Skip to main content
Frétt

Í tilefni alþjóðadags fatlaðra 3. desember.

By 1. desember 2006No Comments
Þriðji dagur desember mánaðar ár hvert er alþjóðlegur dagur fatlaðra. Á þessum degi koma upp í hugann þeir sigrar sem fatlaðir og hreyfingar þeirra hafa unnið á undanförnum árum í réttindabaráttu sinni. Þeir eru ekki litlir.

Stærsta breytingin er viðhorfsbreyting sú sem orðin er til fólks með fötlun sem og þróun laga og tilkoma nýrra sáttmála, nú síðast Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Ekki eru margir áratugir síðan að fatlaðir voru geymdir í kjöllurum og háaloftum og almenn mannréttindi voru ekki talin ná til þeirra.

Á undanförnum árum hafa málefni fatlaðra þróast frá því að vera ölmusuleiðangur og yfir í að vera sigurganga réttinda sem byggir á hugmyndafræði jafnra tækifæra og lífsgæða. Viðhorfsbreytingin hefur orðið í raun hraðari en framfarir í aðstæðum og kjörum fatlaðra. Á því kunna að vera margar skýringar en ein er sú að snemma á tíunda áratugnum tóku stjórnmálamenn sig til og hófust handa við að prjóna tekjutengingar- og skerðingarákvæði í lög og reglugerðir með þeim afleyðingum að almannatryggingar á Íslandi urðu illskiljanlegar og í raun fjandsamlegar fötluðu og öldruðu fólki.

Það er alls ekki ástæða til að ætla að það hafi í sjálfu sér vakað fyrir stjórnvöldum að gera kerfi sem með tímanum læsti öryrkja inn í vítahring fátæktar og öryggisleysis. Tryggingakerfi getur aldrei verið ætlað til slíks. En þetta gerðist og í dag stöndum við andspænis þessum kalda veruleika. Tryggingakerfi sem ætlað var að þjóna veiku, fötluðu og öldruðu fólki gerir það illa vegna úreltra og marg stagbættra laga og reglna sem vart er hægt að gera ráð fyrir að starfsfólk stofnunarinnar skilji sjálft hvað þá aðrir. Þetta er niðurstaðan nú þegar Tryggingastofnun Ríkisins heldur senn upp á 70 ára afmæli stofnunarinnar.

Undanfarna mánuði hefur Öryrkjabandalag Íslands ásamt Landssambandi eldri borgara og Landssamtökunum Þroskahjálp staðið að hópavinnu með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna. Út úr þeirri vinnu hefur komið samhljómur um nauðsyn þess að stóreinfalda almannatryggingakerfið. Frá okkur berst nú ákall til stjórnmálaflokkanna um að taka nú þegar til óspilltra málanna með okkur og hanna nýtt fyrirkomulag.

Þingmenn eru í mestu vandræðum með að fjalla um lífeyrismálin enda fallast þeim hendur gagnvart verkefninu eins og öðrum sem að því koma. Þegar svo er komið að tryggingastærðfræðingar standa á gati og sömuleiðis lögfræðingar og hagfræðingar er ljóst að við erum komin í slíkar ógöngur með þetta að það verður að henda kerfinu og búa til annað upp á nýtt.

Hér þarf að byrja með autt blað og spyrja tiltekinna grundvallarspurninga eins og; hverjum á nýtt almannatryggingakerfi að þjóna? Hvernig verður það öllum þeim sem þurfa á því að halda skiljanlegt? Hvernig getum við skapað réttlátt kerfi sem hvetur fólk til samfélagsþátttöku en letur ekki? Hvað virkar best í löndunum í kringum okkur og hvað alls ekki? Við getum strax svarað því að lífeyrishluti okkar almannatryggingakerfis virkar alls ekki. 70% öryrkja lífa á örorkulífeyrnum einum saman og 12% til viðbótar eru með 35.000 krónur á mánuði í atvinnutekjur eða minna. Þetta er í hrópandi ósamræmi við hin norðurlöndin þar sem atvinnuþáttaka fatlaðra er miklu meiri en hér jafnvel þótt svo þau lönd eigi við atvinnuleysi að stríða en við ekki. Hið afleita tekjutenginga- og skerðinga fyrirkomulag almannatrygginga á Íslandi veldur hér miklu um.

Í orðræðu um öryrkja hefur í gegnum tíðina oft verið fjallað um fólk með fötlun á þann hátt að sjálfsagt sé og eðlilegt að fatlað fólk stundi ekki atvinnu við hæfi og búi í húsnæði sem sérstaklega er ætlað öryrkjum.

Til skamms tíma var það talið til lífsgæða fatlaðra í Evrópu að tilvera þeirra öll væri nátengd öðru fötluðu fólki og báru sambýli, fjölbýlishús, verndaðir vinnustaðir og stofnanir þessu sjónarhorni vitni. Það skapaðist þó miklu fremur af þeirri neyð sem ríkti í málaflokknum langt fram eftir síðustu öld og sem enn má finna.

Á sjöunda áratug síðustu aldar hófu hreyfingar fatlaðra í Evrópu andóf gegn þessari stefnu. Bent var á að lífsgæði fatlaðra snérist um þátttöku í samfélaginu og að fatlaðir deildu tilveru sinni með ófötluðum. Á sama tíma var verið að reisa fjölbýlishús fyrir öryrkja á Íslandi og stofnanir. Þessi staðreynd gerði það að verkum að fatlaðir og sjúkir á Íslandi einangruðust frekar á ákveðnum stöðum og í byggingum ætluðum þeim. Líf þeirra varð samofið öðru fólki með fötlun í félagsstarfi, á vernduðum vinnustöðum og á stofnunum.

Staða Öryrkjabandalagsins með umsvifamiklum rekstri Brynju – Hússjóðs hefur eflaust haft áhrif á þessa þróun á Íslandi og að hún varð með öðrum hætti en víða í Evrópu. Orðinn hlutur má hinsvegar ekki verða til þess að við sitjum með hendur í skauti. Framundan er gagnger endurskoðun á þessum málum og stefnumörkun enda á metnaður Öryrkjabandalagsins að standa til þess að vera í fararbroddi í öflugri hagsmunabaráttu sem og í allri þjónustu við fatlaða sem bandalagið veitir hverju sinni. Þótt hinir evrópsku straumar í búsetu- og lífeyrismálum fatlaðra séu lengi að berast hingað til lands þá eru þeir að koma og við munum sníða þá að okkar sýn og veruleika. Til hamingju með daginn!

Sigursteinn Másson
Formaður ÖBÍ