Skip to main content
Frétt

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ (09.12.2004)

By 5. janúar 2006No Comments

Fundargerð

Fimmtudaginn 9. desember 2004 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar í salnum Hvammi í kjallara Grand hótels í Reykjavík. Fundurinn hófst kl. 17:45. Fundi stýrði Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Fundargerð skráði Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri bandalagsins.
Í upphafi baðst formaður afsökunar á aðgengi að fundarsal sem ekki væri sem best. Þá bauð hann fulltrúa Stómasamtaka Íslands, Kristján Frey Helgason, sérstaklega velkominn og sagði að Öryrkjabandalaginu væri mikill akkur í aðild samtakanna.

Þessir sátu fundinn:
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Gísli Ásmundsson – Tourette samtökunum.
Gísli Helgason – Blindrafélaginu.
Steinunn Þóra Árnadóttir – MS-félagi Íslands
Ragnar Gunnar Þórhallsson – Sjálfsbjörg
Helga Steinunn Hauksdóttir – Styrktarfélagi vangefinna
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélagi Íslands.
Berglind Stefánsdóttir – Félagi heyrnarlausra
Valgerður Ósk Auðunsdóttir – SPOEX
Guðmundur S. Johnsen – Félagi lesblindra
Bryndís Snæbjörnsdóttir – Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra
Málfríður D. Gunnarsdóttir – Heyrnarhjálp
Garðar Sverrisson – MND-félaginu
Garðar Sverrisson – Daufblindrafélagi Íslands
Emil Thóroddsen – Gigtarfélagi Íslands
Elísabet Á. Möller – Geðverndarfélagi Íslands
Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi einhverfra
Ingi Hans Ágústsson – Alnæmissamtökunum
Helgi Seljan – MG– félaginu.
Kristján Pétursson – Félagi nýrnasjúkra
Jón Sigurðsson – Parkinsonsamtökunum.
Svanur Kristjánsson – Geðhjálp
Jónína Guðmundsdóttir – LAUF
Kristján Freyr Helgason – Stómasamtökunum
Guðmundur Magnússon – SEM
Birgir Þ. Kjartansson – SÍBS

Auk stjórnarmanna sátu starfsmenn Öryrkjabandalagsins, Arnþór Helgason, Bára Snæfeld og Guðríður Ólafsdóttir, fundinn.

Yfirlit formanns

Formaður vék í upphafi að samningnum við ríkisstjórnina frá 25. mars 2003. Á síðasta fundi aðalstjórnar var ákveðið að fresta málshöfðun fram yfir áramót þar sem það myndi styrkja stöðu bandalagsins að höfða málið eftir að fjárlög hefðu verið samþykkt öðru sinni án þess að gert væri ráð fyrir að efna samninginn. Lögmaður Öryrkjabandalagsins er reiðubúinn að hefjast handa um miðjan janúar og verður unnin ákveðin forvinna af hálfu bandalagsins áður. Sagði formaður að málið lægi ljóst fyrir og að auðvelt ætti að verða að fá viðurkenningardóm fyrir því um hvað samið hefði verið. Hins vegar lægi formlegt vald í höndum Alþingis um fjárveitingar vegna samningsins. Ekki hefði borið á því að ríkisstjórnin hefði sótt um fjárveitingar til þess að efna áður nefndan samning. Formaður taldi að úrslit þessa máls ættu að liggja fyrir áður en næst verður gengið til alþingiskosninga. Formaður vék svo að lokum að auglýsingaherferð Öryrkjabandalagsins sem stefndi að því að vekja athygli á samábyrgð ríkisstjórnarinnar í málinu með því að birta mynd af allri stjórninni.

Tvö mál hafa borist Öryrkjabandalaginu til umsagnar sem ástæða þykir til að greina frá. Hið fyrra varðar starfsemi græðara, en frumvarpið var lagt fram að undangenginni vinnu nefndar undir forystu Láru Margrétar Ragnarsdóttur. Í frumvarpinu er fjallað um störf þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar og skyldur þeirra. Gert er ráð fyrir að starf þeirra verði undir umsjón og eftirliti landlæknis. Ákveðið var að skila jákvæðri umsögn um frumvarpið.

Þá hefur bandalaginu borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á skattalögum. Formaður las síðan eftirfarandi umsögn bandalagsins frá 7. desember 2004:

Öryrkjabandalagi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um tekjuskatt og eignaskatt, skatthlutfall, afnám eignaskatts o.fl., 351. mál.

Á undangengnum árum hefur Öryrkjabandalag Íslands ítrekað lagst gegn þeirri þróun í skattamálum að létta milljörðum af þeim sem stöndugastir eru en auka hlutfallslega skattheimtu af þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Að frátalinni margvíslegri gjaldtöku í velferðarkerfinu hefur þetta fyrst og fremst birst í breytingum gagnvart hátekjuskatti, eignaskatti og tekjuskatti. Beitt hefur verið flatri lækkun skattprósentu án þess að leiðrétta fyrst skattleysismörk til samræmis við þróun launavísitölu. Skattleysismörk hafa ekki einu sinni verið látin halda í við þróun verðlags og þarf ekki að orðlengja hvílík áhrif slík skattastefna hefur haft á raunverulegan kaupmátt þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Til dæmis um það má nefna að lífeyrisþegi sem ekkert hefur nema bætur almannatrygginga er nú farinn að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta. Með hliðsjón af opinberum verðbólguspám er boðuð hækkun skattleysismarka fjarri því að létta af öryrkjum þessari stórauknu byrði.
Hvað eignarskattinn áhrærir þá hefur hann ekki verið fyrirferðarmikið umkvörtunarefni á meðal öryrkja. Vandi þeirra hefur fremur verið eignaleysi og stöðugt hækkandi húsaleiga, sem hlutfallslega vegur æ þyngra í heildarútgjöldum öryrkja og hefur fyrir bragðið meiri áhrif á raunverulegan kaupmátt þeirra en annarra. Hinir sem svo lánsamir eru að búa í eigin húsnæði verða á hinn bóginn fyrir þeirri skerðingu sem boðuð er á vaxtabótum, og er það miður. Á móti kemur löngu tímabær hækkun á barnabótum sem gagnast mun samfélaginu öllu í bráð og lengd. Með hliðsjón af bágum kjörum öryrkja, margvíslegri skerðingu á velferðarþjónustunni og mikilli aukningu á samanlögðum fjölda öryrkja og atvinnulausra, sér Öryrkjabandalagið sér ekki annað fært en að leggjast eindregið gegn þeim leiðum til skattalækkunar sem boðaðar eru í áðurgreindu frumvarpi. Sjaldan hefur verið meiri þörf á að beita skattheimtu til aukinnar tekjujöfnunar, treysta stoðir velferðarþjónustunnar og verja þeim fjármunum sem eftir kunna að verða til að greiða fyrir því að stöðugt vaxandi fjöldi öryrkja og atvinnulausra komist til vinnu á nýjan leik. En hér lætur nærri að um 10 þúsund Íslendingar hafi bæst í þennan hóp frá því á fyrri hluta síðasta áratugar. Við slíkar aðstæður í atvinnumálum þjóðar er hvorki framsýni né ábyrgð í því fólgin að breyta lögum enn frekar til að gera betur við þá sem síst þurfa á að halda og óvíst er hvort kæri sig um frekari velgjörðir af hálfu stjórnvalda.

Formaður vék síðan að umræðunni um fjölgun öryrkja. Hann ítrekaði ummæli sín frá síðasta aðalstjórnarfundi um að fjölgunina mætti rekja til atvinnuástandsins. Taldi hann ný gögn sem birst hefðu sanna þessa staðhæfingu. Vék hann síðan að viðtali við forsætisráðherra í sjónvarpi í fyrri viku þar sem kom fram hversu ánægður ráðherrann væri með atvinnuástandið. Formaður sagðist vænta þess að Hagfræðistofnun kannaði þessi mál ofan í kjölinn en færi ekki eftir væntingum þeirra sem pantað hefðu rannsókn á orsökum fjölgunarinnar.

Samstarf Geðhjálpar og Fjölmenntar hefur verið í brennidepli að undanförnu. Ekki hafa enn verið tryggðir nægir fjármunir til verkefnisins. Formaður rakti nokkuð gang mála og taldi það ámælisvert að stjórnvöld skyldu ekki tryggja fjármagn til þess að standa straum af þessu námi sem hefði margsannað gildi sitt. Rifjaði hann upp m.a. ákvæði um aukna áherslu á endurhæfingu í samn¬ingnum við ríkisstjórnina.

