Skip to main content
Frétt

Hátt hlutfalla fordóma gagnvart fötluðu fólki

By 22. ágúst 2014No Comments

Kemur fram í nýrri skýrslu „Fordómar og félagsleg útskúfun“

Skýrslan var unnin af Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands fyrir velferðarráðuneytið. Um að ræða samantekt um helstu niðurstöður íslenskra rannsókna sem gerðar hafa verið á stöðu fatlaðs fólks á árabilinu 2000–2013.

Í inngangi að skýrslunni kemur fram að bæði íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir sýni að langflest fatlað fólk upplifi mikla fordóma og félagslega útskúfun í daglegu lífi og er jafnframt vísað í alþjóðaskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um fötlun frá árinu 2011 sem gefur mikilvægt yfirlit um þessa þætti á heimsvísu.

Hátt hlutfalla fordómaRannveig Traustadóttir

Í skýrslunni segir meðal annars að: „Hér á landi hafa á síðustu árum einnig verið gerðar nokkrar rannsóknir sem hafa kannað fordóma og félagslega einangrun fatlaðs fólks. Rannsóknirnar eiga það allar sammerkt að hátt hlutfall fordóma mælist í garð fatlaðs fólks og að fatlað fólk sjálft telur sig verða fyrir fordómum vegna örorku sinnar eða fötlunar.“

Þar kemur jafnframt fram að, þátttakendur í rannsókn sem vísað er til, vildu síst að fólk með geðsjúkdóma eða þroskahömlun sæti á Alþingi, starfaði við umönnun barna, afgreiddi í verslun eða starfaði með þeim að félagsmálum.

Skýrslan var gerð að beiðni ráðuneytisins í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Ábyrgðarmenn verkefnisins um gerð skýrslunnar fyrir hönd Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum eru Rannveig Traustadóttir prófessor og Kristjana Jokumsen verkefnastjóri.

Tengill á skýrsluna „Fordómar og félagsleg útskúfun“ á heimasíðu velferðarráðuneytisins.