Skip to main content
Frétt

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ (05.05.2004)

By 5. janúar 2006No Comments

Fundargerð

Miðvikudaginn 5. maí 2004 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar í salnum á 9. hæð Hátúns 10. Fundurinn hófst kl. 17:15 og stóð til kl. 18:55. Fundi stýrði Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Fundargerð reit Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri bandalagsins.
Í upphafi fundar greindi formaður frá því að nú væri í fyrsta sinn notaður búnaður sem ætlaður væri heyrnarskertum. Sagðist hann vænta þess að hann yrði til mikilla bóta.

Þessir sátu fundinn:
Garðar Sverrisson – MND – félagi Íslands.
Emil Thóroddsen – Gigtarfélagi Íslands.
Arnór Pétursson – Sjálfsbjörg, lsf.
Helgi Seljan – MG – félagi Íslands.
Kristján Pétursson – Félagi nýrnasjúkra.
Jón Sigurðsson – SEM– samtökunum. 
Ingi Hans Ágústsson –  Alnæmissamtökunum.
Sveinn Rúnar Hauksson – Geðhjálp
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra
Björn Tryggvason – Málbjörg
Guðmundur Johnsen – Félagi lesblindra
Helgi Hróðmarsson – SÍBS.
Friðrik Alexandersson – Styrktarfélagi vangefinna
Garðar Sverrisson – Daufblindrafélagi Íslands.
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélagi Íslands.
Gísli Ásmundsson – Tourette samtökunum
Haukur Vilhjálmsson – Félagi heyrnarlausra.
Árni Sverrisson – Heyrnarhjálp.
Gísli Helgason – Blindrafélaginu
Elísabet Á. Möller – Geðverndarfélagi Íslands.
Steinunn Þóra Árnadóttir – MS félaginu
Valgerður Ósk Auðunsdóttir – SPOEX.
Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi einhverfra
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Arnþór Helgason – framkvæmdastjóri ÖBÍ
Bára Snæfeld – upplýsingafulltrúi ÖBÍ

1. Yfirlit formanns

Formaður minnti á að einungis væru liðnar 6 vikur frá síðasta stjórnarfundi sem hefði verið frestað m.a. vegna þess að beðið var svara frá stjórnvöldum vegna samningsins frá 25. mars 2003. Hann kvað í raun ekki mikið hafa gerst á milli funda. Þó væru ýmis mál sem komið hefðu til kasta bandalagsins. Formaður vék að því að bandalaginu hefði ekki verið gefinn kostur á að skila skriflegum athuga semdum vegna ýmissa frumvarpa sem voru til afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Sagðist hann hafa verið boðaður með símhringingu á fundi ýmissa nefnda Alþingis ásamt fulltrúum annarra hagsmunasamtaka.
Formaður var kallaður á fund félagsmálanefndar vegna frumvarps um fæðingar orlof. Rifjaði hann upp að Öryrkjabandalag Íslands hefði á sínum tíma gert athuga semd við að ekki skyldi vera ákveðið hámark á greiðslum til fólks í fæðingarorlofi. Nú væri hins vegar stefnt að því að greiðslur væru að hámarki um 600.000 á mánuði. Sagðist hann hafa fagnað þessu ákvæði en vakið jafnframt athygli á að nauðsynlegt væri að greiða þeim, sem hefðu 150.000 eða minna í mánaðartekjur, fullt fæðingarorlof. Síðan mætti skerða upphæðina um 5 – 10% fyrir hverjar 50 – 100.000 kr. Sem fram yfir væru og þannig féllu greiðslur niður þegar komið væri að efstu mörkum. Veittu ýmsir nefndarmanna þessari tillögu athygli. Rætt var um að fæðingarorlof væri fjármagnað af atvinnuleysistryggingasjóði og nú ríkti óeðlilegt ástand á vinnumarkaði. Sagðist formaður hafa minnt þingmenn á að viðvarandi atvinnuleysi væri sú fórn sem greidd hefði verið fyrir þjóðarsáttina á sínum tíma. Tók framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins undir þessa skoðun og sagði að 3% af vinnumarkaði væri mun hærri tala nú en fyrir 14 – 15 árum. Fjallaði formaður síðan nánar um fjölgun öryrkja og atvinnuleysi á meðal þeirra sem birtist m.a. í auknum fjölda þeirra sem metnir hefðu verið til örorku.
Þá voru forystumenn hagsmunasamtaka kallaðir á fund félagsmálanefndar vegna breytinga á lögum um Íbúðalánasjóð, en fyrirhugað er að leggja húsbréfakerfið niður og taka þess í stað upp peningalán. Fjallaði formaður dálítið um það og sagðist ekki hafa séð ástæðu til þess að gera athugasemdir við þá breytingu. Greindi hann þó frá athugasemdum sínum við þær fullyrðingar að jafnvægi væri að skapast á markaðinum þar sem mikill skortur væri á litlum íbúðum. Tók fram kvæmdastjóri Alþýðusambandsins undir mál hans og sagði að jafnvægi gæti m.a. skapast með óhóflegu verði fasteigna. Formaður sagði að þrátt fyrir skamman fyrirvara á fundarboðum skyldi tekið fram að fundirnir hefðu verið gagnlegir; þeim hefði verið vel stjórnað og vel tekið eftir málflutningi Öryrkjabandalagsins. Þá hefðu ýmsir sem sátu fundina tekið undir sjónarmið þess.

Formaður vék því næst að breytingu á lyfjareglugerð sem átti að taka gildi 1. maí síðastliðinn. Sú reglugerðarbreyting kom flestum í opna skjöldu og voru menn því ekki eins undirbúnir og vera skyldi. Að ráði varð að Öryrkjabandalag Íslands samræmdi aðgerðir og var boðað til fundar að Hótel Sögu laugardaginn 24. apríl síðastliðinn þar sem mættu fulltrúar allra aðila sem hlut áttu að máli. Emil Thóroddsen var fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands í pallborðsumræðum og flutti þar að auki ávarp. Taldi formaður víst að fundurinn hefði orðið til þess og sú samstaða sem þar kom fram að ályktun sú sem samþykkt var um frestun reglugerðarinnar náði fram að ganga. Formaður sagði að þetta sýndi nauðsyn þess að bandalagið væri betur á verði í þessum málaflokki. Kvað hann varaformann bandalagsins hafa talað mjög fyrir samráði innan félags síns og föstudaginn 7. maí hefði verið boðað til samráðsfundar um málefni langveikra. Kvaðst formaður vænta góðs af slíku starfi.
Þá greindi formaður frá því að innan Öryrkjabandalagsins væri tekinn til starfa kvennahópur undir forystu Guðríðar Ólafsdóttur og Báru Snæfeld. Hefðu þar ýmsir einstaklingar komið til starfa með sjónarmið sem nýtast mundu í öllu starfi bandalagsins.
Þá hefur jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar boðað til ráðstefnu 15. maí þar sem fjallað verður um hvort eigi að útvíkka jafnréttishugtakið. Menn hafa gert sér grein fyrir að nauðsynlegt er að fjalla um jafnrétti annarra en kynjanna. Sagði formaður að þetta ætti m.a. rætur að rekja til tilskipunar Evrópusambandsins um bann gegn misrétti á vinnumarkaði sem íslensk stjórnvöld hefðu ekki fengist til að staðfesta. Fagnaði formaður væntanlegri ráðstefnu. Ræðumaður Öryrkjabandalagsins verður framkvæmdastjóri þess.
Eins og fram kemur í fjárhagsáætlun Öryrkjabandalagsins hefur verið ákveðið að verja 1.2 millj. kr. til þróunaraðstoðar. Garðar Sverrisson, fulltrúi MND-félagsins, hefur kannað þessi mál og lagt til að bandalagið einbeiti sér að verkefni í Mósambík. Þar starfar íslensk kona sem verkefnisstjóri á vegum ráðuneytis félags- og kvennamála. Lagt hefur verið til að bandalagið styrki verkefni á vegum samtakanna International Womens Group, en það eru samtök eiginkvenna sendifulltrúa. Samtökin hafa styrkt margs konar verkefni. Gerð verður þarfagreining og Öryrkjabandalaginu send lýsing á verkefninu. Fjármunirnir munu renna beint til þessara samtaka sem beina þeim í réttan farveg. Þakkaði formaður Garðari þá vinnu sem hann hefði lagt fram vegna þessa máls.
Innan verkalýðshreyfingarinnar og annarra fjöldasamtaka hefur verið rætt um að sýna Palestínumönnum samstöðu vegna þeirra atburða sem orðið hafa þar að undanförnu. Formaður minnti á að Öryrkjabandalagið hefði jafnan tekið þátt í slíkum aðgerðum ef alþjóðasamfélagið telur að verið sé að brjóta á ákveðnum hópum. Taldi hann líklegt að blásið yrði til fundar og tækju ASÍ, BSRB, Kennarasamband Íslands, BHM og jafnvel fleiri samtök þátt í slíkum fundi. Taldi hann mikils um vert að bandalagið skoraðist ekki undan merkjum og sýndi þar með samstöðu með þeim sem fjölluðu um þessi mál, svo sem Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðlegum samtökum.
Formaður vék því næst að samkomulaginu milli Öryrkjabandalags Íslands og ríkisstjórnarinnar frá 25. mars 2003. Hann minnti á að í desember hefði aðalstjórn samþykkt að heimila framkvæmdastjórn bandalagsins að leita til dómstóla vegna efnda á samkomulaginu. Í mars hefði síðan veri ákveðið að gefa ríkisstjórninni kost á að koma tillögum að efndum inni í fjárlög. Sagðist formaður hafa ástæður til að ætla að ekki bólaði á slíkum tillögum enda væri hér um það háa fjárhæð að ræða að ríkisstjórnin þyrfti að fjalla um hana og heilbrigðisráðherra hefði ekki þann stuðning innan síns flokks sem hann þyrfti. Las hann því upp drög að ályktun sem framkvæmdastjórn hafði samið. Voru þau samþykkt með smávægilegum orðalagsbreytingum.

