Skip to main content
Frétt

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ (16.03.2005)

By 5. janúar 2006No Comments

Fundargerð

Miðvikudaginn 16. mars 2005 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Hófst fundurinn kl. 17:10. Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Emil Thóroddsen. Fundargerð ritaði Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri bandalagsins.

Þessir sátu fundinn:

Friðrik Alexandersson – Styrktarfélagi vangefinna
Elísabet Á. Möller – Geðverndarfélaginu
Arnþór Helgason – ÖBÍ
Gísli Helgason – Blindrafélaginu
Bára Snæfeld – ÖBÍ
Jónína Björg Guðmundsdóttir – LAUF
Valgerður Auðunsdóttir – SPOEX
Vilmundur Gíslason – SLF
Jón Sigurðsson – PSÍ
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélaginu
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Bryndís Snæbjörnsdóttir – FSFH
Haukur Vilhjálmsson – Félagi heyrnarlausra
Málfríður Gunnarsdóttir – Heyrnarhjálp
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra
Garðar Sverrisson – Daufblindrafélaginu
Guðmundur S. Johnsen – Félagi lesblindra
Kristján Freyr Helgason – Stómasamtökunum
Ragnar Gunnar Þórhallsson – Sjálfsbjörg lsf.
Gísli Ásmundsson – Tourette
Birgir Þ. Kjartansson – SÍBS
Guðmundur Magnússon – SEM
Helgi Seljan – MG félaginu
Steinunn Þ. Árnadóttir – MS félaginu
Garðar Sverrisson – MND félaginu
Sveinn Rúnar Hauksson – Geðhjálp
Emil Thóroddsen – Gigtarfélaginu
Guðríður Ólafsdóttir – ÖBÍ
Sigríður Hallgrímsdóttir og Jóhanna Símonardóttir frá Sjá, en þær voru gestir fundarins.
Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi Einhverfra, boðaði forföll.

Yfirlit formanns.

Formaður gerði í upphafi máls síns grein fyrir því að hann hefði tekið við formennsku af Garðari Sverrissyni 20. janúar síðastliðinn, en þá tilkynnti Garðar afsögn sína á fundi framkvæmdastjórnar. Kvað hann þessa ákvörðun hafa komið nokkuð á óvart. Sagði hann að Öryrkjabandalagið mæti störf Garðars mikils og yrði hann bandalaginu til ráðuneytis um ýmis mál fyrst um sinn. Að lokum greindi hann frá því að ákveðið hefði verið að halda Garðari kveðjuhóf og yrði tilkynnt um það síðar.

Formaður sagði að vitanlega yrðu einhverjar breytingar með nýjum mönnum en engin stefnubreyting yrði í starfi Öryrkjabandalagsins. Stjórn og framkvæmdastjórn hefðu staðið þétt saman að flestum málum og vonaði hann að svo yrði áfram. Hann kvaðst auk hefðbundinna verkefna sérstaklega vilja skoða innra starf bandalagsins og þá þjónustu sem bandalagið veitti. Hann sagði að Garðar héldi réttindum sínum út októbermánuð og rétt væri að nota tíman til haustsins í að hyggja að því hvort ráða þyrfti nýjan starfsmann og þá hvers konar starfsmann bandalagið þyrfti. Þá greindi formaður frá því að ákveðið hefði verið að heimsækja öll aðildarfélögin og vildi hann nota þessar heimsóknir til þessað kanna væntingar félaganna til Öryrkjabandalagsins.

Formaður vék síðan að væntanlegri málshöfðun vegna vanefnda á samningnum við ríkisstjórnina frá 2003. Ragnar Aðalsteinsson hefur fengið öll málsgögn og fer nú yfir þau. Formaður sagðist treysta honum fyllilega og vilja gefa honum þann tíma sem hann þyrfti. Vissar vonir hefðu verið bundnar við að samkomulagið yrði fullnustað eftir að Framsóknarflokkurinn fékk forsætisráðherraembættið en svo hefði ekki orðið. Málið hafi því sinn gang í samræmi við fyrri samþykktir.

