Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 8. maí 2008

By 3. júní 2008No Comments

Fimmtudaginn 8. maí 2008, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar í salnum Hvammi á Grand hóteli. Fundur var boðaður kl. 16.45.

Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson og var Bára Snæfeld honum til aðstoðar.
Tillaga kom fram um Önnu G. Sigurðardóttur sem fundarritara. Samþykkt samhljóða.

Eftirtaldir sátu fundinn:

Halldór S. Guðbergsson – Blindrafélaginu/ÖBÍ
Kristín Ármannsdóttir – FSFH
Hjördís Anna Haraldsdóttir – Félagi heyrnarlausra
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélag Íslands
Garðar Sverrisson – MS félaginu
Sveinn A. Magnússon – Geðhjálp
Steinunn Þóra Árnadóttir – Kvennahreyfingu ÖBÍ
Kristín Michelsen – Hugarfari
Ægir Lúðvíksson – MND-félaginu
Ólína Sveinsdóttir – Parkinsonsamtökunum
Guðmundur Magnússon – SEM-samtökunum
Þórey Ólafsdóttir – Daufblindrafélagi Íslands
Þórir Steingrímsson – Sjálfsbjörg
Emil Thoroddsen – Gigtarfélagi Íslands
Þórunn Pálsdóttir – Geðverndarfélagi Ísands
Helgi Hjörvar – gestur fundarins
Sigríður Jóhannsdóttir – Félagi sykursjúkra
Guðrún Pétursdóttir – Umsjónarfélagi einhverfra
Tryggvi Þór Agnarsson – Tourette samtökin
Helgi J. Hauksson – FAAS
Kristín Sæunnar Sigurðardóttir – Félagi nýrnarsjúkra
Málfríður Gunnarsdóttir – Heyrnarhjálp
Jón Þorkelsson – Stómasamtökunum
Valgerður Auðunsdóttir – SPOEX
Lilja Þorgeirsdóttir – framkvæmdastjóri ÖBÍ
Bára Snæfeld – upplýsingafulltrúi ÖBÍ
Anna G. Sigurðardóttir – þjónustufulltrúi ÖBÍ

1. Fundur settur

Formaður setti fund kl.16:55 og að því búnu kynntu fundarmenn sig.
Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra óskaði eftir samþykki um að Þórir Steingrímsson sæti fundinn sem áheyrnarfulltrúi. Samþykkt samhljóða

2. Fundargerðir frá 10. janúar og 27. mars 2008

Fundargerð frá 10. janúar, samþykkt samhljóða.
Fundargerð frá 27. mars, samþykkt samhljóða.
Fundargerð frá 30. janúar er í vinnslu og mun verða lögð fram á næsta fundi.

3. Skýrsla formanns

Halldór sagðist hafa ætlað að senda skýrslu sína fyrir fundinn til aðalstjórnar en það tókst ekki vegna anna.

Halldór sagði 1. apríl stóran dag fyrir margra hluta sakir, an þá var afnumin tekjutenging bóta öryrkja við tekjur maka. Komið var á 25.000 króna frítekjumarki á lífeyrissjóðstekjur öryrkja. Áður en frumvarpið var samþykkt var þó tekið út ákvæði sem fjallaði um að 100.000 krónu frítekjumark vegna launatekna. Vonir eru bundnar við afgreiðslu frumvarps þar að lútandi verði afgreitt fyrir lok þings og að 1. júlí nk. verði þetta ákvæði tekið inn. Í nýjum kjarasamningum ASÍ og SA var 18.000 krónu hækkun mánaðarlauna samþykkt á grunntaxta, en öryrkjar og ellilífeyrisþegar sátu eftir. Mesta mánaðarlega hækkun á bótaflokka almanntrygginga til lífeyrisþega er á sama tíma um 9.000 krónur. Formaður og starfsfólk hefur haldið fundi með stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðu þar sem sú skoðun ÖBÍ hefur verið kynnt að þetta sé óásættanlegt. Formaður taldi Félags- og tryggingamálaráðherra að öðru leiti hafa náð ýmsu góðu fram og að á næstu misserum yrði unnið að mörgum spennandi verkefnum meðal annars ef örorkulífeyrismál almannatrygginga og atvinnumál fari undir sama hatt eins og ráðherra hafi kynnt í ávarpi sínu á ráðstefnunni, Lífeyrismál framtíðar, sem haldin var 7. maí sl. og formaður sat.

