Skip to main content
Frétt

Langtímaörorka í kjölfar kreppu?

By 20. ágúst 2009No Comments
Skýrsla starfshóps heilbrigðisráðuneytis um sálfélagsleg viðbrögð við efnahagskreppunni.

Starfshópur á vegum Heilbrigðisráðuneytisins hefur skilað af sér skýrslu um sálfélagslega velferð barna á tímum efnahagsþrenginga. Leitaði hópurinn í smiðju finnskra fræðimanna m.a. og bárust viðamikil gögn frá Finnlandi til nefndarinnar. Einnig hafa nokkrir finnskir fræðimenn á þessu svið haldið erind hérlendis sl. mánuði sem horft er til.

Á ráðstefnunni „Velferð íslenskra barna – sóknarfæri á umbrotatímum“ sem haldin var 17. ágúst sl. kynnti Héðinn Unnsteinsson skýrslu starfshópsins. Þar kemur meðal annars fram að kjarninn í málflutningi finnsku fræðimanna væri sá að það sé ekki aðeins mannúðlegt að þétta sálfélagslega netið í kringum börn, unglinga og atvinnuleitendur á tímum kreppu og atvinnuleysis, heldur sé það einnig að líkindum ódýrara en að gera það ekki, þegar horft er til lengri tíma. Ekki væri t.d hægt að útiloka að mikil aukning langtímaörorku ungs fólks og fjölgun barnaverndarmála í Finnlandi á árunum 2000-2007, tengist miklum niðurskurði í heilbrigðis- og félagsþjónustu þar í landi á tímum kreppunnar.

Í samantekt í lok skýrslunnar segir orðrétt,  „Nefndin telur nauðsynlegt að virkja stjórnsýsluna á þann hátt að unnið sé meira en tíðkast hefur þvert á stofnanir, ráðuneyti og sveitarfélög. Í slíkri vinnu kann vinnulag almannavarna að vera góð fyrirmynd við upplýsingaöflun, greiningu, hugmyndasmíð og aðgerðir sem miða að því að tryggja velferð þeirra sem standa höllum fæti. Velferðarvaktin þarf að mati nefndarinnar að vinna þvert á hinar lóðréttu skipunarlínur ráðuneyta og stofnanna. Árangri verður vart náð nema með mikilli og vaxandi samvinnu margra aðila. Til að nýta fjármuni enn betur en áður verður einnig að leiða hagsmunaaðila sem víðast til reglubundins samstarfs á vinnufundum þar sem viðbrögð og verkferlar er metin í ljósi upplýsinga sem Velferðarvaktin aflar. Almannaheill liggur við.

Skýrslan í heild sinni á vef Heilbrigðisráðuneytisins.