Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnarfundar ÖBÍ 7. desember 2006.

By 19. desember 2007No Comments

Fimmtudaginn 7. desember 2006, kl. 16:45 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar í sal 4, að Hótel Loftleiðum. Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:

Hafdís Gísladóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ
Guðmundur Magnússon SEM-samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra
Ragnar Gunnar Þórhallsson Sjálfsbjörgu lsf
Sigursteinn Másson  Geðhjálp, formaður ÖBÍ
Emil Thóroddsen  Gigtarfélagi Íslands
Pétur Ágústsson   MG félagi Íslands
Ólína Sveinsdóttir  Parkinsonssamtökunum
Kristján Pétursson  Félagi nýrnasjúkra
Ægir Lúðvíksson  MND félaginu
Ingi Hans Ágústsson  Alnæmissamtökunum
Guðmundur Johnsen  Félagi lesblindra
Ársæll Arnarsson  Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Málfríður Gunnarsdóttir  Heyrnarhjálp
Ingibjörg Karlsdóttir  ADHD samtökunum
Guðríður Ólafsdóttir  félagsmálafulltrúi ÖBÍ
Þórey Ólafsdóttir  Daufblindrafélaginu
Garðar Sverrisson  MS félagi Íslands
Birgir Þ. Kjartansson  SÍBS
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir Blindravinafélagi Íslands
Helga Steinunn Hauksdóttir Styrktarfélagi vangefinna
Ásta Björk Björnsdóttir  Foreldra og styrktarfélagi heyrnardaufra
Hjördís Anna Haraldsdóttir Félagi heyrnarlausra
Jón Þorkelsson   Stómasamtökum Íslands
Helgi Hjörvar   Blindrafélaginu
Sigrún Gunnarsdóttir  Tourette samtökunum
Steinunn Þóra Árnadóttir Kvennahreyfingu ÖBÍ
Valgerður Auðunsdóttir  SPOEX
Sigríður Jóhannsdóttir  Samtökum sykursjúkra
Svanur Ingvarsson  Geðhjálp
María Th Jónsdóttir  FAAS-félagi aðstandenda Alzheimerssjúklinga

Formaður setti fundinn kl. 16:45 og bauð fundarmenn velkomna, en einkum og sér í lagi gest fundarins Freyju Haraldsdóttur. Hún hefur farið um landið og haldið fyrirlestra í skólum, sem hún kallar „Það eru forréttindi að lifa með fötlun“. Fyrirlestra hennar má finna á slóðinni: http://www.forrettindi.is/

Eftir fyrirlesturinn færði formaður henni silfurmerki ÖBÍ og blóm.
Því næst kynntu fundarmenn sig og gengið var til dagskrár aðalstjórnarfundar kl. 17:35.

1. Skýrsla formanns

Ágætu aðalfundarfulltrúar!
Það kom loks að því að lífeyrissjóðirnir fjórtán innan Greiðslustofu lífeyrissjóða (GL) sem í sumar sendu á þriðja þúsund öryrkjum bréf um skerðingar og niðurfellingar á lífeyri þeirra, skipuðu sér talsmann til að ræða við ÖBÍ. Arnar Sigurmundsson formaður stjórnar GL varð fyrir valinu. Undanfarnar vikur hefur formaður ÖBÍ verið í sambandi við Arnar um leið og unnið hefur verið áfram að undirbúningi málaferla á hendur sjóðunum á skrifstofu ÖBÍ. Það var sameiginlegt mat framkvæmdastjóra og lögmanns ÖBÍ að fá þyrfti umboð með ítarlegri upplýsingum frá einstaklingum til að sækja mál fyrir þeirra hönd og hefur þeirra gagna verið aflað að undanförnu. Af hálfu lífeyrisjóðanna hafa málin verið keyrð að nýju í gegnum tölvukerfi Lífeyrisjóðanna út frá mismunandi forsendum til að mynda miðað við launavísitölu. Eins og fram hefur komið er það grundvallarkrafa ÖBÍ að stuðst sé við launavísitölu í útreikningum sjóðanna á tekjusamanburði fyrir og eftir orkutap. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort við þessari kröfu verður orðið. Boðað hefur verið til fundar fulltrúa allra stjórnanna fjórtán, mánudaginn 11. desember, og þá munu málin loks skýrast. Því verður mánudagurinn að öllum líkindum ögurstund í samskiptum Öryrkjabandalagsins og lífeyrissjóðanna. Úrslitastund um framhaldið.

