Skip to main content
Frétt

Lamandi áhrif biðar eftir rannsóknum og niðurstöðum

By 3. júní 2015No Comments

Ellen Calmon formaður ÖBÍ skrifar í Fréttablaðið í dag þar sem hún „krefst þess að ráðherra og ríkisstjórnin setjist tafarlaust að samningaborði með heilbrigðisstarfsfólki í því augnamiði að leysa vandann sem fyrst og semja í þágu sjúklinga.“

Ellen Calmon skrifar:

Öryrkjabandalag Íslands er regnhlífarsamtök 37 aðildarfélaga sem eru samtök fatlaðs fólks, sjúklinga og aðstandenda þeirra. Félagar í mörgum aðildarfélögum ÖBÍ eru verulega uggandi yfir stöðu samningaviðræðna ríkisins við heilbrigðisstarfsfólk. Til ÖBÍ leita fjölmargir sjúklingar og aðstandendur þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda en fá hana ekki eða þurfa að bíða óþarflega lengi eftir henni um þessar mundir.

Dýrkeypt mistök geta átt sér stað

Við höfum heyrt af sjúklingum sem hafa legið inni á Landspítalanum þar sem andrúmsloftið er þrungið. Bið eftir að komast í rannsóknir er löng og þeir sem loks komast í rannsóknir bíða lengi eftir niðurstöðunum. Þessar aðstæður geta haft lamandi áhrif bæði á sjúklinga og aðstandendur. Margir hverjir kvíða niðurstöðum og aðrir geta sig hvergi hreyft fyrr en niðurstöður liggja fyrir. Fólk bíður í von og óvon eftir því hver sjúkdómsgreiningin verður eða hvers lags meðferð bíður þess. Einu svörin sem berast eru á þá leið að þetta tefjist allt vegna verkfalla.

Óánægju gætir hjá sjúklingum og aðstandendum. Fólk verður óþreyjufullt og aðgangsharðara við að krefjast rannsókna og svara sem skapar svo enn frekari spennu í ferlinu sem fram undan er. Starfsfólk reynir svo sannarlega að gera sitt besta, en álagið er gríðarlegt og þá er hætta á að eitthvað gefi sig og dýrkeypt mistök geti átt sér stað. 

Semjið tafarlaust í þágu sjúklinga

Sjúkrahúsið á að vera griðastaður meðferðar, endurhæfingar og líknar þar sem hagur sjúklinga og bati þeirra á að vera hafður í fyrirrúmi. Sjúklingar eru ekki varðir fyrir veraldlegum áhyggjum á sjúkrahúsinu við þessar aðstæður heldur vakna þeir við óm af verkfalls- og kjarabótaumræðum starfsfólks á göngum sjúkrahússins. Kurr heyrist í hverju horni. Eru þessar aðstæður ekki fýsilegar þeim sem eru að reyna ná bata og sumir hverjir að berjast fyrir lífi sínu.Í því andrúmslofti sem nú ríkir á Landspítalanum er ekki hægt að segja að umhverfið sé heilandi. Þessum aðstæðum verður að linna nú þegar, því annars er hætta á að illa fari. Ég krefst þess að ráðherra og ríkisstjórnin setjist tafarlaust að samningaborði með heilbrigðisstarfsfólki í því augnamiði að leysa vandann sem fyrst og semja í þágu sjúklinga.