Skip to main content
Frétt

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ (23.03.2004)

By 5. janúar 2006No Comments

Fundargerð

Þriðjudaginn 23. mars 2004 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar í salnum á 9. hæð Hátúns 10. Fundurinn hófst kl. 17:15 og stóð til kl. 18:55. Fundi stýrði Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Fundargerð reit Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri bandalagsins.
Í upphafi fundar greindi formaður frá því að pantaður hefði verið búnaður fyrir heyrnarskerta og yrði hann væntanlega tekinn í notkun á næsta fundi aðalstjórnar.

Þessir sátu fundinn:

Garðar Sverrisson – DBFÍ
Arnþór Helgason – framkvæmdastjóri ÖBÍ
Emil Thóroddsen –
Arnór Pétursson – Sjálfsbjörg
Helgi Seljan – MG-félaginu
Þorvaldur Þorvaldsson – Parkinsonsamtökunum
Steinunn Árnadóttir – MS-félaginu
Snævar Ívarsson – Félagi lesblindra
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra
Þóra Þórarinsdóttir – Styrktarfélagi vangefinna
Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi einhverfra
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Árni Sverrisson – Heyrnarhjálp
Bára Snæfeld – ÖBÍ
Júlía Hreinsdóttir – Félagi heyrnarlausra
Hjörtur H. Jónsson – Foreldra og styrktarfélagi heyrnardaufra
Garðar Sverrisson – MND– félaginu
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélaginu
Jón S. Guðnason – LAUF
Guðríður Ólafsdóttir – ÖBÍ
Gísli Helgason – Blindrafélaginu
Elísabet Á. Möller – Geðverndarfélaginu
Valgerður Auðunsdóttir – SPOEX
Haukur Vilhjálmsson – Félagi heyrnarlausra
Sveinn R.Hauksson – Geðhjálp.

1.Yfirlit formanns

1.1 Umræðan um örorkubyrði

Eitt einkennilegasta málið sem kom upp í tengslum við gerð kjarasamninga var umfjöllun um fjölgun öryrkja og þá byrði sem lífeyrissjóðirnir hefðu af öryrkjum. Haft var samband við forystumenn launþegahreyfingarinnar og vakin athygli á því að fjölgun öryrkja stafaði fyrst og fremst af auknu atvinnuleysi og vandi lífeyrissjóðanna af breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Vakin var athygli á því að um helmingur allra öryrkja fær ekkert úr lífeyrissjóði. Sagði formaður að úrslit samninganna um aukið framlag launþega og atvinnuveitenda í lífeyrissjóði myndi skila þeim árangri að kerfið stæðist.

1.2 Stofnun kvennahóps innan Öryrkjabandalags Íslands

Hinn 19. febrúar síðastliðinn var boðað til fundar með fötluðum konum. Lengi hafði staðið til að hleypa af stokkunum kvennahópi innan bandalagsins. Það var fyrir frumkvæði Guðríðar Ólafsdóttur að tekið var af skarið. Boð var sent út til aðildarfélaganna og þau beðin að senda fulltrúa á fund til þess að ræða um stöðu fatlaðra kvenna. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að hlutskipti fatlaðra kvenna sé að mörgu leyti erfiðara en fatlaðra karla. Það er eins og hvort tveggja, kynferði og fötlun leggist þarna á eitt.
Formaður taldi brýnt að aðildarfélögin sinntu málefnum kvenna sérstaklega. Fundarboðið virtist ekki hafa skilað sér nægilega vel því að einungis komu 17 konur til fundarins. Formaður gat þess að í tveimur málum sem Öryrkjabandalagið hefur fjallað um bitni óréttlætið einna helst á konum. Nefndi hann m.a. skerðingu örorkubóta vegna tekna maka, en 98% þeirra sem fengu skertar bætur, voru konur. Þá eru konur í miklum meirihluta einstæðra, fatlaðra foreldra sem voru taldir hafa haga af því að búa með börnum sínum og fengu því skertar bætur. Á fundinum var myndaður vinnuhópur þriggja kvenna til þess að undirbúa frekara starf kvennahreyfingarinnar. Næsti fundur verður haldinn 30. mars. Hvatti formaður fulltrúa í aðalstjórn til þess að hafa samband við aðildarfélögin og tryggja að þau tilnefndu fulltrúa á fundinn hefði það ekki þegar verið gert.

1.3 Starf djákna

Formaður vék því næst að því að um nokkurt skeið hefði verið rætt um að auka starfshlutfall guðrúnar Kristínar Þórsdóttur, djákna. Rætt hefur verið við þjóðkirkjuna um aukið fé til þess. Einhverjar hugmyndir sagði hann að væru um að Rauðikrossinn kæmi inn í þetta. Vonast væri til að hægt yrði að auka starfshlutfallið í 40% a.m.k. frá og með 1. september og helst upp í hálft starf. Fjallaði hann síðan um neyð þeirra einstaklinga sem hringja iðulega til Öryrkjabandalagsins og oft þyrftu þeir á leiðsögn að halda til þess að sætta sig við orðinn hlut og vinna tilfinningalega úr málum sínum. Þá vék hann að sjálfboðaliða¬starfi nunna úr reglu móður Theresu sem hafa myndað tengsl við fólk í í Hátúnshúsunum. Bjóða þær til veislu á hátíðum og sinna ýmsu líknarstarfi í þágu íbúanna.

1.4. Nefnd Evrópusamtaka fatlaðra um vanda langveikra

Evrópusamtök fatlaðra hafa ákveðið að hefja vinnu um vandamál langveikra og þeirra sem eru öryrkjar af völdum langvinnra sjúkdóma og hefur verið sett á stofn nefnd nokkurra sérfræðinga á þessu sviði. Eins og fólki er kunnugt eru ýmsir, langvinnir sjúkdómar algengasta orsök fötlunar. Í tilefni af væntanlegri stækkun samtakanna vegna inngöngu Austur-Evrópulandanna í Evrópusambandið voru öll aðildarfélögin beðin að tilnefna fólk í nefndina. Á fundi Evrópudeildar Rehabilitation International síðastliðið haust var ákveðið að tilnefna tvo fulltrúa og var Emil Thóroddsen annar þeirra. Þegar til kastanna kom var hann valinn fulltrúi í nefndina. Taldi formaður þetta afar mikilvægt og myndi skila sér hingað í ríkum mæli.

1.5. Ráðstefna félagsmálaráðuneytisins um hin góðu dæmi

Á fundi aðalstjórnar, 10. desember síðastliðinn, var rætt um að í ljósi vanefnda á samningi Öryrkjabandalagsins og ríkisstjórnarinnar frá 25. mars 2003, yrði slitið öllu samstarfi um Evrópuár fatlaðra og var það áréttað með sérstakri bókun framkvæmdastjórnar á fundi 16. sama mánaðar. Því var þó lýst að áfram yrði haldið að vinna að ýmsum, góðum málum. Það á m.a. við um ráðstefnuna sem nú á að halda 26. þessa mánaðar og önnur mál sem ekki tengjast Evrópuárinu. Það kom fram í fjölmiðlum að bandalagið hefði boðist til að eiga samstarf um ráðstefnuna einungis ef hún yrði ekki haldin undir merkjum Evrópuársins. Þeim skilaboðum var rækilega komið á framfæri við félagsmálaráðuneytið. Því boði var aldrei svarað. Nú hefur verið boðað til ráðstefnunnar og er forsætisráðherra fenginn til að setja ráðstefnuna. Ýmsir mætir einstaklingar hafa verið fengnir til að halda fyrirlestra. Nú er vitað að þeir þekktu ekki aðdraganda málsins. Bandalagið hefur sent út til aðildarfélaganna og annarra ítrekun og kynningu á því sem við höfum sagt um þetta. Í bréfinu er fagfólk hvatt til að nýta tíma sinn til annars en að sitja ráðstefnuna. Það er ljóst að ekki öllum skemmt sem taka þátt í ráðstefnunni. Gleðilegt er að aðildarfélögin hafa ekki látið ginna sig til þátttöku. Engir áberandi forystumenn í málefnum fatlaðra taka þarna til máls. Einungis sérfræðingar og ófatlaðir einstaklingar koma þar fram. Þannig verður þessi svo kallaði lokaviðburður Evrópuársins eigin hátíð stjórnvalda sem við leiðum hjá okkur. Félagsmálaráðherra vissi um hug bandalagsins. Félagsmálaráðherra, sem er e.t.v. þingmaður vegna samningsins við bandalagið, hefur kosið aðrar leiðir en að eiga samstarf við Öryrkjabandalag Íslands. Fyrir hönd framkvæmdastjórnar þakkaði formaðurinn fyrir samstöðuna og hvatti menn til að láta ráðstefnuna sem vind um eyrun þjóta.

