Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 7. október 2009.

By 1. mars 2010No Comments

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ miðvikudaginn 7. október 2009, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 17.00. Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór S. Guðbergsson.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

Einar S. Ingólfsson, Gigtarfélaginu
Friðjón Erlendsson, Daufblindrafélaginu
Frímann Sigurnýasson, SÍBS
Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir, Blindravinafélaginu
Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ
Guðmundur Magnússon, SEM-samtökunum
Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp
Halldór S. Guðbergsson, Blindrafélaginu
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi H. Ágústsson, HIV-Íslandi
Ingibjörg Sigfúsdóttir, MS-félaginu
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra
Kristín Ármannsdóttir, FSFH
Kristín Michelsen, Hugarfari
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Ómar G. Bragason, Samtökum sykursjúkra
Pétur Ágústsson, MG-félaginu
Sigurður Þ. Sigurðsson, Ás, styrktarfélagi
Sigursteinn Másson, Geðhjálp
Ægir Lúðvíksson, MND-félaginu

Starfsfólk ÖBÍ

Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig

Halldór Sævar Guðbergsson formaður ÖBÍ setti fundinn og bauð gest fundarins velkominn, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, varaformann félags- og tryggingamálanefndar Alþingis. Þessu næst bað hann fundarmenn um að kynna sig. Ákveðið var að fara beint í 4. lið dagskrár.

4. Fjárlög íslenska ríkisins

Formaður nefndi að fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2010 komu út fyrir helgi og sagði ÖBÍ hafa miklar áhyggjur af því sem fram kemur í frumvarpinu. Ekki er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki, t.d. verði engin vísitöluhækkun um næstu áramót. Sagði hann að oft væri talið að öryrkjar bæru tvöfaldar byrðar, þ.e. skattahækkanir og skerðingar á bótum.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttur varaformaður félags- og tryggingamálanefndar Alþingis hélt framsöguerindi um fjárlögin. Hún sagði að mikilvægt væri að hafa sem mest samstarf milli ÖBÍ og Alþingis. Í sumar var unnið að jöfnuði í ríkisfjármálum og endurspeglar það starf þær pólitísku meginlínur sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu. Sigríður taldi að frumvarpið væri gott miðað við hversu slæmar aðstæður væru í íslensku þjóðfélagi. Ef ekki verður tekið á hallanum núna munu vaxtagjöld hækka á næstu árum og eyðileggja velferðarkerfið. Framlög til málefna fatlaðra lækka um 3,5% og þjónustustofnanir fatlaðra um 2,6 til 2,7%.

Í bandormi í sumar voru skerðingar á bótum almannatrygginga en tekið var fram að ekki yrði farið í skerðingar 2010. Hins vegar verða ekki verðlagsuppfærslur á bótum og engar launahækkanir nema á þau laun sem fram koma í stöðugleikasáttmálanum. Skerðingarhlutfall tekjutengingar hækkar í 45% eins og var árið 2006. Lífeyris- og atvinnutekjur hafa mun meiri áhrif á bætur almannatrygginga en áður. Þeir sem hafa meira en kr. 332.000 í tekjur fá ekkert úr almannatryggingakerfinu en markmiðið í starfi sumarsins var að standa vörð um sjálfstæði öryrkja og í því sambandi voru tekjutengingar öryrkja vegna tekna maka ekki teknar aftur upp.

Formaður sagði að það hefði valdið honum miklum vonbrigðum að ekki væri lögð nægilega mikil áhersla á að verja grunnþarfir fólks, s.s. lágmarksframfærslu og að ekki sé tekið tillit til verðlagsþróunar. Búast má við fjölgun þeirra sem þurfa að leita til hjálparstofnana. Hugsa þarf hlutina upp á nýtt, taka upp ný gildi og mun mikilvægara er að verja fólk en margar af þeim stofnunum sem fá óskert framlög á fjárlögum.

Opnað var fyrir umræður.

