Skip to main content
Frétt

Málefni fatlaðs fólks: Brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar

By 26. september 2014No Comments

Ríkisendurskoðun hefur gefið út skýrslu um eftirfylgni við allmargar athugasemdir sem stofnunin beindi til velferðarráðuneytisins árið 2010 varðandi skipulag og stjórnun málefna fatlaðs fólks.

Stofnunin telur þessi mál nú í ástættanlegum farvegi og ítrekar enga af fyrri athugasemdum sínum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 var meðal annars gerð athugasemd við að ekki lægi fyrir formlega samþykkt heildarstefna um málaflokkinn og að fjárveitingar til þjón­ustu­aðila tækju ekki mið af lögbundnu mati á þjónustuþörf. Þá væri kostnaður vegna þjónustunnar ekki bókaður með sam­bæri­legum hætti hjá þjónustuaðilum sem hamlaði sam­an­­burði, megin­þættir í fag­legri starf­semi þjón­­ustu­­­aðila fylgdu ekki samræmdum verk­lags­­reglum og því óvíst að þjón­usta þeirra væri jöfn að gæðum. Loks taldi Ríkisendurskoðun að eftirlit ráðuneytisins (þá félags- og tryggingamálaráðuneyti) með starf­semi þjón­ustu­aðila væri ófull­nægj­­andi. Til dæmis hefði ekki verið safnað samræmdum upp­lýs­ing­um um starfsemi þeirra frá árinu 2004 og því óljóst hvort jafnræði ríkti meðal þjónustuþega.

Í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar segir að stjórnvöld vinni að því að bregðast við ábendingum stofnunarinnar. Sú vinna sé í ásættanlegum farvegi og ábendingarnar því ekki ítrekaðar.

Starfshópur vinnur nú að endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðs fólks og er í þeirri vinnu tekið mið af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Sjá alla frétt á vef velferðarráðuneytisins:

http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/34834