upp breytingartillögu um að myndataka verði færð niður fyrir 5. lið á dagskrá. Samþykkt.

2.  Fundargerðir frá 2. maí 2013 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður fór í stuttu máli yfir skýrslu sína sem send hafði verið til aðalstjórnarfulltrúa í tölvupósti fyrir fundinn. Meðal annars kom fram að flest, ef ekki öll, dómsmál sem bandalagið hefur staðið að undanfarið hafa fengið gjafsókn. Formaður nefndi að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur fengið skammstöfunina SRFF og bað fólk um að nota það í daglegu tali

Umræður.

Spurt var hvað átt væri við þegar talað væri um lítil félög í tengslum við Almannaheill? Formaður svaraði því til að stærð félaga sem gengju í Almannaheill byggðist á veltu þeirra en ekki fjölda. Þar sem félagsgjöld voru prósenta af veltu þá voru sum félög sem ekki gátu verið með í samtökunum af fjárhagslegum ástæðum, sérstaklega félög með litla veltu.

Formaður var beðinn um að segja frá því í stuttu máli fyrir hvað Almannaheill stendur. Formaður sagði frá því að mesta púðrið hafi farið í að reyna að fá fram breytingar á skattalöggjöf, fá niðurfellingu á sköttum vegna gjafa o.fl. Nú er unnið að endurskoðun félagalaga, undir stjórn Rögnu Árnadóttur, fyrrum ráðherra og fyrrverandi formanns Almannaheilla. Fyrirmynd nýrra laga eru finnsk lög, þar er meðal annars gert ráð fyrir að félög verði innan firmaskrár, ítarlegar en er í dag og að þau uppfylli ákveðin skilyrði til að geta talist almannaheillafélög.

Spurt var hvort gert væri ráð fyrir að hvert félag gengi í Almannaheill eða eingöngu bandalagið sjálft? Formaður svaraði því til að t.d. væru Blindrafélagið og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra í Almannaheill en félögin réðu því sjálf. Þetta færi eftir því hvað félögin teldu sér vera fyrir bestu. CP félagið var félagi en treysti sér ekki að vera áfram vegna kostnaðar.

Formaður sagði frá fundi sem hann og Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri fóru á með Eyglóu Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hreinskiptar umræður voru en engin loforð gefin. Eygló tilkynnti að hún myndi leggja fram frumvarp fyrir ríkisstjórnina til að afturkalla hluta af skerðingunum frá 2009. Á fundinum lagði formaður áherslu á að raunverulegar hækkanir á bótum yrðu að koma til framkvæmda strax en ráðherra sagði að það yrði ekki rætt fyrr en á haustþingi.

4.  Myndataka.

Myndatöku var frestað fram yfir næsta lið.

5.  Skipan nefndar um endurskoðun á reglum um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ.

Lista var dreift til fundarmanna með nöfnum þeirra sem aðildarfélögin tilnefndu. Brynhildur tók við stjórn fundarins þar sem Klara var meðal tilnefndra aðila. Eftirtaldar níu tilnefningar bárust: Gísli Helgason, Blindravinafélagi Íslands, Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra, Hjörtur Heiðar Jónsson, Heyrnarhjálp, Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum, Klara Geirsdóttir, Félagi CP á Íslandi, Pétur J. Jónasson, SÍBS, Sigrún Gunnarsdóttir, Einhverfusamtökunum, Ingi Hans Ágústsson, HIV Íslandi og Ægir Lúðvíksson, MND félaginu. Þeir tilnefndu sem voru mættir á fundinn kynntu sig.

Í nefndinni verða fimm aðalmenn og tveir varamenn. Formaður bað fulltrúa að hafa það í huga þegar atkvæði væru greidd að nefndinni væri ætlað að endurspegla öll félögin, frá þeim minnstu til þeirra stærstu og að hugsa um kynjajafnrétti.

Atkvæðaseðlar voru 30, 29 gildir og 1 ógildur. Kosningar fóru þannig:

Klara Geirsdóttir 27 atkvæði
Jón Þorkelsson 25 atkvæði
Ægir Lúðvíksson 23 atkvæði
Sigrún Gunnarsdóttir 19 atkvæði
Gísli Helgason 13 atkvæði
Hjörtur Heiðar Jónsson 11 atkvæði
Pétur J. Jónasson 10 atkvæði
Ingi Hans Ágústsson 8 atkvæði
Guðmundur S. Johnsen 8 atkvæði

Í nefndinni sitja því Klara, Jón, Ægir, Sigrún og Gísli. Varamenn eru Hjörtur og Pétur. Staðfest með lófaklappi.

