Skip to main content
Frétt

Nefnd um samræmt niðurgreiðslukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu

By 3. september 2013No Comments

Nefnd hefur verið skipuð til að kanna hvort og hvernig megi fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag. 

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skipaði nefndina sem mun meðal annars styðjast við vinnu sem fram fór í nefnd sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í nóvember árið 2007 og fól í sér að; „gera tillögu að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði.“ Pétur Blöndal alþingismaður stýrði vinnu þessarar nefndar sem á sínum tíma stóð fyrir viðamikilli gagnasöfnun og greiningu á heilbrigðiskostnaði. 

Samkvæmt skipunarbréfi er nefndinni sérstaklega ætlað að hafa samráð við Læknafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Félag eldri borgara, Öryrkjabandalag Íslands og Embætti landlæknis.