Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 7. febrúar 2013

By 22. apríl 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 7. febrúar 2013, kl. 17.00 – 19.00, í Hátúni 10, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

ADHD – Harpa Lind Hrafnsdóttir
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson og Guðrún Þórðardóttir
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson og Kristinn Halldór Einarsson
CCU samtökin – Hrönn Petersen
FAAS – Sigríður Eyjólfsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir og Íris Rut Erlingsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra – Vilhjálmur Þór Þórisson og Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen og Einar S. Ingólfsson
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon og Kolbrún Stefánsdóttir
HIV Ísland, alnæmissamtökin á Íslandi – Svavar G. Jónsson og Einar Þór Jónsson
Hugarfar – Kristín Michelsen
LAUF, félag flogaveikra – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Eyrún Sigrúnardóttir og Jóhanna Sól Haraldsdóttir
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson og Guðjón Sigurðsson
MS félag Íslands – Steinunn Þóra Árnadóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson og Ólína Sveinsdóttir
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Sveinn Guðmundsson
Sjálfsbjörg – Hannes Sigurðsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson og Heiðar Sigurðsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir og Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin – Örnólfur Thorlacius
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir og Svavar Kjarrval

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Þorbera Fjölnisdóttir, ráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari og starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, setti fund kl. 17:05 og bauð fundarmenn velkomna. Fundarmenn kynntu sig.

Erna Arngrímsdóttir tók við fundinum sem fundarstjóri og Klara Geirsdóttir sem tímavörður.

2.  Helstu niðurstöður úttektar á því hvort að hagsmunum fatlaðs fólks á Íslandi sé betur borgið með eða án aðildar að Evrópusambandinu.

Framhald frá 5. september sl. Kynnir Rannveig Traustadóttir prófessor og forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.

Rannveig Traustadóttir kom á aðalstjórnarfund ÖBÍ 5. september 2012 og kynnti þá vinnu sem fram fór áður en skýrsla um málið var skrifuð. Skýrslan var skrifuð með það í huga að hún væri aðgengileg fyrir alla, einnig þá sem hefðu enga þekkingu á Evrópusambandinu (ESB) og efninu.

Framkvæmdastjórn ESB er eins og ríkisstjórn. ESB skiptist niður í mismunandi málefnaskrifstofur sem eru eins og ráðuneyti. Deild fyrir málefni fatlaðs fólks er staðsett innan Málefnaskrifstofu um atvinnu, félagsmál og þátttöku. Skrifstofa sem kennd er við réttlæti sér um að hrinda í framkvæmd framkvæmdaáætlun fyrir 2010 til 2020, sem byggir á sáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks og miðar að því að koma ákvæðum hans í framkvæmd og hefur eftirlit með innleiðingu sáttmálans. Það eykur mjög gildi sáttmálans að ESB undirritaði hann og staðfesti í desember 2010. Þetta er í fyrsta skipti sem ESB lögfestir eða staðfestir samning af þessu tagi. Áður höfðu 23 af 27 löndum Evrópu lögfest samninginn.

Stefna ESB fyrir árin 2010 til 2020 byggir á stefnunni um Evrópu án hindrana fyrir fatlað fólk. Í Evrópu er fatlað fólk talið vera um 80 milljónir. Stefnan kveður á um að fatlað fólk eigi rétt á fullri og jafnri þátttöku í samfélagi og efnahagslífi, félagslega sem og fjárhagslega. Hindrun á jöfnum tækifærum er skilgreind sem mannréttindabrot.

Ýmsum samtökum er leyft að ávarpa evrópuþingið og koma sínum málum á framfæri. Árið 2011 ávarpaði Freyja Haraldsdóttir evrópuþingið og lagði fram kröfur fyrir hönd frelsisgöngunnar í Strassbourg. ÖBÍ er aðili að European Disability Forum (EDF) en EDF er helsti samstarfsaðili ESB í málefnum fatlaðs fólks. EDF rýnir í löggjöf ESB, heldur málefnum fatlaðs fólks á lofti og vinnur að því að fatlað fólk geti farið landa á milli innan Evrópu og flutt réttindi sín með sér.

