Skip to main content
Frétt

Landamærahindranir öryrkja

By 18. apríl 2012No Comments

Í tilefni umræðu á Alþingi 20. apríl nk. um landamærahindranir á Norðurlöndum, hefur ÖBÍ sent þingmönnum meðfylgjandi bréf.

Landamærahindranir örorkulífeyrisþega á Norðurlöndum

Skrifað í tilefni á umræðu á Alþingi þann 20. apríl nk.

Sífellt fleiri örorkulífeyrisþegar, sem hafa búið erlendis, leita til ÖBÍ vegna þess að þeir fá ekki örorkulífeyrisgreiðslur frá almannatryggingakerfinu frá því landi sem þeir bjuggu í og eru ástæður þess margvíslegar. Fólk sem hefur búið á öðrum Norðurlöndum getur einnig lent í erfiðleikum þrátt fyrir að um sé að ræða nágrannaþjóðir með velferðarkerfi sem talið er með því betra í heiminum. Þeir sem fá ekki greiðslur erlendis frá eiga erfitt með að framfleyta sér og er engin lausn í sjónmáli. Þetta gildir bæði um þá sem eru með íslenskan ríkisborgararétt eða frá öðrum Norðurlöndum.

Vandamálið er að mismunandi lög og reglur gilda í hverju landi fyrir sig og mismunandi túlkanir á þeim reglum sem eru til staðar. Sem dæmi þá getur fólk samtímis verið með örorkumat í einu norrænu landi en ekki í öðru. Einnig er mismunandi matsaðferðum beitt og ekki er tekið tillit til örorkumats í öðrum löndum. Þá hefur vandamálum fjölgað á síðustu árum vegna kreppunnar og breytts pólitísks landslags.

Umrætt vandamál er ekki í anda 18. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveður á um rétt til ferðafrelsis. Þetta er heldur ekki í samræmi við 28. grein samningsins um viðundandi lífskjör og félagslegt öryggi en aðildarríki samningsins viðurkenna rétt fatlaðs fólk til viðundandi lífskjara fyrir sig og fjölskyldu sína.

Tvö dæmi um landamærahindranir á Norðurlöndum hjá örorkulífeyrisþegum:

Dæmi 1:

Kona, um fimmtugt, sem býr á Íslandi fær ekki örorkulífeyrisgreiðslur frá Danmörku þar sem hún bjó og vann í 20 ár. Á Íslandi veikist hún og verður óvinnufær. Tryggingastofnun ríkisins (TR) samþykkir að hún fái örorkulífeyrisgreiðslur í tvö ár og verði svo að sækja um aftur. Hún fær um 52% af þeim örorkulífeyrisgreiðslum sem hún á rétt á frá Íslandi. Það sem upp á vantar á hún að fá frá Danmörku. Pensionsstyrelsen í Danmörku metur að hún eigi ekki rétt á örorkulífeyrisgreiðslum þar sem starfsgeta hennar er ekki varanlega skert og að hún geti, eftir mikla endurhæfingu, hugsanlega unnið í hlutastarfi og fengið aðstoð samkvæmt dönskum lögum um það sem þar nefnist „fleksjob“. Vandamálið er að á Íslandi fær fólk sjaldnast varanlegt örorkumat, sérstaklega í upphafi. Úrlausnin „fleksjob“ er ekki til staðar á Íslandi. Konan fær nú aðeins hluta þeirra örorkulífeyrisgreiðslna, sem hún á rétt á, þ.e. um 52%. Engin lausn er í sjónmáli fyrr en hún kemst á eftirlaun því þá fær hún það sem upp á vantar frá Danmörku.

Dæmi 2:

Maður, rúmlega fertugur, sem býr á Íslandi fær ekki örorkulífeyrisgreiðslur frá Svíþjóð þar sem hann bjó í 20 ár. Þegar hann bjó í Svíþjóð fékk hann tímabundið örorkumat í þrjú ár. Hann flutti síðan til Íslands og sótti um örorkumat og fékk það tímabundið. Þegar sænska örorkumatið rann út sótti hann um aftur en var synjað. Maðurinn fær nú aðeins hluta þeirra örorkulífeyrisgreiðslna sem hann á rétt á þ.e. um 30% sem Ísland greiðir þar sem hann hafði i ekki búið lengi hér á landi þegar hann varð öryrki. Það sem upp á vantar á hann að sækja til Svíþjóðar. Försäkringskassan í Svíþjóð mat hann þannig að starfsgeta hans væri ekki skert um að minnsta kosti fjórðung hvað snertir öll störf á vinnumarkaðnum, þar með talin störf á vernduðum vinnustöðum og önnur vernduð störf á almennum vinnumarkaði. Til að fá örorkumat yrði skerðingin að vera varanleg um fyrirsjáanlega framtíð og allir möguleikar á endurhæfingu til að komast aftur á vinnumarkaðinn að fullu nýttir. Það er ljóst að hann getur ekki framfleytt sér þrátt fyrir að hann fái fjárhagsaðstoð frá sínu sveitarfélagi sem er ekki hugsuð sem framfærsla til lengri tíma.

Þær reglur sem gilda á Íslandi

Réttur til örorkulífeyris á Íslandi myndast á aldursbilinu 16-67 ára og miðast við að umsækjandi búi í 40 ár hérlendis. Örorkulífeyisgreiðslur eru síðan uppreiknaðar eftir ákveðinni reiknireglu. Reglan gildir óháð því hvort viðkomandi sé með íslenskan ríkisborgarrétt eða ekki.

Endurhæfingarlífeyrir

Annað alvarlegt mál er að frá 1. janúar 2010 lýtur endurhæfingarlífeyrir sömu reglum hvað varðar búsetuhlutfallsútreikning og örorkulífeyrir. Eftir breytinguna geta einstaklingar, sem búsettir hafa verið erlendis, lent í þeirri stöðu að fá eingöngu skertan endurhæfingarlífeyri á Íslandi og engar greiðslur erlendis frá þar sem endurhæfingarlífeyrir er ekki greiddur úr landi. Starfsmenn TR hafa bent umsækjendum á að sækja um örorkulífeyri. Sú leið hefur ekki aðeins það í för með sér að fólk fer á mis við endurhæfingu heldur einnig að umsækjendum getur verið synjað um örorkumat erlendis á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Verða sjálf að sækja sinn rétt

Starfsfólk TR aðstoðar fólk við að sækja um örorkulífeyri í öðrum löndum en ef umsókn er synjað fær fólk ekki aðstoð við að kæra. Hver og einn verður að berjast sjálfur og sækja sinn rétt sem getur reynst erfitt fólki með fötlun eða alvarlegan sjúkdóm og þá sérstaklega þegar um er ræða réttindi í öðrum löndum. Því leitar fólk til ÖBÍ eftir aðstoð en þarf á meðan að lifa á tekjum sem eru undir lágmarksframfærslu.

Finna þarf skjótvirka lausn

Ferlið vegna umsóknar um örorkulífeyrir á milli landa tekur alla jafna nokkur ár. Á meðan þarf fólk að lifa á skertum bótum. Réttast væri að öryrkjar fái óskertar greiðslur í því landi sem þeir búa, á meðan beðið er úrlausna erlendra stofnanna. TR eða sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum myndu deila kostnaði á milli sín eftir ákveðnum reglum sem samið yrði um eins og gert er varðandi sjúkrakostnað norðurlandabúa. Þá þarf að finna lausn á vanda þeirra sem fá synjun erlendis þrátt fyrir að vera með örorkumat í gildi á Íslandi. Til að fólk lendi ekki í þeim vandamálum sem hér er lýst þarf mögulega að setja reglur um að örorkumat í einu Norðurlandanna gildi í öðru.

ÖBÍ hefur unnið markvisst að því að koma þessum málum á framfæri hjá eftirfarandi aðilum:

 •  Handikapporganisationernas Nordiska Råd (HNR), samstarfsvettvangur norrænu öryrkjabandalaganna.
 • Nordiska Handikappolitiska Rådet (NHPR), ráðgefandi og stefnumarkandi ráð um málefni fatlaðra fyrir norrænu ráðherranefndina og samstarfsaðila hennar.
 • Norrænu velferðarmiðstöðina (NVC), undirstofnun norrænu ráðherranefndarinnar í velferðarmálum.
 • Nefnd um landamærahindranir á vegum norrænu Ráðherranefndarinnar (Gränshinderforum).
 • Velferðarnefnd Norðurlandaráðs.
 • Upplýsingaþjónustu Halló Norðurlönd á Íslandi.
 • Velferðarráðuneytið.
 • Mannréttindaskrifstofu Íslands.
 • Fjölmenningarsetri.
 • Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
 • Tryggingastofnun ríkisins.
 • Réttindagæslumönnum.
 • Á fundum með alþingismönnum.

Ljóst er að betur má ef duga skal. Vandamálið er til staðar sem þarf að leysa sem allra fyrst. Mikilvægt er að samræma lög og reglur um örorkumat milli norrænu landanna. Einnig er nauðsynlegt að fólk fái aðstoð við að leita réttar síns hjá opinberum aðilum. Þá þarf að efla samvinnu milli norrænna stofnana við að finna heppilegar lausnir. Málum á eftir að fjölga á næstu árum þar sem fólk flytur á milli landa í auknum mæli. Norrænir stjórnmálamenn ættu að láta sér þessi mál varða til að að þeir öryrkjar, sem hafa búið í fleiri en einu Norðurlandanna, njóti fullra mannréttinda í norræna velferðarkerfinu.

Reykjavík 17. apríl 2012
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ

Tengill á söguna af Jyrki og Jóhönnu og hindrunum sem á vegi þeirra urðu við líf og störf innan Norðurlandanna.