Skip to main content
Frétt

Miklu skipti að bætur verði hækkaðar sem fyrst

By 28. maí 2013No Comments

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, fagnar ummælum félagsmálaráðherra í fréttum RÚV í 27. maí.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, fagnar ummælum félagsmálaráðherra um að bætur bæði öryrkja og ellilífeyrisþega verði hækkaðar og dregið úr skerðingu vegna annarra tekna. Miklu skipti að bætur verði hækkaðar sem fyrst því það myndi hjálpa hluta þeirra sem fátækastir eru.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði í fréttum RÚV 27. maí, að það væri forgangsverkefni að taka til baka skerðingar bóta vegna annarra tekna en skerðingarnar voru innleiddar í júlí 2009. Þá væri einnig mjög mikilvægt á kjörtímabilinu að hækka lífeyrinn.

„Ég geri fastlega ráð fyrir að það verði leiðréttar allar skerðingarnar sem komu 2009,“ sagði Guðmundur.

Þá jukust til að mynda skerðingar bóta vegna annarra tekna og grunnlífeyrir tók að skerðast vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er aðeins talað um afturkallaðar verði skerðingar á frítekjumarki vegna atvinnutekna og fjármagnstekna.

Mikilvægt að bætur hækki því leiðrétting skerðinga gagnast ekki lægsta tekjuhópnum

Margir hafa haft samband við Öryrkjabandalagið í morgun til að spyrjast fyrir um hvort það telji ekki að almennar bætur verði hækkað. Einn af fátækustu hópum öryrkja er sá sem aðeins fær strípaðar bætur og því breytir engu fyrir þann hóp hvort skerðingarnar frá 2009 verði felldar úr gildi.

Í frétt RÚV kom einnig fram að örorkulífeyrir hafi dregist langt aftur úr almennum tekjum auk þess sem allt annað hafi hækkað mikið „eins og lyfjakostnaður og lækniskostnaður. Þetta hefur farið upp úr öllu valdi. En mjög mikilvægt að það verði lagt þarna meira í. Ég trúi því ekki að það verði farið í einhverjar svona að bíða með þá sem verst eru staddir,“ sagði Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins.

Tengill á fréttina í heild


Tenglar á fréttir RÚV um sama mál