Eftir erfitt sumar og haust hefur skapast betra andrúmsloft ekki síst með samstarfi okkar og fleiri aðila í örorkumatsnefnd forsætisráðherra, sem Ragnar Gunnar Þórhallsson fulltrúi ÖBÍ í nefndinni mun hér síðar gera betur grein fyrir. Í þeirri vinnu hafa komið fram margar spennandi hugmyndir sem mikilvægt er að fjallað verði um og afstaða tekin til á vettvangi aðildarfélaga Öryrkjabandalagsins. Með þeirri samstöðu sem ríkti á aðalstjórnarfundi ÖBÍ þann 21. september síðastliðinn þar sem samþykkt var harðorð ályktun vegna aðgerða lífeyrissjóðanna er ljóst að mjög aukinn þrýstingur myndaðist á sjóðina um að fresta aðgerðum og skoða málin í nýju ljósi. Það gerðu þeir. Nú hafa þeir farið vandlega yfir gagnrýni ÖBÍ og í ljós mun koma hvernig þeir bregðast við. Lífeyrissjóðirnir eru feykilega sterkt afl í okkar samfélagi og það varðar ÖBÍ miklu að eiga við þá samstarf um framfarir í þágu fatlaðra og sjúkra. ÖBÍ er reiðubúið til þess samstarfs að því gefnu að ákvörðun sjóðanna frá því í sumar verði leiðrétt. Nú þegar hafa örorkulífeyrisþegar fengið bréf send þar sem þeir hafa verið endurreiknaðir út frá átta ára reglunni. Hún gerir ráð fyrir því að reiknað sé meðaltal átta ára fyrir orkutap að frádregnu tekjuhæsta og tekjulægsta árinu. Þetta hefur leitt til þess að hópur fólks sem horfði fram á niðurfellingu fær í staðinn lækkun og í sumum tilvikum hækkun. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi þegar að niðurstaða lífeyrissjóðanna liggur fyrir á mánudag. Ef ekki hefur verið orðið við meginkröfum okkar um launavísitöluviðmið, réttmæta útreikninga og aðlögunartíma blasir ekkert annað við en viðamikil málaferli. Þau munu taka tíma og ljóst að það fólk sem síst má við því mun þurfa að bíða dómsniðurstöðu en framhaldið er undir lífeyrissjóðunum sjálfum komið. Þrátt fyrir sterka fjárhagsstöðu mega lífeyrissjóðirnir ekki heldur við langvinnum deilum um grundvöll skyldusparnaðarkerfis í landinu. Lífeyrissjóðirnir vita hvar þeir hafa okkur og ÖBÍ mun hvergi hvika í hagsmunagæslu sinni.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Það er afrakstur svokallaðrar Ásmundarnefndar og nefndar Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnar í framhaldi af kjarasamningum í sumar. Frumvarpið er m.a. ætlað til einföldunar en í ljós hefur komið að svo er ekki. Aukin útgjöld á samanlögðum flokkum tekjutryggingar og tekjutryggingarauka örorkulífeyrisþega árið 2007 nema samkvæmt frumvarpinu einum milljarði, fjögur hundruð sextíu og tveimur milljónum króna. Lækkun skerðingarhlutfalls úr 45% í tæp 40% er áætlað að kosti ríkissjóð 368 milljónir. Fyrir breytingu hefur einhleypur öryrki tæpar 110.000 krónur í tekjur frá Tryggingastofnun en mun hafa tæpar 128.000 krónur frá og með janúar 2007. Ef sami öryrki vinnur sér inn 50.000 krónur á mánuði hefði hann í ár haft tæpar 138.000 krónur í heildartekjur á mánuði en mun eftir breytingu hafa 163.000 krónur á mánuði með sömu atvinnutekjum sem er 18% hækkun. Þetta er auðvitað jákvætt skref með tilliti til afkomumöguleika öryrkja en allt of lítið skref. Í athugasemdum ÖBÍ við frumvarpið er lagt til að upphæð grunnlífeyris verði tvöfölduð og að grunnlífeyrinn verði ótekjutengdur í samræmi við sameiginlegar tillögur í hópastarfi ÖBÍ í vor. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir minnkun tekjutenginga milli maka í þrepum til ársins 2010 þegar tekjur maka eiga engin áhrif að hafa á rétt lífeyrisþegans. Þetta telur ÖBÍ óviðunandi enda hafi með ákvörðun um að flýta 300.000 króna frítekjumarki ellilífeyrisþega um þrjú ár verið gefið jákvætt fordæmi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að skilið verði á milli tekna lífeyrisþega og maka og verður ekki séð hvað er því til fyrirstöðu að gera þetta strax. Hér er um mikilvægt réttlætismál að ræða. Formaður og framkvæmdastjóri ÖBÍ lögðu á það áherslu á fundi sínum með heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis á mánudag 4. desember að 300.000 króna frítekjumarkið næði einnig til örorkulífeyrisþega.
Sigurður J. Grétarsson tryggingastærðfræðingur hjá Tryggingastofnun ríkisins og Einar Árnason hagfræðingur hafa reiknað út að fyrir örorkulífeyrisþega með allt að 750.000 krónur í heildartekjur á ári eða 62.500 krónur á mánuði sé það fyrirkomulag hagstæðara en hin svonefnda sextíu prósent regla. Fyrir þá örorkulífeyrisþega sem eru hinsvegar með hærri atvinnutekjur sé óbreytt fyrirkomulag betra. Á fundinum var lögð rík áhersla á þetta og mun málinu verða fylgt fast eftir. Þá var lögð áhersla á þörfina á grundvallar upp¬stokkun almannatryggingakerfisins þar sem núverandi kerfi verði ýtt til hliðar og tekið upp nýtt fyrirkomulag með einföldun, gagnsæi, afkomutryggingu og hvata til samfélagslegrar þátttöku að leiðarljósi.

