Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 15. desember 2010

By 16. janúar 2011No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ miðvikudaginn 15. desember 2010 kl. 17.00-19.30, í Hvammi, Grand hóteli, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Ás styrktarfélag – Þóra Margrét Þórarinsdóttir
Blindrafélagið – Halldór S. Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
Daufblindrafélag Íslands – Ágústa Gunnarsdóttir
FAAS – María Th. Jónsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra – Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Geðhjálp – Einar Kvaran
Gigtarfélagið – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Kristín B. Michelsen
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málefli – Þórdís Bjarnardóttir
MS-félagið – Garðar Sverrisson
Parkinsonsamtökin – Snorri M. Snorrason
Samtök sykursjúkra – Sigríður Jóhannsdóttir
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra – Þórir Steingrímsson
Stómasamtökin – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette samtökin – Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsmenn ÖBÍ:

Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi ÖBÍ
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu ÖBÍ
Hrefna K. Óskarsdóttir, starfsmaður yfirfærsluhóps ÖBÍ

Gestir:

Björn Arnar Magnússon – Brynja hússjóður Öryrkjabandalagsins

Fundargerð:

1.   Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ setti fund kl. 17:15, bauð fundarmenn velkomna og bað þá að kynna sig.

2.   Skýrsla formanns.

Formaður flutti skýrslu sína (viðauki A), þar kom meðal annars fram að 100.000 kr. frítekjumark (nú 109.000) á launatekjur öryrkja verður óbreytt skv. fjárlögum fyrir árið 2011, lagt hefur verið fram meingallað frumvarp um breytingar á lögum um málefni fatlaðra, ráðinn var starfsmaður yfirfærsluhóps ÖBÍ, Hrefna K. Óskarsdóttir, fötlunarfræðingur, húsnæðishópur ÖBÍ hefur lokið störfum og lagt fram 8 tillögur til úrbóta (viðauki C), ráðstefna verður haldin á vegum Evrópuárs gegn fátækt, norrænn fundur var haldinn í Osló í nóvember og fundur var haldinn á vegum Evrópusambandsins og EDF í Brussel í nóvember þar sem farið var yfir 33. gr. samnings SÞ um réttindi fólks með fötlun.

Orðið var gefið laust um skýrsluna. Enginn kvað sér hljóðs.

3.   Fundargerð frá 7. október sl.

Fundargerð frá 7. október 2010 var samþykkt samhljóða.

4.   Kynning á starfsemi Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins og á niðurstöðum könnunar meðal íbúa.

Garðar Sverrisson formaður og Björn Arnar Magnússon framkvæmdastjóri Brynju hússjóðs sögðu frá starfsemi Brynju og könnun sem gerð var meðal leigjenda.

Brynja hússjóður Öryrkjabandalagsins er sjálfseignarstofnun. Starfsemin hefur verið fjármögnuð með hluta af lottótekjum ÖBÍ og félagslegum lánum frá Íbúðalánasjóði vegna íbúðakaupa. Starfsmenn skrifstofu eru 4 í 3,8 stöðugildum. Þá eru tveir smiðir í föstu starfi auk fjölda verktaka.

Brynja og Vinnustaðir ÖBÍ munu flytja yfir í Hátún 10d (Múlalundarhúsið) snemma árs 2011. Í framtíðinni mun núverandi tengibygging hýsa starfsemi sem tengist íbúum Hátúns 10, 10a og 10b, m.a. aðstöðu húsvarða, skrifstofu félagsþjónustu, sal, setustofu og dagdeild geðdeildar. Áætlað er að framkvæmdir við endurnýjun á tengibyggingunni hefjist árið 2012.

Áætlanir gera ráð fyrir 50 milljóna kr. tapi á starfseminni árið 2010 en jafnvægi árið 2011. Eiginfjárhlutfall verður í kringum 60% í árslok 2010. Helstu verkefni eru áframhaldandi uppbygging með kaupum á 20 til 25 nýjum íbúðum árlega og eldri íbúðir sem ekki standast kröfur verða seldar. Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á að kaupa gæðaíbúðir með lyftu og bílageymslu. Meiri áhersla verður lögð á viðhaldsþjónustu.