1.6 Samningur Öryrkjabandalagsins og stjórnvalda frá 25. mars 2003

Þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnarinnar sagði formaður að milljarður hefði verið settur inn í samkomulagið. Endurhæfingarlífeyrisþegar eru komnir inn, en ekki var sérstaklega samið um það. Þá má að auki nefna slysaörorkuþega. Ljóst er því að samkomulagið kostar nú þegar meira en þann milljarð sem sjálfstæðisflokkurinn gat sætt sig við. Inni í lögunum um aldurstengda örorkuuppbót eru ákvæði um endurskoðun sem á að fara fram í sumar. Formaður sagðist hafa rætt við tryggingaráðherra nokkrum sinnum í síma og á tveimur fundum að undanförnu. Ráðherra er enn áfram um að þriðjungurinn sem upp á vantar komi til framkvæmda um áramótin. Komið hefur fram að formenn stjórnarflokkanna voru til skiptis í útlöndum og fylgdust ekki vel með málum og samstarfsflokkur Framsóknarflokksins hafði heimilað samning sem ekki mætti kosta meira en einn milljarð; að öðru leyti skipti þá ekki miklu um hvað yrði samið. Formaður kvaðst hafa rætt þessi mál talsvert við Ragnar Aðalsteinsson. Hann telur að samningurinn hafi lagagildi eins og allir samningar og ekki þurfi að óttast neinar fyrningar því að Öryrkjabandalagið hafi þegar vakið athygli á vanefndunum. Metur formaður stöðuna svo að ekki borgi sig að hafast neitt að fyrr en séð verður hvað verði endurskoðað og fjárlög hafa séð dagsins ljós. Þá megi láta til skarar skríða ef þörf krefur.

1.7 Fundir framundan

Formaður greindi frá því að framkvæmdastjórn hefði ákveðið dagsetningar nokkurra funda sem eru framundan. Vorfundur stjórnar verður haldinn 5. maí kl. 17:00, hauststjórnarfundur aðalstjórnar 28. sept. Kl. 17:00 og verða báðir fundirnir í Hátúni 10, 9. hæð. Aðalfundur verður á Grandhóteli í Reykjavík þriðjudaginn 12. okt. og hefst kl. 16:15 og jólafundur aðalstjórnar á sama stað fimmtudaginn 9. desember kl. 17:30.

1.8 Umræður um yfirlit formanns.

Helgi Seljan sagðist afar sáttur við þá ákvörðun framkvæmdastjórnar að láta á það reyna hvort endurskoðunarákvæðið skilaði einhverjum árangri; öllu máli skipti að kanna hvort vilji væri fyrir hendi til að efna þann þriðjung samkomulagsins sem eftir stæði. Helgi taldi lífeyrissjóðunum hafa verið lítill greiði gerður með þessari umræðu um að aflétta hinni svokölluðu örorkubyrði. Það hefur verið sótt mjög að hinu lögverndaða lífeyrissjóðakerfi í landinu. Menn hafa viljað gefa þetta allt frjálst og markaðurinn sæi um þetta allt saman. Helgi að lífeyrissjóðirnir hefðu varið sig með samtryggingunni sem væri fólgin í örorkulífeyrinum. Hann kvaðst hræddur um að hættu þeir þessari samtryggingu væri lögverndun þeirra og lögvernduð framlög til þeirra farin út í buskann. Hann kvaðst því ekki skilja hvernig menn voguðu sér að koma með þetta inn í umræðuna.
Vegna umræðunnar um atvinnuleysið sagði Helgi að hagfræðikenning markaðarins væri sú að hóflegt atvinnuleysi væri best og þá hlytu menn að spyrja hvað væri hóflegt atvinnuleysi. Hann gagnrýndi að svo virtist sem verkalýðshreyfingin hefði tekið þessar kenningar upp á sína arma. Þá taldi hann ámælisvert að hreyfingin skyldi ekki hafa reynt að bæta kjör félaga sinna, aldraðra og öryrkja í síðustu samningum; ekki væri stakt orð um það í samningunum og það ætti eftir að koma hreyfingunni í koll.

Formaður tók undir orð Helga.

