Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 8. desember 2011

By 31. janúar 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 8. desember 2011 kl. 17.00-19.00 á Grand hóteli Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás, styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélagið – Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra – Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
Fjóla – Hafdís Tryggvadóttir
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Gigtarfélagið – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
HIV-Ísland – Svavar G. Jónsson
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF – Helga Sigurðadóttir
Málefli – Elfa Rún Árnadóttir
MG-félagið – Pétur Halldór Ágústsson
MND félagið – Ægir Lúðvíksson
MS félagið – Garðar Sverrisson
Parkinsonsamtökin – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SÍBS – Guðmundur Löve
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Hrund Hauksdóttir
Stómasamtökin – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin – Arna Garðarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ:

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi
Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri
Margrét R. Jochumsdóttir, ritstjóri
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari

Fundargerð

1. Varaformaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, varaformaður ÖBÍ, bauð fundarmenn velkomna og bað þá að kynna sig. Jón Gunnar Jónsson frá FSFH og Guðmundur Löve, SÍBS voru samþykktir sem aukafulltrúar í stað aðal- og varamanna félaga sinna sem ekki gátu mætt.

2. Fundargerð frá 23. nóvember 2011 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt.

3. Skýrsla varaformanns.

Varaformaður fór yfir helstu atriði sem gerðust frá aðalstjórnarfundi í nóvember og er tæpt á nokkrum þeirra hér. Ályktun frá síðasta aðalstjórnarfundi, vegna skerðinga á kjörum öryrkja, var send til fjölmiðla, þingmanna og fleiri aðila. Alþingismenn og fleiri gagnrýndu ályktunina, voru heilmikil skrif um hana og aukið samband var haft við skrifstofu ÖBÍ vegna hennar. Áramótin 2010-2011 munu bætur hækka um 3,5 % en hefðu átt að hækka meira eða í samræmi við vísitölu neysluverðs. Ýmsa bótaflokka átti að frysta en ÖBÍ tókst að fá frystingu afnumda á flestum þeirra. Hvatningarverðlaun ÖBÍ voru afhent 3. desember sl., á alþjóðadegi fatlaðra.

4. Fundaröð ÖBÍ – samantekt.

Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri ÖBÍ, kynnti og sagði m.a. að hluti af tilgangi með fundaröðinni var að kynna starfsemi ÖBÍ og samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks því grunur lék á að hann hefði ekki verið eins vel kynntur fyrir íbúum á landsbyggðinni og íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirlesarar á fundunum voru Hrefna sem kynnti niðurstöður meistaraprófsritgerðar sinnar um það hvernig þjónustan var fyrir yfirfærsluna og nýjungar í lögum og reglugerðum, Guðmundur Magnússon formaður ÖBÍ, Helga Baldvins- og Bjargardóttir, þroskaþjálfi og lögfræðingur, Embla Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir frá NPA miðstöðinni og Ingibjörg Loftsdóttir frá Sjálfsbjargarheimilinu vegna undirbúnings Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar. Fundaröðin var auglýst með skjáauglýsingum, á heimasíðu ÖBÍ, hjá sveitarfélögum og staðarblöðum. Misgóð mæting var á fundina, allt frá 7 og upp í 50 manns. Notendaráði var komið á fót til að halda sambandi við einstaklinga utan af landi.

Umræða á fundunum snerist oft um skort á upplýsingagjöf sem leiddi til þess að einstaklingar vita ekki alltaf hver réttindi þeirra eru, úrræðaleysi þjónustu, búsetumál, notendastýrða persónulega aðstoð o.fl. Einnig var mikil umræða um að koma þyrfti á fót störfum réttindagæslumanna, sem ekki var hafið þegar fundirnir voru haldnir, en eru nú komnir til starfa 8 réttindagæslumenn í 4,75 stöðugildum.

Enn á eftir að halda fund á Höfn í Hornafirði því flugfélagið Ernir sem flýgur þangað er ekki með flugvélar fyrir hreyfihamlað fólk, áætlað er að fundur verður haldinn með fjarfundarbúnaði eftir áramót. Beðið hefur verið um annan fund á Akranesi og á Suðurnesjum.

