Skip to main content
Frétt

Lyfið kostar um 17.000 krónur

By 22. mars 2013No Comments

Líklegt svar í apótekum til lífeyrisþega og barnafjölskylda við fyrstu kaup á lyfjaskamti eftir 4. maí.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum mun taka gildi þann 4. maí 2013. Alþingi samþykkti breytingar á sjúkratrygginga- og lyfjalögum árið 2012. Nefndavinna gerð vegna þessara laga hafði þá staðið með hléum í nokkur ár. Meginmarkmið með lögunum er að auka jöfnuð milli einstaklinga óháð sjúkdómum. Endanlegrar útgáfu reglugerðar er enn beðið sem veldur óvissu því enginn veit nákvæmlega hvernig farið verður með ýmis jaðartilvik þar sem lyfjakostnaður er mjög hár.

Í athugunum innan aðildarfélaga ÖBÍ kemur einnig í ljós að lyfjakostnaður hjá sumum sjúklingum mun lækka en hækka hjá öðrum, miðað við að endanlegar reglur verði í samræmi við dæmin á vef Sjúkratrygginga Íslands (SÍ).

Tengill á dæmi á heimasíðu SÍ sýna hvernig þetta muni virka. Athugið að enn vantar reglulgerðina þar sem nákvæmari útfærsla fæst, þannig að þetta er eingöngu dæmi sem SÍ getur unnið útfrá lögunum eins og þau voru samþykkt á síðasta ári.

Ná ekki endum saman

Hjá ÖBÍ hafa menn verulegar áhyggjur varðandi stóran hóp öryrkja, sem lifir á lágmarksframfærslu. Því eftir 4. maí þarf að greiða heildarverð lyfjaskamtsins að fullu upp að kr. 16.493, þá greiða SÍ 85% og sjúklingurinn 15% af heildarverði lyfjakaupa sem fer yfir þessar 16.493 krónur. Þegar heildarverð lyfjakaupa nær 64.200 lækkar hlutur sjúklings í 7,5% og hlutur SÍ fer í 92,5%.

Sambærilegar áhyggjur hafa heyrst hjá fleirum til dæmis Hjálparstofnun kirkjunnar. Þar á bæ sjá menn ekki hvernig sá hópur sem til þeirra leitar á að geta leyst sín mál í fyrstu. Í ljósi þess að þeir ná ekki endum saman í dag varðandi mánaðarleg útgjöld.