Nú líður senn að lokum starfs stýrihóps ÖBÍ með fulltrúum stjórnmálaflokkanna þar sem til hliðsjónar hefur verið sameiginleg hugmyndavinna Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og Landssambands eldri borgara fyrr á þessu ári. Næst síðasti fundur hópsins var haldinn á fimmtudaginn 30. nóvember. Í framhaldi þess fundar boðsendi formaður ÖBÍ fyrir hönd samstarfsaðila, formönnum allra stjórnmálaflokka bréf þar sem tekið var fram að þver¬pólitísk samstaða hefði komið fram um nauðsyn þess að einfalda verulega almanna¬tryggingakerfið sér í lagi með hliðsjón af lífeyrishluta þess. Því sé þess farið á leit við viðkomandi formenn að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra flokka auk fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins og viðkomandi heildarhagsmunasamtökum til að undirbúa og hanna nýtt fyrirkomulag almannatrygginga á Íslandi. Nefnd þessi taki til starfa hið allra fyrsta. Á fundum stýrihópsins hefur einnig komið í ljós mikill stuðningur við grunnhugmyndir hópastarfsins undir heitinu, Eitt samfélag fyrir alla – Hugmynd að betra samfélagi. Á stjórnarfundi Landssambands eldri borgara fyrr í vikunni var til að mynda ákveðið að leggja höfuðáherslu á hina sameiginlegu hugmyndavinnu okkar í aðdraganda kosninga. Við höfum unnið heimavinnuna okkar og beri okkur gæfa til að stilla saman strengi, greina hismið frá kjarnanum og mæta samhent til leiks er fátt sem getur stöðvað okkur.

Starfsemi skrifstofu hefur tekið talsverðum breytingum. Er þar aðallega um að ræða nýjar áherslur og vinnubrögð. Framkvæmdastjóri hefur markað þá stefnu að skapa aukna þekkingu innan skrifstofunnar svo að starfsmenn geti sjálfir komið málum einstaklinga í réttan farveg án þess að fela þau lögfræðingum. Þetta skiptir máli varðandi kostnað en ekki síður varðandi þá þekkingu og auknu hæfni sem verður þannig til á skrifstofunni. Bára Snæfeld og Guðríður Ólafsdóttir hafa sótt námskeið í stjórnsýslufræðum hjá Háskólanum í Reykjavík í haust sem gefið hefur góða raun. Brýnt er að huga áfram að sí- og endurmenntun starfsmanna.

Kæru félagar.

