Skip to main content
Frétt

Kynt undir fordómum

By 27. desember 2010No Comments

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, skrifar þessa grein á pressan.is þann 23. desember

Að undanförnu hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum, einkum á Stöð 2, hvað öryrkjar hafi miklar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins (Tr). Þarna hafa menn farið all frjálslega með staðreyndir og freistast til að bera saman ólíka hluti. Helst hefur þetta líkst hatursherferðum þriðja ríkisins gegn gyðingum eða hvernig alið var á þjóðernisfordómum á Balkanskaga. Almennir borgarar sem ekki eru inni í málunum hafa því misskilið fréttirnar og farið að býsnast yfir „þeim sem notfæra sér velferðarkerfið og liggja uppi á vinnandi fólki“.

Það var því gleðilegt þegar Stöð 2 birti frétt 21. desember sl., sem fékk yfirskriftina „Fimmtungur öryrkja með minna en 150 þúsund á mánuði“ á vísir.is. Enn vantar þó upp á að skýringar fylgi, svo samanburður verði sanngjarn. Skoðum þetta nánar:

Í fréttinni eru lagðar fram allar tekjur sem öryrkjar „hafa til að framfleyta sér“, það er að segja (þ.e.a.s.) bætur frá Tr, laun vegna vinnu og úr lífeyrissjóðum sem menn hafa áunnið sér í vinnu o.s.frv., en ekki talið með húsaleigu-, barna- og vaxtabætur sem einnig geta bæst við hjá almennum launþega. Þegar ÖBÍ leitaði eftir því við Tr hvað væri inni í þessum tölum, fengust þær upplýsingar að með væru taldar, meðlagsgreiðslur (sem allir einstæðir foreldrar fá) auk annarra bótaflokka sem ekki eru bara tengdir örorku. Þegar þessar tölur eru skoðaðar er mikilvægt að hafa í huga hvernig bótakerfið er uppbyggt, þ.e.a.s. grunnlífeyrir, tekjutrygging, aldurtengd örorka (miðað við hvenær viðkomandi fær örorkumat), heimilisuppbót (býr einn) og sérstök uppbót til framfærslu (sem á að tryggja að enginn sé með heildarlífeyri frá Tr undir 180 þús. ef með heimilisuppbót, eða undir 153 þús. og án heimilisuppbótar). Allar launa- og lífeyristekjur skerða þessa bótaflokka eftir vissum reglum, auk annarra bótagreiðslna frá Tr eða sveitarfélagi. Öryrki sem vinnur eða fær úr sterkum lífeyrissjóði heildarlaun yfir 350 þús. kr. á mánuði fær ekki krónu af fyrrgreindum bótaflokkum frá Tr.

Í fréttinni kemur skýrt fram að rúm 60% öryrkja eru með undir 200 þús. kr. heildarlaun á mánuði, þar af tæplega 20% undir 150 þús. kr. Einnig að 40% öryrkja eru með heildartekjur yfir 200 þús. kr. sem sýnir að stór hópur öryrkja er í launaðri vinnu eða hefur góðan lífeyri úr lífeyrissjóði, sem viðkomandi hefur áunnið sér með launavinnu. Tæp 20% öryrkja eru með heildarlaun yfir 250 þús. kr. sem sýnir að fimmtungur þeirra sem eru með örorkumat eru jafn vel að skila töluvert meiru í ríkiskassann í formi skatta en þeir fá frá Tr. sem aðeins geta verið bætur sem allir eiga rétt á undir sömu kringumstæðum, svo sem umönnunarbætur o.þl. Enn er þá ótalið sá aukakostnaður sem hlýst af fötluninni eða þeim veikindum sem örorkan stafar af.

Samkvæmt könnuninni Lífskjör og hagir öryrkja, kemur fram að hátt í helmingur svarenda könnunarinnar var metinn til örorku á aldrinum 40 – 60 ára. Það er því óraunhæft að gera ráð fyrir öllum þessum hópi aftur út á vinnumarkað, þó að öll endurhæfing til styrkingar veiti meiri möguleika á almennri þátttöku í samfélaginu og gefur meiri lífshamingju.

Vonandi verður þessi grein til að fólk hugsi sig um tvisvar áður en það kemur með sleggjudóma um lífskjör og hagi öryrkja.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands