Skip to main content
AlmannatryggingarFátæktKjaramálSkoðun

Minn veruleiki

By 26. apríl 2022október 4th, 2022No Comments
231.825 kr. eru krónurnar sem ég fæ í lífeyri á mánuði, sem 75% öryrki eftir skatt. Já, ég greiði skatta. Ég samsama mig láglaunafólki, valdlausu fólki, minnihlutahópum í öllum samfélögum. Þess vegna skrifa ég grein á 1.maí – verkalýðsdeginum. En ólíkt verkafólki hafa öryrkjar engan samningsrétt. Það gilda engir samningar á milli öryrkja og ríkisvaldsins. Ríkið skammtar, og skammtar mjög naumt og allir vita það en enginn gerir neitt. Samt er eineltið liðið. Örorkulífeyrisþegar eru málaðir út i fátæka hornið og allir vitað það. Samt er það liðið og enginn gerir neitt. Húsnæðiskostnaður er að sliga fjölmarga öryrkja en enginn gerir neitt. Eineltið er liðið sem og valdníðsla markaðarins.

Fátækt og valdleysi mótmælt

En aftur að mínum veruleika og 231.825 krónunum. Ég verð að viðurkenna að þegar ég var á vinnumarkaði og svíngaði í takt við samfélagið var ég lítið að hugsa um upphæðir örorkulífeyris. Ég verð að viðurkenna að ég leiddi hugann ekki mikið að fátækt í samfélaginu. Og ég verð að viðurkenna að ég bjóst aldrei við að lenda í þeirri stöðu að þurfa að lifa af örorkulífeyri. En hér er ég og get ekki annað en mótmælt. Ég mótmæli! Ekki bara fyrir mína hönd heldur allra annarra öryrkja, fatlaðs fólks, sem margt hefur það miklu miklu verra en ég.

Öryrkjar hafa í áranna rás reynt, oftast í krafti Öryrkjabandalags Íslands sem eru heildarsamtök fatlaðra á Íslandi, með kröfugöngum, gjörningum, málþingum og umsögnum um frumvörp sem varða öryrkja, að ná athygli stjórnvalda. Dropinn hefur holað steininn en enn er vegferðin til velferðar fyrir þennan minnihlutahóp í samfélaginu löng.

Kröfum öryrkja er ekki mætt. Svör stjórnvalda eru ætíð þau sömu, ríkið hefur ekki efni á að hækka lífeyrinn. Nú geisar hræðilegt stríð í Evrópu og þá er rétt að minna á að útgjöld til hermála eru lítil á Íslandi, þar sem við erum herlaus þjóð. Þeir peningar sem hugsanlega hefðu farið til hermála gætu því runnið til öryrkja. Bara hugmynd!

Hækka þarf skerðingarmörkin

En ég hef nú ekki sagt ykkur alveg satt. Ég fæ nokkrar krónur í viðbótar inn á reikninginn minn um hver mánaðarmót, bæði lífeyristekjur og svo vinnulaun. Hér ætla ég ekki að útmála skerðingarnar, enda eru það vísindi út af fyrir sig og frekar leiðinleg. Í mínum huga er eðlilegt að skerða lífeyri ef aðrar tekjur fara upp fyrir ákveðið mark en vandinn liggur í því að skerðingarmörkin eru alltof alltof lág og í almannatrygginga kerfinu er ekki að finna neinn hvata til að vera á vinnumarkaði.

En nóg um það. Ég ætlaði að opinbera allar tekjur mínar og geri það hér með. Ástæðan er einfaldlega sú að þetta er veruleiki meirihluta öryrkja og lítil ástæða til að fara leynt með það líkt og allt leynimakkið sem þrífst á vinnumarkaðnum. Það fá fleiri þúsundir fatlaðs fólk lífeyrisseðill svipaðan mínum um hver mánaðarmót. En hjálagt er tafla sem sýnir tekjur mínar í hverjum mánuði eftir skatta, síðast 1. apríl og eru þær tekjur sem ég hef alls til ráðstöfunar.

Lífeyrir 231. 825 kr.
Vinnulaun 70.881 kr.
Lífeyrissjóður 29.743 kr.
—————————-
Alls: 332.449 kr.

Þetta er minn veruleiki. En ekki bara minn, þetta er veruleiki þúsunda annarra öryrkja. Það sem er sárast er að ég kem til með að búa við þessi kjör það sem eftir er, ef fram fer sem horfir. Breytum þessu og berjumst fyrir betri kjörum fatlaðs fólks.


Höfundur er kennari, blaðamaður og öryrki.