Skip to main content
Frétt

Lífeyrisþegar sitja enn og aftur eftir með sárt ennið

By 20. nóvember 2015No Comments
Grein Ellenar Calmon, formanns ÖBÍ og Haldórs Sævars Guðbergssonar, varaformanns ÖBÍ, í Kvennablaðinu. Þau hvetja alla til að mæta á fund ÖBÍ á morgun, laugardag 21. nóvember kl. 13-15 á Grand Hóteli Reykjavík.

Í fjárlögum fyrir árið 2016 er boðað að lífeyrir almannatrygginga muni hækka um 9,4% 1. janúar 2016. Þegar fólk sér þessa prósentuhækkun þá virðist við fyrstu sýn vera um ágætis hækkun að ræða, en svo er ekki, eða hvað?

Lífeyrir almannatrygginga hækkaði einungis um 3% síðustu áramót, sem þýðir að einstaklingur sem einungis fær lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) hafi hækkað um tæpar 4.000 kr. eftir skatta. Þessi 9,4% hækkun sem að boðuð er núna þýðir að sami einstaklingur gæti hækkað um rúmar 11 þúsund kr. eftir skatta. Flest stéttarfélög, bæði á almennum vinnumarkaði og opinbera geiranum hafa þegar fengið þessa prósentutöluhækkun eða hærri, en af mun hærri upphæðum og mun fyrr en lífeyrisþegar fá. Lágmarkslaun hækkuðu 1. maí um tæp 20.000 kr. eftir skatt þannig að lífeyrisþegar munu fá minni hækkanir heldur en gerist á almennum vinnumarkaði ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt, sem er óásættanlegt að mati undirritaðra.

Algengt er að fólk sem hefur einungis lífeyri frá TR til að framfleyta sér, hafi á bilinu 170 til 190 þúsund krónur á mánuði til framfærslu. Það sjá það allir sem vilja að þetta dugar engan veginn til að lifa mannsæmandi lífi og fólk sem þarf að framfleyta sér á svona lágum upphæðum lifir mikinn skort.

Önnur umræða fjárlaga er áætluð fimmtudaginn 26. nóvember nk. Til að hafa áhrif á hana og afgreiðslu fjárlaga á Alþingi boðar Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) til kjarabaráttufundar nú á laugardaginn 21. nóvember kl. 13:00 á Grand hóteli. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Mannsæmandi lífskjör fyrir alla“.

Við viljum nota þetta tækifæri hér til að hvetja alla lífeyrisþega og þá sem áhuga hafa og sem vettlingi geta valdið til að mæta á þennan baráttufund til að stappa stálinu í hvert annað og sýna alþingismönnum að lífeyrisþegar geta ekki sætt sig við þá ósanngjörnu krónutölu sem er þeim ætluð  í fjárlagafrumvarpinu.

Á aðalstjórnarfundi ÖBÍ sem haldinn var miðvikudaginn 27. maí sl. var samþykkt svohljóðandi ályktun:

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) tekur undir kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar um hækkun lágmarkslauna í 300.000 kr. innan þriggja ára. Framfærsluviðmið almannatrygginga er undir 200.000 kr. og undir lágmarkslaunum fyrir dagvinnu. Hópur lífeyrisþega hefur búið við mjög bág kjör árum og áratugum saman vegna mjög lágra tekna. Lífeyrir og lágmarkslaun duga ekki fyrir lágmarksframfærslu. Því er óhjákvæmilegt að lagfæra kjör þessara hópa.

Lögum samkvæmt á lífeyrir almannatrygginga að breytast árlega í takt við launaþróun en þó þannig að hann hækki ekki minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Það hefur ekki verið raunin síðustu ár. Allt frá árinu 2009 hefur lífeyrir hvorki náð að halda í við þróun lægstu launa, verðlags- né launavísitölu.

Stjórnvöld hafa lýst því yfir að hagur ríkisins hafi vænkast. Skorað er á stjórnvöld að efna gefin loforð um að leiðrétta kjaragliðnun sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir á síðustu árum.

Aðalstjórn ÖBÍ gerir þá kröfu að lífeyrir hækki að lágmarki í samræmi við krónutöluhækkun lægstu launa í yfirstandandi kjarasamningagerð.

Það er bæði sanngjarnt og skynsamlegt að lífeyrisþegar fái sömu krónutöluhækkun og urðu á lágmarkslaunum og að hækkunin verði afturvirk frá sama tíma. Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt að festa fólk í viðjum fátæktar þannig að fólk þurfi að líða skort á nauðsynjum, svo sem að kaupa sér mat, borga af lánum, borga leigu og sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Mætum öll í baráttuhug og þéttum raðirnar. Fundurinn er öllum opinn, endilega bjóðið ættingjum og vinum með. Þá viljum við hvetja ykkur til að vera dugleg að auglýsa fundinn, til dæmis á Facebook.

Með baráttukveðju,

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ og Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ.