Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnarfundar ÖBÍ 28. febrúar 2007

By 19. desember 2007No Comments

Miðvikudaginn 28. febrúar 2007, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 16:45.

Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:

Auður Thorarensen  Félagi nýrnasjúkra
Sigríður Jóhannsdóttir  Samtökum sykursjúkra
Bryndís Snæbjörnsdóttir  Foreldra- og styrktarfélagi heyrnarlausra
Málfríður D Gunnarsdóttir Heyrnarhjálp
Guðmundur S Johnsen  Félagi lesblindra
Jón Þorkelsson   Stómasamtökum Íslands
Guðmundur Magnússon  SEM-samtökunum
Helgi Hjörvar   Blindrafélaginu
Ragnar Gunnar Þórhallsson Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra
Garðar Sverrisson  MS-félagi Íslands
Steinunn Þóra Árnadóttir gjaldkeri í framkvæmdastjórn ÖBÍ
Emil Thóroddsen   Gigtarfélagi Íslands
Þórey Ólafsdóttir  Daufblindrafélagi Íslands
Sigursteinn Másson  Geðhjálp – formaður ÖBÍ
Pétur Halldór Ágústsson  MG-félagi Íslands
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir Blindravinafélagi Íslands
Birgir Þ Kjartansson  SÍBS
Guðrún B Pétursdóttir  Umsjónarfélagi einhverfra
Hafrún Kristjánsdóttir  Geðverndarfélagi Íslands
Björn Tryggvason  Málbjörg
Tryggvi Þór Agnarsson  Tourette samtökunum
Ásbjörn Einarsson  Parkinsonssamtökunum
Þóra Þórarinsdóttir  Styrktarfélagi vangefinna
Hjördís Anna Haraldsdóttir Félagi heyrnarlausra
Ingibjörg Karlsdóttir  ADHD samtökunum
Ársæll Arnarsson  félagsmálafulltrúi ÖBÍ
Bára Snæfeld   upplýsingafulltrúi ÖBÍ

Formaður setti fund kl. 17:00. Stjórnafulltrúar kynntu sig og að því búnu flutti formaður skýrslu sína.

1. Skýrsla formanns

Lífeyrissjóðamálið

Snemma í desember var ljóst að stærstu lífeyrissjóðirnir sem aðild eiga að greiðslustofu lífeyrissjóða hygðust hverfa frá boðuðum aðgerðum gegn öryrkjum. Nokkuð babb kom í bátinn þegar átta lífeyrissjóðir, með Lífeyrissjóð Norðurlands í broddi fylkingar, lýstu því yfir að þeir sættu sig ekki við að miða við launavísitölu í útreikningum sínum á viðmiðunartekjum eins og lífeyrissjóðurinn Gildi og fleiri sjóðir höfðu ákveðið. Svo fór að tekjukönnun þessara sjóða fór fram í janúar að teknu tilliti til atvinnutekna en ekki tekna frá almannatryggingum.  Það er sú aðferð sem notuð hefur verið af hálfu margra sjóða undanfarin ár. Þegar upp var staðið höfðu því allir lífeyrissjóðirnir fjórtán hætt við boðaðar skerðingar og breytt ákvörðunum sínum. Á næstu vikum og mánuðum er boðað til ársfunda lífeyrissjóðanna og varðar þá miklu fyrir öryrkja að vera vel vakandi og freista þess að mæta á fundina þegar þess gefst kostur. ÖBÍ getur vel við unað að hafa hrundið áformum lífeyrissjóðanna en þótt þessi orrusta hafi unnist er óvíst hvort stríðið sé búið.