Rætt var um að fjárlagafrumvarpið væru mikil vonbrigði og að fólk sakni þess að sjá ekki ákveðnari stefnu ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum. Félagsmálanefnd þarf að hafa í huga að framlengja kr. 100.000 frítekjumark á launatekjur öryrkja. Fólk er uggandi vegna frétta þar sem fram kom að ellilífeyrir skerðist um 8% en bætur almannatrygginga um 27%. Spurt var hvort þær tölur geti staðist? Líklegt er að fjölgun öryrkja verði mikil á næstunni og því þarf að huga vel að endurhæfingu og starfsendurhæfingu. Svo virðist sem hagsmuna fjármagnseigenda sé betur gætt en þeirra hópa sem minna hafa milli handanna. Spurt var hvort ekki væri hægt að beita skattkerfinu betur? Hvað væri á bak við 65,6 milljóna kr. lækkun vegna frekari uppbóta, sbr. bls. 327 í frumvarpinu? Einnig var spurt hvort mikil skerðing yrði á sérhæfðum stofnunum sem tengjast ákveðnum málaflokkum?

Sigríður sagðist ekki sammála því að stjórnvöld væru að verja hag fjármagnseigenda. Varðandi hátt skerðingarhlutfall almannatrygginga þá gæti það verið komið til vegna skerðingar á aldurstengdri uppbót. Persónuafslátturinn mun ekki hækka miðað við verðlagshækkanir og er það mjög ósanngjarnt gagnvart þeim sem lægstar hafa tekjurnar, en þessi liður mun mjög líklega breytast í meðförum Alþingis. Öryrkjar lækka ekki frekar en það verður raunlækkun því bætur hækka ekki í samræmi við verðlag. Hátekjuskatti verður haldið inni ásamt því að almennir skattar verði hækkaðir en það verður að létta af þeim skattbyrði sem hafa ekki meira en kr. 180.000 á mánuði. Bótakerfið er allt tekjutengt og því er erfitt að vera með þrepaskiptingu í skattkerfinu. Þær breytingar eru of dýrar núna en hægt er að breyta þessu smám saman. Hún muni berjast fyrir persónuafslættinum. Gat ekki svarað spurningunni um hvaða bætur lægju á bak við frekari uppbætur.

Guðríður Ólafsdóttir benti á að um væri að ræða bætur vegna mikils kostnaðar, s.s. lyfja- og lækniskostnaðar.

Sigríður sagði einnig að sjúkrastofnanir og stofnanir sem veita velferðarþjónustu eiga að skerðast um 5% en stofnanir fatlaðra skerðast ekki nema um 2,6 til 2,7%, aðallega vegna þess að ekki er af miklu að taka hjá þeim stofnunum. Stofnanir sem fara með stjórnsýslu eru skertar um 10%, eins og Tryggingastofnun ríkisins og slíkar stofnanir.

Nefnt var að hjákátlegt sé að á sama tíma og stjórnvöld segja að eigi að verja þá sem eru með lægri tekjur en kr. 400.000 séu bætur almannatrygginga skertar. Sigríður var hvött til að taka málið upp hjá félags- og tryggingamálanefnd. Spurt var hvort staðgreiðsluprósenta yrði ekki hækkuð í 40% og hvort eignaskatti yrði ekki örugglega komið á? Einnig var spurt af hverju Alþingi fái um 5% hækkun á fjárlögum og bent á að ekkert hefði komið fram um að lækka ætti laun alþingismanna. Þá var bent á að þeir sem fá atvinnuleysisbætur mega vera með kr. 59.000 á mánuði í fjármagnstekjur án þess að bætur skerðist á meðan bætur öryrkja skerðast ef fjármagnstekjur þeirra eru hærri en kr. 98.640 á ári.

Sigríður var sammála athugasemdum varðandi hækkun til Alþingis sem ætti ekki að vera til staðar þegar niðurskurður væri nánast alls staðar annars staðar. Hún upplýsti að laun alþingismanna voru lækkuð í janúar. Skoða þarf vel fjármagnstekjur og áhrif þeirra til skerðinga á bætur almannatrygginga. Varðandi eignaskatt þá sagðist hún ekki vita hvort honum verði komið á. Stóreignaskattur væri skattur sem myndi leggjast helst á eldra fólk sem ætti skuldlausar eignir, sem það væri búið að vinna fyrir alla ævi. Það er táknrænt mikilvægt að fólk beri byrðarnar eftir getu. Ekki er búið að útfæra almenna tekjuskattsprósentu en að hennar mati þarf að hækka hana umtalsvert.