Arnór Pétursson taldi verkalýðshreyfinguna hafa farið illa að ráði sínu í síðustu samningum og spurði til hvers fulltrúar öryrkjabandalagsins hefðu verið dregnir inn í mikla vinnu og samráð sem hefði endað með ráðstefnunni Velferð fyrir alla. Taldi hann að fundurinn eða framkvæmdastjórn bandalagsins ætti að senda verkalýðsforystunni harðorða ályktun um samningana og umfjöllun um málefni fatlaðra vegna þeirra. Arnór ítrekaði þá skoðun sína að kirkjan ætti að sjá um hið kirkjulega starf. Hann taldi nauðsynlegt að efla félagsþjónustuna á svæðinu og þyrfti að ráða sérstakan starfsmann ætti það að vera sálfræðingur. Hann tók það sérstaklega fram að hann vildi ekki kasta rýrð á starf djákna sem væri afar vel látið af. Hann lýsti sig sammála þeirri ákvörðun að bíða aðgerða þar til séð verður hvað fjárlögin hafa fram að færa. Hins vegar kvað hann brýnt að farið yrði með fyrningarákvæði síðasta dóms fyrir mannréttinda¬dómstólinn á hausti komanda.
Formaður sagðist hafa gert verkalýðsforystunni rækilega grein fyrir afstöðu bandalagsins.
Ragnar Aðalsteinsson er að kanna fyrningamálið sem er lögformlega mál Ingibjargar Gunnarsdóttur. Dómsmálin eru vel þekkt á meðal evrópskra lögfræðinga. Ragnar hefur unnið að því að þýða báða dómana og er talsvert fjallað um dómsmál Öryrkjabandalagsins á þingum evrópskra sérfræðinga í mannréttindalögum. Málið er hægt að þingfesta innan skamms ef vilji er fyrir hendi.

Steinunn Þóra Árnadóttir spurðist fyrir um það hvort nokkuð hefði verið rætt um stofnun ungmennahóps þar sem fólk úr aðildarfélögum gæti komið saman. Arnþór, Arnór og Gísli rifjuðu upp stofnun samtakanna “fötluð ungmenni á Íslandi (Fúi)” sem störfuðu í lok 9. áratugarins. Formaður tók einnig þátt í umræðunni og varpaði fram þeirri spurningu hvort stofnun ungliðahreyfingar gæti ekki jafnframt orðið til þess að efla átakshóp öryrkja.

2. Starfshópur um aðgengi að þjóðfélaginu 

Emil Thóroddsen tók því næst til máls:
Starfshópurinn um aðgengi var með góðar áætlanir um starf nefndarinnar í desember. Hópurinn ætlaði að hefja starf á nýju ári með sameiginlegu námskeiði þar sem menn myndu skipta sér á hinar ýmsu reglur og fara dýpra í þær. Áður hafði allur hópurinn farið yfir allar reglurnar. Á þessu námskeiði átti að útbúa viðmið til að starfa eftir. Þetta námskeið hefur ekki verið haldið. Vinnan er á sama byrjunarreit og í janúar. Það varð ákveðinn vingulsháttur í starfinu. Greinilega voru einhverjir ekki ánægðir með starfshópinn eða vinnubrögð hans og höfðu hrært í starfsmönnum félagsmálaráðuneytisins. Þeir létu glepjast í stað þess að láta vinnuna halda áfram. Þetta er skipaður starfshópur með stjórn ákveðins verkefnis sem er skýrt afmarkað og á að fá frið til að ljúka sínu starfi.
Sjálfsagt má gagnrýna vinnu okkar þegar við höfum skilað henni. Ástæðulaust er að gagnrýna vinnu hópsins fyrr en þá. Nú höfum við skipt okkur niður á reglurnar. Gefinn hefur verið tími til vors til þess að vinna þessa vinnu. Sumir vilja kalla til ákveðna hópa og funda með þeim. Aðrir munu leita uppi ráðgjafa til þess að klára dæmið. Reglurnar eru mismunandi og hægt að taka þær ákveðnum ernistökum. Þegar upp er staðið eru þessar 22 reglur öllum fötluðum mikilvægar. Vinnan verður dýpkuð fyrir sumarið. Sumar reglur afgreiðir starfshópurinn sjálfur og skila síðan heildarniðurstöðu á hausti komanda.
Í þessu þófi eftir áramótin, sagði Emil, datt mér í hug að öll félög Öryrkjabandalags Íslands ættu að panta sér tíma í félagsmálaráðuneytinu og lýsa hvert um sig skoðun sinni á sínum hagsmunum. Þá myndu ráðuneytismenn brátt sjá að slík vinnubrögð ganga ekki.