Mikið álag hefur verið á skrifstofu Öryrkjabandalagsins vegna endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur fjölda lífeyrisþega. Haldnir hafa verið tveir samráðsfundir með TR. Á fundi 15. febrúar sl. lögðu þær Bára Snæfeld og Guðríður Ólafsdóttir fram ítarlegar upplýsingar um það sem misfarist hefur hjá TR. Til fundarins komu 5 eða 6 manns frá TR og taldi formaðurinn að fundurinn hefði með sínum hætti verið mjög góður enda hefði bandalagið lagt fram málin á mjög skýran og eindreginn hátt.

Hinn 8. mars síðastliðinn var stofnuð Kvennahreyfing Öryrkjabandalagsins. Til stofnfundarins mætti fjölmennur hópur kvenna auk örfárra karlmanna sem hafði verið boðið á fundinn. Bar formaður mikið lof á Guðríði, Báru og undirbúnings hópinn fyrir vel unnið starf. Kvaðst hann ekki mundu fara nánar í störf hreyfingarinnar enda myndi hún sanna sig sjálf. Sagði hann að fundurinn hefði verið til mikils sóma og óskaði hreyfingunni velfarnaðar í starfi.

Að undanförnu hefur framkvæmdastjórn unnið að því að hrinda af stað nefndastarfi á vegum bandalagsins. Lagði formaður áherslu á að nefndirnar yrðu með tengsl inn á skrifstofu bandalagsins og gætu nýtt sér starfsmenn þess. Skipað hefur verið í ferlinefnd, en þar eiga sæti Guðmundur Magnússon sem er formaður nefndarinnar, Haukur Vilhjálmsson frá Félagi heyrnarlausra, Jón Daði Jónsson frá Sjálfsbjörg og Lilja Sveinsdóttir, fulltrúi Blindrafélagsins. Starfsmaður nefndarinnar er Guðríður Ólafsdóttir. Hefur nefndin þegar hafið störf.

Þá hefur laganefnd tekið til starfa. Formaður nefndarinnar er Helgi Seljan. Auk hans eru í nefndinni Gísli Helgason, Guðríður Ólafsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Gerir nefndin væntanlega grein fyrir tillögum sínum á næsta fundi aðalstjórnar.
Þá er í undirbúningi að skipa kjaramálaráð en borist hafa tilnefningar frá nokkrum aðildarfélögum. Taldi formaður að e.t.v. þyrfti að kjósa á milli manna. Kjaramálaráðið verður skipað á næsta fundi aðalstjórnar.

Formaður vék því næst að útgáfumálum. Gerður hefur verið samningur við Birnu Þórðardóttur um að hún sjái um að afla efnis í tímarit Öryrkjabandalagsins í samráði við ritstjóra og ritnefnd. Taldi hann að þetta myndi létta nokkru álagi af skrifstofunni.
Þá gat hann þess að ákveðið hefði verið að gefa út kynningarrit um Öryrkjabandalagið í samræmi við þau loforð sem gefin voru þegar ekkert varð úr samvinnu Öryrkjabandalagsins við Félagsmálaráðuneytið um kynningarrit á Evrópuári fatlaðra. Stefnt er að því að ritið komi út í september og hefur verið tekið tilboði Morgunblaðsins um dreifingu á 60.000 eintökum. Kvaðst formaður hafa þann metnað að ritið yrði gott og gerði góð skil þeirri starfsemi sem færi fram innan félaganna og á vinnustöðunum. Sagði hann að ritinu væri ætlað að “lifa” í 2 – 3 ár.

Að lokum vék formaður að því að ekki yrðu breytingar á stöðu hans sem framkvæmdastjóra Gigtarfélagsins fram á haust og myndi hann hugsa þau mál ítarlega áður en hann tæki ákvarðanir um áframhaldið. Sagðist hann þurfa á samstarfsmönnum að halda innan stjórnar og á skrifstofu til þess að geta rækt formannsstarfið.

Umræður um yfirlit formanns.

Gísli Helgason kvaddi sér hljóðs og bað um upplýsingar um norræna fundi sem hefðu nýlega verið haldnir, þar á meðal fund í norræna pólitíska ráðinu sem Garðar Sverrisson sat.

