Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnarfundarÖBÍ 8. september 2010

By 31. janúar 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ miðvikudaginn 8. september 2010 kl. 17.00-19.00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ingibjörg Karlsdóttir
Blindrafélagið – Halldór S. Guðbergsson
Daufblindrafélagið – Ágústa E. Gunnarsdóttir
FAAS – María Th. Jónsdóttir
Félag CP á Íslandi – Örn Ólafsson
Félag heyrnarlausra – Hjördís A. Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra – Margrét Haraldsdóttir
FSFH – Þórunn S. Eiðsdóttir
Geðverndarfélagið – Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir
Gigtarfélagið – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
HIV-Ísland – Ingi H. Ágústsson
Hugarfar – Kristín B. Michelsen
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málefli – Þórdís Bjarnardóttir
MND-félagið – Ægir Lúðvíksson
MS-félagið – Garðar Sverrisson
Parkinssonsamtökin – Snorri M. Snorrason
Samtök sykursjúkra – Sigríður Jóhannsdóttir
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar P. Geirsson
Tourette samtökin – Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Jón Ari Ingólfsson

Áheyrnarfulltrúar:

Kvennahreyfing ÖBÍ – Guðbjörg K. Eiríksdóttir, varafulltrúi

Starfsmenn ÖBÍ:

Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, kynningarfulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ bauð fundarmenn velkomna og bað þá að kynna sig. Guðmundur bar því næst upp beiðni um að aukafulltrúi Félags nýrnasjúkra, Margrét Haraldsdóttir fengi að sitja fundinn. Samþykkt.

2. Fundargerð frá 1. júlí 2010 borin upp samþykktar

(Fylgiskjal 1)

Fundargerðin var samþykkt.

3. Vinnustaðir ÖBÍ, sjálfseignarstofnun og húsnæðismál

Formaður fór lauslega yfir sögu Vinnustaða ÖBÍ og lagði áherslu á að Vinnustöðunum yrði breytt í sjálfseignarstofnun sem allra fyrst. Því næst las formaður upp tillögu sem samþykkt var á síðasta framkvæmdastjórnarfundi bandalagsins:

Framkvæmdastjórn mælir með því við aðalstjórn að Vinnustöðum ÖBÍ verði tryggðar 20 milljónir króna til að geta standsett og flutt í annað húsnæði og farið verði í þá vinnu að gera Vinnustaðina að sjálfseignarstofnun eins fljótt og hægt er.

Tillagan var samþykkt með meirihluta atkvæða án umræðna.

Spurt var hvort þessi samþykkt þýddi að skrifstofa ÖBÍ verði áfram í Hátúni 10 og hætt verði við flutning hennar? Formaður sagði flutning Vinnustaða ÖBÍ ótengdan flutningi skrifstofu ÖBÍ og áfram yrði unnið að því að finna hentugt húsnæði.

4. Staða mála á yfirfærslu á þjónustu við fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaðra (Fylgiskjal 2)
Formaður sagði að skýrslan hefði styrkt þá umræðu sem hefur verið innan ÖBÍ um yfirfærsluna en framkvæmdastjórn ályktaði eftirfarandi um skýrsluna:

Ályktun framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalags Íslands 2. september 2010 vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða

Öryrkjabandalag Íslands tekur undir gagnrýni Ríkisendurskoðunar um að  framkvæmd og skipulagi á þjónustu við fatlaða (ágúst 2010) sé í mörgu ábótavant, og styðji við ályktun bandalagsins frá í vor um mikilvægi þess að allt lagaumhverfi sé tryggt svo yfirfærslan geti farið fram svo sómi sé að.

Samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar í 5 liðum er skortur á heildarstefnu, ekki gert ráð fyrir fjárveitingum í samræmi við mat á þjónustuþörf, ónógt eftirlit með þjónustuaðilum og ekki hægt að fullyrða að jafnræði ríki meðal þjónustuþega, meginþættir í starfsemi þjónustuaðila fylgja ekki samræmdum verklagsreglum og því misjöfn gæði þjónustunnar auk þess sem óljóst er með hvaða hætti þjónustusamningar einstakra sveitafélaga við ríkið hafi verið uppfylltir, þar að auki er kostnaður ekki bókfærður með sama hætti hjá öllum þjónustuaðilum.

Ljóst er að málaflokkurinn er í algjöru ólestri. Það er ekki hægt að meta þjónustuna, hvort hún sé skilvirk, árangursrík eða í samræmi við lög. Þar af leiðir að ekki er ljóst hvort hagkvæmara er að ríki eða sveitafélögin veiti þjónustuna.

Að ætla sér að nota SIS-matið á þann hátt sem gert er ráð fyrir er skýrt dæmi um þau handabakavinnubrögð sem hér koma fram.

Framkvæmdastjórn ÖBÍ gerir þá kröfu að þessu verði komið í lag áður en ráðist er í sjálfa yfirfærsluna!

 

Formaður sagði frá því að allt væri á síðustu stundu í yfirfærslunni, m.a. væri ekki búið að taka ákvörðun um þjónustusvæði, nokkur sveitarfélög hafa óskað eftir undanþágu, ekki er búið að semja við starfsfólk o.fl. Gengið hefur verið frá kostnaðinum, samþykkt hefur verið að 10,7 milljarðar færist yfir til sveitarfélaga með málaflokknum um næstu áramót. Verkefnastjórn hefur unnið að málinu en ÖBÍ kom ekki að þeirri vinnu fyrr en 20 fundir höfðu verið haldnir þannig að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) og fleira sem ÖBÍ telur vera forsendur fyrir yfirfærslu hafði ekki verið rætt um.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu setti ákveðna fyrirvara á því að framkvæmdastjórn sendi frá sér ályktun án þess að hún sé lögð fyrir aðalstjórnarfund og benti á að það hefði verið samþykkt á aðalstjórnarfundi í vor að setja á fót hóp sem myndi fjalla um þessi mál.