Formaður skýrði frekar síðustu orð Emils: Öryrkjabandalagið hafði gert þá kröfu að bandalagið fengi a.m.k. þrjá fulltrúa í hópnum og Þroskahjálp gæti þá fengið einn fulltrúa þar sem Þroskahjálp væru fyrst og fremst samtök utan um eina fötlun. Á þetta sjónarmið var fallist. Þroskahjálp reyndi að hafa ákveðin áhrif á þetta starf með heimsóknum til ráðherra. Okkar fulltrúar gátu tekið á þessu og gerðu það af slíkri festu og krafti að þetta var í eitt skipti fyrir öll kveðið í kútinn.

3. ráðstefna Öryrkjabandalagsins um aðgengi að upplýsingasamfélaginu

Arnþór Helgason tók því næst til máls. Þriðjudaginn 12. febrúar síðastliðinn efndi Öryrkjabandalag Íslands til ráðstefnu um aðgengi að upplýsingasamfélaginu. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að rástefnan fjallaði um hugtakið aðgengi í sinni víðustu merkingu en horfið var frá því. Á ráðstefnunni voru fluttir 14 fyrirlestrar um hin ýmsu svið upplýsingasamfélagsins. Þar má nefna m.a. inngangserindi Stefáns Jökulssonar, lektors í upplýsingafræðum við Kennaraháskóla Íslands og fyrirlestur Karinar Bendixen frá Aðgengisstofnuninni í Kaupmannahöfn, en hún fjallaði um ýmislegt sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins. Stefán fjallaði í fyrirlestri sínum um þróun í nútíma fjölmiðlun. Hann lagði áherslu á að fatlaðir ættu ekki að laga sig að fjölmiðlunum heldur þyrftu þeir að vera sýnilegir í samfélaginu, taka virkan þátt í umræðu um þróun fjölmiðlunar og sjá til þess að tæknin verði aðlöguð að þörfum sínum. Fatlaðir eiga ekki að vera þrælar tækninnar heldur á hún að þjóna þeim sem öðrum þegnum samfélagsins.
Þá flutti sigrún Þorsteinsdóttir afar athyglisvert erindi um aðgengi að heimasíðum í Bretlandi. Einnig má nefna fyrirlestur Helgu waage um talgreini, fyrirlestur sigrúnar Klöru Hannesdóttur, landsbókavarðar um aðgengi að menntun, fyrirlestra um aðgengi að bankaþjónustu, upplýsingakerfum og vinnu Microsoft við að gera tölvur sífellt aðgengilegri hinum ýmsu hópum. Þá héldu fulltrúar Örtækni afar athyglisverða kynningu á skjálesurum fyrir blinda og sjónskerta. Sérstaklega var fjallað um þarfir blindra, sjónskertra, lesblindra, heyrnarlausra og þroskaheftra á ráðstefnunni.
Þá var Morgunblaðinu veitt aðgengisviðurkenning fyrir það starf sem hefur verið fólgið í því að gera íslenskt dagblað aðgengilegt. Fjallaði Morgunblaðið um ráðstefnuna daginn eftir bæði í leiðara og ágætri grein. Ráðstefnuna sóttu um 100 manns og var ríflega helmingur ráðstefnugesta utan þess hóps sem venjulega sækir ráðstefnur um málefni fatlaðra. Í undirbúningsnefnd sátu auk undirritaðs þær bára Snæfeld og guðríður Ólafsdóttir. Einnig lagði Sigrún Jóhannsdóttir gjörva hönd að undirbúningnum.
Ráðstefna þessi vakti mikla athygli á meðal vefhönnuða hér á landi og var skrifað mjög jákvætt um hana, m.a. á heimasíðu Hugsmiðjunnar. Í umræðum kom m.a. fram að aðgengi fyrir alla að upplýsingasamfélaginu væri jafnsjálfsögð krafa og aðgengi að allri almennri þjónustu. Er nú að verða mikil vitundarvakning á meðal vefhönnuða. Nokkur fyrirtæki hafa fengið lánaðan eða keypt hugbúnað til prófunar á aðgengi.Nú hefur mestöllu efni ráðstefnunnar verið komið fyrir á heimasíðu Öryrkjabandalagsins. Þar geta menn bæði lesið fyrirlestra, skoðað glærur og hlustað á erindin.
Að öðru leyti má geta þess að Öryrkjabandalag íslands og vottunarstofan Sjá hafa tekið upp samstarf um vottun heimasíðna. Hefur vefur Reykjavíkurborgar verið vottaður og til stendur að skoða vef Strætó. Gerður hefur verið sérstakur gátlisti sem unnið er eftir. Eru þar tiltekin ýmis atriði sem hafa ber í huga við hönnun vefsíðna. Höfundur listans er Sigrún Þorsteinsdóttir. Verður hann ómetanlegur matslykill við vottun heimasíðna í framtíðinni. Þá er í bígerð að setja sérstakt merki á heimasíður sem hópurinn hefur prófað. Í vottunarhópi Öryrkjabandalagsins eru fulltrúar blindra, sjónskertra, lesblindra, heyrnarlausra og þroskaheftra.

