Skip to main content
Frétt

Metaðsókn á námskeið TMF Tölvumiðstöðvar á liðnu starfsári

By 24. júní 2013No Comments

Alls sóttu 1.525 fræðslu, námskeið og ráðgjöf. Þar af voru 14 námskeið haldin úti á landi af 63 alls. Aldrei hafa fleiri sótt námskeið, fræðslu og ráðgjöf í smiðju TMF Tölvumiðstöðvar en liðið starfsár, eða alls 1.525 einstaklingar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir námskeiðum og farið var með námskeið víða um land. Haldin voru 63 námskeið á tímabilinu og farnar fjórtán ferðir út á land með námskeið.

Verkefni Tölvumiðstöðvarinnar eru mörg. Allir geta leitað til Tölvumiðstöðvarinnar óháð skerðingu og aldri. Þjónustu hennar má flokka í fjóra meginþætti sem eru:

  1. Ráðgjöf sem felur í sér mat á þörf fyrir tölvubúnað, val á búnaði, prófun og leiðsögn í notkun búnaðar. Ráðgjöfin er einstaklingsmiðuð og er oft unnin í samvinnu við aðila úr nánasta umhverfi skjólstæðings.
  2. Ráðgjöf til hópa s.s. kennara, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa, nema á háskólastigi og félagsliðabrauta framhaldsskóla, foreldra og fatlaðra einstaklinga þar sem fram fer kynning á lausnum og/eða kennsla í að nota ákveðinn búnað og forrit sem nýst getur tilteknum hópi. Sífellt fleiri hópar telja það eðlilegan þátt í starfsemi sinni að leita reglulega til TMF eftir ráðgjöf.
  3. Námskeið og upplýsingamiðlun. TMF leitast við að fylgjast vel með nýjungum í tækni, notkun og aðferðum. Haldin eru námskeið reglulega þar sem upplýsingum er miðlað, leiðbeint og hvatt til notkunar með það að leiðarljósi að búnaður komi að sem bestum notum. Fræðslufundir og námskeið eru vaxandi þáttur í starfsemi TMF.
  4. Tengslahlutverk, samþætting. Tölvuvæðing og tölvunotkun hefur stóraukist á undanförnum árum. Samráð og upplýsingastreymi milli aðila verður því sífellt mikilvægara. Tölvumiðstöðin leggur áherslu á að aðilar sem tengjast einstökum málum vinni saman að settu marki og að samræming sé á milli aðgerða. Hvatning og leiðsögn varðandi það hvernig búnaður og forrit nýtist einstaklingi sem best þarf að vera stöðugt vakandi ferli.

Nánari upplýsingar á heimasíðu TMF Tölvumiðstöðvar, tmf.is.