Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 7. september 2011

By 6. janúar 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn í Hátúni 10, 9. hæð, miðvikudaginn 7. september 2011, kl. 17.00-19.00.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

Ás styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
FAAS – Fanney Proppé
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir
Heyrnarhjál – Halla B. Þorkelsson
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Kristín B. Michelsen
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Benedikt Benediktsson
MG félagið – Bryndís Theodórsdóttir
MND félagið – Ægir Lúðvíksson
MS félagið – Garðar Sverrisson
Parkinsonsamtökin – Sigrún Sigurðardóttir
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Hrund Hauksdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette samtökin – Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúar:

Kvennahreyfing ÖBÍ – Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari

Fundargerð

1.  Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður ÖBÍ, Guðmundur Magnússon bauð fundarmenn velkomna og sagði frá því að hvorki aðal- né varamaður FAAS hefðu getað mætt og bar upp hvort fundarmenn væru samþykkir því að formaður FAAS, Fanney Proppé myndi sitja fundinn og var það samþykkt samhljóða. Fundarmenn kynntu sig.

2.  Fundargerð frá 22. júní sl. borin upp til samþykktar.

Fundargerð síðasta fundar samþykkt.

3.  Skýrsla formanns.

Skýrsla formanns fylgir með fundargerðinni sem fylgiskjal (viðhengi).

4.  Ástandið í dag

a)  Reynslan af yfirfærslunni.

Formanni finnst reynsla af yfirfærslunni ekki hafa verið góð, þar sem engin breyting hafi farið fram í raun, nema þá helst að þjónusta hafi minnkað þar sem ekkert aukafjármagn fylgdi. Sveitarfélögin vilja vel en eru fjársvelt. Svo virðist vera að SIS matið sé ómarktækt. Notendur þjónustunnar, þeir sem fá sína þörf metna með SIS matinu hafa sagt frá því að þeim finnist matið ekki vera nógu gott á meðan sveitarfélögin og ráðuneytin hafa lýst yfir ánægju sinni með matið. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur ekki verið lögbundinn, eins og þyrfti að gera sem fyrst. Réttindagæslumenn eru komnir til starfa vítt og breytt um landið, en þeim er gert að sinna mjög stórum svæðum í 50% starfi sem sýnir  hversu stjórnvöld leggja litla áherslu á þessi mikilvægu störf.

Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnisstjóri ÖBÍ sagði að eitt af markmiðunum með yfirfærslunni hafi verið að  laga þjónustuna að einstaklingum. Nú eru liðnir 8 mánuðir frá því að yfirfærslan átti sér stað og því komin ástæða til að þrýsta á og gera ráð fyrir breytingum. Notendur hafa t.d. talað um að enn sé sama starfsfólkið. Góð tengsl hafa myndast á milli bandalagsins og réttindagæslumanna og hefur Hrefna ásamt fleiri starfsmönnum bandalagsins hitt þá flesta. Sumir þeirra hafa einnig sótt fundi bandalagsins víðsvegar um landið. Reykjavíkurborg hefur beðið ÖBÍ að finna 10 notendur til að fara á fund borgarinnar. ÖBÍ hefur ekki verið með mikil tengsl út á land og hefur verið í umræðunni að koma á fót notendaráði og að námskeið verði haldið fyrir þá einstaklinga, í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Notendaráð er hugsað sem jafningjafræðsla þar sem ÖBÍ geti veitt stuðning. Gott væri að fá umræðu um það hvort einnig sé nauðsynlegt sé að hafa tengiliði á höfuðborgarsvæðinu eða hvort aðildarfélögin séu nóg.

Umræður og fyrirspurnir.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra sagði frá því að fyrir um 15 árum hóf ríkið að afhenda sveitarfélögunum sérskólana og nú hafa málefni fatlaðra verið flutt yfir en samningur SÞ er ekki nógu gegnsær. Hvernig á að tryggja það að Reykjavíkurborg geri það sem á að gera? Við hvern á að tala, Reykjavíkurborg eða ríki? 