Íbúðir eru um allt land og var heildarfjöldi íbúða 1. september 2010 samtals 707, þar af voru 483 íbúðir í Reykjavík. Flestar íbúðir eru tveggja herbergja, þar á eftir koma einstaklingsíbúðir, 3ja herbergja, 4ra herbergja, raðhús og að lokum 5 herbergja íbúðir. Stærð íbúða miðast við óskir leigjenda. Unnið er að fækkun og stækkun íbúða á Hátúnssvæðinu. Á næstu 5 árum verður íbúðum fækkað um 31, þá verður heildarfjöldinn kominn úr tæp 250 í 189 í 3 fjölbýlishúsum. Upplýsingar um leiguverð eru á heimasíðu Brynju, www.brynjahus.is

Í september 2010 voru 228 á biðlista eftir húsnæði hjá Brynju, allt nýtt fólk. Um 82% af fólki á biðlistanum eru einstaklingar sem óska eftir 2ja herbergja íbúðum. Þeir sem leigja hjá Brynju njóta ekki sérstakra húsaleigubóta frá Reykjavíkurborg. Lögfræðingur ÖBÍ skrifaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kvörtun um málið 12. janúar 2010 og var því svarað 18. nóvember 2010 og kemur fram í því áliti að þetta brýtur í bága við jafnræðisreglu. Því verður Reykjavíkurborg að lagfæra þetta.

Félagsvísindastofnun HÍ framkvæmdi þjónustukönnun meðal leigutaka hjá Brynju í október 2010 og var svarhlutfall 67%. Neytendasamtökin könnuðu leiguverð í júlí 2010 og þá kom í ljós að Brynja er mun ódýrari en almenni markaðurinn, að jafnaði er um 90% mismunur. Munur á milli Búseta og Brynju er ekki jafn gríðarlegur. Árið 2010 voru gerðir 150 leigusamningar, sem endurspeglar það að fólk flytur innan kerfisins.

Í könnun Félagsvísindastofnunar kom fram þegar spurt var um kosti Brynju hússjóðs að þeir væru: Öryggi, sveigjanleiki, auðvelt að flytja milli sveitarfélaga því íbúðir eru dreifðar um allt land, ekki er krafist tryggingar af leigutaka og að leiguverð er hagstætt.

Fyrirspurnir og umræður.

Menn fögnuðu könnuninni og þóttu niðurstöður jákvæðar. Skorað var á Brynju og ÖBÍ að koma þessari þekkingu og fróðleik á framfæri í fjölmiðlum til almennings, því þar örlar á misskilningi og vanþekkingu á hússjóði og ÖBÍ. Fram kom að mun meira gegnumstreymi fólks er þarna í gegn en kemur fram í umræðunni.

Spurt var af hverju sambýli væru svona miklu dýrari í leigu en venjulegt húsnæði? Spurt var hvernig tryggt væri að notendur kæmu sínum sjónarmiðum á framfæri? Hvernig er vilji notenda mældur? Er til notendaráð? Er hægt að sjá könnunina í heild sinni?

Garðar svaraði því til að sambýli hafa verið leigð út á forsendum og samkvæmt leiðbeiningum ríkisins og stuðst er við reikningsforrit Íbúðalánasjóðs varðandi leigufjárhæð. Ef menn semja til lengri tíma þá verður leigan ódýrari. Ekki er til notendaráð en fólk er duglegra að hringja en ætla mætti. Könnunin er líka góður vegvísir. Ekkert er því til fyrirstöðu að fólk fái að sjá alla könnunina og gaman væri að halda annan fund þar sem hún yrði skýrð lið fyrir lið, þar sem spurningarnar skýra sig ekki allar sjálfar.

Formaður lýsti yfir mikilli ánægju með Brynju hússjóð og sagði að eini ljósi punkturinn við yfirfærsluna væri Brynja, því þá er tryggt að fólk geti flutt sig milli sveitarfélaga vandræðalaust. Aðalatriðið er að fólk hafi val um hvar það vilji búa og hvernig. Brynja er góður kostur, því hægt er að færa sig til innan kerfisins og flóra íbúða er mjög fjölbreytt.

Hlé var gert í 10 mínútur.

5.   Kosning í stjórn Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins.

Formaður lagði til að núverandi stjórn Brynju hússjóðs yrði óbreytt næstu 3 ár eða þar til skipulagsskrá verður samþykkt. Núverandi stjórn skipa Garðar Sverrisson, Emil Thóroddsen, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þórey Vigdís Ólafsdóttir. Spurði hvort væru aðrar tillögur?