Að lokum vék formaður að bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. nóvember síðastliðnum til lífeyrisþega og boðuðu uppgjöri. Í ljós kom að 24.000 lífeyrisþegar höfðu fengið vangreitt sem nemur um einum milljarði kr. en 12.000 lífeyrisþegar voru taldir hafa fengið ofgreidda svipaða upphæð. Formaður rakti síðan aðdraganda þessa máls, breytingar á lögum um almannatryggingar frá 2002 og samninga TR. og Öryrkjabandalagsins um það hvernig skyldi staðið að beiðni um aðgang að skattaupplýsingum. Taldi hann flesta lífeyrisþega hafa veitt TR umboð til aðgangs að rafrænum gögnum í góðri trú og til þægindaauka. Hins vegar hefði komið í ljós að kerfið hefði ekki verkað sem skyldi. Myndaður hefur verið samstarfshópur TR og Öryrkjabandalagsins til þess að fjalla um ýmis vafamál og eiga þær Bára Snæfeld og Guðríður Ólafsdóttir sæti í hópnum fyrir hönd bandalagsins. Boðaði formaður að haldinn yrði fundur í janúar með þeim fulltrúum aðildarfélaganna sem hefðu mesta þekkingu á þessum málum og þar yrði farið yfir sviðið.

Umræður um yfirlit formanns og önnur mál

Helgi Seljan tók fyrstur til máls. Hann gerði málflutning heilbrigðisráðherra að umræðuefni þegar hann fullyrti í þinginu að hann hefði 1.3 milljarða til þess að fullnusta samninginn við Öryrkjabandalagið. Helgi sagði að þannig virtist mörgum sem einungis vantaði um 200 millj. kr. til þess að samningnum væri fullnægt; ráðherra hefði hvorki tekið mið að verðlagsþróun né um það hvað samið hefði verið.Þá fagnaði hann skattamálaályktuninni og sagði að Íslendingar skæru sig nú úr með því að hlífa hátekjufólki. Sagðist hann undrast að fulltrúar bandalagsins skyldu ekki kallaðir fyrir fjárveitinganefnd vegna þessa máls. Helgi taldi að vegna væntanlegs máls Öryrkjabandalagsins gegn stjórnvöldum yrði við framkvæmdavaldið að sakast en ekki Alþingi þar sem samningurinn væri á milli framkvæmdavaldsins og Öryrkjabandalagsins. Þá taldi hann að mál TR gætu orðið þung í skauti. Að lokum spurðist hann fyrir um það hvort gert hefði verið ráð fyrir að aldurstengda örorkuuppbótin héldist eftir að ellilífeyrisaldri hefði verið náð.

Formaður sagði að þegar ljóst var að ákvæðið um aldurstengdu örorkuuppbótina yrði ekki inni, hefði verið ákveðið að leggja ekki sérstaka áherslu á það mál heldur bíða þess að ákveðin stífla myndaðist sem springi fyrr eða síðar. Hann sagði að framkvæmdastjóri bandalagsins hefði ritað ráðuneytisstjóra Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins bréf þar sem vakin var athygli á því hverju breyta þyrfti í lögunum til þess að uppbótin héldist og hefði borist formlegt svar með þakklæti fyrir ábendinguna.

Arnþór Helgason sagðist halda að við embættismenn og afstöðu þeirra væri að sakast þegar aldurstengda örorkuuppbótin til ellilífeyrisþega væri annars vegar og vitnaði í samtal sitt við embættismann HTR, en hann lýsti þeirri skoðun sinni að eðlilegt væri að kjör fatlaðra skertust með sama hætti og annarra þegar þeir yrðu 67 ára. Arnþór rifjaði síðan upp rök bandalagsins gegn þessu og lýsti þeirri skoðun að greiða ætti fötluðum ellilífeyrisþegum hærri bættur vegna fötlunar þeirra ef menn ætluðu að vera sjálfum sér samkvæmir. Arnþór fjallaði síðan um þær tengingar sem enn væru eftir við tekjur maka og það óréttlæti sem þær hefðu í för með sér.