Það er reyndar mjög þýðingarmikið að gott samstarf sé við lífeyrissjóðakerfið, samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið vegna þeirrar sóknar í atvinnu- og endurhæfingarmálum öryrkja sem nauðsynleg er. Nú líður að lokum starfs örorkumatsnefndar forsætisráðherra þar sem Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Sjálfsbjargar hefur leitt starfið fyrir hönd ÖBÍ. Helstu atriði í þeirri vinnu voru kynnt Aðalstjórn á fundi hennar á Loftleiðum 7. janúar sl. Þar er um að ræða tillögur sem ganga út á að efla færni einstaklinga til þátttöku í samfélaginu með öflugri endurhæfingu og stoðþjónustu. Gert er ráð fyrir að Örorkumatið endurspegli betur raunverulegt ástand og aðstæður fólks og að stuðningur við fatlaða komi fyrr til skjalanna og í einni samfellu. Þessar tillögur ríma vel við þær breytingar sem orðið hafa í Noregi, Svíþjóð og í Danmörku á undanförnum árum. Nefndarniðurstaðan verður kynnt stjórnum aðildarfélaga ÖBÍ um leið og hún liggur fyrir en fulltrúi ÖBÍ mun rita undir álitið með fyrirvara um samþykki meirihluta aðildarfélaga ÖBÍ og aðalstjórnar bandalagsins. Stefnt er að því að formleg afstaða ÖBÍ til nefndarálitsins og þátttöku í útfærslu á álitinu, liggi fyrir á fundi aðalstjórnar miðvikudaginn 25. apríl nk.

Þann 22. mars nk. mun ÖBÍ og Vinnumálastofnun halda ráðstefnu um leiðir til aukinnar atvinnuþátttöku fatlaðra í samvinnu við Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins. Dagskrárdrög ráðstefnunnar er að finna í möppunni fyrir framan ykkur. ÖBÍ til halds og traust við skipulagninguna hefur verið Gunnar Guðmundsson endurhæfingarlæknir á Reykjalundi. Á ráðstefnunni Mun Bolli Þór Bollason formaður örorkumatsnefndar kynna álitið og von er á góðum gestum frá Noregi til að kynna fyrirkomulag starfsendurhæfingar og áherslur þar í landi.

Nú er komið í ljós að stór hluti heimilislausra öryrkja og þeirra sem er á miðjum aldri, og eru stöðugt að komast upp á kant við lögin, eru einstaklingar sem vistuðust á upptökuheimilum upp úr miðri tuttugustu öldinni. Formaður ÖBÍ hvatti stjórnöld á fundum með forsætis- og félagsmálaráðherra til að setja á fót þverfaglegt áfallateymi og koma sérstaklega til móts við þá einstaklinga sem ætla má að hafi mátt sæta óviðunandi stofnanavistun. Þetta eru þeir öryrkjar sem eiga sér síst málsvara, ekkert hagsmunafélag og eru sumir útskúfaðir úr samfélaginu. Sumir fjölmiðlar kunnu sér ekki hóf í umfjöllun sinni sem kann að hafa bætt gráu ofan á svart. Hinsvegar er ljóst að uppljóstrunin um níðingsskap á heimilum og stofnunum fyrir börn og unglinga hefur leitt til þess að stjórnvöld eru meðvitaðri en áður um nauðsyn eftirlits með slíkum stofnunum og nú er í undirbúningi í félagsmálaráðuneytinu tillögur að breytingu á lögum um málefni fatlaðra, með það að markmiði að efla eftirlit og lágmarka hættuna á slíkum hörmungum. Sú vinna hefur verið sett á bið á meðan farið er yfir fyrsta mannréttindasáttmála nýrrar aldar, Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, og þær breytingar sem gera þarf mögulega á íslenskum lögum í framhaldi af undirritun sáttmálans þann 30. mars.

Fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum mun undirrita sáttmálann fyrir Íslands hönd föstudaginn 30. mars. Þar með hefur Ísland skuldbundið sig til að setja engar þær reglur eða lög sem á nokkurn hátt mismuna fötluðum og ófötluðum. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu er vinna við að yfirfara íslensk lög með hliðsjón af sáttmálanum vel á veg komin og verður lokið í mars. Þann 29. og 30. mars heldur Félagsmálaráðuneytið opinn fund á hótel Nordica hóteli þar sem fjallað verður um strauma og stefnur í félagslegri þjónustu fyrir fatlaða. Þá verður einnig fjallað um sáttmála sameinuðu þjóðanna. Nánar verður svo fjallað um sáttmálann á tveggja daga ráðstefnu í haust sem haldin verður af ÖBÍ, Þroskahjálp, Háskólanum í Reykjavík og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Á þeirri ráðstefnu verður sérstaklega fjallað um lagalegar hliðar sáttmálans og þau samfélagslegu áhrif sem talið er að sáttmálinn muni hafa á næstu árum. Að mati EDF, Evrópusamtaka fatlaðra, markar sáttmálinn tímamót í langri baráttu fatlaðra. Sú eining sem náðist um meginatriði sáttmálans á milli ólíkra hreyfinga fatlaðra og ríkisstjórna um allan heim er söguleg. Fjögurra ára þrotlaus vinna fjölmargra aðila er að baki og komið að okkur að fylgja þessari góðu vinnu eftir. Að mati EDF eru það einkum fjögur atriði sáttmálans sem munu hafa mest áhrif um allan heim jafnt hjá þróunarríkjum sem á Vesturlöndum.