Tvær tillögur komu fram. Frímann Sigurnýasson, SÍBS, hefði viljað að óskað hefði verið eftir tilnefningum aðildarfélaga og að kjörnefnd stilli upp hugmyndum. Hann lagði jafnframt til að Sigurður Rúnar Sigurðsson, fráfarandi formaður SÍBS yrði kosinn sem fulltrúi í Brynju. Ágústa Gunnarsdóttir, Blindrafélaginu, bauð sjálfa sig fram í stjórn Brynju.

Spurt var um hversu mikið starf það væri að vera í stjórn? Garðar svaraði því til að fundarseta væri 1 sinni í mánuði en veruleg vinna þar á milli. Gögn eru send með tölvupósti og menn tala saman. Formaður vinnur náið með framkvæmdastjóra. 

Kosið var um eftirtalda aðila og atkvæði fóru á þennan veg:
Steinunn Þóra Árnadóttir           27 atkvæði
Garðar Sverrisson                     26 atkvæði
Emil Thóroddsen                      25 atkvæði
Þórey Vigdís Ólafsdóttir            16 atkvæði
Ágústa Gunnarsdóttir                11 atkvæði
Sigurður Rúnar Sigurjónsson       7 atkvæði

Niðurstaða kosninganna:

Stjórn skipa Steinunn Þóra Árnadóttir, Garðar Sverrisson, Emil Thóroddsen og Þórey Vigdís Ólafsdóttir.

6.   Fjárhagsáætlun ÖBÍ fyrir árið 2011 kynnt.

Gjaldkeri ÖBÍ og framkvæmdastjóri ÖBÍ komust hvorug á fundinn og því verður fjárhagsáætlun send út með skýringum, svo hægt sé að taka hana fyrir á aðalstjórnarfundi í janúar.

7.   Yfirfærsla á málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og breytingar á lögum um málefni fatlaðra.

Formaður lagði til að dagskrárliður 7 og 8 yrðu ræddir saman. Samþykkt.

8.   Fjárlög 2011.

Orðið var gefið laust um umsagnir ÖBÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra og um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011.

Lýst var yfir ánægju með umsagnir ÖBÍ, hræðslu vegna yfirfærslu málefna fatlaðra í tengslum við að fjármagn sem ætlað er til málaflokksins haldist innan hans og að fagþekking flytjist með. Hugsanlega verður meira um það að menn fái ekki þjónustu á þeim forsendum að viðkomandi sé ekki það sem hann er, það er að sveitarfélögin viðurkenni ekki fötlunarvandamálin. Um áramót þurfa hagsmunasamtök fatlaðra að ræða við 15 byggðasamlög og því þarf að huga að því hvernig réttindagæsla fari fram. Hugsanlega væri hægt að vera með teymi sem starfar á ákveðnum svæðum. Oft einangrast félagsmenn á landsbyggðinni frá félögum fatlaðra en þá þarf að aðstoða líka. Áhyggjur eru af eftirlitshlutanum, rætt er um að skerpa innra eftirlit, en það ytra þarf ekki síður að vera gott. Einnig kom fram von um að yfirfærsluhópurinn haldi áfram störfum. Þar hefur verið rætt að koma á trúnaðarmannakerfi innan svæðanna og fara með fundarherferð um allt land.

9.   Önnur mál.

a)   Fundaraðstaða.

Snorri Már Snorrason, Parkinsonsamtökunum lagði fram tillögu og greinargerð fyrir hönd Parkinsomsamtakanna og Félags nýrnasjúkra varðandi að ÖBÍ komi sér upp fundaraðstöðu með netaðgangi sem nýtist aðildarfélögum þess til funda og að lagt verði mat á það hvort og hvernig fjarfundabúnaður geti nýst ÖBÍ og aðildarfélögum þess. Samþykkt.

b)  Framleiðslueldhús Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við Lindargötu.

Formaður sagði frá því að eldhúsið er að taka upp nýja eldunaraðferð, svokallað kælieldhús. Þessi aðferð er heilsusamlegri, hreinlegri og auðveldara er að fá sérfæði. Fólk getur fengið mat til tveggja daga og hitað hann upp þegar því sjálfu hentar. Ef aðildarfélög hafa áhuga á að fá kynningu á þessu fyrirkomulagi frá Velferðarsviði (viðauki B) vinsamlegast sendið Sigríði hjá ÖBÍ tölvupóst á netfangið sigridur@obi.is

c)   Húsnæðisnefnd ÖBÍ.