Formaður svaraði því til að fara ætti beint til Reykjavíkurbrgar og herja á að þeir geri það sem þeir hafa lofað.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu sagði að gott væri að setja könnun á heimasíðu ÖBÍ eða annars staðar og athuga hvernig félagsmenn aðildarfélaganna upplifa yfirfærsluna.

Ágústa E. Gunnarsdóttir, Fjólu sagði að á fundi sem hún sat kom fram að sveitarfélögin og Reykjavíkurborg væru illa undirbúin og staðan væri hvergi góð nema á Akureyri. Ágústa sagðist sammála því að könnun yrði gerð um álit fólks á yfirfærslunni.

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ sagði að sér fyndust réttindagæslumenn of fáir, þeir sem eigi erfitt með að tjá sig geti valið sér talsmenn, hvernig virkar það?

Formaður sagði að það væri frábær hugmynd að gera könnun í tengslum við yfirfærsluna. Akureyri hefur verið tilraunasveitarfélag í 20 ár og hafa einnig tekið yfir heilsugæsluna, þannig að tiltölulega auðvelt er þar að samþætta hluti. Enn eru ekki komin í gegn lög eða lagafrumvörp vegna talsmanna og vinnureglur og reglugerðir sem þarf að leysa til að það virki sem skyldi. Réttindagæslumenn komu til starfa í maí sl. en eru ekki allir komnir með húsnæði.

b)  Hækkanir lífeyrisgreiðslna í samræmi við samning ASÍ og SA.

Formaður sagði að Í júní hefði velferðarráðherra sagt að ákveðnir bótaflokkar myndu hækka um 8,1%, einnig  fengu öryrkjar  50.000 kr. eingreiðslu, nema þeir sem höfðu búið erlendis á ákveðnum tíma, t.d. ef fá þeir sem hafa slasast eða veikst erlendis lægri eingreiðslu. Sérstök framfærsluuppbót er að eyðileggja aldurstengdu uppbótina og skerðir sérstök framfærsluuppbót sveitarfélaganna hana einnig. Mikið vantar upp á að öryrkjar hafi fengið það sem þeim ber og því miður er gert ráð fyrir enn meiri niðurskurði í vetur og að baráttan við stjórnvöld verði hörð því mikilvægt er að standa vörð um tekjur og líf öryrkja. Spurði hvort félögin hefðu heyrt mikið í sínum félagsmönnum vegna ástandsins í þjóðfélaginu?

Garðar Sverrisson, MS félagi Íslands sagði að félögin væru yfirleitt að vinna að málum er varða þá fötlun eða sjúkdóm sem félagsmenn þeirra eru með, en eru ekki endilega að ræða mikið um hefðbundin baráttumál bandalagsins. Garðar benti á að bandalagið þyrfti að vera miklu öflugra að koma sínum skoðunum og baráttu á framfæri þannig að vel væri tekið eftir. Gefa þyrfti fólki, félagsmönnum og öðrum færi á að koma sínum skoðunum á framfæri og leyfa því að taka þátt í baráttunni eftir því sem það vildi og gæti sjálft.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu tók undir orð Garðars og sagðist hafa furðað sig á því hversu lélegt bandalagið hafi verið í baráttunni. Hann sagði að stjórnvöld ættu ekkert annað skilið en harða baráttu frá bandalaginu.

Formaður sagði að bandalagið og hann sjálfur yrði að vinna öflugar og sýnilegar að sínum baráttumálum á næstunni. Halda þarf baráttunni hátt á lofti því stjórnvöld eru með sífelldar blekkingar. Hann sagðist ekki hafa vera nægilega duglegur að vera í fjölmiðlum en sagði að bandalagið ynni ötullega í baráttumálunum þó það sæist ekki alltaf í fjölmiðlum.

c)  Þátttaka í lyfjakostnaði.  

Formaður sagði að, að mati stjórnmálamanna líti allt vel út varðandi lyfjamálin, þeir segja m.a. að fólk greiði ekki fyrir lyf ef það fer yfir ákveðið þak en ÖBÍ hefur bent á að þetta sé ekki rétt heldur þarf fólk sem er sjúkratryggt að greiða 7,25% af þeim hluta lyfjakostnaðar sem er umfram 90.000 kr. eða umfram 60.000 kr hjá lífeyrisþegum og börnum. Félagslega stuðningskerfið hefur ekki verið hækkað í langan tíma og alls ekki í takt við raunveruleikann í dag.

