Skip to main content
Frétt

Mótmæli send til borgarráðs vegna fyrirhugaðrar frestunar á breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra.

By 21. desember 2006No Comments
Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands mótmæla boðaðri frestun á breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra þar sem gildistöku ákvæðis samkomulags frá nóvember 2005 um að panta megi ferðir samdægurs með allt að 3ja tíma fyrirvara verður frestað.

Fólk með fötlun sem er háð ferðaþjónustu til að komast leiðar sinnar og vera þátttakendur í samfélaginu hefur búið við þær aðstæður að þurfa að panta þjónustu með sólarhringsfyrirvara, aðstæður sem ófatlað fólk þarf ekki að sætta sig við. Fyrirhugaðar breytingar á ferðaþjónustunni, þar sem fyrirvari til að panta akstur er styttur verulega, eykur frelsi þessa hóps verulega og gerir aðstæður þeirra líkari því sem ófatlaðir borgarbúar njóta.

Fólk með fötlun hefur sætt sig við núverandi ástand í trausti þess að borgaryfirvöld myndu standa við það samkomulag sem undirritað var í nóvember 2005. Sú frestun sem boðuð er á gildistöku umrædds ákvæðis í samþykkt Velferðarráðs frá 13. desember 2006 er óásættanleg. Hún felur í sér brot á gerðu samkomulagi um þjónustu sem notendur geta ekki verið án.

Frestunin vinnur gegn anda mannréttindastsefnu Reykjavíkurborgar þar sem segir að óheimilt sé að mismuna fólki vegna fötlunar og að unnið skuli markvisst að því að gera fötluðum kleift að taka virkan þátt í borgarsamfélaginu. Þá segir einnig í mannréttindastefnunni að fatlaðir skulu eiga jafnan aðgang að þjónustu og ófatlaðir.

Árið 2007 er ár jafnra tækifæra í Evrópu og helgað baráttu gegn hvers konar mismunun. Þetta útspil Reykjavíkuborgar, ef af verður, felur ekki í sér þau skilaboð að borginni sé alvara í því að stuðla að jöfnum tækifærum fólks sem býr við fötlun.

Ljóst er að það er mikið hagsmunamál fyrir fatlaða að staðið verði við það samkomulag sem gert var í nóv. 2005. Ferðaþjónusta við þá sem ekki geta fötlunar sinnar vegna nýtt sér almenningssamgöngur er lykillinn að því að fatlaðir geti tekið virkan þátt í félagslífi og geti notið eðlilegra lífsgæða og felur í sér jöfnun tækifæra fatlaðra og ófatlaðra. Reykjavíkurborg hefur haft nægan tíma til að undirbúa umræddar breytingar og þær eiga ekki að vera flóknar í framkvæmd ef vilji er til staðar til að hrinda þeim í framkvæmd.

Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands skora á borgarráð Reykjavíkurborgar að standa við samkomulagið frá 2005 að fullu og stuðla þannig að jafnrétti og velferð borgarbúa. Fyrir hönd,

Landssamtakanna Þroskahjálpar   og   Öryrkjabandalags Íslands
Gerður Aagot Árnadóttir formaður            Sigursteinn Másson formaður
Friðrik Sigurðsson, framkv.stjóri           Hafdís Gíslasdóttir, framkv.stjóri