Formaður sagði að um tvo fundi hefði verið að ræða, annars vegar fund í norræna pólitíska ráðinu og hins vegar fund í Norðurlandaráði öryrkjabandalaganna sem hann sótti ásamt Arnþóri. Gerðu þeir síðan grein fyrir þeim fundi. Eftirfarandi kom fram í máli þeirra:

Róttækar breytingar eiga sér nú stað á skipan sveitarstjórnarmála í Danmörku. Ömtin verða lögð niður og málefni fatlaðra falin einstökum sveitarfélögum eða klasa sveitarfélaga. Töldu dönsku fulltrúarnir að sveitarfélögin væru heldur fámenn til þess að takast á við þennan málaflokk og þau mættu vart vera fámennari en 50.000 manns. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra ber stjórnvöldum að sjá svo um að ákveðnar þekkingarmiðstöðvar verði starfandi á vissum sviðum. Allar þessar breytingar valda því að stokka verður upp starfsemi danska öryrkjabandalagsins og virtist sem enn væri ósamið um ýmis mál á milli bandalagsins og stjórnvalda.
Þá kom framkvæmdastjóri norrænu skrifstofunnar um málefni fatlaðra á fundinn og óskaði eftir nánara samstarfi um málefni neytenda við norrænu öryrkjabandalögin. Verður fundur haldinn hér á landi 26. og 27. okt. nk. þar sem þetta samstarf verður mótað.

Garðar Sverrisson gerði síðan grein fyrir fundinum í norræna, pólitíska ráðinu. Þar vakti einkum athygli hans sá vandi sem steðjar að Svíum vegna trúnaðarmanna fatlaðra sem eru skipaðir af sveitarfélögunum og eiga að hafa eftirlit með starfi sveitarfélaganna.

Ragnar Gunnar Þórhallsson fagnaði því sem kom fram í yfirliti formanns og sneri að innra starfi Öryrkjabandalagsins. Varpaði hann fram þeirri spurningu hvort hægt væri að “kortleggja” hvaða starfsemi einstök félög sinntu til þess að fá á einum stað yfirlit yfir starf félaga sem sinna málefnum fatlaðra og hvar félögin eru á vegi stödd.

Formaður þakkaði þessa ábendingu. Hann kvað væntanlegar heimsóknir og kynningarritið geta orðið eins konar vísi að slíku starfi og ytri kortlagningu sem gæti gagnast ýmsum sem vinna að stefnumótun.

Bára Snæfeld kvað væntanlega heimasíðu byggða að hluta til upp með þetta að leiðarljósi. Vakti hún athygli á tveimur vefjum, www.hlutverk.is sem er heimasíða Sambands um vinnu og verkþjálfun og www.fotlunarfraedi.hi.is sem er vefsetur náms og rannsókna í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Á þessum tveimur síðum er mikið tenglasafn sem vísað verður á af heimasíðu Öryrkjabandalags Íslands. Einnig drap Bára á væntanlegt hugtakasafn sem ætlunin er að byggja upp þannig að fólk geti leitað eftir ákveðnum atriðum með leitarorðum. Hvatti hún aðildarfélögin til þess að láta í té nauðsynlegar upplýsingar til þess að öll þessi virkni gæti orðið að veruleika.

Steinunn Þóra Árnadóttir, fulltrúi MS félags Íslands, kvaddi sér hljóðs og vakti athygli á stefnuskrá Kvennahreyfingar Öryrkjabandalags Íslands sem hún var með handa fundarmönnum.

Fjárhagsáætlun.

Gjaldkeri Öryrkjabandalagsins, Elísabet Á. Möller, lagði því næst fram fjárhagsáætlun bandalagsins. Hljóðar hún upp á 210 millj. kr sem eru væntanlegar tekjur frá Íslenskri getspá. Framlag til Hússjóðs verður óbreytt frá fyrra ári, 110 millj. kr., styrkir til aðildarfélaga verða 38 millj. kr. og tekjuafgangur er áætlaður kr. 500.000.

Formaður reifaði síðan áætlunina og skýrði einstaka liði hennar. Var áætlunin að því búnu samþykkt samhljóða.