Svanur Kristjánsson lýsti sig sammála þeirri skoðun formanns að atvinnuleysi væri mun meira en látið væri í veðri vaka. Harkan væri meiri nú en áður á vinnumarkaðinum og uppsagnir tíðari. Taldi hann nauðsynlegt að Öryrkjabandalagið leitaði upplýsinga um ástæður uppsagna og hversu margir þeirra, sem sagt hefði verið upp, væru öryrkjar. Hann sagði að oft væri fólk ráðið á mun verri kjörum en það hafði áður sem birtist í lægri kauptöxtum og minna atvinnuöryggi. Aðstæður hefðu breyst þannig á íslenskum vinnumarkaði að nú mætti fullfrískt fólk búast við því að vinna allt að 10 störfum um ævina.
Svanur vék síðan að samstarfi Fjölmenntar og Geðhjálpar. Kvað hann þau mál hafa verið rædd innan Geðhjálpar og væri niðurstaðan sú að félagið myndi kæra vinnubrögð stjórnvalda gagnvart menntun geðfatlaðra. Benti hann á að Öryrkjabandalagið hefði á undanförnum árum unnið þrjú mál enda væru dómstólar orðnir mun faglegri á flestum sviðum en áður. Þá hefðu menn fengið nýtt tæki upp í hendurnar sem væru ný ákvæði stjórnarskrárinnar um mannréttindi. Auk þess mótaðist umhverfið af löggjöf Evrópusambandsins, Evrópudómstólnum o.s.frv. dæmi um mál sem Geðhjálp hyggst kæra er synjun bráðamóttöku LSH að veita bráðsjúku fólki móttöku. Sjúkrahúsin krefjast þess að uppfyllt séu ákvæði þess að aðstandendur skrifi undir heimild til sjálfræðissviptingar sem rýfur trúnaðarsamband á milli geðfatlaðra og aðstandenda. Í öðrum löndum tíðkast þessi siður ekki. Svanur taldi að þarna væru heilbrigðislög brotin á geðsjúku fólki og hefur Geðhjálp tilkynnt að slík mál verði framvegis kærð.

Svanur vék því næst að menntun fatlaðra. Hann sagði að stjórnarskráin væri notadrjúgt plagg á þessu sviði. Í þessum sáttmála hefði ríkið undirgengist þá skyldu að sjá öllum fyrir menntun við hæfi og við þetta ætti ríkið að standa. Minnti hann m.a. á að þegar ljóst varð að fjárveitingar dygðu ekki til framhaldsskólanna vegna aukins fjölda nemenda hefði allt kerfið farið á annan endann í viðleitni hins opinbera að útvega það fé sem þurfti. Hins vegar hefði verið látið að því liggja að það væri aðstandendum Fjölmenntar og Geðhjálpar að kenna að aðsóknin væri meiri en menn hugðu. Fjölmennt sagði Svanur að byði nám sem væri bæði hagkvæmt og ódýrt og því ætti Geðhjálp eða Öryrkjabandalagið að krefjast þess að nægir fjármunir yrðu tryggðir til þess að hægt væri að inna þessa kennslu af hendi. Að öðrum kosti væri álitamál hvort ekki ætti að höfða mál fyrir dómstólum til þess að fá dóm um það hvort jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar dygðu.

Formaður vék að nokkrum atriðum í ræðu Svans Kristjánssonar. Sagði hann einsýnt að Öryrkjabandalagið myndi styðja Geðhjálp af heilum hug vegna þeirra erfiðleika sem við væri að stríða vegna samninganna við ríkisvaldið um áframhaldandi fjárveitingar til samstarfsins við Fjölmennt.
Formaður ræddi einnig um misnotkun á tryggingakerfinu og taldi að hún væri mjög lítil enda ætti að vera erfiðara að misnota kerfið eftir að skilgreiningum örorku hefði verið breytt. Ef misnotkun kæmi upp væri við TR að sakast.
Þá vék formaður að atvinnuleysinu og fjölda öryrkja. Hann taldi það reynslu flestra endurhæfingarlækna að þeir, sem væru metnir til varanlegrar örorku, ættu flestir að baki sögu um atvinnuleysi og hremmingar á vinnumarkaði.
Að lokum vék hann að ótta manna við kærur. Kvað hann það góðan og gegnan íslenskan sið að skjóta málum til úrskurðar þriðja aðila væru menn ósammála. Þetta hefðu Íslendingar gert á þjóðveldisöld og telja ætti þennan hátt fullkomlega eðlilegan.

