Skip to main content
Frétt

LÍN fellur frá kröfu

By 12. maí 2009No Comments
Til Öryrkjabandalags Íslands leitaði maður sem lent hafði í alvarlegum veikindum sem leiddu til 75% örorku, hann var með lán hjá LÍN sem hann var krafinn um greiðslur af, þrátt fyrir að vera með lágar tekjur.

ÖBÍ höfðaði mál gegn LÍN fyrir hönd þessa einstaklings með prófmál í huga. LÍN hefur nú fallið frá kröfunni og endurgreitt umræddum einstaklingi.

Forsaga málsins

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) stóð að baki málshöfðun fyrir mann sem fengið hafði námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Meðan á námi hans stóð veiktist maðurinn alvarlega með þeim afleiðingum að hann lamaðist tímabundið og missti bæði mál og minni. Hann þurfti að hætta námi og hefur síðan verið í stöðugri endurhæfingu.

Synjun um undanþágu frá afborgun láns

Vegna afleiðinga veikindanna var maðurinn metinn til 75% varanlegrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Tekjur hans hafa upp frá þessu eingöngu verið frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði.

LÍN veitti manninum undanþágu frá greiðslu afborgunar af námsláninu árin 2002-2005, 2007 og 2008. LÍN synjaði hins vegar að veita undanþágu frá afborgun námsláns fyrir árið 2006. Sú synjun LÍN var kærð til málskotsnefndar LÍN sem staðfesti ákvörðunina.

Heimild til þess að veita undanþágu frá greiðslu afborgunar er að finna í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Mál ÖBÍ snerist um það hvort LÍN beitti undanþáguheimildinni með réttum hætti. Samkvæmt reglum LÍN voru aðeins veittar undanþágur frá afborgun árið 2006 ef tekjur viðkomandi voru undir kr. 1.700.000 árið 2005.

Í lögum LÍN segir að líta beri til aðstæðna

Samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, skal líta til aðstæðna í heild við mat á því hvort veitt er undanþága frá endurgreiðslu námsláns. Samkvæmt lögunum er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum fólks, t.d. ef það veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Málshöfðun ÖBÍ gegn LÍN

ÖBÍ taldi að sú framkvæmd LÍN, að líta eingöngu til tekna, væri óheimil enda bæri að líta til mun fleiri atriða við mat á því hvort undanþága skyldi veitt. ÖBI telur að lagaheimildinni sé ætlað að vera sveigjanleg og tryggja heildarmat á öllum aðstæðum lántakanda. Bandalagið stóð því að baki málshöfðun mannsins þar sem þess var krafist að LÍN gerði hann eins settan og hann hefði fengið undanþágu.
LÍN tók ekki til varna í málinu heldur bauðst til að endurgreiða manninum afborgun námsláns fyrir árið 2006, auk vaxta og málskostnaðar.

Lögfræðiráðgjöf ÖBÍ

Eins og fram kemur í þessari grein þá eru ákvæði í lögum um LÍN sem segja til um rétt lántakenda um undanþágu frá endurgreiðslu námsláns ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. ÖBÍ vill koma því áleiðis til öryrkja að bandalagið býður upp á ókeypis lögfræðiráðgjöf og hvetur fólk til að leita réttar síns með því að hafa samband ef það er í svipaðri stöðu og ofangreint mál segir til um.

Sími skrifstofu ÖBÍ er 530-6700.