Formaður sagði frá því að húsnæðisnefnd ÖBÍ hefði lokið starfi sínu og lagt fram 8 tillögur til úrbóta (viðauki C). Skýrsla nefndarinnar kemur út á næstu dögum og verður send til aðildarfélaga og sett á heimasíðu ÖBÍ.

Fundi var slitið kl. 20:00 og farið í jólahlaðborð.

Fundarritari,
Þórný Björk Jakobsdóttir.

                                                                                                                                Viðauki A

Skýrsla formanns

Aðalstjórnarfundur 15. desember 2010

Góðir félagar

Þetta er fyrsti aðalstjórnarfundur frá aðalfundi og margt hefur gerst í okkar málum.

Fjárlög fyrir árið 2011 hafa verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd frá því um miðjan nóvember.

ÖBÍ mótmælti harðlega skerðingum á kjörum öryrkja og fór fram á það við stjórnvöld að gerðar verði tafarlausar breytingar á fjárlagafrumvarpinu til hagsbóta fyrir þá sem þurfa á velferðarkerfinu að halda.

Í gærkvöldi fékk ég þær fréttir að ekki hefði tekist að þoka örorkubótunum upp svo nokkru næmi. Lágmarksbætur hækka um 2,3% en annað verður fryst áfram. Af 350 milljörðum sem fara í almannatryggingar fara 200 til öryrkja. Varðandi 100.000,- kr. frítekjumarkið á launatekjur öryrkja þá verður það óbreytt (í dag 109.000,-).

Lagt hefur verið fram frumvarp til breytinga á lögum um málefni fatlaðra, sem hefði þurft að vera komið fyrir löngu, en er samt meingallað.

Stýrihópur Verkefnisstjórnar um yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga hélt sinn síðasta fund föstudaginn 3. desember síðastliðinn. Sýnist sitt hverjum um að hann hafi verið á alþjóðlegum degi fatlaðra og fer það eftir þeim væntingum sem menn hafa til flutningsins.

Hópurinn var kallaður a.m.k. þrisvar fyrir félags- og trygginganefnd til að ræða stöðuna og nú síðast 10. desember og þá til að ræða hvernig menn líta á frumvarpið og hvort menn telji að það gangi upp. Nefndarmenn höfðu áhyggjur af nokkrum atriðum, svo sem eftirliti og deildu þeim með okkur. Við gerðum skýra athugasemd við að aðeins ætti að treysta á innra eftirlit, án þess að styrkja verulega ytra eftirlit og má benda á hrun bankanna, sem víti til varnaðar, en þar var „heilmikið innra eftirlit“ en skorti algerlega sterkt ytra eftirlit. Og því fór sem fór! 

Umsögn okkar er á heimasíðu ÖBÍ og gerðum við athugasemdir við nokkrar greinar, en fyrst og fremst töldum við með vísan í ályktun aðalstjórnar frá 22. júní í ár að koma þyrfti lagaumhverfi á hreint og byrja á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en mikið vantar upp á að frumvarpið sé í anda samningsins.

Verkefnahópur ÖBÍ um yfirfærsluna hefur starfað jafnt og þétt og verið okkur mikill styrkur. Nú höfum við ráðið starfsmann til að halda utan um það starf og ekki hvað síst það eftirlit sem í hönd fer. Þetta er Hrefna Karónína Óskarsdóttir, fötlunarfræðingur. 

Ef menn vilja koma einhverju á framfæri, sem snertir yfirfærsluna, framkvæmd hennar eða annað er upplagt að hafa samband við Hrefnu, en hún er með netfangið hrefna@obi.is

Þeir sem skráðu sig í hópinn í upphafi hafa ekki allir getað mætt alltaf og getur ýmislegt hafa hamlað því, t.d. fundartími. Það er mikilvægt að þessi hópur starfi áfram og verði til skrafs og ráðagerða, auk þess að fylgjast vel með framkvæmdinni. 

Það segir sig sjálft að með því að gera þetta allt meira og minna á síðustu stundu mun mjög margt koma upp, bæði fyrirséð og ófyrirséð.