Formaður sagði það alveg ljóst að félög fatlaðra myndu á næstunni herja á stjórnvöld um breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Hann lagði áherslu á að meiri umræða þyrfti að fara fram hjá félögum fatlaðra um gildismat og framtíðarsýn. Þakkaði Sigríði fyrir komuna og sagði að brýnt væri að ÖBÍ sendi frá sér skilaboð vegna frumvarpsins. Leitað hefur verið til hagfræðings um hvað bætur ættu að hækka mikið um næstu áramót.

Gert var stutt kaffihlé og yfirgaf Sigríður fundinn.

Formaður lagði fram ályktun sem hljóðar svo:

Ályktun fundar aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 7. október 2009.

Ekki meir, ekki meir!
Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir harðlega að ríkisstjórnin, sem kennir sig við félagshyggju og jöfnuð, skuli áforma að halda áfram að skerða kjör öryrkja umfram aðra þegna landsins.

Álögur á öryrkja jukust í „góðærinu“ vegna heilbrigðismála, t.d. jókst lyfja- og lækniskostnaður. Auk þess fylgdi lífeyrir ekki verðþróun að fullu. Um síðustu áramót voru lög frá 1997, sem áttu að tryggja að lífeyrir hækkaði sem svaraði kjarasamningum eða framfærsluvísitölu, tekin úr sambandi. Aðeins lítill hluti lífeyrisþega fékk þá hækkun sem lögin sögðu til um.

Þann 1. júlí sl. voru breytingar gerðar á greiðslum almannatrygginga þegar lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum tóku gildi. Tekjutengingar jukust þannig að bætur almannatrygginga skertust meira og fyrr en áður. Sú breyting hafði þau áhrif að margt fólk missti ákveðin réttindi sem fylgdu bótunum s.s. niðurgreiðslu á sjúkra-, iðju- og talþjálfun og tannlæknakostnaði.

Auk þess hafa komið fram eða eru í bígerð beinar hækkanir, eða aukin þátttaka í lyfja-, læknis- og þjálfunarkostnaði.

Til að standa vörð um það sem eftir er af íslensku velferðarkerfi krefst Öryrkjabandalag Íslands að Alþingi endurskoði fjárlög 2010 með það að markmiði að verja kjör lífeyrisþega.

Nokkur umræða var um orðalag ályktunarinnar en að lokinni atkvæðagreiðslu var hún samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð borin upp til samþykktar

Fundargerð frá 9. september sl. lögð fram. Samþykkt samhljóða.

3. Skýrsla formanns

Formaður skýrði frá því að frá 1. september sl. hafi starfshlutfall hans hjá ÖBÍ lækkað þar sem hann hefur hafið störf hjá Þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð blindra og sjónskertra. Guðmundur Magnússon varaformaður hefur komið inn í dagleg störf i hans stað. Formaður hefur þó setið flesta fundi með stjórnvöldum og öðrum. Undirbúningur aðalfundar er í fullum gangi. Aukið álag er á skrifstofu vegna aðstæðna í þjóðfélaginu, fólk er uggandi yfir stöðu sinni og annarra.

Kaup á skrifstofuhúsnæði sem samþykkt var ef ákveðnum skilyrðum um aðgengi yrði framfylgt hafa verið dregin til baka þar sem ekki náðist samkomulag við aðra eigendur í húsinu um nauðsynlegar breytingar. Varðandi sameiningu Vinnustaða ÖBÍ, Múlalundar og Blindravinnustofunnar, þá hefur SÍBS dregið sig út úr viðræðunum. Ástæðan er að mikið rými hefur losnað á Reykjalundi og mun Múlalundur flytjast þangað. Unnið er að sameiningu þeirra sem eftir standa en endanleg niðurstaða verður tekin fyrir á fundi aðalstjórnar.

Hugmynd er uppi um að halda ráðstefnu um notendastýrða þjónustu í samstarfi við félags- og tryggingamálaráðuneytið og Þroskahjálp 3. desember nk., í tengslum við Hvatningarverðlaun ÖBÍ. Á síðasta aðalstjórnarfundi var tekin ákvörðun um að styðja við verkefnið Virkari velferð og er heimasíða verkefnisins er www.vive.is.

Að lokum nefndi formaður að mál ÖBÍ gegn lífeyrissjóðnum Gildi hefði átt að taka fyrir í Hæstarétti í dag en hefur verið frestað til 30. nóvember þar sem dómurum var fjölgað og verður dómurinn því fjölskipaður. Talið er að það gefi málinu meira vægi.

5. Aðalfundur 2009

Aðalfundur verður haldinn laugardaginn 24. október nk. á Grand hótel. Gögn fyrir fundinn verða send fulltrúum aðalfundarins fyrir næstu helgi. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, mun flytja erindi við setningu fundarins. Bréf barst frá SÍBS varðandi tillögur að lagabreytingum. Einnig hafa borist tvær umsóknir um aðild að ÖBÍ.

Fulltrúi SÍBS, Frímann Sigurnýasson, sagði frá tillögu SÍBS að lagabreytingum. Tilgangur breytinganna er að skerpa á því að aðildarfélög SÍBS hafi jafnan rétt og SÍBS sjálft á aðalstjórnarfundum og aðalfundum, þ.e. að hvert félag fái eitt atkvæði en ekki eingöngu SÍBS sem heildarsamtök með eitt atkvæði fyrir öll aðildarfélög þess. Einnig eru gerðar tillögur um að fjölgað verði í kjörnefnd, úr þremur í fimm og að óheimilt sé að kjósa sama einstakling í framkvæmdastjórn oftar en fjórum sinnum samfellt. Hollt og gott er fyrir samtökin að hreyfing sé á fólki í stjórnum og þeir sem gefa kost á sér til starfa innan ÖBÍ ættu að tilkynna um það innan ákveðins tíma og framboð birt á ákveðnum tíma fyrir aðalfund.

Nefnt var að þessar lagabreytingatillögur væru hugsanlega byrjun á því að ÖBÍ verði deildarskipt síðar meir. Einnig var nefnt að brýnt væri að fá sólarlagsákvæði inn í lögin og að framboð kæmu fram með góðum fyrirvara og þau tilkynnt innan ákveðins tíma fyrir aðalfund.

Framkvæmdastjóri las bréf frá CP félaginu og Málefli sem óskað hafa eftir aðild að ÖBÍ. Formaður skýrði frá því að lögum samkvæmt verði að leggja umsóknir um inngöngu í ÖBÍ fram til afgreiðslu á aðalstjórnarfundi. Ef fundurinn samþykkir umsóknirnar verði þær lagðar fram á aðalfundi til samþykktar eða synjunar.
Rætt var um hvort félögin ættu frekar heima innan annarra heildarsamtaka. Spurt var hvort félög þyrftu ekki að hafa starfað í ákveðinn tíma áður en þau gætu sótt um aðild að bandalaginu. Formaður sagði svo ekki vera.

Formaður bar upp tillögu sína um að aðalfundur fjalli um inntöku ofangreindra félaga. Samþykkt samhljóða að vísa umsóknum félaganna til aðalfundar.

6. Næsti aðalstjórnarfundur

Samkvæmt fundarplani er næsti aðalstjórnarfundur þann 16. desember nk.

7. Önnur mál

a) Kjörnefnd

Formaður sendi aðalstjórn tillögur sína varðandi starf kjörnefndar. Þórný Björk Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu, las upp tillögurnar. Formaður benti á að samkvæmt mati lögfræðings ÖBÍ gengi grein 2 í tillögunum lengra en lög bandalagsins. Þarf því að leggja þá grein niður og aðrar greinar taka töluliðabreytingum samkvæmt því.

Frímann Sigurnýasson lagði til að félögin skoði tillögurnar innan sinna raða og ræða þær á næsta aðalstjórnarfundi. Þær verði síðan lagðar fram á aðalfundi 2010. Formaður var sammála þessari hugmynd og lagði til að málinu yrði frestað til næsta aðalstjórnarfundar. Samþykkt.

b) Framboð til framkvæmdastjórnar

Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg, tilkynnti að hann gæfi kost á sér í starf gjaldkera bandalagsins. Hann hefur unnið við bókhald í 30 ár og sagðist hafa haldgóða þekkingu og reynslu af þeim störfum. Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra, gefur kost á sér til varaformanns ÖBÍ á næsta aðalfundi. Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp, sagðist hafa mikinn áhuga á að vinna með framkvæmdastjórn.

Formaður þakkaði aðalstjórn fyrir gott samstarf þann tíma sem hann hefur starfað sem formaður ÖBÍ. Þá mun hann sitja áfram í aðalstjórn sem aðalfulltrúi Blindrafélagsins.

Fundi slitið kl. 19.20.

Fundarritarar; Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.