Steinunn Þóra Árnadóttir lýsti áhyggjum sínum vegna þeirra sem ekki leituðu réttar síns vegna brotalama í störfum TR. Sagði hún síðan sögu af reynslu sinni af svörum þjónustufulltrúa TR sem ekki stóðust. Þegar hún skráði sig í sambúð fyrir um ári óskaði hún eftir því að frestað yrði að tengja bætur hennar við tekjur maka um eitt ár vegna ákvæðis sem væri annaðhvort að finna í reglugerð eða lögum. TR krafði hana um endurgreiðslu en hefur fallið frá kröfunni gegn því að hún sendi inn skriflega greinargerð.

Nokkrar umræður urðu um reynslusögu Steinunnar og tóku þátt í henni Garðar Sverrisson, Málfríður Gunnarsdóttir og Steinunn. Ákveðið var að fela stjórn að kanna þetta ákvæði nánar.

Guðmundur Johnsen gerði málefni lesblindra að umræðuefni. Greindi hann frá þeim erfiðleikum sem lesblindir nemendur ættu við að stríða í skólakerfinu. Taldi hann greiningu ábótavant og stuðningur til hjálpartækja væri enginn. Hann sagði að í Bretlandi fengju lesblindir grunnskólanemar 2000 pund á ári til hjálpartækjakaupa og sérkennslu. Lýsti hann síðan þeirri aðstoð sem hann fékk frá Blindrabókasafni Íslands á meðan á háskólanámi hans stóð. Hann beindi því síðan til stjórnar Öryrkjabandalagsins að hún gengi í lið með Félagi lesblindra til þess að fá rétt lesblindra viðurkenndan.

Formaður þakkaði Guðmundi ágætt erindi. Hann sagðist halda að sambærilegur hluti þeirrar upphæðar sem lesblindir fá í Bretlandi skilaði sér í sérkennslu hér á landi og annarri aðstoð. Nokkrar umræður urðu á milli formanns og Guðmundar um málefni lesblindra og lestrarmiðstöð lesblindra sem starfaði innan Kennaraháskóla Íslands og lögð var niður. Taldi Guðmundur að greiningu lesblindra hefði farið aftur síðan. Formaður vék þessu máli síðan til Arnþórs Helgasonar.

Arnþór Helgason sagði að lestrarmiðstöðin hefði verið lögð niður m.a. vegna þess að Kennaraháskóli Íslands hefði ekki talið í sínum verkahring að halda starfseminni áfram. Ráðuneyti menntamála hefði ekki fundið henni stað annars staðar. Öryrkjabandalagið mótmælti þessari ákvörðun og Arnþór var m.a. í beinu sambandi við menntamálaráðherra. En allt kom fyrir ekki. Velti Arnþór því fyrir sér hvort lestrarmiðstöðin ætti e.t.v. heima annars staðar í kerfinu, t.d. undir Heilbrigðisráðuneytinu eins og Sjónstöðin.

Þá vék Arnþór að samstarfi Fjölmenntar og Geðhjálpar. Hann kvaðst hafa óttast ásamt formanni að ríkið væri að afsala sér ákveðinni ábyrgð með því að gera sjálfseignarstofnun úr fullorðinsfræðslu fatlaðra. Sagðist Arnþór vera þeirrar skoðunar að Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp ættu að skila aftur stofnuninni til Menntamálaráðuneytisins sæi ráðuneytið ekki sóma sinn í að fjármagna starfsemina á sama hátt og aðra framhaldsskóla.
Að lokum vék Arnþór að þeirri tilhneigingu að forðast orðið “fatlaðir” í heitum stofnana. Sagði hann að nú héti fullorðinsfræðsla fatlaðra Fjölmennt og Starfsþjálfun fatlaðra væri kölluð Hringsjá sem í raun væri heiti byggingarinnar. Taldi hann fatlaða einungis ná árangri í baráttunni að þeir könnuðust við fötlun sína.

Helga Steinunn Hauksdóttir varpaði fram þeirri spurningu hvers vegna fatlað fólk eða foreldrar fatlaðra þyrftu stöðugt að verja hendur sínar. Sagðist hún eiga fatlaðan son sem hún fengi umönnunarbætur með og þyrfti stöðugt að verja það fyrir öðrum. Spurði hún í lokin hvort einhverjar kannanir hefðu verið gerðar á afstöðu almennings til fatlaðra hér á landi.