Einn kost er að finna í þessum breytingum, en það er sú staðreynd að þegar ráðist er í slíkar breytingar fara menn oft að hugsa sín störf upp á nýtt og það er einmitt það sem gerist nú. Við Hrefna höfum heimsótt sveitarfélögin hér í kring og það er áberandi að allir vilja gera vel. Reykjavíkurborg hefur sett á stofn nokkra hópa til að undirbúa og hafa eftirlit með yfirfærslunni, þar á meðal notendahóp. Nýlega heimsóttum við félagsmálafulltrúa og starfsmann verkefnisins í Kópavogi og þar kom fram að bæjarstjórnin hafði hvatt alla starfsmenn bæjarins til að fara á námskeið hjá fötlunarfræðinni um samninginn og nýja sýn á fötlun og allir sem starfa í félagsþjónustunni voru skyldaðir til að mæta. Auk þess fóru nokkrir yfirmenn til Stokkhólms að kynna sér málin þar og þá einkum NPA. Fundað var bæði með STIL og JAG sem eru samvinnufélög notenda, líkt og NPA-miðstöðin. 

Gert er ráð fyrir í dagskrá fundarins að ræða sérstaklega þessi tvö frumvörp og hvernig ÖBÍ skuli bregðast við þeim.

Húsnæðishópur ÖBÍ hafði sinn lokafund 29. nóvember sl. og er skýrslunni í raun lokið, aðeins er eftir að fá inn nokkur gögn, sem fylgigögn og beðið er eftir síðustu athugasemdum nefndarmanna í netpósti. Tillögur nefndarinnar eru þó komnar.

Nú hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið stofnað nefnd til að gera tillögur að stefnumótun í almennum húsnæðismálum ríkisins, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Skýrsla okkar mun verða gott vinnuplagg fyrir þá nefnd, en við eigum okkar fulltrúa þar, auk þess sem fulltrúi ráðuneytisins í okkar nefnd er einnig í þessari og heldur þar fram okkar starfi.

Evrópuár gegn fátækt veitti okkur og Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum hæsta rannsóknarstyrkinn til að rannsaka stöðu fatlaðra fjölskyldna (Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja). Næstkomandi föstudag verður ráðstefna í Ráðhúsi Reykjavíkur, þar sem kynnt verða þau verkefni er hlutu styrk og þar með staðan á rannsókn Rannsóknarseturs í fötlunarfæðum.

Svo við snúum okkur að lífeyrissjóðsmálunum og víxlverkunum þá er samþykkt að þær haldi ekki áfram eins og verið hefur a.m.k. næstu þrjú árin. Síðan eru hafnar viðræður við Tryggingastofnun um að bætur sem greiddar eru samkvæmt lögum 99/2007 þ.e. félagslegar bætur a.m.k. að hluta, verði ekki reiknaðar inn sem laun við útreikning á greiðslum frá lífeyrissjóðum og að tryggingastofnun skerði ekki bætur ef lífeyrissjóðsgreiðslur hækka.

Fæ viðtal við Sigurbjörn hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda síðar í dag en hann er í viðræðunefnd vegna málsins við yfirvöld og TR.

Norræna samstarfið var rætt á fundi í Osló dagana 8.-10. nóv. og sýnist þar sitt hverjum, en allir voru sammála um að breyta þurfi fyrikomulaginu svo að rödd okkar heyrist alla leið. 

EDF fundaði í Brussel daga 18.-21. nóvember, en einkum var þar rædd 33. gr. samnings SÞ um réttindi fólks með fötlun.

Varðandi 33. gr.

Í 1. mgr. 33. grein er kveðið á um skyldu ríkjanna til að tilnefna eina miðstöð eða fleiri (e. focal point) innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samningsins. Ýmsar leiðir eru til að stofna til slíkrar miðstöðvar, t.d. innan eins ráðuneytis eða innan nokkurra ráðuneyta, t.d. stofnun á borð við nefnd um málefni fatlaðs fólks, eða stofnun sérstaks ráðuneytis á borð við ráðuneyti mannréttindamála o.s.frv. Jafnframt þurfa stjórnvöld að skoða þann kost að koma á samræmingarkerfi innan stjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir aðgerðum vegna framkvæmdar samningsins á ólíkum sviðum og ólíkum stigum. Slík samræmingarkerfi geta virkað sem milliliður á milli stjórnvalda og t.d. þjóðbundinnar mannréttindastofnunar, eða milli stjórnvalda og einstaklinga ásamt hagsmunasamtökum þeirra. 