Sigríður Jóhannsdóttir situr í nefnd á vegum heilbrigðisráðherra fyrir hönd ÖBÍ vegna greiðsluþátttöku almennings í lyfjakostnaði og hefur verið ákveðið að halda kynningarfund vegna þessa 22. maí nk. fyrir aðildarfélögin en þau geta sent tvo fulltrúa á fundinn hvert. Megintilgangurinn með vinnu nefndarinnar er að einfalda þennan málaflokk og taka upp kerfi sem notað hefur verið á öðrum norðurlöndum þar sem fólk greiðir að hámarki einhverja ákveðna upphæð á ári.

Sáttmáli Sameinuðuð þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðra var undirritaður í mars 2007. Hafin er vinna í tveimur ráðuneytum til að aðlaga íslensk lög að sáttmálanum, koma fulltrúar ÖBÍ meðal annarra að því starfi. Hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu er, starfshópur um hvort Íslensk lög og reglugerðir falli að nýjum sáttmála SÞ, sem Guðmundur Magnússon situr í fyrir hönd ÖBÍ. Á vegum samgönguráðuneytisins hefur verið skipuð nefnd vegna 9. greinar sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um aðgengi, fulltrúi ÖBÍ er Jón Heiðar Jónsson. Formaður taldi ÖBÍ þurfa að nýta sér sáttmála SÞ sem best í sínum störfum fyrir sitt fólk og hvatti aðildarfélögin til að kynna sér sáttmálann vel. Einnig er nefnd að störfum sem snýr að flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga en von er á áfangaskýrslu um málið frá nefndinni fljótlega. Telur hann bandalagið þurfa að skoða þá skýrslu vandlega.

Formaður hefur að undanförnu unnið með stjórn ÖBÍ og stjórnendum Hringsjár vegna fjárhagsvanda skólans. Vonandi nást samningar fljótlega við ríkið vegna starfsemi hans. Talað er um að 70-75% nemenda þaðan fari annað hvort í nám eða starf. Þann 15. maí nk. verður haldinn kynningarfundur í Hringsjá þar sem Guðrún Hannesdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hringsjár kynnir lokaverkefni sitt varðandi hvað verður um nemendur sem lokið hafa námi í skólanum.

Umræður um skýrslu formanns

Enginn kvað sér hljóðs

4. Búsetumál

Fulltrúar Brynju hússjóðs ÖBÍ fóru yfir starfsemi hússjóðsins hin síðustu ár. Skýrt var frá stöðu mála og þau verkefni sem eru framundan. Framsöguerindi fluttu Garðar Sverrisson, formaður stjórnar Brynju hússjóðs ÖBÍ og Helgi Hjörvar, fyrrverandi formaður sjóðsins.

Garðar tilkynnti fyrst að búið væri að ráða nýja framkvæmdastjóra Brynju hússjóðs en það er Björn Arnar Magnússon. Hann hefur mikla þekkingu á málefnum fatlaðra, þar sem hann hefur starfað hjá Félagsmálaráðuneytinu meðal annars séð um kaup og kaupsamninga vegna félagslegs húsnæðis á vegum framkvæmdasjóðs fatlaðra. Varðandi umræðu sem verið hefur um Brynju hússjóð er mikilvægt að sögn Garðars að fara yfir greinargerð fyrrverandi formanns ÖBÍ um rekstur hússjóðs og sérstaklega um lífið í Hátúns blokkunum. Sama greinargerð virðist undirstaðan í grein Mannlífs í febrúar sl. Í veigamikum atriðum gengur greinargerð hans ekki eingöngu þvert á þekkingu stjórnar og starfsfólks sjóðsins heldur líka á upplifun íbúa Hátúns 10. Verður að telja það sem fram kemur í greinargerðinni ekki gott í félagi þar sem kjörorðið er „ekkert um okkur án okkar“.

Stjórn hússjóðsins hefur lagt sig fram um að kanna viðhorf íbúa og leitaði fyrir ein og hálfu ári eftir að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, gerði þjónustukönnun meðal íbúa Hátúns, Sléttuvegar og Fannborgar. Niðurstöður þeirrar þjónustukönnunar fylgir fundargögnum sem dreift var til fundarmanna. Í skýrslunni kemur sjónarmið íbúa fram sem er annað en í greinargerð fyrrverandi formanns ÖBÍ. Hússjóðurinn fékk ljósmyndara til að taka myndir af íbúum hússjóðsins, með leyfi íbúanna var um 20 myndum úr íbúðum í Hátúni sýndar. Myndunum var varpað upp á tjald í formi glærukynningar.

Mikið var fjallað um andlát í greinargerð fyrrverandi formanns en í raun er það í undantekningartilfellum sem liðið hafa meira en 24 stundir þar til slíkt kemur í ljós. Húsverðir eru í vinnu í Hátúni 10, allan sólarhringinn, allan ársins hring. Meðal annars er gengið úr skugga um að ekki sé ónæði eftir klukkan ellefu á kvöldin og þeim er tilkynnt ef um ónæði er að ræða eftir þann tíma. Húsreglur og umgengnisreglur hafa verið settar í þágu íbúanna. Meiri friður er í Hátúni en í almennum fjölbýlishúsum og sést það í skráningarbókum húsvarða. Langmesta eftirspurnin er í íbúðir í Hátúni af öllum þeim íbúðum sem hússjóðurinn á, á höfuðborgarsvæðinu. Staðsetningin er nú orðin mun eftirsóknarverðari en hún var með blandaðri byggð í stað iðnaðarhúsnæðis sem áður var allt um kring.

Í greinargerðinni er gagnrýnt hversu þarfir einstaklinganna eru mismunandi eftir fötlunum. Að sögn Garðars er það vel að í íbúðum hússjóðs búi fólk sem er með mismunandi fatlanir og sjúkdóma því það sýnir hversu fjölbreytt samsetning íbúanna er. Íbúarnir eiga rétt á að litið sé á þá sem íbúa og einstaklinga en ekki horft á þá út frá fötlun eða sjúkdómum. Ekki hefur verið mikið um gagnrýni á aðra hópa í þjóðfélaginu, þótt ákveðnir hópar t.d. búi á sama svæði. Garðar benti einnig á að það væri ekki hlutverk hússjóðsins að veita leigjendum félagslega þjónustu, sjóðsins væri eingöngu að vera leigusali. Brynja hússjóður hefur þó aðstoðað fólk eftir fremsta megni ef leitað hefur verið eftir því. ÖBÍ ætti að gera auknar kröfur á að opinberar stofnanir sem eiga að sinna þjónustuhlutverkinu en sinni því illa. Minntist hann á að fjölmiðlar hefðu ekki leitað eftir réttum upplýsingum varðandi uppsetningu blöndunartækja eftir að eitt dauðaslys varð í Hátúnsblokkunum en á þeim tíma var búið að laga blöndunartækin í langflestum íbúðunum. Íbúðum er ekki úthlutað til hreyfihamlaðra einstaklinga ef þeir geta ekki með góðu móti nýtt sér íbúðina, svo sem baðaðstöðu. Ef hinsvegar staða viðkomandi breytist á meðan á leigu stendur er reynt að koma til móts við þær aðstæður eins fljótt og hægt er.

Eldvarnir voru sagðar í ólagi. Af þar til bærum yfirvöldum hefur það verið staðfest að í íbúðum hússjóðsins hafi alltaf verið uppfylltar ströngustu kröfur um brunavarnir og innan tímamarka sem settar hafa verið.
Varðandi stærð íbúða sem fólk leigir, fer það mjög mikið eftir efnahag einstaklinganna, sumir þurfa þessa vegna að leigja minni íbúð en viðkomandi hefði annars kosið.

Helgi Hjörvar tók nú til máls.

Dreifði hann til fundarmanna fréttaskýringu úr Morgunblaðinu  frá 19. janúar 2008 um starfsemi Brynju hússjóðs.

Það verkefni sem brýnast var að taka á árið 2000, var rekstur hússjóðsins. Leigutekjur höfðu ekki nægt síðustu árin fyrir rekstri. Lottópeningar voru í auknu mæli farnir að fara í viðhald í stað nýframkvæmda. Breytingar gerðar á leiguupphæð, en áhersla lögð á að sú breyting væri gerð þegar nýir leigjendur koma inn eða þegar íbúar fluttu á milli íbúða. Búið er að breyta rekstrinum þannig að nú á að vera tryggt að lottópeningar fari eingöngu í nýframkvæmdir. Á síðustu misserum hefur Brynja hússjóður haldið að sér höndum varðandi íbúðakaup vegna spennu á fasteignamarkaði en sjóðurinn er mjög vel staddur fjárhagslega og er fyllilega í stakk búinn að nýta það svigrúm ef ástand á húsnæðismarkaðnum breytist á næstu mánuðum.

Farið var í leiðangur með ÍSÍ og UMFÍ til stjórnvalda til að ná fram framlengingu á rekstri lottó. Niðurstaðan varð framlenging til 20 ár.

Árið 2000 var viðhaldsátak á eignum Brynju hússjóðs hafið. Á vegum sjóðsins voru margar íbúðir sem þurftu mikið viðhald, komnar á tíma enda um 30 ár síðan þær voru byggðar. Búið er að verja um einum milljarði króna í þessi viðhaldsverkefni á síðustu árum. Líklega tekst að ljúka viðhaldi á íbúðum sjóðsins um 700 talsins árið 2009. Eignir haf einnig verið seldar þar sem talið var of dýrt að fara í viðhaldsframkvæmdir stærsta eina verkefnið var sala Fannborgar í Kópavogi.

Framkvæmdirnar sem hefur verið farið í, uppbygging og kaup á nýjum íbúðum, telur um 2 milljarðar  og hefur biðlistinn farið úr um 400 manns í um 200 manns. Úthlutað er um 70-100 íbúðum á ári.
Þegar fyrrverandi stjórn tók við af þarseinustu stjórn lá fyrir að byggja á Sléttuvegi 9, þar á meðal sambýli fyrir 6 geðfatlaða einstaklinga. Nýlega var hægt að festa kaup á fleiri íbúðum fyrir þá einstaklinga sem eru tilbúnir til að búa í sjálfstæðri búsetu. Fyrrverandi stjórn ákvað að ekki yrði farið í byggingu fjölbýlishúss nema fyrir að hámarki 12 fatlaða einstaklinga eða færri. Yfirleitt eru 6 fatlaðir íbúar hámark í sama húsi í dag. Einnig hafa verið keyptar íbúðir fyrir öryrkja, t.d. í sama stigagangi í fjölbýlishúsi og hafa starfsmannaðstöðu í sama húsi.

Meðal verkefna Brynju hússjóðs voru kaup á húsnæði í samstarfi við Félagsmálaráðuneytið fyrir þá sem áður bjuggu „á Kópavogshælinu“ og gátu farið í nútímalegri aðstöðu og fengið þá þjónustu sem þeir þurftu. Sambærilegt verkefni tengdist Tjaldanesi. Einnig hefur Brynja hússjóður verið í samstarf við fjölda sveitarfélaga á landsbyggðinni við uppbyggingu húsnæðis.
Hjá Brynju hússjóði er nú unnið að í samstarfi við Félags- og tryggingamálaráðuneyti að nýrri gerð húsnæðis, en Geðhjálp hafði forgöngu um að kynna fyrir ráðuneytinu. Þar er gert ráð fyrir að í hverju húsi séu hámark 6 íbúðir með sérinngangi, fyrir geðfatlaða, þ.e. ákveðinn hóp geðfatlaðra sem eru mjög þjónustuþurfi en samt sem áður sjálfstætt búandi. Fengist hefur úthlutun fyrir byggingu slíkra húsa í Laugardalnum, á Akureyri og Húsavík.

Fasteignanefnd hússjóðs hefur skilgreint hvers konar húsnæði þarf að kaupa og hvaða kröfur skuli gerðar í þeim íbúðum sem keyptar eru. Þær kröfur eru lagðar fram til ferlinefnda til umfjöllunar og samþykktar. Húsnæðisfulltrúi er starfandi hjá sjóðnum sem sér um allar umsóknir að íbúðum hússjóðsins og er húsnæðisfulltrúinn í samstarfi meðal annars við félagsþjónustur sveitarfélaga og svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra.

Brynju hússjóður lét gera þjónustukönnun 2006, og fékk Félagsvísindastofnun HÍ til starfans eins og Garðar kynnti fyrr á fundinum. Niðurstöður betri en menn þorðu að vona að undanskilinni Fannborginni og var farið í aðgerðir út af því eins og fyrr segir.

Stefnumótunarvinna var í gangi árið 2007 þar sem fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ gátu komið að, nýttu sum félögin sér það. Mikilvægt er að úr þeirri vinnu komi fram að skýr verkaskipting þurfi að vera á milli ÖBÍ annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Á Akureyri á hússjóðurinn íbúðir en það er sveitarfélagið sem úthlutar íbúðunum og sumir fara í íbúðir sem hússjóðurinn á eða í íbúðir á vegum sveitarfélagsins, oft kallað “Akureyrarmódelið”, þar sem stjórnsýslulög gilda einstaklingarnir hafa því kæruleiðir. Skilgreint var ítarlega hlutverk hússjóðsins í íbúðamálum öryrkja og einnig hlutverk sveitarfélagsins og hvað það ætlar að gera í málaflokknum.

Hugmyndir komu fram um að blanda íbúasamsetningu, þar sem ófatlaðir gætu komið inn í Hátúnið. Hugmyndirnar mættu mikilli andstöðu íbúanna í Hátúni 10. Mikilvægt að þessi málefni séu rædd af virðingu og af skynsemi, ekki hvað síst með tilliti til leigjandanna sjálfra.

Nú var opnað fyrir umræðu;
Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, þakkaði fyrir góð erindi. Áttaði sig ekki á skýrslu sem dreift var þar sem eingöngu væri greinargerð fyrrverandi formanns sem dreift var á fundi 10. janúar, en ekki fylgiskjöl. Varðandi stefnumótun hússjóðs er mikilvægt að hún verði kynnt á aðalstjórnarfundi. Fannst vanta í erindi Garðars hvað væri næst á dagskrá hjá hússjóðnum. Óskar eftir að framtíðarsýn verði kynnt um leið og stefnumótunarvinna hússjóðs verði lögð fyrir fund aðalstjórnar.

Halldór skýrði frá því að fylgiskjöl greinargerðarinnar hefðu ekki fylgt með í fundargögnum

Helgi Hauksson, FAAS, þakkaði góð erindi. Fannst mikilvægt að ræða þessi mál hjá aðalstjórn. Eitt sem okkar félagsmenn verða að gæta sérstaklega að er að kynda ekki undir fordómum í umræðum í fjölmiðlum. Í grein Mannlífs er stimpli þrykkt á þann hóp sem býr í Hátúninu. Hvað vill samfélagið gera, sem vill fordæma þau úrræði sem eru til hjá Brynju hússjóðnum. Sveitarfélögin hafa ekki sinnt þessum málaflokki sem skyldi og þeim ber.  Því leitt að svona gerist.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra þakkaði umræðuna um hússjóðinn. Jákvætt að þessir hlutir verði skýrðir fyrir aðalstjórnarfulltrúum og unnið sé á þeirri neikvæðu umræðu sem skapast hefur að undanförnu. Þurfum að taka gagnrýni á uppbyggilegan hátt og vinna með. Öryrkjar hafa lágar tekjur og þeir eiga rétt á að velja hvar þeir búa og fagnar Hjördís þeirri stefnu hús¬sjóðsins að búsetuúrræði verði fjölbreytt.

Halldór benti á að þau sem sætu í stjórn hússjóðsins væru á fundinum og mikilvægt að málefni framtíðarinnar yrðu rædd. Eigum að setjast niður og ræða málin og fulltrúar gjarnan að vera í sambandi við Brynju hússjóð og kynna sér málin til hlýtar.

Garðar svaraði Ægi, til að fyrirbyggja misskilning, að þá hefði hann verið að tala um greinargerðina eingöngu en ekki um fylgiskjöl hennar tímans vegna.  Gagnlegt væri að kafa dýpra í greinargerðina og fylgiskjöl, sérstaklega má geta álitsgerðar sem þar er, benti Garðar á að sumir þeirra sem gagnrýndu þjónustu sjóðsins hefðu átt að beina þeirri gagnrýni til yfirmanna sinna opinberu stofnana. Varðandi stefnumótun til framtíðar um Brynju hússjóð, þá mun um næstu mánaðarmót verða lagst yfir þær hugmyndir sem komið hafa fram til nánari úrvinnslu og síðan framkvæmdar, þá væri gott að fá fleiri hugmyndir frá fulltrúum sem hér sitja.

Emil Thóroddsen sagði ánægjulegt að þessi mál væru rædd og að aðalstjórnar¬fundir væri vettvangurinn. Sem stjórnarmaður í stjórn sjóðsins sagði Emil að eingöngu hefði verið haldinn greiningarfundur varðandi stefnumótun fyrir Brynju hússjóð og að hugsanlega yrðu stofnaðir verkefnahópar um hvað ætti helst að gera og koma með hugmyndir til stjórnar um úrbætur þegar vinna hæfist að nýju. Þurfum einnig að endurskoða skipulagsskrá hússjóðsins sem er úr takt við nútímann. Hátúnið sem slíkt er verkefni til umræðu, ekki verða húsin jöfnuð við jörðu. Í framtíðinni verði að hafa að leiðarljósi sáttmála SÞ um málefni fatlaðra, um valfrelsi einstaklinga um hvernig þeir vilja búa og hvar. 
Varðandi fortíðina nefndi Emil að verið hefði ákveðinn þrýstingur á að koma fólki inn í Hátúnið.  Þegar hann starfaði sem formaður hússjóðsins þá fékk hann hringingar frá fólki sem hafði fengið úthlutun íbúða í Hátúninu en gátu ekki fengið íbúðirnar strax þar sem þjónusta sem hentaði viðkomandi var ekki til staðar frá hinu opinbera. Vildi hann einnig minnast á að einungis fjórir einstaklingar samkvæmt fyrrverandi formanni ÖBÍ væru skilgreindir sem þjónustuþurfi innan geðsviðsins og inn í átaki sem gert var, staðreyndin aftur á móti sú að þeir voru mun fleiri. Verðum að vera í núinu og horfa til framtíðar. Mikill vilji hjá núverandi stjórn hússjóðsins sem og hjá fyrri stjórn að hafa hlutina í sem allra besta horfi. Mikilvægt að ræða hlutina og koma með hugmyndir í loka stefnumótun.

Guðrún Pétursdóttir, Félagi einhverfra, sagði frá fundi sem haldinn var deginum áður hjá félaginu þar sem skýrsla var kynnt um búsetumál einhverfra. Þar kom í ljós að búsetumál hópsins væru eru ekki í góðum farvegi en þó best á höfuðborgarsvæðinu. Einnig þakkaði hún ÖBÍ stuðninginn við útgáfu bókar um einhverfu, sem félagið hefur nú komið í dreifingu og sölu.

Hjördís Anna spurði hvort ekki þyrfti að gera sérstakar reglur um hvernig sækja eigi um íbúðir hjá hússjóðnum.

Garðar svaraði því til að húsnæðisfulltrúi hafi haft til hliðsjónar þær reglur sem Félagsbústaðir hafa, en auk þess er óskað eftir öðrum upplýsingum, svo sem stöðu örorku einstaklingsins, stöðu maka, eignamörk, fjölda barna, húsnæðisstöðu, félagslega stöðu og ýmsan annan vanda. Þessar upplýsingar má allar fá á skrifstofu Brynju hússjóðs fyrir þá sem vilja kynna sér.

Kristín Sæunnar- Sigurðardóttir, Félagi nýrnasjúkra, spurði hvort einhverjar íbúðir hjá hússjóðnum væru til skammtímaleigu. Nefndi í því sambandi þá nýrnasjúku félaga sem búa úti á landi, þeir þyrftu oft að sækja læknisþjónustu í Reykjavík og þyrftu þá að geta nýtt sér skammtímabundna búsetu. 

Þórunn Pálsdóttir, Geðverndarfélagi Íslands, þakkaði fróðleg erindi. Sagði það mikilvægt fyrir geðfatlaða ekki hvað síst að vera með trygga og góða búsetu. Hún benti á að svæðisstjórn Reykjavík væri nú að gera upp íbúðir á Flókagötunni þar væri gert ráð fyrir íbúðarými fyrir geðfatlaða í kjallara. Telur þetta fyrir neðan allar hellur. Benti hún á að strax á sjöunda ártugnum hefðu norðmenn sett lög um íbúðir fyrir geðfatlaða skyldu aldrei vera í kjöllurum. Benti Þórunn einnig á að lágmarks íbúðarrými í reglugerðum hérlendis væri víst 26 fermetrar í dag. Hvatti hún ÖBÍ til að gera kröfur um að lögum yrði breytt og stærð íbúðarrýmis yrði aukið.