Guðmundur Johnsen, félagi lesblindra sagðist vera sáttur við að það sé verið að koma lögum á málefnum fatlaðra í betra form en hefur verið, með samningi SÞ um réttindi fólks með fötlun. Heggur þó eftir einu í 24. greininni um skólakerfið en samkvæmt henni á að tryggja rétt fólks með sérþarfir í námi en þeir sem eru lesblindir séu ekki metnir sem fatlaðir og því geti þeir átt erfitt með að sækja rétt sinn samkvæmt þessari grein. Vill fá aðstoð ÖBÍ við að koma því á að þeir sem eru lesblindir verði metnir sem fatlaðir.

Formaður sagði að ályktun framkvæmdastjórnar væri í beinu framhaldi af ályktun aðalstjórnar frá því í júní. Enn er hópur starfandi á vegum ÖBÍ sem fjallar um fyrirhugaða yfirfærslu og hefur verkefnastjóri (Hrefna K. Óskarsdóttir) verið ráðinn til að vinna með hópnum. Lesblindir eru fatlaðir samkvæmt samningnum.

Bent var á að á blaðsíðu níu í skýrslunni sé eftirfarandi mikilvægum spurningum varpað fram og svarið við þeim öllum sé nei.

  1. Hafa stjórnvöld mótað formlega heildarstefnu um þjónustu við fatlaða með skýrri aðgerðaáætlun og mælanlegum markmiðum?
  2. Hefur ráðuneytið markvisst eftirlit emð málaflokknum, fjárhagslegt og faglegt?
  3. Byggja fjárveitingar til þjónustuaðila á formlegu þjónustumati?
  4. Er líklegt að flutningur málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga skili faglegum og fjárhagslegum ávinningi?

Fullgilding / lögleiðing Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra (Fylgiskjöl 3 og 4) Brynhildur G. Flóvenz dósent við lagadeild HÍ kemur í lok fundar og svarar fyrirspurnum
Formaður fór lauslega yfir muninn á löggildingu og lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Venjan er að breyta íslenskum lögum í samræmi við samninga sem eru löggildir en með lögfestingu verður samningurinn sjálfur lög og hægt að kæra á grundvelli hans.

Brynhildur ræddi viðsnúninginn á að lögfesta samninginn en ekki fullgilda hann. Aðeins einn samningur hefur verið lögfestur hér á landi en það er mannréttindasáttmáli Evrópu. Eldri lög sem stangast á við samninginn falla úr gildi. Það yrði mikil réttarbót að lögfesta samninginn. Ómögulegt er að segja til um hvenær ákveðið verður hvor leiðin verður farin.

Nefnt var að fyrir nokkru síðan hafi verið sett tilskipun vegna atvinnu fatlaðra í Noregi en slík tilskipun hefur enn ekki verið innleidd á Íslandi.

Brynhildur sagði að hún hefði talað við fulltrúa í félagsmálanefnd fyrr um daginn og var henni tjáð að vinna nefndarinnar hefði legið niðri um tíma en væri að fara aftur í gang. Ekki má gera ráð fyrir innleiðingu tilskipunarinnar fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Íslandi er ekki skylt að taka tilskipunina upp samkvæmt EES samningnum.

Almennt voru aðalstjórnarfulltrúar á því að lögfesta ætti samninginn en jafnframt að lagfæra þyrfti þýðingu hans áður en það væri gert. Allt frá fyrstu drögum að þýðingu á Samningnum hefur komið fram hörð gagnrýni á þýðinguna. Spurningin er um skýrara orðalag og rétta hugtakanotkun.

Framkvæmdastjóri ÖBÍ las upp eftirfarandi tillögu vegna endurskoðunar á þýðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 8. september 2010

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands hvetur stjórnvöld til þess að tryggja það að þýðing á Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði tekin til endurskoðunar. Að því verki komi samtök fatlaðra, Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og mannréttindalögfræðingar Háskóla Íslands.

Ályktunin var samþykkt samhljóða.

5. Næsti aðalstjórnarfundur um miðjan október – skoða fjárlög og yfirfara stöðuna vegna 2011 væntanlega

Dagsetning næsta fundar var ekki ákveðin.

6. Önnur mál

a) Aðgengi að hálendisvegum

Frímann Sigurnýasson, SÍBS, spurði hvort ferlinefnd hefði sent frá sér ályktun um aðgengi að hálendisvegum. Einnig ræddi hann áhyggjur sínar á hugsanlegum skerðingum á styrkjum ríkisins til sjúklingafélaga.

Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra, sagði að samkvæmt auglýsingum ættu félögin enn rétt á að sækja um styrki, þ.e.a.s. fyrir 15. september.

b )Þjóðfundur

Formaður nefndi að best væri að fólk sem tengist aðildarfélögum bandalagsins og hefur fengið boð um að mæta á þjóðfundinn hittist fyrir fundinn og beri saman bækur sínar.

c) Alþjóðadagar og heimasíða ÖBÍ

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra, spurði hvort ekki væri hægt að koma upplýsingum á framfæri á heimasíðu ÖBÍ hvaða alþjóðadagar eru haldnir hátíðlegir af hvaða tilefni? Einnig minntist hún á áhyggjur sínar af niðurskurði í skólum sem beinist einna helst að þeim sem hafa sérþarfir.

Fundi var slitið kl. 19.00.

 

Fundarritarar, Anna G. Sigurðardóttir og Þórný B. Jakobsdóttir