2. mgr. 33. gr. kveður á um að aðildarríki samningsins skuli viðhalda, styrkja, tilnefna eða stofnsetja eitt eða fleiri sjálfstæð eftirlitskerfi, til að efla, vernda og fylgjast með framkvæmd samningsins. Þegar slíkt kerfi er stofnsett skulu aðildarríki taka mið af meginreglum (svonefndum Paris Principles[1]) sem gilda um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda. Tekið er fram í greininni að borgaralegt samfélag, einkum fatlaðir einstaklingar og samtök sem fara með málefni þeirra, skulu eiga hlut að máli og taka fullan þátt í öllu eftirlitsferlinu.

Nefndin leggur til að henni verði veitt umboð til að geta orðið að þessari miðstöð innan stjórnsýslunnar í samstarfi við tengiliði úr öðrum ráðuneytum og fulltrúa frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.

Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 33. gr. samningsins telur nefndin rétt að stjórnvöld, undir forystu forsætisráðuneytisins, stofni til samstarfshóps innan stjórnarráðsins sem færi yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru hvað varðar stofnun innlendrar þjóðbundinnar stofnunar á Íslandi í samræmi við fyrrnefndar Parísarreglur Sameinuðu þjóðanna og leggi fram tillögur að þeim kostum sem staðið er frammi fyrir hvað það varðar. Í framhaldi yrði hafinn undirbúningur að stofnun þjóðbundinnar mannréttindastofnunar í samræmi við Parísarreglur sem hefði eftirlit með framkvæmd samnings þessa sem og annarra alþjóðasamninga á sviði mannréttindamála.

Nefndin leggur til að ríki og sveitarfélög veiti samtökum fatlaðs fólks almenna styrki til hagsmunagæslu. Rétt er að hluti þeirra verkefna nýtist sem athugun á því hvort ákvæði samningsins séu uppfyllt gagnvart félagsmönnum samtakanna.

Nefndin beinir því til félags- og tryggingamálaráðuneytisins að framkvæmd verði almenn lífskjarakönnun meðal fatlaðs fólks og unnin upp úr henni ítarleg skýrsla með sundurgreindum upplýsingum sem auðvelda eftirfylgd og framfarir. Eftir það skal ráðuneytið vinna reglulegar skýrslur á 4 ára fresti.

 

Viðauki B

 

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar undirbýr að taka upp nýtt fyrirkomulag, kælieldun, í framleiðslueldhúsinu við Lindargötu. Eldhúsið framleiðir mat sem sendur er heim og mat fyrir félagsmiðstöðvar fullorðinna. Meðfylgjandi eru glærur og stutt samantekt um breytingarnar og kynning á kælieldun. Breytingin mun líklega koma til framkvæmda á næsta ári. 

Velferðarsvið býðst til að vera með kynningu á breyttu fyrirkomulagi fyrir aðildarfélög ÖBÍ í byrjun janúar nk. Dagsetning og staðsetning kynningarinnar hefur ekki verið ákveðin.

Vinsamlegast sendið mér tölvupóst, helst fyrir jól, ef þið hafið áhuga á að fá kynningu. 

Með kveðju,

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ, Sími: 530 6700, netfang: sigridur@obi.is

Viðauki C

Tillögur húsnæðisnefndar ÖBÍ

Húsnæðisnefnd ÖBÍ hefur sameinast um eftirfarandi átta tillögur til úrbóta og um stefnumótun í málaflokknum húsnæðismál öryrkja/fatlaðra:

1)     Að ríki og sveitarfélög, móti heildarstefnu um þjónustu og aðstoð við fatlaða og öryrkja í húsnæðismálum. Stefnumótunin verði unnin í náinni samvinnu við hagsmunasamtök notenda og samhliða yfirfærslu á málaflokknum. Stefnumótunin taki mið af Samningi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fólks með fötlun. Miðað verði við að heildarstefna liggi fyrir í upphafi árs 2012 enda hafi þá farið fram þarfagreining og kortlagning á húsnæðisúrræðum fyrir fatlaða/öryrkja. Samstaða er í nefndinni um að æskileg framtíðarsýn væri að skilja á milli þeirra aðila sem eiga og reka húsnæði og þeirra sem veita íbúum þjónustu. Þá er mikilvægt að fólk fái þá þjónustu sem það þarf óháð staðsetningu húsnæðis, eignarhaldi eða búsetuformi.