Umræður.

Fundarmenn lýstu almennt yfir ánægju sinni með fundaröðina og kom upp sú hugmynd að aðildarfélög ÖBí gætu sameinast um málefni og haldið sameiginlega fundi á landsbyggðinni til að stuðla að frekari og betri samskiptum við félagsmenn sína. Erfiðara virðist að fá þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, nærsamfélagið hjálpar oft til og þjónustan verður betri á smærri stöðum. Nefnt var að MND félagar virðast fá betri þjónustu frá sveitarfélögunum en þeir fengu á meðan þjónustan var á vegum ríkisins. Spurt var af hverju halda ætti fundi aftur á Akranesi og Suðurnesjum?

Hrefna svaraði því til að bæjarstjórinn á Akranesi hefði óskað eftir öðrum fundi því honum fannst þetta áhugavert og fáir höfðu mætt á fyrri fundinn. Umræðuefni og fyrirkomulag þess fundar gæti breyst frá því sem áður var. Varðandi Suðurnes þá gleymdu bæjarblöðin að birta auglýsingu um fundinn svo að mjög fátt fatlað fólk mætti á því stóra svæði en þeir sem mættu voru mjög ánægðir og hafa beðið um að annar fundur verði haldinn og þá munu upplýsingar um fundinn berast til fleiri. Sá fundur yrði með sama sniði og fyrri fundur.

5. Jólagjöf til aðildarfélaga ÖBÍ.

Varaformaður skýrði frá því að í tilefni af 25 ára afmæli Íslenskrar Getspár og vegna ákvörðunar um að fresta fjárfestingum í nýju sölukerfi til ársins 2013 hefði verið ákveðið að greiða 100 milljón króna aukagreiðslu til eigenda fyrirtækisins. Upphæðin skiptist miðað við eignarhluta og fær ÖBÍ 40 milljónir króna.

Framkvæmdastjórn ÖBÍ tók málið fyrir á fundi 2. desember sl. og voru menn sammála um að um 33 milljónir króna renni beint til aðildarfélaganna. Upphæðin sem hvert aðildarfélag fær er miðuð við rétt þeirra á fjölda fulltrúa á aðalfundi ÖBÍ í október sl. Greiddar verða 323.000 krónur fyrir hvern fulltrúa. Með þessu móti er tekið tillit til stærðar félaga.

6. Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2012.

Grétar Pétur Geirsson, gjaldkeri ÖBÍ, kynnti drög að fjárhagsáætlun 2012 en áætlunin verður rædd frekar og afgreidd á næsta aðalstjórnarfundi. Í fjárhagsáætlun 2012 er gert ráð fyrir tekjum upp á 307 milljónir króna. Hann benti á að aukagreiðslu Íslenskrar getspár hefðu fylgt þau tilmæli að fjármagnið yrði nýtt til að efla grasrótina. Skipting fjármunanna eru tillögur framkvæmdastjórnar ÖBÍ. Hann sagði jafnframt að ef vafi væri á því hvort aðildarfélög bandalagsins væru starfandi þá yrðu þau að sýna fram á starfsemi til að fá greiðsluna.

Gjaldkeri tæpti á nokkrum atriðum, t.d. var samþykktur 20 milljóna króna styrkur árið 2010 til Vinnustaða ÖBÍ vegna flutnings þeirra, búið var að greiða 5 milljónir króna af því og er sá liður því upp á 15 milljónir króna árið 2011. Gert var ráð fyrir 6 milljónum króna á ári í tvö ár vegna lektorsstöðu í fötlunarfræði HÍ en samningur þar um rennur út um mitt ár 2012. Hugmyndir eru um áframhaldandi samstarf milli ÖBÍ og fötlunarfræði HÍ, en að hlutfall greiðslu ÖBÍ verði miðað við 80% stöðugildi sem samsvarar um 2,8 milljónum þegar tekið er tillit til hækkunnar á launum og launatengdum gjöldum. Hækkun er á launum og launatengdum gjöldum undir liðnum skrifstofu- og rekstrarkostnaður. Ástæða hækkunarinnar er meðal annars sú að starfsfólki hefur fjölgað, nú eru 9,25 stöðugildi á skrifstofu og gert er ráð fyrir hækkun á launum því þau hafa dregist aftur úr sambærilegum störfum. Húsaleiga, rafmagn, hiti og tryggingar hækka úr 3,3 milljónum í 7 milljónir króna. Skýringin er sú að Brynja hússjóður flutti af sameiginlegum skrifstofugangi og mun ÖBÍ taka yfir húsaleigu á þeim skrifstofum sem voru áður nýttar af hússjóðnum auk þess að stækkun er fyrirhuguð á skrifstofurýminu. Hækkun á funda- og ráðstefnukostnaði skýrist meðal annars vegna þess að gert er ráð fyrir fundum og auglýsingum árið 2012 vegna alþingiskosninga 2013.