? Virða á sjálfsákvörðunarrétt andlega fatlaðs fólks samkv. 12. gr.
? Táknmál heyrnarlausra skal viðurkennt sem opinbert mál samkv. 21. gr.
? Opinberar útgjaldaáætlanir eiga alltaf að gera ráð fyrir þörfum fatlaðra.
? Koma skal á fót stuðningskerfi við sjálfstætt líf fatlaðra og jafnrétti til búsetu. samkv. 19. gr.

Mikilvægt er að fylgja sáttmálanum eftir með þrennskonar hætti. Í fyrsta lagi með opinberu samþættingarkerfi. Í öðru lagi með formlegum samráðsvettvangi ÖBÍ og stjórnvalda og í þriðja lagi með sérstakri óháðri eftirlitsnefnd með framkvæmdinni. Aðhaldið sem stjórnvöld munu hafa í málinu verður fyrst og fremst í gegnum hags¬muna¬félög og almenningsálit. Stjórnvöld verða ekki dregin fyrir neinn alþjóðlegan dómstól ef þau bregðast. Þess vegna er líka ástæða til að leggja áherslu á að innan árs verði sáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur á Alþingi en undirbúningur að slíkri lögfestingu er hafin á hinum norðurlöndunum. ÖBÍ hefur vakið athygli félagsmála¬ráðuneytisins á öllum þessum þáttum og fyrstu viðbrögð eru jákvæð. Þessu verður fylgt eftir.

Um áramótin gengu í gildi breytingar á lögum um almannatryggingar og um málefni aldraðra. Gert er ráð fyrir viðbótarútgjöldum til öryrkja að upphæð um 1,6 milljörðum króna á þessu ári vegna breytinganna. ÖBÍ og Landssamtök aldraðra vildu fara aðrar leiðir en stjórnvöld og stjórnarandstaðan gerði sameiginlega tillögu um aukin útgjöld til málaflokksins. Með hækkun skattleysismarka, hækkun á tekjutryggingu, minni tekjutengingum og tilkomu frítekjumarks hafa kjör öryrkja skánað. Hjá sumum hafa kjörin skánað til muna. Það finnum við á skrifstofu ÖBÍ þar sem komum fólks í fjárhagslegri neyð hefur fækkað umtalsvert miðað við sama tíma í fyrra. Engu að síður er ljóst að full ástæða er til að halda hátt á lofti kröfunni um hækkun grunnlífeyris, hann verði ótekjutengdur og að skattleysismörk hækki mun meir.

Í sameiginlegri málefnaskrá ÖBÍ, Þroskahjálpar og Landssambands eldri borgara eru kröfurnar skýrar. Þær snúast um einföldun og aftur einföldun. Einföldun almannatryggingakerfisins og einföldun framfærslukerfisins. Á lokafundi stýrihóps okkar og fulltrúa stjórnmálaflokkanna kölluðum við eftir svörum stjórnmálaflokkanna við fjórum lykilspurningum. Þar sem spurt var, er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir því að:

  • Almannatryggingakerfið verði stórlega einfaldað, kjör lífeyrisþega verði bætt með hækkun grunnlífeyris og skattleysismarka?
  • Grunnlífeyrir verði ótekjutengdur og skerðingarhlutfall lækkað í 25%. Starfsendurhæfing verði stórefld svo og vinnumiðlun og persónuleg liðveisla?
  • Að menntun fólks verði stórefld og dregið úr brottfalli úr skólum með fjölbreyttara námsframboði en nú er. Aðgengi allra að upplýsingasamfélaginu verði tryggt?
  • Öll velferðarþjónusta verði endurskipulögð. Þjónusta og fjármagn fylgi einstaklingum en ekki stofnunum?

Svörin voru misskýr. Skýrust komu þau frá Samfylkingunni, en voru heldur loðinn og teygjanleg frá Framsókn. Frjálslyndir voru ekki með fulltrúa á lokafundinum og sendu ekki svör. Í þessari hópavinnu allri sem hófst fyrir rétt rúmu ári höfum við einsett okkur að leita að því sem getur sameinað okkur fremur en að dvelja við það sem sundrar. Það hefur tekist merkilega vel. Þannig má greina ákveðinn samhljóm í svörum flokkanna sem þó eru gefin með þeim fyrirvara að flestir eiga eftir að halda landsfundi sína þar sem afstaða til einstakra þátt skýrslunnar: Hugmynd að betra samfélagi – eitt samfélag fyrir alla, á að liggja fyrir.

Flokkarnir fjórir eru allir hlynntir einföldun almannatryggingakerfisins. Reyndar hefur Framsóknarflokkurinn haft það á stefnuskrá sinni frá árinu 2005. Þá er bara að koma sér að verki. Þrátt fyrir dálítið loðnari svör um grunnlífeyrinn og hækkun hans verður ekki annað séð en allir séu tilbúnir til að hækka hann. Allir vilja efla starfsendurhæfingu. Allir styðja aukið námsframboð sem taki tilliti til ólíkra þarfa nemenda og allir styðja bætt aðgengi fatlaðra að upplýsingasam¬félaginu. Það verður ekki betur séð en að allir séu tilbúnir að endurskipuleggja alla velferðarþjónustuna og þá þannig að þjónusta og fjármagn fylgi einstaklingum en ekki stofnunum. VG setja þann fyrirvara þó að það verði ekki liður í einkavæðingu í kjarna velferðarkerfisins.

Stefnt er að opnum fundi með fulltrúum og þá helst formönnum flokkanna, í Háskólabíói þann 18. apríl nk. og mun mögulega AFA, aðstandendafélag aldraðra, koma að undirbúningum með okkur.

Þrítugasti mars er stór dagur. Þá verður undirritaður sáttmáli sameinuðu þjóðanna og hugmyndin er sú að sameina þá að nýju ungliðahreyfingar fatlaðra, líkt og gert var með góðum árangri um svipað leyti í fyrra, og standa að uppákomum í Kringlunni og víðar. Kynningarherferð ÖBÍ í fyrravor undir kjörorðunum eitt samfélag fyrir alla, sem vakti athygli á fáránleika mismununar, var tilnefnd til ÍMARK verðlaunanna eða íslensku markaðsverðlaunanna í ár. Nú er hafin hugmyndavinna um nýtt vitundarverkefni fyrir næstu páska. Þá er stefnt að því að hleypa af stokkunum sjónvarpsauglýsingu um svipað leyti sem áhersla verði lögð á að sýna mikið í Sjónvarpinu og á Stöð tvö rétt fyrir kosningar. Tilgangur auglýsingarinnar verður sá að vekja fólk til umhugsunar og vitundar um kerfisbundna aðgreiningu og mismunun gegn fötluðum á Íslandi í dag í formi leikinna atriða. ÖBÍ hefur góða reynslu af samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið um auglýsingagerð og er þar orðin til dýrmæt þekking á viðfangsefninu og nálgun á það. Kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir verulegum afsláttarkjörum sem búið er að semja um. Um verður að ræða hvort tveggja sjónvarps og útvarpsauglýsingar en blaðaauglýsingum verður sleppt. Það er mat sérfræðinga auglýsingastofunnar að athygli almennings fyrir kosningar sé betur fönguð með þessum hætti. Auk almennrar vitundarvakningar er markmiðið með auglýsingaherferðinni að tryggja að málefni öryrkja verði ofarlega á baugi fyrir kosningar. 

Góðir félagar, ÖBÍ hefur tekið við formennsku í HNR hinu norræna ráði heildarsamtaka fatlaðra til næstu tveggja ára. Það kemur því sérstaklega í hlut ÖBÍ að fylgja því eftir að sáttmáli SÞ um réttindi fatlaðra öðlist hratt og vel gildi á Norðurlöndunum.

Fyrir fundinum liggur að ræða drög að fjárhagsáætlun ársins 2007. Annað árið í röð er samdráttur í tekjum ÖBÍ vegna minnkandi rekstrartekna íslenskrar Getspár. ÖBÍ tekur við formennsku í íslenskri Getspá í ár. Ljóst er þó að sveiflur í tekjum ráðast einkum af tilviljunum þ.e.a.s. stærð vinningspottanna hverju sinni. Tekjur ÖBÍ eru 10 milljónum króna lægri á árinu 2006 en varfærin tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Fjárhagsáætlunin nú er gerð í ljósi þessa en þetta er engin kreppuáætlun eins og Steinunn Þóra Árnadóttir gjaldkeri mun skýra hér á eftir.