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 5, maí 2004

Fundur Aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn miðvikudaginn 5. maí 2004, átelur harðlega að rúmir fjórir mánuðir skuli nú liðnir án þess að þorri öryrkja hafi fengið greiddar þær bætur sem um var samið í aðdraganda síðustu kosninga. Þúsundir öryrkja höfðu treyst því að ríkisstjórn Íslands myndi standa við það samkomulag sem kynnt hafði verið svo rækilega fyrir kosningar. Það er ágreiningslaust af fulltrúum beggja samningsaðila að ekki hefur enn verið staðið við samkomulagið.
Öryrkjabandalag Ísland skorar á ríkisstjórn og Alþingi að gera þegar í stað ráðstafanir til að samkomulagið megi koma til fullra framkvæmda, svo að máli þessu verði lokið eigi síðar en við framlagningu fjárlagafrumvarps í byrjun október næstkomandi. Að öðrum kosti eru stjórnvöld, eina ferðina enn, að neyða Öryrkjabandalag Íslands til að leita viðurkenningar dómstóla á þeim alvarlegu vanefndum sem hér um ræðir og hvetja bandalagið til að grípa til allra þeirra baráttuleiða sem öryrkjum eru tiltækar. Orð skulu standa!

Öryrkjabandalag Íslands

Formaður gaf síðan orðið laust um skýrslu sína og ályktunina.

Sveinn Rúnar Hauksson tók fyrstur til máls og gerði örstuttar athugasemdir við orðalag ályktunarinnar.

Arnór Pétursson vakti athygli á að aldurstengd örorkuuppbót fellur niður við 67 ára aldur. Hvatti hann bandalagið til þess að taka þetta mál upp við stjórnvöld og fara þess á leit að fólk héldi áunum réttindum. Þá taldi Arnór óverjandi að lágar örorkubætur falli niður þegar menn fara í fæðingarorlof. Hann taldi að hér þyrfti að gera örlitlar breytingar á lögum um almannatryggingar og skoraði á bandalagið að fylgja því eftir. Arnór taldi að Öryrkjabandalagið ætti að senda frá sér ályktun í fjölmiðla þar sem sérstökum húsaleigubótum Reykjavíkur væri fagnað og um leið skorað á önnur sveitarfélög að taka þær upp. Þannig næðist jafnvægi á milli jákvæðra athugasemda og gagnrýni.
Hann lýsti síðan fylgi sínu við verkefni bandalagsins í Mósambík. Hann kvaðst vera nýkominn frá Eistlandi þar sem hann sótti heim systursamtök Sjálfsbjargar. Þar þarf að taka til hendinni. Vænta Eistlendingar siðferðilegs stuðnings a.m.k. frá Íslendingum. Nefndi hann síðan dæmi um kjör öryrkja, aldraðra og almenn launakjör í landinu.
Að lokum kvað Arnór Öryrkjabandalagið eiga að taka fullan þátt í mótmælaaðgerðum vegna Palestínu þótt eitthvað kynni að skorta á samstöðu. Minntist hann á að bandalagið hefði átt að senda ísraelskum stjórnvöldum mótmæli þegar “einn af okkur”, fatlaður maður, lamaður upp að hálsi, var tekinn af lífi í beinni útsendingu. Lýsti hann andúð sinni á því að menn væru réttdræpir vegna skoðana sinna.

Formaður sagðist hafa lagt ofuráherslu á 67 ára málið í samningum við stjórnvöld og einkum ráðherra. Hann taldi að stíflan myndi bresta þegar fólk, sem orðið hefur öryrkjar á ungaaldri, yrði 67 ára gamalt. Hann kvaðst hafa tjáð ráðherra að þetta ákvæði myndi ekki halda. Sagðist hann álíta að úrbætur í þessu máli ættu e.t.v. að verða sú gulrót sem stinga ætti upp í öryrkja ef samkomulagið verður ekki efnt til fulls enda kostaði þessi breyting sáralítið.
Þá vék hann að hugsanlegri ályktun um húsaleigubætur. Færði hann fram rök fyrir því að menn þyrftu að fara sér hægt vegna ályktana enda væri ekki algengt að bandalagið sendi frá sér ályktanir um sveitarstjórnarmál.
Þá þakkaði hann Arnóri fyrir upplýsingarnar um Eistland. Hann sagðist hafa vakið máls á því á norrænum vettvangi að þróunaraðstoð ætti að beina til Eystrasalts landanna. Þeirri hugmynd var fálega tekið enda hafa menn fremur unnið að slíkum verkefnum í fátækustu löndum Afríku og Asíu.

Friðrik Alexandersson rifjaði upp á á fundi aðalstjórnar í desember hefði verið rætt um að leita álits lögfræðings á því að fara með vanefndir ríkisstjórnarinnar fyrir dómstóla. Spurði hann hvort það hefði verið gert.
Þá vék hann að aldurstengdu örorkuuppbótinni. Hann sagði að fólk, sem væri fatlað frá fæðingu, hefði sumt verið metið til örorku þegar það var komið yfir tvítugt. Fengi það greiðslur samkvæmt því. Vildi hann vita hvort slík mál hefðu komið til kasta bandalagsins.

Formaður sagði að niðurstaða Ragnars Aðalsteinssonar sé sú að vinna við álitsgerð vegna málshöfðunarinnar sé það sem mestu máli skiptir vegna málshöfðunar. Álit hans er að svo fremi sem vitni sé að gerningnum standist samningurinn. Ragnar telur hins vegar að það geti orðið þyngra undir fæti að fá fram þá fjármuni sem gert var ráð fyrir. Þá ræddi formaður um það jafnvægi sem þyrfti að vera á milli yfirlýsinga um málsókn og málsóknina sjálfa.
Formaður sagði að málefni þeirra sem metnir hefðu verið öryrkjar eftir að nokkur tími var liðinn frá örorku, væru erfið viðureignar. Í tryggingalögum eru fyrningarákvæði. Hins vegar var um það rætt að fólk sem væri á gráu svæði, yrði tekið til sérstakrar athugunar og litið á mál þess með velvild. Taldi hann líklegt að reynt yrði að leysa þau mál sem Friðrik vék að.

Arnþór Helgason kvað nokkur mál hafa borist Öryrkjabandalaginu vegna þess að menn hafi misst aldurstengda örorkuuppbót vegna aldurs. Hefur hann ritað Heilbrigðisráðherra þar sem vakin er athygli á að breyta þurfi setningu í 12. og 29. gr. laga um almannatryggingar þar sem segir að örorkulífeyrir sé greiddur á aldrinum 16 – 67 ára, en í þessu ákvæði hangi yfirvöld tryggingamála.
Þá kvað Arnþór nokkurn hóp einstaklinga eiga skýlausan rétt á því að fá aldurstengda örorkuuppbót vegna meðfæddrar fötlunar þótt þeir hafi ekki verið metnir til örorku fyrr en síðar á ævinni og væru heyrnarlausir fjölmennasti hópurinn. Kvaðst hann hafa frétt hjá embættismönnum að áhugi væri á að skoða þessi mál þegar lögin verða endurskoðuð, hins vegar hefði ekkert verið rætt um hinn fjárhagslega þátt samnings Öryrkjabandalagsins.
 
Arnór Pétursson fjallaði um mál einstaklinga sem ekki hafa verið metnir til örorku fyrr en seint og um síðir. Hann taldi að bandalagið þyrfti að leggjast á árarnar til þess að fá slíkt mat leiðrétt gagnvart þeim sem sannanlega væru fæddir fatlaðir.
Þá vék hann að stöðu Jóns Kristjánssonar vegna þess að farið var langt fram úr áætlun með bifreiðakaupastyrki. Taldi Arnór að breyting á reglugerðinni væri í burðarliðnum. Kvaðst hann hafa beðið ráðherra að aðhafast ekkert án samráðs við hagsmunasamtökin. Verði þær hugmyndir að veruleika sem ræddar hafa verið, er um verulega kjaraskerðingu að ræða.
Áfram var rætt um þessi atriði auk þess sem vikið var að orðalagi ályktunarinnar. Þeir sem tóku til máls voru Garðar Sverrisson, Sveinn Rúnar Hauksson, Gísli Helgason og Helgi Seljan. Ályktunin var því næst samþykkt.

2. Styrkir til aðildarfélaga

Formaður kynnti tillögu framkvæmdastjórnar um styrki til aðildarfélaga Öryrkjabandalags Íslands, en samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 35 millj. kr. Eftirfarandi úthlutanir voru einróma samþykktar:

Styrkir til aðildarfélaga
Aðildarfélag Upphæðir í þús.kr.
ADHD samtökin 1.400
Alnæmissamtökin 1.500
Blindrafélagið 1.500
Daufblindrafélag Íslands 1.000
FAAS 750
Félag heyrnarlausra 1.600
Félag lesblindra 900
Félag nýrnasjúkra 700
Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra 850
Geðhjálp 2.000
Geðverndarfélag Íslands 700
Gigtarfélag Íslands 2.000
Heyrnarhjálp 900
LAUF 1.100
Málbjörg 900
MND-félag Íslands 700
MS félag Íslands 1.550
Parkinsonsamtökin 1.400
Samtök sykursjúkra 1.500
SEM samtökin 800
S.Í.B.S. 2.000
Sjálfsbjörg, landsamband fatlaðra 2.000
SPOEX 1.500
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra 1.500
Styrktarfélag vangefinna 2.000
Tourette samtökin 1.050
Umsjónarfélag einhverfra 1.200
  Samtals  35.000

3. Önnur mál

Arnór Pétursson og Jón Eiríksson, formaður SEM-samtakanna, þökkuðu fyrir styrki sem veittir voru félögum þeirra. Jón Eiríksson spurði Arnór hvort sú hugmynd hefði verið kynnt ráðamönnum að styrkir til bifreiðakaupa miðuðust við kr. 250.000 á ári þannig að vildi maður skipta um bíl eftir eitt ár fengi hann 250.000 kr. og hækkaði upphæðin um 250.000 kr. á ári eftir því sem lengra liði á milli styrkja. Taldi hann að slík tilhögun gæti komið í stað reglunnar um 6 ár.
Arnór kvaðst ekki hafa heyrt að þessi hugmynd hefði verið til umræðu.

Formaður sleit því næst fundi kl. 18:55.

Reykjavík, 7. júlí 2004.

Arnþór Helgason (sign)