Skip to main content
Frétt

Gera má fjárnám hjá lífeyrisþegum vegna ofgreiddra bóta.

By 13. janúar 2010No Comments
Alþingi samþykkti ýmsar breytingar á lögum þar á meðal lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um fæðingar- og foreldraorlof á síðustu dögum þingsins, fyrir jól. Jólagjöfin til lífeyrisþega þetta árið.

Stærstu breytingarnar á lögum 100/2007 um almannatryggingar er viðbót við 55. gr. laganna um að endurkrafa ofgreiddra bóta verði aðfararhæf. Það er að segja að gera megi fjárnám vegna ofgreiddra bóta. Einnig að ef ekki er greitt á 12 mánuðum eftir endurreikning eða samið um ofgreiðslur bóta og staðið við það samkomulag, megi reikna 5,5% dráttavexti á eftirstöðvar kröfunnar.

Hljóðar 3. málsgrein 55. gr. laganna nú þannig: „Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá greiðslum til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu. Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu ofgreiddra bóta liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.“

Ný málsgrein á eftir 5. mgr. 55. gr. laganna, hljóðar þannig: „Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta samkvæmt ákvæði þessu eru aðfararhæfar, sbr. þó 7. mgr. 8. gr. “  

ÖBÍ barðist gegn því að þessi breyting yrði gerð á lögunum og í umsögn ÖBÍ þar um var meðal annars bent á að: 

„Í 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að bæta nýrri málsgrein við 9. gr. laga um almannatryggingar, sem gerir úrskurði Úrskurðarnefnd almannatrygginga (ÚRAL) um endurkröfur ofgreiðslna aðfararhæfa. Breytingin er skelfileg og leggst ÖBÍ hart gegn þessari grein enda skerðir þetta réttarvernd öryrkja gríðarlega.

Með þessu er gerð undantekning frá meginreglunni um að kröfuhafi skuli fá dóm áður en hann getur leitað aðfarar. Undantekningar frá þessari meginreglu verður að réttlæta en engin rök hafa verið færð fyrir nauðsyn þessara breytinga. ÚRAL hefur alls ekki verið það farsæl í úrskurðum sínum að það réttlæti að úrskurðir hennar geti leitt til fjárnáms og gjaldþrots einstaklinga.” 
 

Lög 120 /2009  um breytingar á almannatryggingum o.fl.

Umsögn ÖBÍ