Ágæta aðalstjórnarfólk,
Fyrir tíu árum var gefin út stefnuskrá ÖBÍ. Þetta plagg hefur staðist tímans tönn og helstu áherslumálin sem þarna er að finna í fullu gildi. Hin hugmyndafræðilega nálgun á viðfangsefnið hefur hinsvegar þróast eins og eðlilegt er. Í dag leggja hreyfingar fatlaðra í Evrópu höfuðáherslu á lífsgæði og að hindrunum sé rutt úr vegi fyrir þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Það er ekki lengur talið viðunandi að fatlaðir búi í stórum hópum á stofnunum eða í sérstökum fjölbýlishúsum ætluðum þeim heldur sé blöndun og frjálst val til búsetu óaðskiljanlegur hluti af þeim mannréttindum og jafnrétti sem hreyfingin berst fyrir. Í hópavinnu ÖBÍ, LEB og Þroskahjálpar var mjög góð reynsla af því að vinna hratt og hnitmiðað að sameiginlegri málefnaskrá. Það tókst mjög vel og nú leggjum við til að við nýtum að nokkru þá aðferð við stefnumótun ÖBÍ. Framkvæmdahópur um stefnumótun mun hittast föstudaginn 2. mars og ræða við Capacent sem áður var IMG Gallup um fyrirhugaða stefnumótunarvinnu bandalagsins í vor. Þá er lagt til að stjórnir aðildarfélaga ÖBÍ tilnefni fulltrúa sína til vinnunnar en gert er ráð fyrir að hluti hennar fari fram utan höfuðborgarsvæðisins í einn og hálfan dag. Nánari tillögur að framkvæmd verða sendar út eftir fundinn á föstudag.
 
Senn líður að því að starfshópur um notendastýrða og einstaklingsmiðaða liðveislu skili fyrstu tillögum sínum en hópinn skipaði Jón Kristjánsson fyrrverandi félagsmálaráðherra fyrir rúmu ári. Fulltrúi ÖBÍ í starfshópnum hefur verið Guðjón Sigurðsson enda frá upphafi einn megintilgangur starfshópsins að útfæra sérhæfða notendastýrða þjónustu fyrir hreyfihamlaða sem þurfa á færanlegri öndunarvél að halda. Tilefni skipunar starfshópsins var einmitt koma danska baráttumannsins Evald Krogh til landsins. Vænst er útfærðra tillagna ráðuneytisins um þjónustu við þennan hóp nú í mánuðinum. Þá hefst seinni hluti starfsins sem er að skipuleggja nýskipan notendastýrðrar þjónustu fyrir aðra hópa fatlaðra. Ef vel tekst til er hér um straumhvörf á aðstæðum margra fatlaðra að ræða sem hingað til hafa verið háðir stofnanaúrræðum og stofnanabúsetu. Ljóst er að afstofnanavæðingin sem mannréttindastefna er undir stoðþjónustunni og einstaklingsmiðaðri nálgun komið. Það að fólk geti sem lengst búið heima hjá sér, sótt vinnu, nám og stundað félagslíf. Sömuleiðis að fjármagn fylgi einstaklingnum en ekki stofnunum. Þetta er mannréttindamál sem heildarhreyfing Fatlaðra verður áfram að láta sig miklu varða. Helsti vandinn sem blasir við í þessu efni er aðgreiningin á milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis og ruglingsleg verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga. Þannig er til dæmis Reykjavíkurborg ábyrg fyrir heimaþjónustu en svæðis¬skrifstofa og félagsmálaráðuneyti fyrir liðveislu en heilbrigðisráðuneyti fyrir hjúkrun. Þessi verksvið skarast mjög og þjónustan ekki sniðin að þörfum einstaklingsins heldur hentugleikum umræddra kerfa. Kerfin snúast þannig um sig sjálf. Rétt eins og nauðsyn er að einfalda almannatryggingakerfið verður að einfalda þjónustukerfin til muna og skýra ábyrgð. Sú hugmyndafræðilega umræða heldur áfram.