Formaður rifjaði upp könnun sem gerð var á vegum félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem m.a. var spurt um afstöðu til fatlaðra og hvort fólk væri reiðubúið að greiða hærri skatta ef vitað væri að þeir rynnu til  velferðarmála. Fjórir af hverjum fimm lýstu sig reiðubúna að greiða hærri skatta í þessum tilgangi. Formaður fjallaði síðan frekar um slíkar kannanir og viðhorf sem oft birtust hjá fámennum hópum sem hefðu hátt þegar ástandið í þjóðfélaginu breyttist.

Gísli Helgason vék að málefnum lesblindra og baráttu þeirra fyrir jafnrétti. Greindi hann frá því að Námsmatsstofnun léti nú lesa talsvert námsefni inn á geisladiska fyrir lesblinda. Sagði hann síðan frá hljóðritun samræmdra prófa þar sem meðal annars er prófað í lesskilningi. Sá hluti prófsins er ekki lesinn upp heldur spurningar sem tengjast honum. Eru því lesblindir dæmdir til þess að falla á prófinu því að þeir geta fæstir lesið textann. Skoraði hann á stjórn Öryrkjabandalagsins að athuga þetta mál nánar og önnur sem tengjast hagsmunum lesblindra.

Frekari umræður urðu um málefni lesblindra og einnig heyrnarlausra. Tóku þátt í þeim auk formanns Málfríður Gunnarsdóttir, Berglind Stefánsdóttir og Guðmundur Johnsen. Niðurstaðan varð sú að rétt væri að vekja aftur til lífsins menntamálanefnd Öryrkjabandalagsins ásamt atvinnu- og búsetunefnd og skyldi óskað eftir tilnefningum aðildarfélaganna í þessar nefndir.

María Th. Jónsdóttir vék að vanda þeirra öryrkja sem þurfa mikla þjónustu frá heimilishjálp og taldi að fulltrúar Öryrkjabandalagsins þyrftu að sitja fundi heimilishjálparinnar. Hún taldi oft gæta misskilnings og fordóma í garð skjólstæðinga hjá starfsfólki heimilishjálparinnar. Þá taldi hún að hin félagslega þjónusta færi í raun síminnkandi. Sagði hún að jafnframt því sem erfiðara væri fyrir langveikt fólk að komast að á stofnunum drægist heimilishjálpin saman.

Formaður sagði að í raun færðist einkavæðing innan heilbrigðisþjónustunnar stöðugt í vöxt og væri það áhyggjuefni hvernig ríkið firrti sig stöðugt meiri ábyrgð í þessum málaflokki. Hann taldi þennan fund hafa verið athyglisverðan fyrir þá sök hversu fjölbreytt umræðan hefði verið. Sagði hann ástæðu til þess að kanna hvort ekki ætti í auknum mæli að taka einstök mál fyrir á fundum aðalstjórnar eða á aðalfundum. Formaður sagði að lokum að aðildarfélögin yrðu að gæta þess að halda uppi baráttunni fyrir einstökum hagsmunamálum og það yrði að meta hverju sinni hvað eðlilegt væri að bandalagið sem heildarsamtök fjallaði um.

Jón Sigurðsson sagði að allt of algengt væri að fólki væri sagt upp vegna fötlunar. Nefndi hann tvö dæmi um Parkinsonsjúklinga sem voru látnir hætta störfum, annar vegna þess að fjármálastofnun vildi ekki spilla ímynd sinni og hinn vegna þess að hann var ekki inni í framtíð fyrirtækisins. Ræddi hann um þann skaða sem þjóðfélagið biði af því að fólk, sem væri fært um að inna störf sín af hendi þrátt fyrir fötlun eða sjúkdóma,  væri sett á ótímabæra örorku. Jón fjallaði einnig um þá vanlíðan og vantraust sem fylgdi Parkinsonsjúkdóminum og áhugaleysi þeirra sem hafa “fjármálavaldið” til þess að breyta þessu ástandi. Hann greindi frá því að hagur Parkinsonsamtakanna hefði nú stórbatnað eftir að Parkinsonsjúklingar með langa reynslu af fjármálastjórn hefðu tekið að sýsla um fjármál samtakanna. Að lokum hvatti Jón aðildarfélögin til þess að taka höndum saman og krefjast ábyrgðar af stjórnmálamönnum og þeim sem hefðu yfirráð yfir fjármagni og hjólum atvinnulífsins.

Formaður þakkaði þessi lokaorð og sleit fundi kl. 19:48.

Reykjavík, 3. janúar 2005,

Arnþór Helgason (sign)