Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 7. október 2010

By 16. janúar 2011No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ fimmtudaginn 7. október 2010 kl. 17.00-19.00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Blindrafélagið – Halldór S. Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
FAAS – María Th. Jónsdóttir
Félag CP á Íslandi – Örn Ólafsson
Félag nýrnasjúkra – Hallgrímur A. Viktorsson
Gigtarfélagið – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
Hugarfar – Kristín B. Michelsen
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Björn Tryggvason
Málefli – Þórdís Bjarnardóttir
MND-félagið – Ægir Lúðvíksson
MS-félagið – Garðar Sverrisson
Parkinsonssamtökin – Snorri M. Snorrason
Samtök sykursjúkra – Sigríður Jóhannsdóttir
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra – Grétar P. Geirsson
Stómasamtökin – Jón Þorkelsson
Tourette samtökin – Sigrún Gunnarsdóttir 

Starfsmenn ÖBÍ:

Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi ÖBÍ
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi ÖBÍ
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi ÖBÍ
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu 

Fundargerð:

Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ bauð fundarmenn velkomna og bað þá að kynna sig. Áður en gengið var til hefðbundinnar dagskrár bað Guðmundur fundarmenn um að tekin yrði fyrir fundargerð síðasta fundar sem var ekki sem sérstakur liður í dagskránni. Engar athugasemdir komu fram og var fundargerðin samþykkt samhljóða.

1.   Kynning á lagabreytingartillögum laganefndar ÖBÍ.

Lagðar voru fram tvær tillögur laganefndar ÖBÍ. Sigríður Jóhannsdóttir, formaður laganefndar kynnti tillögurnar.

Annars vegar var tillaga um að aðalfundur beini því til framkvæmdastjórnar að halda samkeppni um nafnabreytingu. Hins vegar var lagabreytingartillaga í liðum frá A til E. Lagabreytingarnar ganga út á það að 5 manna laganefnd verði kosin á aðalfundi ÖBÍ, en fyrsta starfsárið sitji 7 manns í nefndinni. Röð dagskrár aðalfundar breytist þannig að lagabreytingar verði á undan kosningum. Grein 10 fellur niður og efni hennar verði sameinað 3. grein. Ef þessar lagabreytingar verða samþykktar mun töluröð greina 11 til 12 breytast. Sigríður las einnig greinargerð sem fylgdi tillögunum.

Umræður voru um tillögurnar.

Stungið var upp á að samþykki ¾ hluta fundarmanna þurfi til brottvikningar í stað ? eins og er í tillögunum. Almennt voru menn ánægðir með að laganefnd væri að störfum allt árið. Umræður voru um hvort laganefnd ætti að vera 5 eða 7 manna. Menn voru misjafnlega hrifnir af tillögunni um nýtt nafn á bandalagið. Ein tillaga kom frá Erni, CP félaginu, um að bandalagið héti Mannefli.

Bent var á að fundargerðir framkvæmdastjórnar hefðu ekki verið sendar aðalstjórn. Spurt var hvort félag sem gengur í bandalagið fái kosningarétt strax á aðalfundi? Svarið er nei, nýtt félag hefur ekki kosningarétt fyrr en á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Rætt var um hvort frambjóðendur til nefnda væru í framboði sem fulltrúar síns félags eða sem einstaklingar og þá fulltrúar aðalfundarins. Því var svarað á þann veg að reynt væri að hafa fulltrúa í stjórnum og nefndum frá sem flestum fötlunarhópum, þannig að það sýndi þverskurð af aðildarfélögum bandalagsins. Formaður sagði frá því að vegna laga erlendra samtaka sem bandalagið er aðili að þá væri kvöð um að meirihluti stjórnar sé fatlaður, t.d. framkvæmdastjórnar.

Formaður hvatti aðalstjórnarfulltrúa til að kynna lagabreytingartillögurnar og aðrar tillögur innan sinna félaga.

2.   Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011.

Formaður sagði frumvarpið innihalda mjög miklar skerðingar í öllum málaflokkum, hvort heldur sem er í þjónustu, frystingu örorkubóta eða öðru. Formaður og framkvæmdastjóri eru að skrifa blaðagrein þar sem ÖBÍ gagnrýnir harðlega þær skerðingar sem fram koma í fjárlögunum.

Formaður las upp ályktun sem lögð var fyrir fundinn.

Fundarmenn voru almennt sammála um innihald ályktunarinnar en nokkur umræða spannst um orðalagsbreytingar og hvernig væri hægt að koma ályktuninni á framfæri. Eftirfarandi ályktun var samþykkt með áorðnum orðalagsbreytingum:

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 7. október 2010

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir harðlega áframhaldandi skerðingum á kjörum öryrkja, sem fram koma í Frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011.

Ljóst er að ekki á að fara að lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem tryggja eiga lífeyrisþegum hækkanir samkvæmt verðlagsviðmiðum. Lífeyrisgreiðslur þurfa að hækka um fimmtung til að halda í við verðlag.

Staða öryrkja er grafalvarleg. Fólk nær ekki að framfleyta sér á núverandi bótum, á sama tíma og útgjöld hafa aukist, ekki síst í heilbrigðiskerfinu.

Aðalstjórn ÖBÍ mótmælir jafnframt fyrirhuguðum niðurskurði í öðrum hagsmunamálum fatlaðra, en slíkur niðurskurður á þjónustu er skerðing á mannréttindum samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Hér er aftur vegið að þeim er hafa verið látnir greiða niður skuldir ríkisins af launum sem eru að stærstum hluta langt undir fátæktarmörkum.

Greinilegt er að stjórnvöld skortir heildarsýn og skilning á aðstæðum öryrkja.

Umræður

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu spurði hvort skrifstofan gæti merkt við þær blaðsíður í frumvarpi til fjárlaga, sem skipta bandalagið og aðildarfélög þess mestu máli og að gögnin yrðu send aðildarfélögunum. Samþykkt að starfsfólk geri eins og um var beðið.

Borin var fram tillaga um að ályktunin yrði afhent þingforseta, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Samþykkt samhljóða.

3.   Önnur mál.

Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp, ræddi tannlækningar barna í tengslum við það að yfirtryggingatannlæknir skilaði 300 milljóna króna hagnaði á meðan mörg börn hafa ekki efni á því að fara til tannlæknis.

Fundi var slitið kl. 18:40.

Fundarritarar:
Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.