Skip to main content
Frétt

Harpa Dís, Reykjadalur og Margrét Dagmar

By 3. desember 2010No Comments
Verðlaunahafar Hvatningarverðlauna ÖBÍ í ár.

Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2010, voru veitt við hátíðlega athöfn í Salnum, í dag (3. desember) á alþjóðlegum degi fatlaðra verðlaun hlutu að þessu sinni:

Í flokki einstaklingaHarpa Dís Harðardóttir

Harpa Dísa Harðardóttir, fyrir metnaðarfullt starf við gerð orlofshúss með góðu aðgengi fyrir fatlað fólk og áralanga baráttu fyrir réttindum þess.

Með hugsjóna- og sjálfboðavinnu hefur hún og fjölskylda hennar breytt Lambhaga, lítið nýttu húsi, Þroskahjálpar á Selfossi, í ásetið orlofhús með góðu aðgengi.

Auk þess hefur hún unnið að réttindamálum fatlaðra til fjölda ára hjá Einstökum börnum, Þroskahjálp og í félagsmálum almennt í sveitastjórn.

 

 

Starfsfólk Reykjadals í göngu vegna söfnunarátks s.l. sumar

Í flokki fyrirtækja/stofnana

Reykjadalur, fyrir ötult starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna með rekstri sumarbúða og helgardvalar að vetri.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur rekið Reykjadal frá árinu 1963 og árlega dvelja um 200 börn og ungmenni þar við sköpun, útivist, leiki og íþróttir.

Öflugt starfsfólk þeirra stóð fyrir snörpu söfnunarátaki í sumar og komu þar með í veg fyrir að loka þyrfti yfir veturinn.

Einkunnarorðin: Gleði – Árangur – Ævintýri, lýsa dvölinni í Reykjadal vel.

 

 

 

 Margrét Dagmar Ericsdóttir

Í flokki umfjöllunar/kynningar

Margrét Dagmar Ericsdóttir, fyrir myndina Sólskinsdrengurinn, sem aukið hefur skilning almennings á margbreytileika einhverfu.

Í myndinni segir Margrét frá reynslu sinni sem móðir og ræðir við aðra foreldra einhverfra barna og helstu sérfræðinga á sviði einhverfu í heiminum.

Myndin hefur mikið upplýsingagildi varðandi skilgreiningu og mismunandi einkenni einhverfu og ryður veginn fyrir aðra fatlaða einstaklinga og fjölskyldur þeirra í baráttunni við vanþekkingu og fordóma.

Sólskinsdrengurinn er aðsóknarmesta heimildarmynd íslenskrar kvikmyndasögu.

 

 

Tilnefndir til Hvatningarverðlauna ÖBÍ og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson