Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 12. janúar 2011

By 6. janúar 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ miðvikudaginn 12. janúar 2011, kl. 17.00-19.30, í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Ás styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
Blindrafélagið – Halldór S. Guðbergsson
Daufblindrafélag Íslands – Ágústa Gunnarsdóttir
FAAS – María Th. Jónsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands
Geðhjálp – Einar Kvaran
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
Hugarfar – Kristín B. Michelsen
Málbjörg – Sveinn Snær Kristjánsson
MG-félag Íslands –
MND-félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS-félagið – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Samtök sykursjúkra – Sigríður Jóhannsdóttir
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra – Grétar Pétur Geirsson
Stómasamtökin – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette samtökin – Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsmenn ÖBÍ:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu
Hrefna K. Óskarsdóttir, starfsmaður yfirfærsluhóps

Fundargerð:

1.   Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ setti fund kl. 17:15, bauð fundarmenn velkomna og bað þá að kynna sig.

2.   Skýrsla formanns.

Formaður flutti skýrslu sína. Þar kom meðal annars fram að ný lög um málefni fatlaðra tóku gildi um áramótin og þjónusta við fatlað fólk fór frá ríki til sveitarfélaga. Að tillögu bakhóps ÖBÍ um yfirfærsluna var ákveðið að ÖBÍ fari í fundaherferð á þjónustusvæðin 15.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðaði ÖBÍ í hag varðandi greiðslur Reykjavíkurborgar á sérstökum húsaleigubótum, það er að allir eiga rétt á þessum bótum óháð hver leigusali er. Ekkert hefur heyrst frá Reykjavíkurborg og var þeim skrifað bréf, dags. 10. janúar 2011, þar sem óskað var eftir að fá vitneskju um hvernig borgin hyggist breyta reglum og framkvæmd þeirra í kjölfar úrskurðar ráðuneytisins.

Afmælisár ÖBÍ hefst formlega 25. febrúar með ráðstefnu þar sem kynntar verða niðurstöður rannsóknar Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum og Öryrkjabandalagi Íslands, með styrk frá Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun.

Kosningar voru til stjórnlagaþings og voru margir félagar okkar í framboði. Í framhaldi kosninganna sendi Guðjón Sigurðsson, MND félaginu formanni bréf sem tekið var fyrir á framkvæmdastjórnarfundi og sent öllum aðalstjórnar-fulltrúum. Guðjón segir að sumum félögum sé hampað fram yfir önnur og því til stuðnings nefnir hann að framboðsbréf eins félaga sem var í framboði var áframsent til aðalstjórnarfulltrúa og aðildarfélög bandalagsins. Tíðkast hefur að áframsenda bréf á póstlista bandalagsins ef farið er fram á það. Viðkomandi aðili bað um að bréfið yrði áframsent en hvorki Guðjón né aðrir höfðu óskað eftir slíku. Bréf þeirra hefði verið áframsent ef beðið hefði verið um.

Undanfarið hefur fréttaflutningur Stöðvar 2 jaðrað við hatursherferð gegn öryrkjum. Lóa Pind Aldísardóttir tók viðtal við öryrkja og var fréttaflutningur mjög villandi. ÖBÍ brást strax við fréttinni og hefur framkvæmdastjórn ákveðið að kæra fréttina til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Skrifaðar voru greinar og fékkst eitt viðtal við formann en ekki leiðrétting á þessari frétt.

Rætt var við Þjóðmálastofnun varðandi gerð könnunar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þjóðmálastofnun hefur ekki haft tíma til að vinna að þessu og hefur Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum nú tekið að sér að gera könnunina.

Umræður og fyrirspurnir

Ægir Lúðvíksson, MND félagi Íslands sagði að aðalstjórn hefði samþykkt að styðja þá einstaklinga sem gáfu kost á sér á stjórnlagaþingið, kynna hefði átt alla frambjóðendur sem ÖBÍ styður við í stað þess að áframsenda póst eins þeirra. Guðjón hjá MND félaginu sendi erindi þar sem hann harmaði það að sumum hefði verið hyglt en öðrum ekki.

Albert Ingason, SPOEX spurði hvort líklegt væri að niðurstaða kæru sem ÖBÍ sendi til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands varðandi fréttaflutning á Stöð 2, yrði bandalaginu í hag og gæti breytt einhverju?

Formaður sagði  að skaðinn væri skeður með þessum fréttaflutningi en að vekja þyrfti athygli á rangfærslunum og það fengist með kæru.