Þóra Þórarinsdóttir og Sigríður Jóhannsdóttir lýstu ánægju sinni með ráðstefnuna. Formaður taldi mjög jákvætt að talsverðar umræður hefðu orðið um þessi mál og tekist hefði að vekja áhuga þeirra sem starfa að tölvu- og upplýsingamálum.

4. Fjárhagsáætlun Öryrkjabandalags Íslands 2004 

Formaður kynnti fjárhagsáætlun bandalagsins fyrir 2004. Áætlað er að tekjur frá Íslenskri getspá nemi 200 millj. Kr. Þar af verði veitt 151,4 millj. kr. í styrki og framlög; styrkur til Hússjóðs Öryrkjabandalagsins verði 110 millj., aðildarfélögin fari í 35 millj. kr., innlent hjálparstarf (Hjálparstofnun kirkjunnar) verði 1,2 millj. kr., erlent hjálparstarf verði sama upphæð, aðrir styrkir verði 4 millj. kr. Almennur rekstur Öryrkjabandalagsins verði nær óbreyttur frá fyrra ári eða 45,9 millj. kr. og afgangur 2,7 millj. Taldi formaður óhætt að áætla jafnlítinn afgang þar sem bandalagið nálgaðist það markmið að eiga fyrir árs rekstri og framtíð lottósins hefði verið tryggð.

Þorvaldur Þorvaldsson, Snævar Guðmundsson og Arnór Pétursson ræddu fjárhagsáætlunina. Arnór benti á að styrkir til aðildarfélaganna hækkuðu ánægjulega mikið. Formaður og framkvæmdastjóri svöruðu fyrirspurnum.
Fjárhagsáætlunin var síðan samþykkt samhljóða.

5. Önnur mál

Gísli Helgason tók fyrstur til máls og vék að orðum formanns um samskipti við stjórnvöld vegna Evrópuársins. Hann minntist á kálf sem kom út með Morgun blaðinu um síðustu helgi, en þetta blað átti áður að gefa út 3. desember. Þá drógu hins vegar öll aðildarfélög bandalagsins efni úr kálfinum. Hins vegar brá svo við að um síðustu helgi voru nokkur aðildarfélögin með í blaðinu og nefndi hann sérstak lega Blindrafélagið og Daufblindrafélagið. Hins vegar hefðu öll stærstu félögin sniðgengið blaðið. Gísla fannst þetta eins og rýtingsstunga í bak móðursam takanna. Gísli vakti jafnframt athygli á því að Öryrkjabandalagið hygðist efna til útgáfu vandaðs blaðs um aðildarfélögin.

Formaður taldi að ekki væri hægt að gera við því sem orðið væri. Hann taldi að kálfur eins og sá sem fylgdi Morgunblaðinu yrði ekki geymdur lengi en fólk ætti oft blöð Öryrkjabandalagsins árum saman.

Sigríður Jóhannsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson greindu frá því að birting efnis í blaðinu af hálfu aðildarfélaga Þjónustuseturs líknarfélaga hefðu verið hrein mistök. Lýstu þau leiða sínum yfir þessu.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs og sleit formaður fundi. Hann minnti um leið á næsta fund aðalstjórnar 5. maí nk.

Reykjavík, 25. mars 2004,

Arnþór Helgason (sign)