Skip to main content
Frétt

Hvatningarverðlaun ÖBÍ veitt í fyrsta sinn

By 27. nóvember 2007No Comments
Á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember

Í ár er alþjóðadagur fatlaðra haldinn undir kjörorðinu: Atvinnu við hæfi fyrir einstaklinga með fötlun.

Þann 3. desember verða í fyrsta sinn veitt Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands til þeirra sem stuðlað hafa að einu samfélagi fyrir alla. Veitt verða þrenn verðlaun: til fyrirtækis, stofnunar og einstaklings, sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu.

Leitað var til allra 32 aðildarfélaga ÖBÍ með tilnefningar. Undirbúningsnefnd valdi sex tilnefningar í hverjum flokki sem sérstök dómnefnd tekur endanlega afstöðu til. Dómnefnd skipa Ólöf Ríkarðsdóttir fyrrverandi formaður ÖBÍ, Kristín Rós Hákonardóttir afrekskona í sundi, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ, Styrmir Gunnarsson ritstjóri og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs HR.

Þórunn Árnadóttir hannaði verðlaunin. Þórunn útskrifaðist af vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor og var í starfsnámi hjá Tomoko Azumi í London síðastliðið sumar. Hún starfar sem hönnuður í Coventry og býr jafnframt þar. Fyrir skemmstu hlaut hún tilnefningu af hönnunarblaðinu Forum AID, sem einn af 10 áhugaverðustu útskriftarnemum í hönnun/arkitektúr á Norðurlöndunum. Við hönnun verðlaunagripsins hefur Þórunn samfélagið í huga.

Verðlaunaveitingin fer fram í Þjóðminjasafni Íslands þann 3. desember milli kl. 18.00 og 20.00.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari Hvatningarverðlauna ÖBÍ og mun hann afhenda verðlaunin.