Skip to main content
Frétt

Málefni fatlaðs fólks ekki til ríkis á ný

By 2. mars 2015No Comments

Formaður Öryrkjabandalagsins segir gríðarlega mikilvægt að málefni fatlaðs fólks verði áfram hjá sveitarfélögunum en ekki færð aftur til ríkisins. Forgangsröðun fjármuna sé brýn og sveitarfélögin þurfi að láta valin verkefni víkja fyrir þeim lögbundnu.

Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalagsins segir í viðtali við RÚV í gær 1. mars að gríðarlega mikilvægt sé að málefni fatlaðs fólks verði áfram hjá sveitarfélögunum en ekki færð aftur til ríkisins. 

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sammála

Fram kemur í fréttinni að vestfirðir geti ekki sinnt málefnum fatlaðs fólks nægilega vegna fjárskorts. Fjórðungsambandið hafi óskað eftir viðræðum við velferðarráðuneytið um að ríkið taki málaflokkinn yfir á ný. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði einnig í fréttum í gær að staðan væri vissulega alvarleg, en undirstrikaði mikilvægi þess að málaflokkurinn sé betur kominn hjá sveitarfélögunum. 

Kvartað undan of litlu fjármagni frá ríkinu

Ellen tók undir þetta: „Við höfum einnig heyrt sveitarfélögin kvarta undan því að fjármagnið sem hafi fylgt með þessum flutningi hafi ekki verið nægt frá ríkinu. Og þeir kvarta sáran undan því að það vanti meira fjármagn til að geta sinnt málaflokknum eins og þarf.“

Spurning um forgangsröðun fjármuna

Ellen bendir að lokum á að á landinu öllu hafi eftirspurn eftir þjónustu aukist síðan málflokkurinn færðist frá ríkinu 2011. Hins vegar sé þetta líka spurning um forgangsröðun fjármuna. „Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þessi málaflokkur verði áfram hjá sveitarfélögunum og nái að þróast þar og dafna. Við vitum að sveitarfélögin sinna ýmsum verkefnum sem eru ekki lögbundin. Þetta verkefni er hins vegar lögbundið og þá er það bara spurning í hvað fara peningarnir.“

Fréttin á vef RÚV