Hjördís Anna Haraldsdóttur, Félagi heyrnarlausra hvatti bandalagið til að vera með skýr og sterk skilaboð út í þjóðfélagið vegna þessa fréttaflutnings þó hún hafi heyrt mismunandi skoðanir fólks á honum.

Formaður sagði að skýrsla Guðrúnar Hannesdóttur „Lífskjör og hagir öryrkja“ gæti verið sterkur hlekkur í umræðunni.

3.   Fundargerð frá 15. desember 2010.

Fundargerð frá 15. desember 2010 var samþykkt.

4.   Fundaröð ÖBÍ vegna yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitar-félaga.

Formaður sagði frá því að rétt hefði náðst að samþykkja lög um yfirfærsluna á Alþingi fyrir jólin. Bakhópur ÖBÍ hefur mikið velt því fyrir sér hvernig ÖBÍ geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri og ákveðið hefur verið að fara í fundaherferð á þeim 15 þjónustusvæðum sem sinna verkefninu. Tenging er nú þegar komin á við flest svæðin en landsbyggðin hefur verið afskekkt hingað til og því er mjög mikilvægt að halda fundi sem víðast úti á landi. Á stærstu svæðunum er gert ráð fyrir að halda a.m.k. 2-3 fundi. Fundur verður haldinn með formönnum og framkvæmdastjórum aðildarfélaga ÖBÍ 20. janúar til að ræða fundaröðina.

Á fundunum verða nýju lögin um málefni fatlaðs fólks skoðuð með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. NPA-miðstöðun verður kynnt ásamt Þjónustu- og þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar, sem stefnt er að því að stofna. Reynt verður að fá sveitarstjórnarmenn, aðila sem sjá um starfsemi tengda fötluðu fólki og notendur þjónustu á fundina, þannig að málin verði rædd út frá sjónarhorni þjónustuveitanda og þjónustuþega.

Fagnaði fólk almennt fundaröðinni og nefnt var að hún geti orðið til þess að styðja við einstaklinga sem ekki geta barist sjálfir fyrir eigin málum í litlum sveitarfélögum. Mikilvægt er að fylgjast vel með því að réttur sé ekki brotinn á fólki. Fólk hefur áhyggjur af mati á þjónustuþörf. Á litlum stöðum er sama fólkið beggja megin borðs, það er það leggur til hvaða þjónustu viðkomandi þarf og samþykkir hana svo eða synjar.

Nefnt var að skýrt þurfi að koma fram á fundunum hvað flutt hafi verið yfir með yfirfærslunni, t.d. var ferðaþjónusta fatlaðra komin yfir til sveitarfélaganna áður. Mikilvægt er að útbúa kynningarefni þar sem fram kemur hvar einstaklingar geta fengið upplýsingar um aðstoð eða um réttindi sín o.fl. Yfirfærslan er tækifæri til að byggja upp gott trúnaðarmannakerfi ÖBÍ.

Formaður sagði að nú reyndi mikið á félögin og því mikilvægt að byrja herferðina á kynningafundi fyrir þau. Meiningin samkvæmt nýju lögunum um fatlað fólk, er m.a. sú að komið verði á fót trúnaðarmannakerfi sem svipar til þjónustu TR og því mikilvægt að ÖBÍ hafi sitt eigið trúnaðarmannakerfi.

5.   Ferðakostnaður fulltrúa aðildarfélaga á fundum ÖBÍ.

Lögð var fram eftirfarandi tillaga sem framkvæmdastjórn hefur samþykkt fyrir sitt leyti:

Ferðakostnaður fulltrúa aðildarfélaga á fundum ÖBÍ

„Framkvæmdastjórn samþykkti á fundi þann 9. desember 2010 að greiða ferðakostnað fyrir fulltrúa aðildarfélaga sem eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins vegna funda og nefndarsetu.

Um er að ræða ferðakostnað fyrir þá sem koma á aðalstjórnar-, framkvæmdastjórnar- og nefndafundi, fundi með bakhópum vegna ákveðinna mála innan ÖBÍ og vegna setu í nefndum og ráðum fyrir hönd ÖBÍ hjá opinberum aðilum (ríki og sveitarfélög).

Greitt er fyrir ódýrasta flug til og frá Reykjavík, eða sem tilsvarar þeirri upphæð, annars hálft kílómetragjald. Greitt er fyrir þá sem fara í gegnum Hvalfjarðargöng. Höfuðborgarsvæðið er tilgreint sem eftirtalin sveitarfélög: Reykjavík, Hafnarfjörður, Álftanes, Garðabær, Kópavogur, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.

Skrifstofu ÖBÍ var falið að meta hvern fund eða ferð fyrir sig.“

Aðalstjórn samþykkti tillöguna samhljóða.

Spurt var hvort einhugur hefði verði í framkvæmdastjórn um tillöguna? Formaður sagði svo hafa verið.

6.   Afmælisár ÖBÍ

Formaður sagði frá því að afmælisár ÖBÍ hefjist formlega með ráðstefnu 25. febrúar í samstarfi við fötlunarfræði HÍ. Allt starf bandalagsins á árinu tengist afmælinu. Haldin verður ráðstefna um verkefni sem tengist evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun, afmælisrit verður gefið út og afmælisveisla verður haldin á afmælisdeginum 5. maí nk. þar sem kvikmynd um bandalagið verður frumsýnd. Einnig verða haldnar ráðstefnur á vegum NNDR og HÍ en háskólinn á 100 ára afmæli á árinu. Áætlað er að saga ÖBÍ í 50 ár komi út 3. desember og í tengslum við hana verður haldin sögusýning.

7.   Fjárhagsáætlun 2011

Drög að fjárhagsáætlun bandalagsins var lögð fram. Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ kynnti hana lið fyrir lið. Einu tekjur bandalagsins eru frá Lottó en þeim er skipt í þrennt, hluti fer til Brynju hússjóðs, almenns reksturs ÖBÍ og aðildarfélaga ÖBÍ. Áætlun tekna samtals 2011 eru 320 milljónir. Lagt er til að styrkur til Brynju hússjóðs verði óbreyttur eða 80 milljónir og að aðildarfélög ÖBÍ fái 50 milljónir, aðrir styrkir verði 5 milljónir.

Umræður urðu um áætlunina og voru m.a. skiptar skoðanir á framlagi til Brynju hússjóðs, innlenda aðstoð, erlenda aðstoð og hækkun styrkja til Kvennahreyfingar ÖBÍ. Athugasemd kom um að styrkir til aðildarfélaga hefði átt að hækka vegna núverandi ástands í þjóðfélaginu. Rætt var um starf djákna og voru skoðanir skiptar. Djákninn hefur farið aðeins út fyrir sitt verksvið og veitir þjónustu sem félagsráðgjafi veitir ekki, sér t.d. um matarmiða og umsóknir um mataraðstoð. Mótrökin voru að þar sem starf djákna byggi á trúarhugmynd þá væri þetta trúarmismunun.

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, fulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ fór aðeins yfir starf Kvennahreyfingarinnar.

Ægir Lúðvíksson, MND félagi Íslands lagði fram tillögu til breytingar á fjárhagsáætlun:

Þar sem Brynja hússjóður stendur ágætlega legg ég til að framlag til Brynju lækki úr 80 milljónum í 60 milljónir.

Tillagan var felld með öllum atkvæðum gegn einu.

Fjárhagsáætlunin var borin upp í heild sinni og var samþykkt samhljóða.

8.   Kynning á skýrslu húsnæðisnefndar ÖBÍ

Formaður lagði fram skýrslu húsnæðisnefndar en í henni sátu fulltrúar frá ÖBÍ, Brynju hússjóði, Geðhjálp, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og félagmálaráðuneytinu. Skýrslunni var dreift til fundarmanna. Nefndin var sett á laggirnar að ósk Geðhjálpar og átti að skila niðurstöðu fyrir tveimur árum en starfið var mun veigameira en talið var í upphafi en með útgáfu skýrslunnar lýkur starfinu.

9.   Fundir og námskeið framundan

Framkvæmdastjóri sagði frá fundum og námskeiðum sem eru framundan.

Almenn ánægja var með námskeiðin. Athugasemdir komu fram vegna dags- og tímasetninga og spurt var hvort hægt væri að fá glærur eða pappír ef viðkomandi kæmist ekki á námskeiðin? Sjálfsagt er að verða við slíkri beiðni.

10. Næsti aðalstjórnarfundur

Næsti aðalstjórnarfundur verður 24. febrúar nk. ef formaður verður ekki á fundi úti á landi vegna fundaraðar ÖBÍ vegna yfirfærslunnar.

11. Önnur mál.

Tímarit ÖBÍ liggur frammi en það verður sent til aðildarfélaga. Skýrsla húsnæðisnefndar verður einnig send út ásamt því að birtast á heimasíðu ÖBÍ.

Fundi slitið kl. 19.55.

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.