Skip to main content
Frétt

Kröfu ÖBÍ um ógildingu forsetakosninganna hafnað

By 9. ágúst 2012No Comments

Hæstiréttur hafnaði kröfu þriggja fatlaðra kjósenda um að kosningar til embættis forseta Íslands yrðu ógiltar. Viðurkennt er þó að galli hafi verið á atkvæðagreiðslu.

Öryrkjabandalag Íslands stóð á bak við kæru öryrkjanna. Tilefni hennar var að fólkið, sem þurfti aðstoð við að greiða atkvæði í kosningunum, fékk ekki að velja sér sjálft aðstoðarmann í kjörklefanum heldur þurfti að reiða sig á aðstoð starfsmanna kjörstjórna.

Í kærunni sagði að framkvæmdin væri andstæð þeirri meginreglu að kosningar skuli vera frjálsar, óþvingaðar og leynilegar. Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins sagði kæruna hluta af mannréttindabaráttu öryrkja.

Atkvæðagreiðsla andstæð lögum en hefur ekki áhrif á úrslit kosninga

Hæstiréttur hafnaði í dag kröfu þremenninganna um að forsetakosningarnar yrðu ógiltar, en allir dómararnir tólf tóku afstöðu til kröfunnar.

Hæstiréttur telur hins vegar að atkvæðagreiðsla tveggja fatlaðra kjósenda hafi verið andstæð lögum. Annar greiddi atkvæði með aðstoð fylgdarmanns í kjörklefa, hinn naut aðstoðar fylgdarmanns með öðrum hætti.

Í niðurstöðum Hæstiréttar er tekið fram að meginregla í íslenskum rétti sé að almennar kosningar séu aðeins lýstar ógildar ef slíkir ágallar eru á þeim að ætla megi að það hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Er fötluðum ekki treystandi til að velja sér aðstoðarmann?

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður ÖBÍ fyrir hönd þremenninganna segir niðurstöðu Hæstaréttar ekki hafa komið á óvart, á brattann hafi verið að sækja. Hins vegar komi forsendur niðurstöðunnar honum verulega á óvart. Hæstiréttur líti svo á að fötluðum sé ekki treystandi til að velja sér aðstoðarmann.

„Hæstiréttur segir að nú skipti öllu máli hvort að annmarkar á kosningaframkvæmdinni hafi áhrif á niðurstöðuna. Þetta er þveröfugt við það sem að gert var í ákvörðun um ógildi kosninga til stjórnlagaþings, þar sem að það var ekki talið skipta neinu máli. Það liggur í orðræðum í þeirri ákvörðun,“ segir Ragnar.

Texti unnin úr fréttum RÚV og mbl.is um málið 25. júlí sl.