Skip to main content
Frétt

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ (05.10.2004)

By 5. janúar 2006No Comments

Fundargerð

Þriðjudaginn 5. október 2004 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar í salnum á 9. hæð, Hátúni 10. Fundurinn hófst kl. 17:15. Fundi stýrði Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Fundargerð skráði Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri bandalagsins.

Þessir sátu fundinn:

Garðar Sverrisson – Daufblindrafélagið
Arnþór Helgason – framkvæmdastjóri ÖBÍ
Elísabet Á. Möller – Geðverndarfélaginu
Gísli Helgason – Blindrafélaginu
Guðríður Ólafsdóttir – ÖBÍ
Árni Sverrisson – Heyrnarhjálp
Valgerður Auðunsdóttir – SPOEX
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélaginu
Styrkár Hjálmarsson – ADHD-samtökunum
Friðrik Alexandersson – Styrktarfélagi vangefinna
Helgi Hróðmarsson – SÍBS
Garðar Sverrisson – MND– félaginu
Haukur Vilhjálmsson – Félagi heyrnarlausra
Vilmundur Gíslason – Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra
Ingi Hans Ágústsson – Alnæmissamtökunum
Steinunn Þ. Árnadóttir – MS – félaginu
Helgi Seljan – MG – félaginu
Emil Thóroddsen – Gigtarfélaginu
Sveinn Rúnar Hauksson – Geðhjálp
Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi einhverfra
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Bára Snæfeld – ÖBÍ

1. Yfirlit formanns

Nú hafa fjárlög verið lögð fram. Þar er enn gert ráð fyrir skattabreytingum sem létta byrðar þeirra sem hafa miðlungstekjur og þaðan af meir. Um leið eru auknar hlutfallslega byrðar þeirra sem minnst bera úr bítum með frystingu persónuafsláttar o.fl.
Það sem skiptir okkur þó mestu er sú staðreynd að annað árið í röð skuli lagt fram fjárlagafrumvarp án þess að gert sé ráð fyrir að samningurinn, sem gerður var við Öryrkjabandalagið í aðdraganda síðustu kosninga, komi til framkvæmda. Formaður rakti síðan ályktun framkvæmdastjórnar frá 26. nóvember 2003 þar sem áformaðri frestun samningsins var mótmælt og þá ákvörðun aðalstjórnarfundar 9. desember síðastliðinn að láta kanna lagalega stöðu þess að höfða mál vegna vanefndanna. Það hefur verið gert. Til þess að hægt sé að höfða mál vegna vanefndanna telur lögmaður Öryrkjabandalagsins að tvennt þurfi að uppfylla: 1) Menn þurfa að vita um hvað var samið og geta fært fyrir því rök. Margvísleg gögn málsins auk vitna geta staðfest það. B) Þá þarf að sanna að samningurinn hafi verið gerður. Svo vill til að hann var staðfestur í Þjóðmenningarhúsinu í heyranda hljóði.
Formaður rakti síðan ýmis ummæli Jóns Kristjánssonar þess efnis að samningurinn hefði enn ekki verið efndur til fulls og sagði að það væri einungis nýlega sem hann hefði haldið öðru fram. Þá minntist hann á að Halldór Ásgrímsson hefði í raun ekki haldið því fram í stefnuræðu sinni að samningurinn hefði verið efndur til fulls.
Formaður sagðist hafa átt nokkra fundi með Jóni Kristjánssyni í vor og aftur í haust. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að hann taki þátt í þeirri vinnu að kanna orsakir fjölgunar öryrkja. Formaður hefur talið það sjálfsagt svo fremi sem að þessu komi fulltrúi frá Vinnumálastofnun, verkalýðs¬hreyfingunni og einhver vinnumarkaðshagfræðingur. Formaður sagði að tryggingaráðherra gerði sér glögga grein fyrir breyttu ástandi á vinnumarkaðinum og að hluti þeirra sem hefðu lent á atvinnuleysisbótum ættu ekki annarra kosta völ en að lenda réttilega á örorku.
Þá nefndi formaður að ráðherra hefði neitað að tjá sig um væntanleg fjárlög en hefði þess í stað sagst mundu “koma með útspil” um leið og frumvarpið yrði lagt fram. Það reyndist ekki vera annað en fréttatilkynningin um fjölgun öryrkja og rannsókn á ástæðum þess undir stjórn Tryggva Þórs Herbertssonar. Formaður sagði að í fréttatilkynningunni hefði jafnframt komið fram að menn hefðu orðið varir við þessa fjölgun í sumar þegar könnuð voru áhrif laganna um aldurstengdar örorkuuppbót. Þessa þróun má þó rekja aftur til 10. áratugarins. Formaður rakti síðan hvernig öllu hefði verið dengt saman: fjölgun öryrkja, útgjöldum vegna dómsmálanna og fleiru sem kæmi þessu máli ekkert við.
Formaður vék síðan að atvinnuleysisbótum. Hann taldi að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands væri ætlað að draga þá staðreynd fram í dagsljósið að menn hefðu það betra sem öryrkjar en þeir sem væru á atvinnuleysisbótum. Formaður rakti síðan kjör þeirra sem eru í sambúð eða í jónabandi og hafa skertar bætur þess vegna eða vegna tekna maka. Atvinnuleysisbætur eru hins vegar ekki skertar vegna tekna maka eða sambúðar. Taldi formaður að stofnuninni væri einnig ætlað að telja til fríðindi eins og afslátt af sundlaugum og ferðum með strætisvögnum til þess að taka mið af og yrðu þessi atriði notuð til þess að færa rök fyrir málflutningi stjórnvalda um betri hag öryrkja en atvinnulausra.
Formaður vék síðan að því að stjórnvöld hefðu hælt sér af því að atvinnuástand væri nú mun betra en það varð verst á síðasta áratug. Hann sagði að stjórnvöld vildu hins vegar ekki ræða um þá staðreynd að öryrkjar væru nú mun fleiri en áður vegna bágrar stöðu á vinnumarkaði, ýmsir hefðu farið í frekara nám og um 4 – 5.000 manns væru að jafnaði á atvinnuleysisskrá. Því væri sannleikurinn sá að vinnandi fólki á aldrinum 18 – 67 ára hefði fækkað hlutfallslega hér á landi eins og víða á Vesturlöndum. Í stað þess að stjórnvöld vilji ræða raunverulegar ástæður sé því hins vegar slegið upp að öryrkjum hafi fjölgað og við því verði að bregðast.
Vegna áður samþykktrar málshöfðunar lagði formaður til að bandalagið biði afgreiðslu fjárlaga í þeirri von að ríkisstjórnin sæi að sér og efndi til fulls samninginn frá 25. mars 2003. Tillaga formanns mæltist mjög vel fyrir eins og fram kemur m.a. síðar í þessari fundargerð. Síðan las hann drög að ályktun sem fjallað var um að loknum umræðum um yfirlit formanns.

2. Umræður um yfirlit formanns

Helgi Seljan tók fyrstur til máls og sagði m.a.:
“Þegar Sveinn Einarsson var um daginn að afsaka sukkið í París Þá sagði hann: Svoddan kona kostar nokkuð og vitnaði þar í leikverk. Því miður dettur manni í hug samlíkingin: Svoddan stóll kostar nokkuð. Því miður, því að þessi sérstöku viðbrögð sem núna eru hjá vini mínum, Jóni Kristjánssyni, eru mér algerlega framandi og óskiljanleg, gersamlega. Ég hlýddi sjálfur á Jón Kristjánsson, sem ég tel vammlausan mann, segja það að hér væri um að ræða áfanga. Ég heyrði hann segja að það væru vonbrigði að hann hefði ekki getað staðið við samkomulagið að fullu. Þetta heyrði ég hann allt saman segja og veit að hann meinti það og meinar það ennþá. Það munu vera aðrir sem kippa þar í spottana, hvernig í veröldinni sem á því stendur. Kannske hafa menn fundið hér vígvöll með því að ógna mönnum með fjölgun öryrkja, sem ekki væru öryrkjar, því að það er víst meiningin á bak við þetta allt saman, sem gætu skert tekjur þeirra sem ennþá þurfa að borga eitthvert smáræði í hátekjuskatt.”
Helgi taldi einsýnt að bíða þess að fjárlög yrðu samþykkt og hefja þá málsókn; nú væri um frumvarp að ræða en þá yrði byggt á lögum. Hann lýsti fylgi við ályktun þá sem formaður hafði lesið en taldi að í framhaldi hennar þyrfti bandalagið að vekja athygli á því í hverju vanefndirnar væru fólgnar og hverjir hefðu í raun verið sviknir.
Helgi sagðist að lokum fagna skýringum formannsins á mismuninum á atvinnuleysis- og örorkubótum. Ýmsir tryðu því að bætur öryrkja væru orðnar svo háar vegna baráttu bandalagsins að ýmsir “svissuðu yfir” til þess að bæta hag sinn. Helgi lýsti síðan vonbrigðum sínum með málatilbúnað stjórnvalda og sagðist ekki trúa því að menn létu það yfir sig ganga “að svoddan stóll kostaði slíkt”.

Sveinn Rúnar taldi þessa stefnu hárrétta enda væri augljóst að ekki yrði staðið við samninginn. Því þyrfti málsókn til að koma og rétt væri að bíða eftir samþykkt fjárlaga.

Haukur Vilhjálmsson tók undir ályktunina. Hann greindi frá baráttu heyrnarlausra fyrir túlkaþjónustu en hvergi væri hægt að fá úrlausn. Hann sagði frá mótmælum heyrnarlausra fyrir utan Alþingishúsið í gær. Hann kvað ályktunina í samræmi við hagsmunamál heyrnarlausra sem vilja fara út á vinnumarkaðinn. Þeim er óhægt um vik vegna þess að þeir fá enga túlkaþjónustu. Til þess að heyrnarlausir geti staðið sig þurfa þeir að fá greidda túlkaþjónustu sem er í rauninni ódýr, svo ódýr að stjórnmálamenn ræki í rogastans ef þeir vissu það.

Helgi Hróðmarsson spurði hvort gert væri ráð fyrir samráði við samtök fatlaðra í þeirri vinnu sem Tryggva Herbertssyni hefði verið falin og formaður fjallaði um. Þá vék hann að atvinuleysi öryrkja. Hann sagði að víða út um land væri það alkunn staðreynd að ýmsir, sem áður höfðu vinnu, væru nú atvinnulausir eða á örorkubótum eingöngu. Þetta hefði ekkert með aukna örorku að gera að öðru leyti en því að nú væru kröfur markaðarins aðrar og það bitnaði á fötluðu fólki sem sumt hefði ekki verið metið til örorku á meðan vinnu var að hafa.

Gísli Helgason greindi frá tölvupóstsendingum milli sín og heilbrigðisráðherra þar sem hann hvatti ráðherra til að segja af sér. Ráðherra svaraði því til að hann vildi fá tóm til þess að landa málinu þegar það tækist.

Auk þess tóku til máls Sigríður Jóhannsdóttir, Styrkár Hjálmarsson og Arnþór Helgason sem fjallaði ítarlega um margvísleg brot stjórnvalda og ósannindi stjórnvalda um öryrkjamálið.

Formaður sagði að ýmislegt sem áunnist hefði síðustu misserin hefði ekki verið fengið með velsældinni. Hann taldi sig hafa tilfinningu fyrir því að umtalsverður hluti þeirra sem kjósa stjórnarflokkana, trúi því ekki að samningurinn hefði í raun og veru verið efndur. Þá ræddi hann um kostnaðarmat sem ekki væri hægt að gera án þess að menn viti hvað um hefur verið samið. Hann vitnaði einnig til leiðara Morgunblaðsins þar sem skilningur Öryrkjabandalagsins er áréttaður. Formaður greindi einnig frá ýmsum gögnum sem bandalagið og fleiri hafa undir höndum sem sýna að óumdeilanlegt var hvað um var samið. Velti hann síðan fyrir sér hvort ekki væri orðið tímabært að taka saman sterkustu punktana og kynna þá opinberlega.
Formaður hrósaði félagi heyrnarlausra fyrir skelegga baráttu og sagði með ólíkindum hvernig aðstæður heyrnarlausra væru. Þá minntist hann einnig á að stjórnsýslulög hefðu verið margbrotin á félagi heyrnarlausra.
Formaður svaraði síðan spurningu Helga Hróðmarssonar á þann hátt að Öryrkjabandalagsins væri hvergi getið. Taldi hann ýmislegt benda til þess að ekki ætti að kanna vinnumarkaðinn til hlítar.
Formaður fagnaði að lokum umboði fundarins til þess að fresta málshöfðun fram yfir afgreiðslu fjárlaga í þeirri von að unnt yrði að snúa meirihluta þingheims.

3. Ályktun aðalstjórnarfundar

Formaður lagði síðan fram drög að ályktun. Til máls tóku um hana Sveinn Rúnar Hauksson og Friðrik Alexandersson. Var hún samþykkt svohljóðandi eftir örlitlar orðalagsbreytingar:

Ályktun fundar aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 5. október 2004

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands fordæmir harðlega að ríkisstjórnin skuli enn áforma að svíkja samninginn við öryrkja sem kynntur var hátíðlega fyrir síðustu Alþingiskosningar. Í stað þess að skýla sér með fjölgun öryrkja – þróun sem hófst um miðjan síðasta áratug – verða stjórnvöld að hefja heiðarlega rannsókn á því gerbreytta atvinnustigi sem ráðið hefur mestu um þessa þróun. Öryrkjabandalagið krefst þess að ráðamenn axli ábyrgð á atvinnustiginu í stað þess að gefa í skyn að öryrkjar geti fótað sig á vinnumarkaði þar sem þúsundir fullfrískra einstaklinga ganga um án fastrar atvinnu.

Samanlagður fjöldi öryrkja og atvinnulausra vitnar um mjög alvarlega þróun í atvinnumálum þjóðarinnar. Þótt atvinnuleysisbætur séu lágar eru þær í flestum tilvikum umtalsvert hærri en sambærilegar bætur öryrkja.  Það er lágmarkskrafa að stjórnvöld gangist við ábyrgð á þessum vanda í stað þess að svíkja gerða samninga.

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands

 

4. Beiðni Stómasamtaka Íslands um aðild að Öryrkjabandalagi Íslands 

Framkvæmdastjóri bar upp tillögu framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalagsins þess efnis að aðalstjórn mælti með því við næsta aðalfund að Stómasamtökum Íslands yrði veitt aðild að bandalaginu og vísaði í bréf samtakanna frá 12. júlí síðastliðinn. Rakti hann nokkuð starfsemi samtakanna og minntist m.a. á sjálfshjálparhópa samtakanna sem hann sagði vera til mikillar fyrirmyndar. Hann gat þess einnig að sambærileg samtök á öðrum Norðurlöndum ættu aðild að norrænu öryrkjabandalögunum.

Sveinn Rúnar Hauksson fagnaði umsókninni og taldi hana afar vel unna og athyglisverða.

Tillagan var síðan samþykkt einróma.

5. Önnur mál 

Formaður vék að verkfalli grunnskólakennara. Hann kvað hafa verið veittar undanþágur vegna flestra fatlaðra barna sem talin væru þurfa á því að halda og sagðist vænta þess að þau mál sem út af stæðu yrðu senn í höfn.