Umræður.

Umræða var um að eyða ætti meiri peningum í kynningar og auglýsingar, svo að bandalagið verði sýnilegra og nái hugsanlega meiri árangri í sinni baráttu. Varðandi það að ná til fólks þá var bent á að gott væri að senda tímarit ÖBÍ heim til fólks í tímaritaformi en ekki í dagblaðaformi eins og hefur verið upp á síðkastið. Talað var um að mikill lúxus væri í fjárhagsáætluninni, mörg verðug verkefni væru tiltekin eins og talgervill en hins vegar ætti það ekki að vera hlutverk bandalagsins að styrkja slík verkefni. Sem svar við þeirri athugasemd kom fram að talgervillinn nýtist ekki eingöngu blindum heldur einnig þeim sem eiga við lestrarerfiðleika að stríða og verður hann tilbúinn til dreifingar í vor.

Umræða var um hækkun launakostnaðar og fjölgun starfsmanna og voru menn ekki á sama máli um ágæti þeirrar fjölgunar og hugsanlegan árangur hennar. Nokkuð heitar umræður sköpuðust í kringum fyrrnefnd atriði. Meðal annars var bent á að aðildarfélögin hefðu dregið saman seglin síðustu ár í þjónustu við sitt fólk og því leitar fólk í auknum mæli til ÖBÍ auk þess sem nú væri unnið á fleiri sviðum sbr. stefnu bandalagsins. Bent var á að Sjónarhóll væri með mánaðarlega viðveru á Akureyri og hugsanlega ætti ÖBÍ að gera meira af því að fara út á land og vera með viðveru þar á ákveðnum tímum.

Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra, kom með athugasemdir við liðinn sálgæsla og félagsstarf, sem áður hét djákni. Henni finnst að ef þessi þjónusta sé í boði á Hátúnssvæðinu ætti að bjóða upp á hana fyrir alla íbúa Brynju hússjóðs, um allt land. Jórunn óskaði eftir upplýsingum á næsta aðalstjórnarfundi um það hvernig djáknastarfið byrjaði, hvort að ÖBÍ hafi boðið þennan styrk eða hvort kirkjan hafi óskað eftir honum?

Guðmundur Löve, SÍBS, sagðist fagna aukinni starfsemi hjá ÖBÍ og það væri einnig álit stjórnar SÍBS en sagðist samt sjálfur vilja sjá niðurskurð á starfsemi skrifstofu og rekstrarkostnaði. Guðmundur lagði fram eftirfarandi tillögu:

Niðurskurður 30 milljónir króna:

  • 10 millj. í styrki út fyrir bandalagið
  • 10 millj. í styrki til talgervilsverkefnið
  • 10 millj. í skrifstofu- og rekstrarkostnað

Ráðstöfun 30 milljónir króna:

  • 10 millj. í rekstrarstyrki til aðildarfélaganna
  • 10 millj. í verkefnastyrki til aðildarfélaganna (sbr. talgervilsverkefnið)
  • 10 millj. í rekstrarafgang ÖBÍ (varasjóð)

Gjaldkeri fagnaði ábendingum um hvað betur mætti fara en sagðist jafnframt óska eftir hugmyndum að bættum rekstri eða starfsemi.

7. Næsti aðalstjórnarfundur.

Verður tilkynntur með tölvupósti.

8. Önnur mál

Ekkert var rætt undir þessum lið.

Fundi slitið kl. 19.47.

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.