Við inngöngu í ESB er hægt að komast í uppbyggingarstyrki, sem eru byggðastyrkir og félagslegir styrkir, þar sem lögð er áhersla á að allir geti verið þátttakendur í samfélaginu. Félög fatlaðra gætu haft hag að því að komast í slíka styrki. Unnið er að löggjöf um aðgengi, það er að tryggt sé að framleiðsluvörur, bankastarfsemi og fleira verði aðgengilegt öllum. Þetta er ný nálgun til að tryggja samfélagsþátttöku allra.

Niðurstöður skýrslunnar eru þær að málefni fatlaðs fólks eru ofarlega á dagskrá hjá ESB. Markmið eru háleit og faglega er staðið að málum. Engin stefnumótun tengist þessum málaflokki á Íslandi og er engin löggjöf til hérlendis varðandi mismunun. Aðild að ESB myndi færa málaflokkinn ofar á dagskrá og njóta meiri pólitískrar athygli. Einnig myndi aðild hugsanlega gera það að verkum að ítarlegri greining yrði gerð á aðstöðu fatlaðs fólks hér á landi og skapa þannig aukna þekkingu í gegnum rannsóknir og upplýsingaöflun. Aukinn þrýstingur væri á lögfestingu og innleiðingu sáttmálans og eftirlit með framkvæmd hans. Þeir sem stunda smáríkjarannsóknir segja að smáríki hafi töluverð áhrif innan ESB en áhrif Íslands í dag eru engin.

Rannveig metur það svo að hagsmunum fatlaðs fólks á Íslandi væri betur borgið innan ESB en utan þess. Hún undirstrikaði að aðild skapar ekki annað en möguleika til jákvæðrar framþróunar. Íslensk stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ýta á að af breytingum verði. Ekki var tekin afstaða til þess hvort hagsmunum Íslands sé almennt betur borgið innan eða utan ESB, einungis var skoðuð aðild í tengslum við málaflokk fatlaðs fólks.

3.  Viðbrögð við skýrslunni.

Kristinn Halldór Einarsson, Blindrafélaginu.

Kristinn rifjaði upp hvernig þetta mál og umfjöllun væri tilkomin. Á aðalfundi ÖBÍ 2010 var samþykkt tillaga um að stjórn ÖBÍ léti fara fram óháð hagsmunamat á því hvort að hagsmunum fatlaðs fólks á Íslandi væri betur borgið með eða án aðildar að ESB. Slíkt hagsmunamat hefur verið gert fyrir mörg samtök á Íslandi sem flykkja sér svo um niðurstöðuna, hvort sem hún er með eða á móti aðild. Því var forvitnilegt að fá greiningu á því hvernig þessi mál stæðu gagnvart hagsmunum fatlaðs fólks.

Skýrsla hefur nú verið samin af rannsóknasetri í fötlunarfræðum við HÍ. Niðurstaðan er nokkuð klár þó að menn geti haft sínar persónulegu pólitísku skoðanir á hvort Ísland eigi að ganga í ESB eða ekki. Spurningin er hvað gera eigi við skýrsluna og niðurstöðuna? Annars vegar er hægt að taka niðurstöðu skýrslunnar og setja hana inn í stefnu ÖBÍ, hins vegar að segja ekki frá skýrslunni og aðhafast ekkert. Bandalagið þarf að gæta að hagsmunum sinna skjólstæðinga og félagsmanna. Öll stór framfaraskref í mannréttindamálum hafa verið tekin í alþjóðlegu samstarfi.

Guðjón Sigurðsson, MND félaginu.

Umræður um aðild munu kljúfa þjóðina þar til vitað er hvernig samningar ríkisins við ESB verða. Við erum háð heildarútkomunni því við erum hluti af þjóðinni. Klárum viðræðurnar og þá vitum við um kosti og galla aðildar.

Guðjón ásamt fleirum fór á fund ESB árið 2012 sem fjallaði um 33. grein sáttmála SÞ og hvernig gengi að framfylgja sáttmálanum. Mikil áhersla var lögð á að þetta væri mannréttindasáttmáli og að hafa fatlað fólk með í ráðum á öllum stigum, alltaf. Embættismenn frá ýmsum löndum Evrópu lýstu hlutum í heimalandi sínu en viðstaddir notendur þjónustunnar könnuðust ekki við fagrar lýsingar þeirra. Jamie Bolling hjá ENIL (European Network on Independent Living) er mjög virt innan samtaka fatlaðra og hennar upplifun er að við inngöngu austantjaldslandanna hafi þjónusta versnað og sé verri en nokkru sinni fyrr. Aðild að ESB tryggir því ekkert.

4.  Fyrirspurnir og umræður.

Fundarstjóri tilkynnti að hver fyrirspyrjandi fengi 2 mínútur til að ræða málin og ef beðið er um orðið aftur þá fái viðkomandi 1 mínútu.

Sex fundarmenn tóku til máls og voru þeir almennt ánægðir með skýrslu Rannveigar en bent var á að framkvæmdaþáttinn vantaði. Margt gengur betur á Íslandi en erlendis þrátt fyrir léleg lög og litla áherslu yfirvalda á málaflokkinn. Nóg ætti að vera að staðfesta sáttmála SÞ og framfylgja honum. Embættismenn gefa skýrslur um stöðu mála og hefur reynslan sýnt að þær eru ekki alltaf réttar, því sé ekki allt fengið með inngöngu. Einn fundarmanna taldi að gera ætti skýrsluna og niðurstöður hennar kunnar. Það væru fagleg vinnubrögð að flagga upplýsingum en ekki að setja þær undir stól. Fundarmenn voru almennt ekki sammála um hvað gera ætti við niðurstöðuna. Nefnt var að ef menn tækju beina afstöðu með eða á móti þá gæti samstaða bandalagsins skaðast. Þar sem fólk innan ÖBÍ værií flestum störfum til lands og sjávar getur ÖBÍ ekki tekið einhliða stefnu í málinu, öllum ætti að vera frjálst að vera með eða á móti.

Spurt var hvort til væru lífskjaramælingar innan ESB, þar sem gerður er samanburður á lífskjörum fólks milli ólíkra evrópusambandslanda og hvort það séu aðrar breytur en stefna ESB sem ráða lífskjörum fatlaðs fólks? Í einum af lokapunkti skýrslunnar kemur fram að aðild skapar jákvæða niðurstöðu til þróunar en tryggir hana ekki. Er eitthvað sem ESB gerir sem ekki er hægt að gera á Íslandi án þess að verða aðilar? Eru ÖBÍ og hagsmunafélög undirbúin fyrir aðild að ESB? Er til staður á Íslandi sem getur aðstoðað félög við að sækja um styrki? Notum við öll þau vopn og tækifæri sem eru til staðar? Vitum við hvað býður okkar ef við förum inn í ESB? Er hægt að flytja NPA með sér frá Íslandi ef manni dytti í hug að flytja til Spánar?

Rannveig svaraði því til að rétt væri að stefna og framkvæmdaáætlun væri eitt og framkvæmd annað. Mörg lönd innan ESB standa mjög illa að mannréttindamálum og víða er vont ástand, til dæmis er fólk lokað inni í rúmum sem eru eins og búr á geðsjúkrahúsum í fyrrum austantjaldslöndunum. Það sem ESB reynir að gera er að bæta aðstæður, þrýsta á lönd sem standa sig ekki nógu vel og beina þeim í rétta átt miðað við nýjar áherslur og skilning á mannréttindum. Evrópuráðið er annað en Evrópusambandið og fyrir nokkrum árum voru nokkrir aðilar frá norðurlöndum fengnir til að fara á vegum Evrópuráðsins til Pétursborgar að segja frá því hvað breyst hafi við að hætta að loka börn inni á stofnunum. Mikill áhugi er innan ESB að hafa áhrif og eru uppbyggingastyrkirnir ætlaðir til að aðstoða minnihlutahópa og hafa jákvæð áhrif á þá. Aðildarríki innan ESB vilja halda sjálfstæði sínu og er umræða um það hér á landi að hve miklu leyti ríki afsala sínu sjálfstæði.

Rannveig tók undir með Kristni að stór mannréttindaskref hafa alltaf verið tekin af fjölþjóða- og alþjóðlegum stofnunum. Mannréttindastofnun Evrópu lagði grunninn að kynjajafnrétti sem hefur orðið árangursríkt á Íslandi. ESB reynir að hafa jákvæð áhrif í átt til fullra mannréttinda fyrir alla þegna Evrópu. ESB stjórnar ekki evrópulöndum en reynir með lagasetningum í gegnum samstarf á evrópuþingi að breyta hlutum. Íslendingar ásamt Norðmönnum eru aðilar að EES samningnum. Hann nær yfir mjög marga þætti og samkvæmt honum ber okkur að taka upp ýmislegt án þess að hafa neinn möguleika á að hafa áhrif á lagasetningu. Við erum því hluti af ESB án þess að vera aðilar að sambandinu.

Ekki er hægt að svara því hvort hagsmunasamtök séu tilbúin að ganga inn í ESB og hvað bíði þar. Þátttaka í ESB gefur hins vegar mjög góða mannréttindaumgjörð til að vinna innan og styrkir þar sem gert er hérlendis. Til eru rannsóknir sem sýna stöðu mála, mikið er af slíku á vef ANED, meðal annars er þar skýrsla um evrópuverkefni þar sem safnað var upplýsingum frá 34 löndum, þar af 27 evrópuríkjum. Til eru skýrslur frá þessum löndum um atvinnumál, bætur og bótaflokka, svo eitthvað sé nefnt. Þar sem Ísland er lítil þjóð höfum við ekki burði til að gera mikið af rannsóknum til að standa vel að flóknum málaflokki eins og málaflokki fatlaðs fólks. Sú faglega vinna sem fer fram innan ESB gefur okkur umgjörð sem styrkir okkur hérlendis.

Hvert aðildarríki ákveður hvort hægt sé að flytja NPA með sér. Doktorsnemi frá Írlandi með NPA ætlaði að koma til Íslands en komst ekki því hún gat ekki flutt það með sér. ESB var skrifað bréf og gerðar hafa verið athugasemdir við þetta hvar sem hægt er, að fatlað fólk sem stundar háskólanám geti haft fríar hendur eins og aðrir að komast á milli.

Fundarstjóri þakkaði Rannveigu fyrir skýrsluna og fyrirlesturinn.

5.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur er 14. mars og verður dagskrá send út fyrir þann tíma.

Opinn fundur verður haldinn um sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks 20. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica, kl. 14-16. Tvö erindi verða flutt þar, annars vegar verður Rannveig Traustadóttir með erindi um nýja hugmyndafræði sem sáttmálinn byggist á. Hins vegar verður Brynhildur Flóvenz, lögfræðingur, með erindi um lögfræðilegu hlið málsins. Frambjóðendur munu mæta og svara spurningum sem sendar hafa verið til þeirra fyrirfram. Einnig munu Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, Gerður Aagot Árnadóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannrétindaskrifstofu Íslands spyrja frambjóðendur.

6.  Fundarslit.

Formaður þakkaði fundarstjóra og tímaverði fyrir góða fundarstjórn og sleit fundi kl. 18:55.

Fundarritari, Þórný Björk Jakobsdóttir.