Þetta hefur að sumu leyti verið erfitt ár. Mörg mál hafa mjakast áfram en varðandi önnur mál höfum við háð varnarbaráttu. Málefnastaða okkar er sterk og sem fyrr njótum við víðtæks stuðnings í samfélaginu. Það er sá stuðningur sem er og hefur verið okkar vopn. Þess vegna er trúverðugleiki og traust Öryrkjabandalagsins mælikvarðinn á styrk þess. Okkur hefur oft greint á og svo mun örugglega verða áfram en í framtíðinni verður okkur að bera gæfa til að leysa okkar innri ágreiningsmál innan bandalagsins. Annað er árás á Öryrkjabandalagið sjálft og sem veikir það í hagsmunabaráttunni. Við verðum líka að virða lýðræðislegar ákvarðanir sem teknar eru af þar tilbærum stjórnum og stofnunum bandalagsins. Annað grefur undan trúverðugleika bandalagsins og er vatn á myllu andstæðinga okkar. Það er skemmdarverkarstarfsemi að sá tortryggni og efa í samfélaginu um stjórn og stjórnarhætti bandalagsins af því að menn greinir á um leiðir. Þeir sem þannig vinna eiga einfaldlega ekki samleið með Öryrkjabandalaginu. Það verður þess vegna að treysta því að slíkt gerist ekki.
Um leið og ég vil þakka ykkur fulltrúum aðalstjórnar fyrir gott samstarf á árinu vil ég fyrir hönd framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalagsins færa aðildarfélögunum öllum kærar kveðjur og þakkir fyrir þeirra mikilsverða framlag til hópastarfsins á árinu, tímamótastarfs sem er félögunum öllum til mikils sóma.
Umræður um skýrslu formanns

Orðið gefið laust um skýrslu formanns.
Guðmundur Johnsen spurði formann, hvað hann ætti við með „skemmdarverkastarfsemi og að sá tortryggni og efa í samfélaginu“?
Formaður svaraði, að þeir tækju til sín sem ættu.
Spurt var hvort hægt yrði að fá skýrsluna og því svarað að hún kæmi með fundargerð.

2. Örorkumat og hæfing, nýjar áherslur

Ragnar Gunnar Þórhallsson sagði frá starfi sínu, sem fulltrúi Öryrkjabandalagsins í örorkumatsnefnd forsætisráðherra, sem sett var á stofn í kjölfar kjarasamninga að ósk lífeyrissjóðanna sem telja sig hafa óeðlilega mikla byrði af aukinni örorku. Nefndin var skipuð fulltrúum frá forsætis-, félagsmála-, heilbrigðis- og fjármálaráðuneytunum, Samtökum atvinnulífsins auk lífeyrissjóðanna, en engum frá þeim er málið varðaði sérstaklega, þ.e.a.s. öryrkjum. Forsætisráðuneytinu var bent á þessa handvömm sem varð til þess að ÖBÍ var boðið að senda sinn fulltrúa. Lífeyrissjóðirnir virtust halda að þeir gætu makkað um það við stjórnvöld hvernig örorkumati og starf endurhæfingu í landinu yrði háttað, en á sama tíma kom upp lífeyrissjóðsmálið, svokallaða, sem allir þekkja.

Nefndin var skipuð í ársbyrjun en ekki byrjað að funda fyrr en undir vor. Lítið bitastætt kom fram í byrjun. Pétur Blöndal kom með sínar hugmyndir sem margir þekkja, Lífeyrissjóðirnir komu með ýmsar hugmyndir um starfsendurhæfingu sem þeir hafa kynnst, að vinnuveit¬endur og lífeyrissjóðir á hinum norðurlöndunum eru að taka þátt í. Heilbrigðisráðuneytið lagði fram ákveðnar hugmyndir í byrjun, sem voru allt of heilbrigðismiðaðar, en menn vilja horfa á þetta miklu víðar. Gylfi Arnbjörnsson lagði fram hugmyndir, nokkuð framsæknar og byltingakenndar, sem við tókum að hluta til undir og skoðuðum. Gerðum á þeim breytingar og sendum til baka sem umræðugrundvöll. Ráðuneytin voru með sinn bakhóp og lögðu fram sínar hugmyndir fyrir nokkrum vikum síðan. Þannig er staðan núna að það er verið að vinna í mörgum hópum. Við höfum fundað saman, Sigursteinn og ég ásamt Gylfa Arnbjörnssyni og fleirum.
Það eru ákveðnar stefnur og straumar í gangi, hvernig litið er á fötlun eða örorku og hvernig við lítum á réttindamál fatlaðra. Ekki bara rétt að komast af, heldur fulla þátttöku í samfélaginu og raunverulegt jafnrétti á vinnumarkaði, í búsetumálum og svo framvegis.

