Skip to main content
Frétt

Lyfin eru ætluð til lækninga

By 15. júní 2011No Comments

Ályktun stjórnar ADHD samtakanna vegna umfjöllunar um metýlfenídat, Rítalín og skyld lyf í fjölmiðlum undanfarnar vikur

Stjórn ADHD (athyglisbrestur með ofvirkni) samtakanna harmar mjög  þá umræðu sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum að undanförnu um metýlfenídat lyf og skyld  lyf s.s. Rítalín sem læknadóp og þann ömurlega  veruleika sem á sér stað í undirheimum Íslands.

Umræðan hefur verið að mörgu leyti einhliða og hafa samtökunum borist margar ábendingar frá félögum þar sem þeim finnst þeir mæta auknum fordómum. Foreldrar ungmenna segja þau nú neita að taka lyf vegna umræðunnar sem hefur átt sér stað. Er þetta mjög bagalegt fyrir þá einstaklinga sem þurfa á lyfjunum að halda til að geta hreinlega stundað skóla, atvinnu, haft tök á lífinu og tilverunni.

Umfjöllun síðustu vikna  hefur stóraukið á fordóma og gert þeim, sem nauðsynlega þurfa á lyfjunum að halda, erfitt fyrir. Venjulega liggur langt ferli að baki áður en einstaklingum með ADHD er ávísað lyfjum. Gjarnan er þar um að ræða faglegar greiningar bæði sálfræðinga og lækna.

Fjöldi félaga eru því ósáttir við hvernig  Rítalíni og skyldum lyfjum hefur nánast eingöngu verið  lýst sem dópi í fjölmiðlum. Af gefnu tilefni vill stjórn ADHD samtakanna undirstrika  að tilgangur lyfjanna er fyrst og fremst til lækninga, í flestum tilvikum er þeim ávísað og þau notuð  í þeim tilgangi einum. Undantekningartilvikin er varða misnotkun eru hins vegar mjög áberandi og sorgleg.

Rætt hefur verið um mikla notkun Rítalíns á Íslandi, þess bera að geta að þessi mikla notkun tengist að stórum hluta þeirri misnotkun sem hefur átt sér stað. Nýlegar breytingar á reglum um lyfjaskírteini frá Landlæknisembættinu er ætlað að stemma stigu við misnotkuninni. Lyfjaskírteinin gilda einungis á ákveðna meðhöndlandi lækna, þar sem tveir til þrír læknar geta verið skráðir á lyfjaskírteini einstaklinga og bera því ábyrgð á lyfjaávísunum.

Stjórn ADHD samtakanna tekur ekki afstöðu með eða á móti lyfjum, þar sem lyf henta  sumum en alls ekki öðrum. Þá óskar stjórnin þess eins að fjölmiðlar  fari varlega með umræðu um þetta viðkvæma málefni og geri grein fyrir því að lyfjunum er fyrst og fremst ávísað til að hjálpa fólki. Lækning er tilgangur lyfjanna. Misnotkun, er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að taka á.

Nánari upplýsingar á heimasíðu ADHD samtakanna