Skip to main content
Frétt

Fundur með sérstakri stjórn (neyðarstjórn) Strætó

By 16. febrúar 2015No Comments

Fundur á vegum Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra 18. febrúar kl.16.00-18.00 í félagsheimili Sjálfsbjargar, Hátúni 12, Reykjavík.

Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra hefur ákveðið að hin sérstaka stjórn (neyðarstjórn) sem sett var yfir Ferðaþjónustu fatlaðra þann 5. febrúar síðastliðinn gefi notendum og/eða aðstandendum þeirra kost á að koma til fundar við stjórnina næstkomandi miðvikudag 18. febrúar 2015, kl. 16.00-18.00, í félagsheimili Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Hátúni 12. Gengið inn að sunnanverðu í austurálmu Sjálfsbjargarhússins.

Mikilvægt er fyrir stjórnina að heyra í notendum og taka mið af þeirra skoðunum í vinnu stjórnarinnar sem framundan er.

Sjálfsbjörg hvetur alla notendur ferðaþjónustunnar og/eða aðstandendur þeirra til að sækja fundinn og greina frá reynslu sinni af ferðaþjónustunni. Á fundinum gefst einnig gullið tækifæri til að koma með tillögur til úrbóta á þjónustunni.


Úr erindisbréfi Sérstakrar stjórnar yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks

Fimmtudaginn 5. febrúar sl. var haldinn sameiginlegur eigendafundur eigenda og stjórnar Strætó. Samþykkt var á fundinum að skipa sérstaka stjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks undir forystu Stefáns Eiríkssonar sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar með aðild fulltrúa Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar og Þroskahjálpar auk fulltrúa frá hverju sveitarfélagi fyrir sig sem eiga aðild að ferðaþjónustunni. Jafnframt var samþykkt að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gangast fyrir óháðri úttekt á aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó.

Hlutverk neyðarstjónar:

  • Meginhlutverk stjórnarinnar er að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks eins fljótt og kostur er.
  • Stjórnin hefur fullt umboð til að gera þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar til að bæta úr í þjónustu og framkvæmd.
  • Stjórn hefur enn fremur fullt umboð til að gera tillögur um breytingar á fyrirkomulagi eða framkvæmd þjónustunnar til framtíðar.

Stjórnin geri sérstaka úttekt á alvarlegu máli Ólafar Þorbjargar Pétursdóttur.

Neyðarstjórnina skipa:

Þorkell Sigurlaugsson fulltrúi Seltjarnanessbæjar, Bryndís Haraldsdóttir fulltrúi Mosfellsbæjar, Guðlaug Kristjánsdóttir fulltrúi Hafnarfjarðar, Guðjón Erling Friðriksson fulltrúi Garðabæjar, Tryggvi Friðjónsson framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Þroskahjálpar og Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalags Íslands. Stefán Eiríksson fulltrúi Reykjavíkurborgar er formaður stjórnar og Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó bs., starfsmaður hennar.

Stjórnin skili af sér 5. mars næstkomandi.

Sjá nánar á Facebook síðu Sjálfsbjargar