Helgi Hjörvar, ræddi um aðstöðu nokkurra aðildarfélaga ÖBÍ í Hátúni 10b og síðan húsnæði Geysi o.fl. Sagði hússjóðinn vera til þess fallinn að geta unnið að búsetumálum með aðildarfélögum ÖBÍ og þau gætu ávallt rætt við fulltrúa hússjóðsins um sína skjólstæðinga. Hússjóðurinn hefði m.a. keypt íbúðir fyrir krabbameinssjúka sem þurfa oft á skammtímalausn í höfuðborginni. Ný stjórn hefur rætt þann möguleika hvort hægt væri að nýta Hátúnið í skammtímaíbúðir fyrir t.d. langveik börn og foreldra þeirra eða aðra þá sem þurfa á skammtímaleigu að halda.
Þann 10. desember sl. var húsnæði Brynju hússjóðs í Fannborg selt fyrir 550 milljónir. Nú er eingöngu búið í um 30 íbúðum í Fannborginni og má hússjóðurinn leigja íbúðirnar út árið 2009 á markaðsverði. Guðrún Hannesdóttir hefur starfað við að aðstoðað þá íbúa sem þar voru í að útvega þeim ný búsetuúrræði og verða nýjar íbúðir keyptar fyrir þá einstaklinga sem þess þurfa.

Garðar hnykkti á að varðandi stærð íbúða Brynju hússjóðs að í Hátúni 10 væri í vinnslu sameining tveggja íbúða af minnstu gerð í eina, 12 íbúðir verða að 6 á þessum mánuðum, íbúðir sem voru 26 fermetrar verða 52 fermetrar. Álíka fjöldi íbúða bíður sambærilegra breytinga.

Þórunn endurtók fyrir ósk um að almennt þurfi að breyta reglugerðum það snúi ekki að Brynju hússjóði heldur stjórnvöldum. Alþjóða heilbrigðistofnunin gerir kröfur um stærra húsnæði í dag en íslenskar reglugerðir taka mið af. Hvatti hún að nýju til að ÖBÍ beitti sér í þessu máli.

Halldór sagði að ÖBÍ ætti að setja kröfur á stjórnvöld, til dæmis hvað varðar breytingu á reglugerðum og lögum sem varða búsetumál og stærða íbúða o.fl. Með þessari umræðu er ekki verð að ljúka henni, heldur verður alltaf að ræða þessi mál með reglulegu millibili og halda vöku sinni.

5. Önnur mál

Emil vakt athygli á ráðstefnu sem haldin var deginum áður um lífeyrismál framtíðar, þar sem kom fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur Félags- og tryggingamálaráðherra, hugmynir um stofnun velferðarstofnunar sem sameini Vinnumálastofnun, TR, félagsþjónustu sveitarfélaga o.fl . Emil taldi þetta umræðu sem snerti okkur öll og að hlutir verði settir í meira samhengi við störf örorkumatsnefndarinnar. Hann heldur því fram að ráðstefnan gæti orðið merkileg í huga fólks þegar fram líður og að straumhvörf verði í umræðunni. Ekki eðlilegt að fólk þurfi að fara á milli hinna ýmsu stofnana til að sækja sinn rétt slíkt eigi að vera á einni hendi. Hagræði fyrir þann sem þarf að leita réttar síns. Biður fólk að taka með opnum huga umræðuna sem verður um þessi mál á næstunni.

Halldór sagðist einnig hafa verið á ráðstefnunni og tók undir orð Emils. Hann skýrði frá því að framkvæmdastjórnin hefði fengið Stefán Ólafsson prófessor og formann stjórnar TR, á síðasta fund sinn, þar sem hann kynnti framtíðarsýn sína varðandi tillögur að nýju örorkumati o.fl. Halldór lagði til að í byrjun júní n.k. yrði haldinn aðalstjórnarfundur, um þetta mál þar sem Stefán Ólafsson mundi kynna þessar hugmyndir sínar. ÖBÍ hefur mikið að segja um það hvernig þessi mál þróast.

Samþykkt af meirihluta viðstaddra að halda næsta aðalstjórnarfund 4. júní nk. kl. 17.00.

Fundi slitið kl. 19.20

Fundarritari; Anna G. Sigurðardóttir