Umræða um skýrslu formanns

Hjördís Anna Haraldsdóttir vildi fá að vita hvort sjónvarpsauglýsingarnar yrðu einnig aðgengilegar fyrir heyrnarlausa og svaraði formaður því til að þær yrðu textaðar.

Guðmundur S Johnsen spurði hvert yrði þema auglýsinganna og fékk það svar að þær ynnu gegn kerfisbundinni mismunum.

Bryndís Snæbjörnsdóttir lagði til að hafður yrði táknmálstúlkur í horni skjásins.

Björn Tryggvason taldi að umræðan yrði meiri ef menn vissu að um þessar mundir fari formaður ÖBÍ með formennsku í NHF.

2. Fjárhagsáætlun 2007

Steinunn Þóra Árnadóttir gjaldkeri í framkvæmdastjórn ÖBÍ lagði fram  fjárhagsáætlun 2007 með hliðsjón af rauntölum ársins 2006. Þar er gert ráð fyrir óbreyttri upphæð til Brynju, hússjóðs ÖBÍ  kr. 80.000.000, sem og til félaganna 44.000.000. Aðrir styrkir verði samtals 7.540.000. Steinunn Þóra rakti síðan skrifstofu- og stjórnunarkostnað, sem hún áætlaði 62.450.000 en rauntölur 2006 voru 65.541.000. Laun og launatengd gjöld voru mun hærri í rauntölum 2006 og munaði þar mestu um starfslokasamning Arnþórs Helgasonar Tekjur eru áætlaðar 195.000.000 á móti gjöldum samtals 194.990.000.

Nokkrar umræður urðu um fjárhagsáætlunina. Garðar Sverrisson spurðist fyrir um funda- og viðskiptakostnað. Þórey Ólafsdóttir spurði um lækkun á liðnum félagsgjöld og svaraði formaður því að 2006 hafi verið greidd skuld til norræna sambandsins. Guðmundur S Johnsen vildi fá að vita hve mikið hefði farið í starfslokasamning Arnþórs Helgasonar og svaraði Steinunn Þóra því til að það hafi verið u.þ.b. ein árslaun. Formaður ræddi lögfræðikostnað vegna mála gegn ríkinu. Guðmundur S Johnsen spurðist fyrir um stöðuna í máli gegn lífeyris¬sjóðunum. Formaður ræddi stöðuna og sagði að ef lífeyrissjóðirnir tækju mið af launavísitölu í sínum reikningum gerið ÖBÍ ekki athugasemdir við mögulegar breytingar. Emil Thóroddsen taldi að hér væri um raunhæfa áætlun að ræða og gerði það að tillögu sinni að hún yrði samþykkt.

Samþykkt samhljóða.

3. Stefnumörkun EDF

Formaður ræddi stefnumörkun EDF (European Disability Forum), sem leggur til að öllum stofnunum verði lokað. Hann skýrði síðan hvað EDF ætti við með stofnun: Þar væri ekki endilega tengt byggingu, heldur átt við stöðu sem hinn fatlaði einstaklingur hefði ekki stjórn á, ekki óskað eftir, réði ekki með hverjum hann byggi, þ.e.a.s hefði ekki val. Mikilvægt sé að meta þarfir hvers og eins og leggja áherslu á almenna samfélagsþátttöku. Sigursteinn spurði svo hvort þetta hafi verið rætt í félögunum.

Garðar Sverrisson sagði að þetta hafi verið lengi í umræðunni hjá MS félaginu, en félagar lenda gjarnan á elliheimilum, í þröngum herbergjum. Stjórnin vilji kanna hve margir félagar séu á elliheimilum.

Formaður lagði til að stjórnir félaganna taki þetta upp við félaga sína til þess síðan að fara með á fund EDF.

Guðríður Ólafsdóttir benti á að í Reykjavík væru 167 heilabilaðir undir 67 ára aldri á elliheimilum.

Miklar umræður urðu um “afstofnanavæðinguna” og sýndist sitt hverjum. Þórey Ólafsdóttir benti á að ekki væri bara ein lausn fyrir alla og sagðist þekkja til einstaklinga sem kviðu fyrir að fara í sjálfstæða búsetu.

Bryndís Snæbjörnsdóttir vilda benda mönnum á að hafa í huga að um mjög breiðan hóp væri að ræða, horfa mætti á að brotið væri á þeim þroskaheftum sem verða sjálfum sér skaðlegir með auknu frelsi.