Skýrsla Stefáns Ólafssonar vakti okkur upp og við lítum til Norðurlandanna. Í Noregi og Danmörku hafa menn náð ákveðnum árangri í atvinnumálum öryrkja. Í Danmörku hefur verið sett fram ákveðin aðferðarfræði þar sem horft er fremur á getu og færni, heldur en fötlunina sjálfa. Má í því sambandi benda á netfangið: www.arbejdsevnemetode.dk

Miklar umræður eru í Evrópu, t.d. European Disability Forum þar sem höfuðáherslan er lögð á þátttöku í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. 3. desember síðastliðinn (Alþjóðadegi fatlaðra) setti félagsmálaráðuneytið stefnumótun sína um þjónustu ráðuneytissins við fötluð börn og fullorðna á vefinn hjá sér. Þar eru komin fram helstu og nýjustu viðhorf varðandi fatlaða í dag. Mjög gagnlegt og í raun skyldulesning ef menn vilja fylgjast með í þessu málum.

Viðleitni Lífeyrissjóðanna að koma af sér „byrði“ örorkulífeyrisins yfir á almannatryggingakerfið, en þeir eru fyrst og fremst að horfa á kostnað og ekki svo mjög á þarfir öryrkjanna. Það þarf að skilgreina hugtökin fatlaður og öryrki nánar með hliðsjón af þeirri hugmyndafræði sem unnið er út frá. Það sem er verið að ræða nú í nefndinni og flestir eru sammála um er í fyrsta lagi að í stað eins læknis sem ákvarði örorkumat skuli koma teymi. Í öðru lagi er alltaf ákveðin saga á bak við hvern einstakling og mikilvægt að koma miklu fyrr að og halda utan um einstaklinginn og meta færni og tækifæri. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að koma að í ríkari mæli en í dag. Fötlunin er aldrei aðalatriðið, heldur að vera virkur. Því er lagt til að horfa meir á færnina en fötlunina og meir á umhverfið en einstaklinginn, tækifærin heldur en hindranirnar. Að örorkumatið verði tvíþætt: annars vegar eins og það er í dag sem verði notað til að einstaklingurinn njóti réttar til hjálpartækja og stoðþjónustu , sem verði aldrei tekjutengt. Samanber sjúkraþjálfun og heimaþjónustu t.d. Hins vega færnimat og sýnist þar sitt hverjum, en sú hugmynd er að nokkru komin frá dönum. Þannig að félagslega sjónarhornið á fötlun er að koma sterkar inn. Lítil þjónusta gerir mikla fötlun og á sama hátt verður mikil þjónusta til að draga stórlega úr fötluninni.

Í Nefndinni er talað um þörf fyrir meiri gæði, víðari nálgun. Endurhæfing á Íslandi er sundurlausari, ósamvirkari, minni og ómarkvissari en í nágrannalöndum, eftilvill vegna þess hve hátt atvinnustigið hefur verið hérlendis. Engin samhæfing og einstaklingurinn fær ekki nógu heildræna þjónustu. Rætt hefur verið um að stofna sérstaka þjónustumiðstöð sem hægt sé að leita til og haldi utan um öll mál einstaklingsins. Sem sagt það þarf að leysa ósamræmið í kerfinu. Það var líka rætt um endurhæfingu. Þarf endilega að endurhæfa einstaklinginn? Verður hann að geta gert áfram það sem hann gat fyrir slys eða veikindi? Árið 1999 kom skýrsla þar sem talað var um þessa samhæfingu en ekkert hefur gerst síðan. Við sem samtök notenda eigum að gera kröfu um að geta leitað til eins aðila til að fá þessa þjónustu. Það er áberandi hve það er erfitt fyrir heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti að vinna saman, þar er einhver fyrirstaða, sem við eigum að vinna gegn og óska eftir að þau sameinist.

Niðurstaðan er að við viljum einstaklingsmiðaða þjónustu, hvernig sem hún verður útfærð. Danir hafa komið á fót eins konar þjónustufulltrúa sem einstaklingurinn hefur aðgang að alveg frá upphafi, en ekki beðið eftir einhverju örorkumati. Þessi þjónustufulltrúi eða verkefnisstjóri verður tengiliður við þá aðila sem með þarf og vinnur með einstaklingnum en ekki með hann eins og flak á færibandi. Unnið er út frá menntun, reynslu, félagslegu umhverfi, aðstöðu, getu og væntingum og svo framvegis. Lífeyrissjóðirnir, sem störtuðu nefndinni vilja bara horfa á þá sem hafa verið á vinnumarkaði, en við verðum að horfa á allar tegundir fötlunar, hvenær sem hún hefur komið til, hafa í huga öll 30 aðildafélögin.

Hér hafa verið ræddir þeir helstu punktar sem trúlega munu verða í lokaskjali, sem einhverjar tillögur. Það eru margar hliðar á þessu máli og við þurfum að fylgja því eftir að ekki verði tekjutengingar við hjálpartæki og stoðþjónustu.

Þessi vandi með gagnvirkar tekjutengingar milli lífeyrissjóða og TR er mál sem við verðum að taka á og getum ekkert hlaupið frá því. Við ætlum að einbeita okkur að því að krefjast skipulags sem felur í sér miklu meiri hvatningu til þess að vera á vinnumarkaði og það dettur dautt niður ef vinnuveitendur taka ekki þátt í því og þeir verða að sýna raunverulegan vilja. Lífeyrissjóðirnir sjálfir eru á þessu og við erum tilbúin að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum og eru búnir að uppgötva að í nágrannalöndunum eru lífeyrissjóðirnir að gera það sama. Þeir segja að það ætti að vera hluti af þeirra útgjöldum. Það hefur verið erfitt fyrir mig að vera fulltrúi fyrir svo margvíslega hópa og því lagði ég fram máthóp, þ.e.a.s. blindir, heyrnalausir, hreyfihamlaðir, fatlaðir frá fæðingu, þeir sem voru á vinnumarkaði og svo framvegis. Það er því mjög nauðsynlegt að þegar kemur að því að nefndin leggi fram einhverjar tillögur, sem verða væntanlega birtar, að aðildarfélögin rýni í þær. Hvernig kemur þetta út fyrir þann hóp sem hver og einn stendur fyrir.
Það verður gaman að heyra ykkar skoðun á þessu. Sérstaklega að við förum að horfa meira á færni og getu. Aðskilja örorkumat sem gefur réttindi til hjálpartækja og stoðþjónustu eða réttindi til að taka þátt í þjóðfélaginu og hins vegar færnimat, að hve miklu leiti einstaklingur getur tekið þátt og koma bæturnar inn í það og menn hafa verið að tala um ýmsar útfærslur, mjög róttækar sem ég sé ekki fyrir mér hvernig muni virka. Dæmi: einstaklingur er metinn með færni að geta verið í 40% vinnu, Hann fær þá 60% bætur frá TR og verður þá að vinna sér fyrir þessum 40%, ef ekki þá fær hann atvinnuleysisbætur sem því nemur.
Umræður um erindi Ragnars Gunnars

Helgi Hjörvar minnti á að þessi nefnd hafi verið sett á fót til að fækka öryrkjum og yrði að skoða sem slíka og það sé hugmyndin með þessu tvöfalda mati. Hann lagði áherslu á að fulltrúi ÖBÍ ætti enga aðild að niðurstöðum þessarar nefndar nema um það sé góð samstaða í stjórn bandalagsins. Hann hafnaði því fyrir hönd Blindrafélagsins ef ætti að setja eitthvert hæfnismat ofan á það læknisfræðilega mat sem er fyrir og gert eftir alþjóðlegum stöðlum. Vildi líka gjalda varhug við forræðishyggju vegna þessa verkefnisstjóra. Mikilvægt að okkar fólk hafi aðgang að upplýsingum og svo framvegis. en það stýrir sínu lífi sjálft, eins og Freyja lýsti svo vel. Tónninn sá í þessum tillögum að allir eigi að vera á vinnumarkaði og taka þá væntanlega hvaða vinnu sem er og í því geta verið ákveðnar hættur. Annars er margt ágætt í tillögunum.

Garðar Sverrisson tók undir gagnrýni Helga á færnimatið. Hann benti á að dæmið um hlutfallið 40% vinnu á móti 60% bótum væru frá Pétri Blöndal komið og væri marg búið að reyna að koma honum í skilning um að fötlun sé breytileg. Hann minnti á að þrátt fyrir galla hefði núverandi kerfi ákveðna kosti og nefndi í því sambandi sveigjanleika. Menn gætu dottið út af því og inn aftur án þess að vera stöðugt í einhverju mati. Hann sagði að þó ríkisvaldið væri stöðugt að tala um vinnuna, en séð út frá hagsmunum okkar og benti á greinargerð með lagabreytingum 1998. Þá er það lykilatriði að við getum lifað innihaldsríku lífi, ekki bara streða frá níu til fimm heldur geta líka tekið þátt í tómstundum, ferðalögum og félagsstarfi svo eitthvað sé nefnt.

