Skip to main content
Frétt

Hátt í helmingur hinna tekjulægstu ekki með netaðgang

By 31. maí 2007No Comments
Í nýjum upplýsingum Hagstofu Íslands um upplýsingatækni kemur fram að 44 prósent heimila sem eru með lægstu tekjur hafi ekki netaðgang. Rannsóknin var gerð í byrjun árs 2007.

Athyglisvert er að sjá hve almenn tölvunotkun er, því tölva er á 87% heimila (16-74 ára) og nettenging á 84% sömu heimila. Alvarlegri verður niðurstaðan þegar dæmið er skoðað útfrá tekjum. Þá kemur í ljós að 44% þeirra sem eru tekjulægstir (tekjur á bilinu 0-200 þúsund á mánuði) hafa ekki nettengingu. Allstór hluti öryrkja fellur undir þá tekjuskilgreiningu (hámarksbætur einstaklings fyrir skatta eru kr. 152.500). Tilfinning starfsmanna ÖBÍ hefur um nokkurt skeið verið sú að tölvueign hjá stórum hluta þeirra sem leitar ráðgjafar hjá skrifstofunni styðji því miður þessar tölur.

Þegar Tryggingastofnun ríkisins sendi frá sér grænt umslag til lífeyrisþega um síðastliðin mánaðarmót, þar sem tilkynnt var um að hætt væri útsendingu mánaðarlegra greiðsluseðla og vísað á heimasíðu RSK til upplýsingar, var gerð formleg athugasemd af hálfu ÖBÍ við þessa ákvörðun og bent á takmarkaða tölvueign og -aðgengi öryrkja. Svar hefur ekki borist frá TR enn við þeirri athugasemd.


Rannsókn Hagstofu Íslands birtist í Hagtíðindi, 25. maí.2007. Sjá nánar á heimasíðu stofnunarinnar, hagstofa.is