Skip to main content
Frétt

List án landamæra 2007

By 24. apríl 2007No Comments
Tónleikar, gjörningur, leikhús, myndlist og margt fleira verður í boði.
Þann 26. apríl næstkomandi verður upphafshátíð, Listar án landamæra 2007, í Ráðhúsi Reykjavíkur og hefst k. 17:00. Hátíðin mun standa fram til 15. maí og verður mikið um dýrðir víða á höfuðborgarsvæðinu alla dagana en einnig verða uppákomur suma dagana í bæjarfélögum á landsbyggðinni. Meðal atriða er gjörningur við Reykjavíkurtjörn 28. apríl kl. 14:00. Tengla á dagskrá hátíðarinnar má finna neðst í grein.

Gjörningurinn, Tökum höndum saman, við þurfum á hvort öðru að halda, er hugmynd Kolbrúnar Daggar Krstjánsdóttur, fulltrúa ÖBÍ, í undirbúningsnefnd hátíðarinnar. Kolbrún segir eftirfarandi um gjörninginn.

Gjörningurinn byggir á þátttöku þinni við að skapa líf og list án landamæra!

Gjörningurinn fer fram á gangstéttum við tjörnina þar sem myndaður verður hringur með þátttöku þinni. Fólk safnast saman kl. 13 til að mynda hringinn. Leiðbeinendur gjörnings verða staðsettir víðsvegar í hringnum og aðstoða. Gangan hefst kl. 14 og þátttakendur ganga saman hönd í hönd einn hring í kringum tjörnina. Allir eru velkomir að mæta og taka þátt.

Að taka höndum saman

Hringurinn er eitt af grunnformunum. Hann felur í sér hreyfingu. Við erum gjörn á að flokka fólk og setja það í mismunandi kassa. Að taka höndum saman og mynda hring óháð stétt og stöðu, augnlit eða útlitsgerð, krefst þess að við horfumst í augu við sjálf okkur. Sjóndeildarhringurinn stækkar, við verðum ekki eins þröngsýn á lífið og færumst úr spori.

Tjörnin táknar það að við horfumst í augu við okkur sjálf, speglum okkur í vatninu, og horfumst í augun á náunganum, sem við höldumst í hendur við. Þessi gjörningur er góð leið til að efla vitundarvakningu, sem þarf að eiga sér stað til þess að allir geti verið sýnilegir og tekið þátt í þjóðfélaginu á sínum forsendum.

Hvernig varð hugmyndin til og hver er hugsunin að baki? Á bloggsíðu Kolbrúnar segir hún nánar frá hugmynd sinni. Tengill á blogg Kolbrúnar.

Tengill á dagskrá hátíðarinnar

Tengill á auðlesna dagskrá