Þóra Þórarinsdóttir sagði að feta yrði einstigi  – leiðbeina þeim sem hafa einhverja skerðingu en það skipti miklu máli að hafa val. Sigursteinn taldi að þegar vantaði liðveislu væri ekkert val.

Ragnar Gunnar Þórhallsson taldi að það vantaði raunverulegt val og að hjúkrunar¬heimilin væru aðeins framlenging á spítölunum. Fólki væri þrýst inn í kerfið, þ.e.a.s. á stofnanir.

Málfríður D Gunnarsdóttir taldi það ekki vera neitt val á sambýlum þar sem menn réðu ekki með hverjum þeir byggju.

Auður Thorarensen ræddi stöðu nýrnasjúkra sem hefðu ekkert val en yrðu að búa í Reykjavík. Hún sagði að það væri öðruvísi í Noregi þar sem komið væri með nýrnavélarnar heim. Formaður sagði ÖBÍ mundu senda aðildarfélögum minnispunkta til umhugsunar og umræðu í sínu félagi og þau taki afstöðu til þeirra.

Skipan nefndar um stefnumótun Brynju hússjóð og nýja skipulagsskrá.

Helgi Hjörvar minnti á ferðina í fyrra, sem farin var með aðalstjónarmönnum og ræddi nafnbreytinguna. Hann sagði frá  stefnumörkun um hvernig húsnæði væri byggt eða keypt og hefði hún m.a. verið lögð fyrir ferlinefnd ÖBÍ til umsagnar.

Haldnir hafa verið húsfundir í fyrsta sinn í nokkrum húsa sjóðsins og er það vel.

Það þarf að skoða alla starfsemina upp á nýtt. Skipulagsskrá sjóðsins er orðin úrelt og óljóst hver markmið sjóðsins eru og fyrir hverja. Ekki var talið ráðlegt að ráðast í endurskoðunina fyrr en endurskoðun Íslenskrar Getspár hefur farið fram, en nú ætti að vera óhætt að hefja þá vinnu. Eftir umræður um stöðu sjóðsins hefur verið ákveðið að stórum sambýlum verði lokað og þeir einstaklingar, sem þar búa færðir út í sérbýli. Slík stefnumörkun er að fara fram víða í sambærilegum sjóðum. Má þar nefna að Sjálfsbjörg stefnir að því að losa sig við íbúðarekstur. Hvað skal þá gera? Á að steypa saman húsnæði á vegum t.d. ÖBI og sveitarfélaga?

Ákveðið var að selja Fannborg 1. Þetta var tilkynnt sveitarfélaginu og íbúum, sem tóku þessu vel á kynningarfundinum. Fyrir var umtalsverð óánægja með húsnæðið og hefði þurft að endurnýja og leggja þar í mikinn kostnað.

Til að endurskoða skipulagsskrána þarf í fyrsta lagi að endurskoða stefnuna með þeim aðildarfélögum sem er tilbúin að taka þátt í starfinu og ljúka þeirri vinnu fyrir haustið. Að loknum þessum fundi verður erindi þess efnis sent aðildarfélögunum

Kl. 18:10 var tekið stutt hlé.

4. Ráðningarsamningur framkvæmdastjóra kynntur

Þórey Ólafsdóttir hvatti sér hljóðs fyrir hönd sáttanefndar og ræddi um uppsögn Arnþórs Helgasonar og sagði frá starfi nefndarinnar. Fundað var með deilu¬aðilum og nú síðast með framkvæmdanefnd. Þar var ákveðið að ráðninga¬samningur nýs framkvæmdastjóra skyldi lagður fram á þessum fundi til sýnis og þar með teldi hún málinu lokið af þeirra hálfu.

Emil Thóroddsen sagði að á fundinum með framkvæmdastjórn hefðu verið opin¬skáar umræður með þeirri niðurstöðu að samningurinn skyldi sýndur hér og teldi hann þar með þessu máli lokið.

Guðmundur S Johnsen óskaði eftir að samningurinn yrði lesinn upphátt og tók Emil Thóroddsen það að sér.

Nokkra umræður urðu um samninginn og undraði suma hvers vegna hann hefði ekki verið lagður fram fyrr.

Fundi slitið kl. 18:25

Fundarritari Guðmundur Magnússon