Skip to main content
Frétt

Kynning á drögum að starfshæfnismati

By 19. mars 2010No Comments
Kynnt voru drög að starfhæfnismati á fundi aðalstjórnar ÖBÍ þann 10. mars síðastliðinn.

Kynntu þau Hallgrímur Guðmundsson stjórnsýslufræðingur í Félags- og tryggingamálaráðneytinu og Sveinbjörg Pálsdóttir ráðgjafi frá InDevelop, ásamt fulltrúa ÖBÍ Guðrúnu Hannesdóttur, félagsfræðingi drög að starfshæfnismati sem nú er unnið að í tengslum við nýtt örorkumat.

Guðrún hefur verið fulltrúi ÖBÍ í faghópi sem vann með svonefndri örorkumatsnefnd. sá faghópur hefur skilað af sér skýrslu um sína vinnu ogmikið magn fylgigagna.

Skýrsla faghópsins (pdf-skjal 1.414 kb)

Glærur Guðrúnar um drög að starfshæfnismati. (ppt-skjal 156 kb.)

Hallgrímur fór yfir þær kerfisbreytingar sem gera þarf á Íslandi, í formi aukins gegnsæis, markmiðssetninga,samhæfa þjónustukerfi og koma á samvinnu milli ráðuneyta. Niðurstaðan verði „social inclusion“ sem þýtt er sem „samlögun“ eða eitt samfélag fyrir alla. Vitnaði Hallgrímur þar meðal annars til Lissabonsáttmálans frá árinu 2000 þar sem eitt af meginmarkmiðunum var, „…að Evrópa verði samkeppnishæfasta þekkingardrifna hagkerfið, sem tryggði fleiri og betri störf og félagslega samheldni, byggðu á sjálfbærri þróun árið 2010.“ Með þessari stefnu sagði Hallgrímur að byggð yrði brú milli velferðar- og atvinnumála sem þýði meðal annars einn vinnumarkað fyrir alla. Ekki yrðu þá lengur hrein skil á milli þeirra sem teljast á vinnumarkaði og hinna sem ekki eru þar. Kynning Hallgríms á glærum (ppt-form 2.425. kb.)

Sveinbjörg kynnti drögin að starfshæfnismati sem er meðal annars grunnur undir nýtt endurhæfingarmat/örorkumat en er skilgreint mun víðar en þau möt. Í starfshæfnismatinu væri einnig horft til þess að grípa strax inn í þegar einstaklingur veikist, slasast eða heilsa stefnir í að einangra einstaklinginn frá vinnu og félagslegum samksiptum. Unnið verði strax að því að finna sem fjölbreyttust úrræði sem falla að þörfum hvers og eins. Í glærum Sveinbjargar er þessu gerð góð skil og fróðlegt að kynna sér þær. Kynning Sveinbjargar (ppt-skjal 1007 kb.)

Tvö kerfi eða eitt?

Athygli vakti að Hallgrímur talaði um að stjórnvöld myndu setja regluverkið, og hugsanlega mundi VIRK, starfendurhæfingasjóður sjá um framkvæmdina, en hafa bæri í huga að enn væri þetta á vinnslustigi svo ekkert yrði fullyrt þar um. Lítum á hlutverk VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, eins og það er skilgreint í dag.

Starfsendurhæfingasjóði er ætlað að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.
Á heimasíðu Virk segir að eftirtaldir einstaklingar eiga rétt á aðstoð þegar þeir glíma við heilsubrest:

  • Allir sem eru á vinnumarkaði og greitt hefur verið fyrir í Starfsendurhæfingarsjóð.
  • Þeir  sem fá greidda sjúkradagpeninga hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga í kjölfar veikinda eða slyss.
  • Þeir sem fá greiddar bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði vegna atvinnuleysis.
  • Þeir sem rétt eiga á greiðslu örorkulífeyris hjá lífeyrissjóðunum munu einnig eiga rétt á aðstoð frá sjóðnum um leið og gengið hefur verið frá samkomulagi við lífeyrissjóðina. 

Samkvæmt þessu er eingöngu gert ráð fyrir að þjónusta verði fyrir þá sem hafa verið á vinnumarkaði og aflað sér lífeyrisréttinda og ekki gert ráð fyri einu heildstæðu kerfi fyrir alla.

Hvað með þá sem fæðast alvarlega veikir eða slasast í æsku og hafa ekki fengið tækifæri til að fara út á vinnumarkað og verða gjaldgengir þar? Eiga þeir einstaklingar ekki að eiga neinn rétt? Verða þá tvö kerfi?

Hvað með þá sem nú eru á örorku og ekki sjá von um að komast í uppbyggilega endurhæfingu?  Verða kerfin þá jafnvel þrjú?

Hvar er þá eitt samfélag fyrir alla?