2)     Að komið verði á einu samræmdu fyrirkomulagi um fjárveitingar opinbers húsnæðisstuðnings. Mikilvægar forsendur fyrir opinberum húsnæðisstuðningi er að miðað sé við jafnræði og aðstæður einstaklingsins hverju sinni. Þá verði réttur til opinbers húsnæðisstuðnings óháður eignarhaldi húsnæðis eða búsetuformi. Samræmt fyrirkomulag á opinberum húsnæðisstuðningi taki þannig bæði til þeirra sem eiga húsnæði og þeirra sem leigja húsnæði. Kannaðir verði kostir þess að sameina vaxtabætur, húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur. Hlutverk Íbúðalánasjóðs varðandi fjármögnun, framkvæmdir og þróun á félagslegu húsnæði verði eflt.

3)     Að í húsnæðismálum fatlaðra og öryrkja verði greint skýrlega á milli rekstrar húsnæðis og þess félagslega stuðnings og þjónustu sem notandi fær. Ávallt verði gerður leigusamningur um úthlutað húsnæðisúrræði. Leigukjör byggist á opinberum viðmiðum sem gangi út frá því að rekstraraðili geti fjármagnað og rekið húsnæði með sjálfbærum hætti.

4)     Upplýsingar um framboð á húsnæði og úthlutun húsnæðis. Tillagan er tvískipt.
a)   Að komið verði upp virku, miðlægu upplýsingakerfi um  húsnæðisúrræði fyrir fatlaða og reglur um úthlutun. Jafnframt verði  fylgst með eftirspurn eftir húsnæði, svæðisbundið og á landsvísu.
b)  Upplýsingar um úthlutunarreglur verði aðgengilegar á einum stað. Stuðlað verði að samræmi og jafnræði við úthlutanir á húsnæði með það fyrir augum að sá sem metinn er í mestri þörf hafi forgang. Kanna þarf möguleika á því að koma upp miðlægum gagnagrunni með upplýsingum um umsækjendur á biðlista ásamt forgangsröðun.

5)     Að efnt verði til átaks í aðgengismálum á grundvelli nýrra ákvæða í skipulagslögum og mannvirkjalögum, m.a. um aðgengi fyrir alla og algilda hönnun. Stjórnvöld styðji við átakið með beinum hætti í gegnum styrki til stofnframkvæmda ásamt endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna framkvæmda.

6)     Möguleikar verði auknir á fjármögnun í formi styrkja og/eða lána til að aðstoða við breytingar á eigin húsnæði vegna fötlunar og breyttra forsenda vegna veikinda.

7)     Að húsnæði á forræði svæðisskrifstofa og Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði samhliða yfirfærslunni lagt inn í nýjan fasteignasjóð, skv. samkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Samhliða hafi stjórnvöld forgöngu um að auka hagkvæmni í rekstri annars félagslegs húsnæðis, m.a. með því að kanna ávinning af sameiningu rekstrarfélaga og/eða sjálfseignarstofnana.

8)     Stjórnvöld eru hvött til að koma upp almennu leiguhúsnæðiskerfi sem byggir á möguleika á langtímaleigu og er opið öllum. Með því móti gætu margir sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði fengið lausn sinna mála. Fjölmargir sem geta ekki keypt eigið húsnæði, eru að leita eftir öruggu framtíðarhúsnæði til leigu. Í kjölfar efnahagsþrenginganna og hagstæðra skilyrða á fasteignamarkaði er sóknarfæri til að efla almennan leigumarkað. Lagt er til að Íbúðalánasjóður og/eða lífeyrissjóðir gerist aðilar að uppbyggingu leigumarkaðar með framtíðarhúsnæði fyrir leigjendur í huga. Lán til uppbyggingar á leiguhúsnæði þurfa að vera á sérkjörum og lánakjör skilyrt á þann veg að fjárfest sé til langs tíma.

 

 


[1] Sjá Parísar reglur Sameinuðu þjóðanna (Paris Principles) nr. 48/134 frá 10. desember 1993.