Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 13. október 2011

By 6. janúar 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn í Hátúni 10, 9. hæð, fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 17.00-19.00.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Ás, styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélagið – Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
FAAS – María Th. Jónsdóttir
Félag CP á Íslandi – Örn Ólafsson
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
Hugarfar – Kristín B.K. Michelsen
Málbjörg –Sveinn Snær Kristjánsson
Málefli – Elfa Rún Árnadóttir
MND-félagið – Ægir Lúðvíksson
MS-félagið – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Parkinsonsamtökin – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Þórir Steingrímsson
SPOEX – Albert Ingason
Stómasamtökin – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette samtökin – Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ:
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnisstjóri
S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Sigurjón Unnar Sveinsson, lögfræðingur
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari

Fundargerð

1.  Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Í forföllum formanns, Guðmundar Magnússonar, bauð varaformaður bandalagsins, Hjördís Anna Haraldsdóttir fundarmenn velkomna og bað þá um að kynna sig.

2.  Fundagerð frá 7. september 2011 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt.

3.  Skýrsla formanns.

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, las punkta úr skýrslu formanns. Þar kom fram að starfsfólk bandalagsins skiptir með sér verkum til að fara yfir fjárlagafrumvarp fyrir 2012. Tímarit bandalagsins verður gefið út 1. nóvember nk., ritstjóri er Margrét Jochumsdóttir. Margrét ásamt Báru Snæfeld er að undirbúa gerð veftímarits. Hrefna K. Óskarsdóttir verkefnisstjóri ÖBÍ vegna yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sagði frá fundaröðinni á höfuðborgarsvæðinu og tók sérstaklega fram að fáir notendur mættu á fundina. Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari ÖBÍ hefur ásamt Ragnhildi Ragnarsdóttur hönnuði unnið að undirbúningi sögusýningar sem haldin verður í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 14.-27. nóvember nk. en útgáfu sögu bandalagsins í 50 ár verður fagnað með boði í ráðhúsinu 14. nóvember. Bókin verður sett á heimasíðu ÖBÍ í rafrænu formi en óvíst er hvenær það verður tilbúið. Ráðstefna um fötlunarrannsóknir „Mannréttindi eða aumingjagæska? Fötlun og örorka í velferðarríkinu Íslandi“ verður haldin 1. desember nk. og stendur Rannsóknasetur í fötlunarfræði ásamt ÖBÍ fyrir henni. Hvatningarverðlaun verða afhent í Salnum í Kópavogi 3. desember nk.

Nýr lögmaður, Sigurjón Unnar Sveinsson hefur hafið störf í 50% starfshlutfalli. Aðalfundur ÖBÍ verður haldinn 22. október nk. Fundur EDF í Póllandi er helgina 15.–16. október og mun Þórný Björk Jakobsdóttir verða fulltrúi bandalagsins á fundinum þar sem Guðmundur kemst ekki vegna veikinda.  Vikuna 25.-27. október munu Guðmundur og Lilja sitja norræna fundi.

4.  Frumvarp til fjárlaga.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012 er komið út og hefur bandalagið tíma fram til nóvember að koma með athugasemdir við það. Það er ýmislegt í frumvarpinu sem þarf að athuga s.s. aukin greiðsluþátttaka sjúklinga en gert er ráð fyrir um 200 milljóna króna sparnaði vegna þess. Styrkir til bifreiðakaupa munu ekki hækka, né uppbætur t.d. vegna mikils lyfjakostnaðar. Margar fyrirspurnir hafa borist bandalaginu frá fólki sem getur ekki greitt lyf og hjálpartæki því þátttaka ríkisins er ekki nægileg. Skerða á maka og umönnunarbætur og er sparnaður í sjúkraþjálfun og aldurstengdu uppbótinni, svo dæmi séu nefnd.

Á fundi sem formaður og framkvæmdastjóri sátu með velferðarráðherra sagði ráðherra að bætur myndu hækka um 3,5% á næsta ári, verðbólgan er 3,7%. Ráðherra taldi að þetta væri nógu vel gert í kreppunni og minnti á að bætur hefðu hækkað um 8,1% á þessu ári, en hann var minntur á að bætur hafa ekki hækkað í samræmi við lög og verðlag, skerðingar hafa orðið og urðu harðar umræður um þetta. 

Umræður

Rætt var um hvort það sé sparnaður í raun að fólk fái eldri hjálpartæki þegar þörf er á nýjum. Væntanlega mun endurnýting á hjálpartækjum aukast, nýjum hjálpartækjum hefur varla verið úthlutað sl. 2-3 ár og oft eru settar inn reglugerðir þar sem sparnaði er laumað inn í án þess að fólk viti af. Auka þarf greiðsluþátttöku ríkisins í kaupum á hjálpartækjum, hvort sem þau fást í gegnum Hjálpartækjamiðstöðina eða ekki. T.d. ættu heyrnartæki að falla undir hjálpartæki en greiðsluþátttaka ríkisins í þeim er einungis 30.800 kr. en tækin kosta allt að hálfri milljón eða meira. Sífellt er ætlast til þess að fólk borgi meira í hjálpartækjum en samt er tekið fram að tækin séu eign ríkisins, þetta þarf að skoða og er hugsanlega verður verkefni fyrir nýjan lögmann ÖBÍ. Gríðarlega mikilvægt er að aðildarfélögin haldi vöku sinni og verði dugleg að senda inn athugasemdir við fjárlögin.

5.  Starfshópur um endurskoðun almannatrygginga.

Starfshópur á vegum velferðarráðuneytisins hefur unnið að endurskoðun á almannatryggingalögunum. Gera á breytingar á lögunum án þess að bæta við fjármagni og sífellt er leitað að núll lausn. Því byggjast tillögur starfshópsins aðallega á tilfærslum innan hópsins. Starfshópurinn hefur fjallað um ellilífeyri, ekki er byrjað að tala um örorkulífeyri, en hópurinn þarf að ljúka störfum fyrir áramót. Sú vinna sem farið hefur fram samrýmist ekki erindisbréfi nefndarmanna, það er að almannatryggingarkerfinu verði breytt án aukins fjármagns. Hugmyndin er að einfalda kerfið og sameina bótaflokka en í raun koma þær oft út sem auknar tekjutengingar. Fulltrúi ÖBÍ í starfshópnum er Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi. Til að styðja við hana var búinn til bakhópur innan ÖBÍ.

Einnig er starfandi vinnuhópur um umönnunarbætur og foreldragreiðslur. Fulltrúi ÖBÍ er Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp. Að beiðni Höllu sendi Bára beiðni til aðildarfélaga ÖBÍ um að fá frá þeim ábendingar um hvað betur mætti fara og bárust mjög góð svör frá Gigtarfélaginu, enn er tækifæri til að senda inn ábendingar.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt og mun Sigríður leggja hana fyrir starfshópinn:

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands ályktar á fundi sínum 13. október 2011.

ÖBÍ fagnaði því að endurskoða ætti lög um almannatryggingar með það að markmiði að gera lífeyrisgreiðslur einfaldari og réttlátari.

Mikilvægt er að það komi skýrt fram í lögunum, hvert sé markmið þeirra og hvort að í raun sé um að ræða borgaraleg réttindi eða ölmusu.

Miðað við Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þá alþjóðlegu samninga sem gerðir hafa verið, s.s. samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, er það alveg ljóst að samfélaginu ber skylda til að tryggja borgurum sínum framfærslu. Í 28. gr. hans kemur fram að aðildarríkin viðurkenni rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, m.a. viðunandi fæðis og klæða, fullnægjandi húsnæðis og til stöðugt bættra lífskjara og skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar sakir fötlunar.

ÖBÍ telur að byrjað hafi verið á öfugum enda í vinnu starfshópsins og ekki unnið markvisst samkvæmt erindisbréfi. Fyrst þurfi að ná samstöðu um markmið almannatrygginga og á hvaða grundvallaratriðum þær eiga að byggja, sbr. erindisbréf til starfshópsins. Eftir að þeirri vinnu er lokið er hægt að láta reikna út kostnaðinn.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur á að vera fimmtudaginn 24. nóvember samkvæmt fundaplani en þar sem vinsæll viðburður íbúa á Hátúnssvæðinu, Gospelkvöld, verður í salnum þann dag var ákveðið að færa fundinn fram um einn dag. Næsti aðalstjórnarfundur verður því haldinn miðvikudaginn 23. nóvember, kl. 17:00-19:00.

7.  Önnur mál.

a) Tölvupóstur frá ÖBÍ.

Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra, kom því á framfæri að hún vildi ekki fá áframsendan tölvupóst frá skrifstofu bandalagsins þar sem boðið er upp á ýmiss konar þjónustu og auglýsingar fyrirtækja, heldur mætti benda slíkum aðilum á að vera í sambandi við félögin sjálf. Einnig sagði Jórunn að sér fyndist tillögur sem lagðar eru fram á fundum bandalagsins, ekki nógu vel unnar, s.s. hvað varðar orðalag og hvatti til vandaðri vinnubragða.

Framkvæmdastjóri tók ábendinguna um fjöldasendingar frá fyrirtækjum til greina og sagði að það einnig væri hugsanlega hægt að bjóða slíkum aðilum að setja tengil eða auglýsingu á heimasíðu ÖBÍ því fólk hringdi mikið til bandalagsins með fyrirspurnir um afslætti og þjónustu.

Í umræðu um tölvupóst kom fram að fólk vissi ekki um hvaða áframsendu auglýsingar væri að ræða og aðspurð vildi Jórunn ekki upplýsa um það. Bent var á að tillögur sem lagðar voru fyrir fundinn hafi verið yfirfarnar og leiðréttar af mörgum og því ekki rétt að gera lítið úr þeirri vinnu.

b) Framboðsfrestur á aðalfundum ÖBÍ.

Hallldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu, sagðist vera hlynntur framboðsfresti fyrir aðalfund þannig að fundarmenn gætu kynnt sér frambjóðendur fyrir fundinn.

Fundi var slitið kl. 19.15.

Fundarritarar, Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.