Ragnar Gunnar svaraði því að ólíkir aðilar nálguðust þetta með ólíkum hætti, lífeyrissjóðirnir með sínum hætti og atvinnurekendur á svipaðan hátt í gegnum lífeyrissjóðina. Okkur finnst það jákvætt að taka þátt, hver sem sú þátttaka er. Þess vegna er maður með varnagla við þessum hugmyndum. Hann lagði áherslu á að það kerfi sem við búum við er mjög atvinnuletjandi, einkum með öllum þessum tekjutengingum, við stoðþjónustu, hjálpartæki og lífeyri. Hvort ekki væri nóg að breyta þessum ytri skilyrðum eins og við höfum verið að berjast fyrir. Varðandi þjónustufulltrúann taldi hann að hann væri ekki hugsaður til að skipta sér að hversdagslegum gerðum heldur að aðstoða við að rata um völundarhús kerfisins.

Ægir Lúðvíksson taldi að svona þjónustufulltrúi gæti einmitt verið mikill styrkur fyrir þá sem veikjast. Varðandi færnimat gæti það líka komið til góða þar sem stærri fyrirtæki gætu tekið inn starfsmann á grundvelli slíks mats.

Emil Thoroddsen velti fyrir sér hver útkoman ætti að vera. Hvort hér verði komið með einhverjar ákveðnar hugmyndir sem okkur væri gert að gleypa, eða hvort væri verið að leggja til umræðugrundvöll, sem hann taldi að mundi vera af hinu góða. Hann benti á þessar stýringar sem væru inn í örorkumatið og koma fram hjá þeim Tryggva Herbertssyni og Stefáni Ólafssyni og þar með situr fatlaði einstaklingurinn fastur. Hann taldi að örorkumatið væri ekki vandamálið, heldur hvenær stoðkerfið grípur inn, sem í dag er allt of seint. Við eigum að vera óhrædd að taka umræðuna.

Ársæll Arnarsson lagði áherslu á mikilvægi vinnunar til að forðast félagslega einangrun hjá þeim sem eru fæddir fatlaðir.

Ingibjörg Karlsdóttir nefndi dæmi frá Danmörku þar sem slíkur verkefnisstjóri hafði skilað miklu fyrir íslenskan pilt. Hérlendis virtist henni vera svo mikið úrræðaleysi þegar börn eru komin á framhaldsskólastigið og detta úr námi umvörpum. Þar var alltaf sami verkefnisstjórinn sem fylgdi honum í gegnum allt. Ef til vill er þetta sá vettvangur sem við getum starfað saman á.

Helga Steinunn Hauksdóttir vildi fá að vita hver ætti að vera afrakstur nefndarinnar.

Helgi Hjörvar sagði að þjónustufulltrúi væri viðkunnanlegra orð, en aðalatriðið væri að það væri sá fatlaði sem réði ferðinni. Varðandi færnimatið varaði hann við því að þegar nefndin hefði skilað af sér væri ÖBÍ flækt í netinu. Hann ítrekaði þá skoðun sína að markmið nefndarinnar væri að þrengja skilgreininguna til að fækka öryrkjum. Örorkumatið væri ekkert vandamál

Ragnar Gunnar þakkað umræðurnar og sagði að þetta þyrfti allt að ræða miklu betur og það væri hluti af kröfu okkar: ekkert um okkur án okkar, að þá værum við líka flækt í málin, en vildum við það ekki? Hann sagðist ekki vita hvers konar tillögur kæmu frá nefndinni, en þætti líklegt að það yrðu svona megin tillögur, en ekkert fast, meira til umræðu. Þegar lokadrögin liggja fyrir þarf að leggja þau fyrir Öryrkjabandalagið og síðan gera einhverja fyrirvara, sem ekki væru ljóst nú hverjir verða, en hér væri um mjög mikilvægt mál að ræða, sem snerti 14 000 manns.

Formaður þakkaði Ragnari Gunnari fyrir hans störf og hvatti hann til að halda mönnum við efnið. Hann sagði það mikilsvert að vera með í nefndinni annað væri klárlega verra. Hér væri líka stungið upp á ýmsum jákvæðu, eins og þjónustufulltrúanum, Það væri líka mikilvægt að gera Samtök atvinnulífsins meðvirk.

3. Önnur mál

Þórey Ólafsdóttir mælti fyrir sáttanefnd sem kosin var á aðalfundi ÖBÍ 19. október síðast liðinn. Hún sagði að þeim hefði verið falið að koma með sættir til að lægja þær öldur er risið hefðu á árinu. Hér væri um tvö mál að ræða, annarsvegar hvernig staðið var að uppsögn fyrrverandi framkvæmdastjóra og hinsvegar að ekki skyldi lagður fram fyrir aðalstjórn samningur við nýjan framkvæmdastjóra. Nefndin hittist tvisvar og var nokkuð sammála, aðallega hvað varðaði seinni liðinn og kynntu það lauslega fyrir Sigursteini. Hvað varðaði fyrri liðinn er ekkert formlegt komið þar um. Þórey lagði því næst tillöguna fyrir aðalstjórn:

Til aðalstjórnar ÖBÍ.

Sáttanefnd, kjörin á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands 19. október 2006, hefur fjallað um ágreiningsefni þau er uppi hafa verið á yfirstandandi ári. Um flest þeirra atriða sem um hefur verið deilt eru niðurstöður nefndarinnar, að farsælast sé að finna þeim lausn án formlegrar afgreiðslu aðalstjórnar. Eitt mál hefur þó sérstöðu hvað þetta varðar, en það er ráðningarsamningur nýs framkvæmdastjóra. Vegna þess djúpstæða ágreinings sem uppi er og birtist m.a. á nýafstöðnum aðalfundi um hvernig staðið var að afgreiðslu framannefnds samnings teljum við óhjákvæmilegt að leggja hann fram á aðalstjórnarfundi hið fyrsta. Sáttanefnd vekur athygli á því að aðalstjórn ber ótvíræða ábyrgð á innihaldi umrædds samnings og mikilvægt að henni gefist kostur á að taka til hans upplýsta afstöðu. Það er bæði réttur aðalstjórnar og skylda gagnvart Öryrkjabandalaginu sem heild.

Sáttanefnd aðalfundar
Þórey Ólafsdóttir
Sveinn Rúnar Hauksson
Garðar Sverrisson

Nokkur umræða varð um tillöguna.
Sigursteinn taldi að hér væri ekki um neina sátt að ræða, en lýst vantrausti á formann og framkvæmdastjóra auk aðalstjórnar. Að hans áliti væri þetta afgreitt mál, með meirihluta greiddra atkvæða á aðalstjórnarfundi 18. maí síðastliðinn. Dróg hann í efa að þetta væri með samþykki Sveins Rúnars og gæti aldrei orðið nein sátt um.

Guðmundur Johnsen sagði að hér væri ekki verið að fara fram á að ráðningin væri afturkölluð heldur að aðalstjórn sem lögum samkvæmt ber ábyrgð á samningnum fengi að sjá hann. Spurði hvort eitthvað væri í honum sem ekki þyldi skoðun. Hann taldi það mikilvægt grundvallaratriði að samtök öryrkja væru ekki með launaleynd.

Nokkrar orðahnippingar urðu um málið og auk Sigursteins og Guðmundar tóku eftirtaldir til máls, Garðar Sverrisson, sem minnti á álit Helga Seljan á málinu í útvarpi síðastliðið sumar, Emil Thoroddsen sem þótti miður að hafa ekki hitt sáttanefndina, Þórey sem ítrekaði að nefndin hefði verið lýðræðislega kjörin á aðalfundi og unnið eftir bestu samvisku, Ægir Lúðvíksson sem furðaði sig á því hvort ætti að ræða þessa tillögu hér og nú.

Guðmundur Johnsen lagði fram tillögu þess efnis að fram færi leynileg kosning um hvort aðalstjórn fengi að sjá samninginn.

Valgerður lagði fram dagskrártillögu þess efnis að framkvæmdastjórn og sáttanefnd hittust fyrir næsta aðalstjórnarfund og legðu fyrir hann niðurstöðuna. Tillagan var borin upp og skrifleg atkvæðagreiðsla fór fram. Samþykkt með 16 atkvæðum, nei sögðu 5 og auðir voru 3.

Formaður þakkaði að því loknu fundinn og bauð fundarmönnum til jólahlaðborðs.

Fundi slitið kl. 19:20
Fundarritari Guðmundur Magnússon