6.  Sigtún 42, nýting húsnæðisins.

Formaður kynnti nýjustu stöðu varðandi nýtingu húsnæðisins að Sigtúni 42 og bað fundarmenn að ræða hvort félögin eigi að flytja með eða ekki, hvort salir, ef þeir verða í húsinu, eigi eingöngu að vera nýttir af bandalaginu eða hvort að aðildarfélögin og utanaðkomandi aðilar ættu líka að hafa aðgang að þeim. Húsnæðið verður gert aðgengilegt fyrir alla. Í annarri álmunni er eldhús sem hefur verið nýtt sem mötuneyti í hádeginu. Eftir er að ræða hvort breyting verði á því fyrirkomulagi við flutning ÖBÍ.

Umræður.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að aðildarfélögin sem eru innan Þjónustuseturs líknarfélaga sem hefur aðsetur á 9. hæð í Hátúni 10 hafi flest ekki áhuga á að flytja með í Sigtún. Við flutning ÖBÍ býðst þeim að fara niður á 1. hæð þar sem skrifstofur ÖBÍ eru í Hátúni 10. Tvö aðildarfélög hafa sent bandalaginu fyrirspurn um það hvort þau fái leigða aðstöðu í Sigtúni. Möguleiki er á að útbúa sal fyrir aðalstjórnarfundi og stóra viðburði í álmunni sem verður til útleigu. Ræða þarf málið og taka ákvörðun um hvort slíkur salur eigi að vera til staðar eða ekki.

Fimm fundarmanna tóku til máls og voru menn jákvæðir fyrir því að salur yrði í húsnæðinu sem að aðildarfélögin gætu fengið leigðan en jafnframt var bent á að hugsa þyrfti um kostnað við rekstur húsnæðisins áður en ákvörðun yrði tekin. Kostir þess að leigja aðildarfélögum aðstöðu er samstarf og nálægð félaganna og ÖBÍ. Nefnt var að virkni félaganna í nefndum og öðru gæti hugsanlega aukist við að vera í sama húsnæði og bandalagið. Mörg félaganna eru ekki með fasta skrifstofu og það getur verið erfitt að finna aðgengilegt húsnæði til að halda stóra fundi. Sumir töldu það hluta af þjónustu bandalagsins við aðildarfélögin að geta boðið upp á húsnæði, sérstaklega fyrir aðalstjórnarfundi. Bent var á að oft vantaði lítið fundarherbergi, fyrir um 12 til 15 manns. Einnig er nauðsynlegt ef salir eru fyrir hendi að þeir verði fullkomlega aðgengilegir að öllu leyti, hvort sem um sé að ræða almennt aðgengi eða tæknilega séð. Lagt var til að fundið yrði gott nafn á húsnæðið.

Formaður sagði að gert væri ráð fyrir fundarherbergi fyrir framkvæmdastjórnarfundi og nefndarfundi. Einnig væri spurning um að hafa stóran sal sem hægt væri að skipta upp í smærri sali.

Fundarstjóri benti fundarmönnum á að hægt væri að senda húsnæðisnefnd hugmyndir vegna nýja húsnæðsins.

7.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn fimmtudaginn 22. ágúst, kl. 17-19.

8.  Önnur mál.

a)    Aðildarumsókn.

Formaður sagði frá því að borist hefði bréf frá nýjum formanni Geðhjálpar þar sem félagið óskar eftir því að ganga aftur inn í bandalagið. Því var fagnað með lófataki.

b)   Hjálpartækjasýning hjá Þekkingar- og þjónustumiðstöð Sjálfsbjargar.

Fundarstjóri kynnti Hjálpartækjasýningu Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar sem haldin verður í Íþróttahúsi fatlaðra, ÍFR, Hátúni 14, föstudaginn 8. og 9. júní nk., kl. 10-17. Fundarmenn voru hvattir til að fara á sýninguna.

c)    Kriki.

Hilmar Guðmundsson, Sjálfsbjörg sagði frá styrktarkaffi til styrktar Krika, sumarfélagsstað Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, sem er staðsettur við Elliðavatn. Opið er alla daga frá kl. 13 til 18 nema á föstudögum en þá eru grillaðar pylsur milli kl. 17 og 19. Allir eru velkomnir.

d)   Greiningarfundur 7. september 2013.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að skipulagsnefnd bandalagsins hafi sent aðildarfélögunum bréf þar sem þau eru beðin um að taka laugardagurinn 7. september frá, vegna greiningarfundar sem fyrirhugað er að halda með félögunum varðandi skipulag bandalagsins. Starfsmaður skipulagsnefndar er Hrönn Pétursdóttir.

9.  Fundarslit.

Formaður þakkaði góða fundarstjórn og sleit fundi kl. 18:50.

Fundarritarar, Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.