Skip to main content
Frétt

Fylgdu hjartanu!

By 12. júní 2009No Comments
Viðhorfskönnun og átak gegn mismunun.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Mannréttindaskrifstofa Íslands kynntu í vikunni niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til mismununar á Íslandi. Einnig var ýtt úr vör átaki sem ætlað er að sporna við mismunun undir yfirskriftinni „Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni“ til að sporna við mismunun.

ViðhorfskönnunFylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytininni - augl.

Í könnuninni sem framkvæmd var af Capacent Gallup í apríl sl,. var mismunun greind út frá sex forsendum: kynferði, fötlun, kynhneigð, trú, aldri og kynþætti/þjóðerni. Spurningarnar voru unnar með hliðsjón af Eurobarometer könnun Evrópusambandsins Discrimination in the European Union og er könnunin því samanburðarhæf í ríkjum ESB.

Niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar sýna að staða ýmissa hópa, s.s. samkynhneigðs fólks og þeirra sem aðhyllast minnihlutatrúarbrögð er talin betri hér á landi en í ýmsum öðrum Evrópulöndum þótt enn verði ýmsir hópar fyrir fordómum vegna tiltekinna eiginleika eða skoðana.

Í tengslum við þær efnahagsþrengingar sem Ísland gengur nú í gegnum og aukið atvinnuleysi er mikilvægt að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur til að tryggja að allir eigi sömu tækifæri óháð kynferði, trú, fötlun, aldri, skoðunum, uppruna, kyngervi, kynþætti, litarhætti og kynhneigð.

Vitundarvakningu gegn mismunun

Samhliða kynningu á könnuninni var ýtt úr vör vitundarvakningarátakinu; „Fylgdu hjartanu, sameinumst í fjölbreytninni“ sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi fjölbreytni fyrir íslenskt samfélag og þá staðreynd að þótt fólk sé ólíkt á yfirborðinu þá erum við öll eins inn við beinið.

Styrktaraðilar

Könnunin og átakið eru styrkt af Progress-áætlun Evrópusambandsins, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Þróunarsjóði innflytjendamála. Að verkefninu koma einnig Alþjóðahúsið, Fjölmenningarsetrið, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Samtökin 78, Samráðsvettvangur trúarbragða og Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.

Frétt í heild og niðurstöður könnunarinnar á heimasíðu Félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Frétt í heild á heimsíðu Mannréttindaskrifstofu ásamt plakati

Viðtal við Guðrún frá Mannréttindaskrifstofunni og Ólaf Magnús frá Capacent um könnunina á heimasíðu RÚV