Umræða var um að félögin berjist mestmegnis fyrir innri málum og að í dag ættu þeir sem eru með langvinna sjúkdóma rétt á ókeypis lyfjum. Það er öryggisventill sem verið er að taka út núna. Ef ákvæði er fyrir hendi í lögum er alltaf sá möguleiki að berjast fyrir að ríkið fari eftir þeim lögum.

Formaður sagði að ÖBÍ hafi sett út á að lögin eru höfð of stutt því hugmyndin er að ráðherra muni setja fram reglugerð fyrir hitt og þetta sem tengist lyfjamálum. Það er ekki hægt að treysta á slíkt. Það er margt gott í lyfjafrumvarpinu, upprunalega hugmyndin er fín en meðal annars þarf að skoða vel lífsnauðsynleg lyf sem eru nú frí samkvæmt lögum. Ekki er vitað til þess að umsögn ÖBÍ um frumvarpið hafi skilað breytingum á því.

Benedikt Benediktsson, Málbjörg, sagðist vita til þess að heilbrigðisnefnd hefði verið að vinna í þessu málum undanfarnar vikur og að tillögur komi frá nefndinni síðar í haust.

d)  Fjárlög fyrir árið 2012.

Formaður sagði að fjárlögin væru vanalega komin um þetta leyti. Þar sem þau eru ekki komin út núna verða þau rædd á næsta aðalstjórnarfundi.

Frímann spurði hvernig sú vinna gengi sem bandalaginu var falið að athuga varðandi lífeyrisskuldbindingar fyrir starfsmenn bandalagsins og starfsmenn aðildarfélaga? Frímann benti á að hann hefði heyrt að nú gætu félögin ekki lengur sótt í safnlið á fjárlögum eins og verið hefur. 

Framkvæmdastjóri sagði að verið sé að vinna í því. Það er ljóst að þessi mál munu breytast en ekki er enn ljóst hvernig. 

5.  Fundaröð ÖBÍ á höfuðborgarsvæðinu, mikilvægt að notendur taki þátt.

Formaður og Hrefna hafa farið víðs vegar um landið, þó á eftir að fara á Höfn í Hornafirði, en ekki var hægt að fara þangað vegna lélegra flugsamgangna og ferðaþjónusu fatlaðra. Líklega verður sameiginlegur fundur með Suðurnesjum og Höfn með fjarfundabúnaði. Lögð var fram dagskrá fundaraðar á höfuðborgarsvæðinu. Fundaröðin verður mjög vel kynnt, m.a. með kortum, blaðaauglýsingum, póstsendingum til aðildarfélaga og í svæðisblöðum.

Haldið hefur verið námskeið í umsjón Helgu Baldvinsd. Bjargardóttur, um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Fólk hefur verið mjög ánægt með námskeiðið en því miður þurfti að fresta öðru námskeiðinu vegna veikinda, en það verður auglýst aftur síðar.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, spurði hvort komið hefði fram vilyrði frá stjórnvöldum um að bætur yrðu hækkaðar, það er hvort leiðréttingu á skerðingum hafi verið lofað. Ef svo er þá þarf bandalagið að notfæra sér það.

Formaður sagði að fyrrverandi félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason hefði sagt að þegar landið færi að rísa eftir hrun þá yrði okkar hópur fyrstur til að njóta hækkana.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður 13. október nk.

7.  Önnur mál.

Ágústa E. Gunnarsdóttir, Fjólu sagði frá breytingu á nafni félagsins sem hét áður Daufblindrafélag Íslands en heitir nú Fjóla. Einnig minntist hún á að störf réttindagæslumanna væru stórlega vanmetin með því að hafa starfshlutfallið 50%. Starfssvæði þeirra eru mjög stór og það hefur sýnt sig að nú þegar er orðið erfitt að fá tíma hjá réttindagæslumönnum.

Fundi slitið kl. 18.55.

Fundarritarar, Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir