Skip to main content
Frétt

Leiðrétting bóta

By 3. nóvember 2014No Comments
Eftir Guðmund Inga Kristinsson: 
 
Öryrkjum og eldri borgurum er refsað, það er staðreynd, segir Guðmundur Ingi Kristinsson sem fjallar um kjör öryrkja og eldri borgara í þessari grein sem birtist í Morgunblaðinu 23. október. 

Á mannamáli eru þetta um 83.000 krónur á mánuði fyrir skatt og um 98.000 krónur ef launavístalan er tekin inn í dæmið.“

Greiðslur til öryrkja og eldri borgara skulu breytast árlega og miðast við launaþróun og hækki aldrei minna en neysluvísitalan, sem hefur hækkað um 55% frá 2008. Þá hefur launavísitalan hækkað um 60% á sama tíma.

Í 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, segir orðrétt: „Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Samkvæmt skattframtali mínu frá 2008-13 hafa lífeyrisbætur mínar frá TR og lífeyrissjóðnum hækkað um 22% og því vantar hækkun á þeim upp á 32% samkvæmt neysluvísitölunni og 38% ef launavísitalan er notuð. Á mannamáli eru þetta um 83.000 krónur á mánuði fyrir skatt og um 98.000 krónur ef launavístalan er tekin inn í dæmið. Þessi upphæð sem er einfaldlega skert er frá einni milljón til 1.176.000 kr. á ári eftir hvorri vísitölunni er farið. Þarna eru 50-60.000 kr. eftir skatt á mánuði eða 600-720.000 kr. ári sem eru teknar af okkur lífeyrisþegum enn í dag. Hálaunahópur fékk leiðréttingu upp á um 600.000 kr. á mánuði eða um 360.000 kr. eftir skatt á mánuði.

Vinstristjórnin svokölluð skerti lífeyrisgreiðslur með lögum og lofaði að hennar fyrsta verk yrði að hækka þær aftur. Þessi loforð voru svikin gróflega og hennar fyrsta verk var að hækka launin hjá sjálfri sér. Á árinu 2010 lækkuðu bætur mínar svo mikið að þær voru lægri en 2008 og hækkuðu síðan 2011 í sömu tölu og þær voru 2009. Á þessum tíma var óðaverðbólga og matur, lyf og húsnæðiskostnaður hækkaði mikið.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar lofuðu fyrir kosningar að leiðrétta skerðingar fyrri stjórnar. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra sagði í Útvarpi Sögu að það væri búið að leiðrétta bætur til öryrkja og eldri borgara frá 2008-13. Þetta var svar hennar við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata um útgjöld vegna almannatrygginga. Spurning Helga var hversu há útgjöld ríkisins væru til almannatrygginga sem og greiðslur samkvæmt lögum á árinu 2014 og þá hver væru útgjöldin ef greiðslurnar hefðu tekið breytingum á hverju ári í samræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar frá 2008.

Í svarinu er öllum bótaflokkum og þar með meðlagsgreiðslum, sem eru ekki hluti bótaflokkanna, blandað saman og búið til meðalatal allra flokka og þannig fengið að bæturnar hefðu hækkað um 50-60% á tímabilinu frá 2008 til 2014.

Hver býr til svona svar til ráðherra og er tilgangurinn að plata ráðherra, þingmanninn sem bar fram fyrirspurnina og þá einnig alþingismenn?

Við öryrkjar og eldri borgarar borgum ekki af húsnæðislánum okkar með röngu meðaltali um hækkanir á bótum, sem aldrei voru hækkaðar, sem er lögbrot. Við borðum heldur ekki kökulínurit sem sýna að við séum með hærri bætur í dag, en við höfðum 2008. Við tórum á smánarbótum sem eru alltaf að lækka vegna keðjuverkandi skerðingar og þá er stór hlutur lífeyrissjóðsgreiðslna okkar notaður til að stöðva allar hækkanir. Notaður í boði verkalýðsfélaganna til að stórlækka bætur okkar með verðtrygginguna að vopni.

Veðtryggingin á að vera svo góð fyrir okkur sem erum á lífeyri frá lífeyrissjóðum. En er þetta rétt? Nei, því lífeyrissjóðsgreiðslur mínar hafa bara hækkað um 23,5% frá 2008-13 eða bara um 3,5% umfram bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Inn í þessa tölu vantar skerðingu um 10% frá lífeyrissjóðnum vegna bankahrunsins.

Hver sér til þess að skattleggja og skerða krónu á móti krónu barnabætur frá lífeyrissjóðum, en ekki barnabætur frá TR? Til hvers er verið að borga þessar barnabætur frá lífeyrissjóðunum, sem eru eingöngu skattur fyrir ríkissjóð, en ekki bætur fyrir börnin? Er ekki kominn tími til að bera ábyrgð og hætta þessum keðjuverkandi skerðingum hist og her um alla bótaflokka?

Að það sé gott að fá ekki laun er ekki bara fáránlegt fyrir öryrkja, heldur hámark heimskunnar að setja þannig skerðingarlög. Laun eiga að vera fagnaðarefni, en ekki böl og hvað þá refsing til að skerða þær litlu bætur sem fyrir voru. Skerðing á launum öryrkja eftir rúmt ár er eignaupptaka og því lögbrot. Hættum þessum lögbrotum á eldri borgurum og veiku fólki strax og gerum launtekjur fyrir alla eftirsóknarverðar.

Lífeyrissjóðstekjur skerða leigubætur, styrki, laun og koma í veg fyrir lækkun fasteignagjalda. Þá er það undarlegt að öryrki þarf að halda áfram að greiða allt að 100-150 þúsund krónur á ári af smánarbótum sínum í námslán til LÍN.

Þetta kerfi okkar í dag er einfaldlega skert vitsmunalega og virkar fullkomlega sem refsing, ef það var og er tilgangur þess. Öryrkjum og eldri borgurum er refsað, það er staðreynd, það eru einfaldlega teknar af mér um 50-60.000 kr. eftir skatt á mánuði eða 600-720.000 kr. á ári.


Höfundur er öryrki og formaður BÓTar.