Friðrik Alexandersson staðfesti orð formanns. Hann vék síðan að atvinnuástandi á meðal fatlaðra. Kvað hann ýmsa hallast að því að ræða um laun jafnt fyrir unnin störf sem greiðslur almannatrygginga enda ætti ekki að líta á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem bætur.
Þá greindi Friðrik frá ráðstefnu um framtíð aldraðra, þroskaheftra einstaklinga sem Styrktarfélag vangefinna heldur 12. nóvember nk.
Formaður sagði að greiðslur almannatrygginga yrðu að vera hærri en atvinnuleysisbætur því að oft væri um ævikjör öryrkja að ræða. Ræddi hann síðan um notkun orðsins laun og velti fyrir sér hvort ekki væri rétt að ræða um tekjur þegar fólk hefði ekki launaða atvinnu. Hann taldi að umræða þessi endurspeglaði þrá eftir vinnu og stakk upp á því að atvinna fyrir alla yrði umræðuefni aðalfundar eða sérstakrar ráðstefnu.

Sigríður Jóhannsdóttir tók undir orð formanns og taldi brýna nauðsyn bera til að Öryrkjabandalagið kynnti hvernig hópur fatlaðra er samsettur. Hún taldi að raddir tiltölulega fámennra hópa fatlaðra hljómuðu einna hæst og þær gæfu ekki rétta mynd af ástandinu. Hafði hún áhyggjur af orðspori bandalagsins og ítrekaði þá skoðun sína að kynna þyrfti m.a. atvinnugetu fatlaðra.

Helgi Seljan fagnaði væntanlegri aðild Stómasamtakanna að bandalaginu. Hann vék síðan að kennaraverkfallinu og því hvað það sýndi í raun og veru. Hann taldi að ástandið sem skapast hefði vegna verkfallsins sýndi hvernig farið gæti ef málefni fatlaðra yrðu flutt yfir til sveitarfélaganna. Kvað hann brýnt að aðalfundur bandalagsins fjallaði um þetta mál og bandalagið yrði að vera reiðubúið að bregðast við þeirri umræðu sem orðið hefur um væntanlegan flutning málaflokksins til sveitarfélaganna.

Formaður sagði að í þessari umræðu rynnu saman ólík markmið vinstri og hægrimanna. Hægrimenn teldu sig geta dregið úr umsvifum ríkisins og ýtt frá sér ýmsum skyldum á meðan vinstri menn væru með “glýju í augunum” vegna svo kallaðrar nærþjónustu sem ætti öll að vera á vegum sveitarfélaganna. Hann taldi sveitarstjórnarmenn ósamkvæma sjálfum sér þegar þeir vildu á opinberum vettvangi taka við sem flestum þáttum þjónustunnar en segðu síðan annað í fundarhléum.

Sveinn Rúnar Hauksson reifaði hugtakanotkun, laun, greiðslur, tekjur og hvernig fólk væri hrakið frá einu kerfinu til annars. Taldi hann að einfalda mætti bótakerfið enda ættu þeir, sem geta ekki séð fyrir sér sjálfir, stjórnarskrárvarinn rétt til framfærslu. Síðan bauð hann fundarmönnum í kaffi 10. október í tilefni alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins.

Guðríður Ólafsdóttir sagðist hafa heyrt umræður um að Svíar væru að hætta við frekari sameiningu sveitarfélaga. Þá greindi hún frá starfi ferlinefndar á vegum Reykjavíkurborgar og bað fulltrúa að svara tilmælum sem hún hefði sent út þar sem beðið var um ábendingar vegna starfs nefndarinnar.

Emil Thoroddsen greindi frá opnu húsi á vegum Gigtarfélags Íslands laugardaginn 9. okt. í tilefni af 20 ára afmæli gigtlækningarstöðvarinnar. Þá verður vísindaráð félagsins með ráðstefnu um íslenskar gigtarrannsóknir 12. október í tilefni alþjóðlega gigtardagsins. Þingið er tileinkað Jóni Þorsteinssyni, gigtarlækni.

Formaður þakkaði góðan fund og hugmyndalega frjóar umræður. Taldi hann brýna nauðsyn bera til að halda uppi hugmyndafræðilegri umræðu um málefni fatlaðra. Formaður sleit síðan fundi kl. 19:20.

Arnþór Helgason (sign)