Kynning á nýrri heimasíðu Öryrkjabandalags Íslands.

Starfsmenn Sjár, ehf., þær Jóhanna Símonardóttir og Sigríður Hallgrímsdóttir, kynntu síðan fyrir fundarmönnum skjáflæði væntanlegrar heimasíðu Öryrkjabandalagsins, en Sjá ehf. Hefur unnið að þarfagreiningu vegna heimasíðunnar og undirbúningi útboðsgagna. Að kynningu lokinni svöruðu þær spurningum fundarmanna.

Formaður bað því næst Báru Snæfeld að fjalla dálítið um áframhaldið. Henni hefur verið falin umsjón með efnisöflun og uppsetningu heimasíðunnar. Rakti hún ferlið í stuttu máli og minnti m.a. á fund sem boðaður hefur verið með tengiliðum aðildarfélaganna þann 30. mars. Að þeim fundi loknum verður endanlega gengið frá útboðslýsingu sem framkvæmdastjórn staðfestir.

Önnur mál.

Guðmundur Magnússon, fulltrúi SEM,  vakti athygli á að nú væri verið að endurskoða íslensku stjórnarskrána. Taldi hann nauðsynlegt að Öryrkjabandalagið beitti sér fyrir því að hnykkt yrði á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Lagði hann fram eftirfarandi tillögu:

Öryrkjabandalag Íslands leyfir sér hér með að óska eftir við nefnd um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að hert verði á mann¬réttindakafla stjórnarskrárinnar til samræmis við það sem best gerist í heiminum með mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Evrópa að leiðarljósi. Bandaríki Norður-Ameríku settu bann við mismunun í lög árið 1990 (Americans with Disability Act) og fleiri ríki hafa fetað í fótspor þeirra. Einnig má minna á yngstu, norrænu stjórnarskrána, þá finnsku, sem er í samræmi við drög að Stjórnarskrá Evrópusambandsins.

Formaður fagnaði tillögunni og kvað auðsætt að vísa henni til framkvæmdastjórnar, enda hefðu menn samþykkt hana með lófataki.

Jón Sigurðsson, fulltrúi Parkinssonsamtakanna, kvaddi sér næstur hljóðs og spurði um afnot aðildarfélaga Öryrkjabandalags Íslands að fundasalnum sem fundir aðalstjórnar eru haldnir í. Framkvæmdastjóri svaraði því til að Hús¬sjóður Öryrkjabandalagsins ætti þessi húsakynni. Hann kvað hafa verið rætt á meðal starfsmanna ÖBÍ að nýta þyrfti betur salinn og sagðist mundu taka málið upp við framkvæmdastjóra hússjóðsins.

Valgerður Ósk Auðunsdóttir, fulltrúi SPOEX, greindi frá endurbótum sem verða gerðar á skrifstofu samtakanna. Bauð hún fram húsgögn sem ekki verða not fyrir hjá félaginu.

María Th. Jónsdóttir, fulltrúi FAAS, greindi frá 20 ára afmæli samtakanna sem haldið verður hátíðlegt í safnaðarheimili Háteigskirkju 16. apríl nk.

Haukur Vilhjálmsson, Félagi heyrnarlausra, vakti athygli á nýju frumvarpi menntamálaráðherra um ríkisútvarpið þar sem gert er ráð fyrir að nefskattur verði tekinn upp í stað afnotagjalds. Heyrnarlausir hafa einungis greitt hálft afnotagjald þar sem þeir nýta sér ekki útsendingar útvarps. Spurðist hann fyrir um þetta mál og hvort Öryrkjabandalagið hefði skoðað það.

Formaður svaraði því til að málið væri svo nýtt að það hefði ekki komið til umfjöllunar. Sagðist hann hins vegar hafa séð að gert væri ráð fyrir afslætti til handa tekjulitlum hópum og því væri rökrétt að ætla að heyrnarlausum yrði tryggður sérstakur afsláttur. Kvað hann málið verða athugað.

Þar sem ekki kvöddu sér fleiri hljóðs sleit formaður fundi kl. 18:45.

Reykjavík, 21. mars 2005,

Arnþór Helgason (sign)